Ef væri ég gullfiskur

Höfundur: 
Staður: 
Reykjavík
Ár: 
1996
Flokkur: 

Uppfærslur:


Leikfélag Reykjavíkur, Borgarleikhúsið 1996
Leikfélag Ólafsfjarðar 2000 _______________________________________

Úr Ef væri ég gullfiskur! (1996):

„þið hafið ekkert með peninga að gera! Ykkur helst ekkert á þeim! Peningurinn er nefnilega félagsvera. þess vegna tollir hann svona illa hjá fátæklingum.“
DÓRA: Óskaplega er hún eitthvað trekkt, konan. Meiddi hún þig?
BINNI: Mig varðar ekkert um það. það hirðir hvort eð er enginn um hvernig mér líður.
DÓRA: Æ, Binni! Ekki segja svona! það þykir öllum svo vænt um þig!
BINNI: Hvers vegna er ég þá ekki hamingjusamur úr því allt bendir til að ég sé það? Áreiðanlega útaf einhverju sem gerðist þegar ég var lítill. Heldurðu það ekki, Dóra?
DÓRA: Ji, Binni, ekki spyrja mig að svonalöguðu!
Dóra fer inní eldhús. Binni hraðar sér hikandi og laumulega að íþróttatuðrunni undir sófanum. Dregur hana fram, opnar hana og sturtar úr henni. Í fyrstu hrynja fáeinar flíkur úr tuðrunni, en síðan koma fleiri fleiri búnt af peningaseðlum. Heill haugur af peningum. Binni fær allt að því taugaáfall og starir á þennan fjallmyndarlega peningahrauk. Hann heyrir eitthvert hljóð, það kemur óðagot á hann og hann flýtir sér að troða öllu í tuðruna aftur. Hann smeygir henni nú í annan felustað og sest eins og ekkert hafi í skorist. þó er honum illa brugðið
DÓRA: (Kemur). Hvers vegna ferðu ekki í sund? Hressa þig við?
BINNI: Ég er hættur að synda. Nú treð ég bara marvaðann, reyni að sjá til lands áður en ég sekk ...
DÓRA: Mér finnst nú alger óþarfi að vera með eitthvert svartsýnistal.
BINNI: Ég vildi óska að ég væri gullfiskur.
DÓRA: Gullfiskur?
BINNI: Enginn hefur það eins gott og gullfiskurinn. Hann heyrir ekki neitt, veit ekki neitt, man ekki neitt. Bara gapir útí loftið og næringin fellur af himnum ofan, gersamlega fyrirhafnarlaust. Og hann syndir bara. Syndir og syndir, hring eftir hring og man ekki nokkurn skapaðan hlut. Meiriháttar. Man ekki neitt. Bara syndir og syndir.
DÓRA: Jújú. Ég er búin að ná því. Hann er ansi duglegur að synda.
BINNI: Hann mætir kellingunni sinni í hverjum einasta hring sem hann syndir um tankinn. Og það merkilega er að hann man aldrei eftir að hafa séð hana áður. Er það ekki yfirgengilegt? það er alltaf nýr maki. Alltaf ný kelling.
DÓRA: Flest er nú til! Hefur hann svona lélegt minni?
BINNI: Hann getur ekki munað nema fáeinar sekúndur aftur í tímann. Er það ekki meiriháttar?
DÓRA: Ja, ég veit það ekki. Mér finnst ég nú nógu slæm þó aðrir séu ekki verri.
Dóra fer í eldhúsið. Binni dregur tuðruna fram í flýti, opnar hana. Hann lítur flóttalega í kringum sig. Hann opnar ryksuguna, rífur rykpokann úr henni og treður peningunum í pokahólfið. Hann lokar ryksugunni og tuðrunni. Hann treður tuðrunni aftur í felustaðinn um leið og Dóra kemur.
DÓRA: Ber að skilja þetta þannig að þú sért orðinn leiður á Stínu, Binni?
BINNI: (Laumar rykpokanum bakvið stól). Ha?
DÓRA: Ég get svosem ekki sagt að ég lái þér ...
BINNI: Ég hef aldrei haldið framhjá Stínu, Dóra. Ég vil að það sé alveg á hreinu. Aldrei í lífinu! Ég var alltaf stabíli gæinn í einu og öllu! En svo bara ... þetta hjónaband okkar er orðið eins öll önnur hjónabönd. Eins og hver annar brandari ...