Dagur í Austurbotni

Útgefandi: 
Staður: 
Reykjavík
Ár: 
1985

2. útgáfa 1986.

Pohjanmaa eftir Antti Tuuri í þýðingu Njarðar.

Um bókina:

Dagur í Austurbotni gerist á sólheitum júlídegi í Kauhava í Austurbotni og héraðinu í kring. Allfjölmenn fjölskylda hefur safnast saman til að skipta með sér lítilfjörlegum arfi. Fljótlega kemur í ljós innri spenna milli þessa fólks, enda hefur því vegnað mismunandi vel í lífinu, en jafnframt sterk samheldni. Í forgrunni sögunnar eru fjórir bræður, ólíkir að eðlisfari, sem eru þó allir klofnir af ytri styrk en innri veikleika. Með breytni sinni þennan dag leysa þeir úr læðingi öfl sem þeir ráða ekki við og leiða til ofbeldis og skelfinga.

Úr bókinni:

Við lögðum á stað inn. Á hlaðinu sögðust strákarnir hafa séð til Markkus á dansstaðnum Halkosaari í Lappajärvi og þaðan hefði hann farið með dóttur smábónda frá Kauhajärvi. Strákarnir spurðu hvernig hún hefði reynst sem manneskja og kvenmaður. Markku bað þá að halda kjafti um þetta og ekki einu sinni grínast með það svo að Taina heyrði til. Því Taina væri afbrýðisöm, og sér í lagi núna, þegar hún væri svo bundin af barninu að hún gæti ekki einu sinni hitt æskuvinkonur sínar og þess vegna í stöðugri spennu. Hún væri hrædd við ferðir Markkkus, og þar að auki hrædd við fyllerí hans af því að faðir hennar hefði verið versti drykkjusvoli sem drakk upp alla sína fjármuni, barði fjölskyldu sína og lá ofurölvi fyrir hudna og manna fótum, og Taina mátti þola stríðni þorpskrakkanna öll sín uppvaxtarár.

Strákarnir sögðu að Markku væri vitlaus ef hann léti sér detta í hug að hann gæti laumast burt frá Halkosaari í Lappajärvi með einhverri skvísu frá Kauhajärvi. Ef hann ætlaði að gera slíka hluti án þess þeir kæmust upp, þá væri ráðlegast fyrir hann að koma sér út fyrir héraðið. Markku sagðist hafa verið svo fullur að hann hefði ekki nennt að hugsa um smámuni. Í morgun hefðu þessir smámunir verið honum því skýrari í huga og myndu áreiðanlega sitja þar lengi veftir að hann væri búinn að ná sér eftir timburmennina. Þess vegna þyrftu strákarnir ekki að vera að minna sig á slíkt. hann væri nú einu sinni þannig fullur að hann missti alla skynsemi, og hefði ekki mikla trú á að það breyttist nokkurn tíma. En það skipti kannski ekki öllu í heimi þar sem skynsemin væri hvort eð er hornreka. Ef könunum og rússunum tækist að framleiða sína nifteindasprengju, þyrfti trúlega að leggja nýjan mælikvarða á æði marga hluti. Raimo og Antero fóru að velta því fyrir sér hvort nifteindasprengjan myndi þyrma lífi píunnar frá Kauhajärvi eða drepa hana líka á hryllilegan hátt með sárum kvölum ásamt króanum sem Markku hefði búið til um nóttina. Markku sagði þeim að halda kjafti.

(31-2)