Dagar hefndarinnar

Útgefandi: 
Staður: 
Reykjavík
Ár: 
1988
Flokkur: 

Úr Dögum hefndarinnar:

 - Hanna, Hanna.
 Ekkert svar. Einar grét við hlið mér.
 - Hún er örugglega dáin. Brunnurinn er svo djúpur og hún hefur dottið með höfuðið á undan.
 Röddin brast. Ég sá í rökkrinu að tár runnu niður kinnar hans.
 - Hífðu fötuna upp og ég fer niður.
 Mér var sjálfri ekki ljóst á þessari stundu hvað ég var að bjóðast til að gera. Lofthræðsla var eitt af mínum vandamálum. Ég óttaðist ekkert eins og að horfa niður eitthvað hátt. En ég sá ekkert niður í brunninn, þar var ekkert nema myrkur að sjá. Einar grét enn við hlið mér.
 - Fatan heldur þér ekki og þú hrapar líka.
 Freyr var farinn að draga spottann til sín. Skelfingin læsti sig um mig eftir því sem meira kom í ljós af kaðlinum. Þetta var lengst niður í helvíti. En ég varð að gera þetta. Mér fannst hræðilegt að hugsa um veslings konuna, sem nú lá þarna niðri, sjálfsagt stórslösuð. Við máttum engan tíma missa, en ég fann að taugar mínar voru að bresta. Freyr hvíslaði:
 - Ertu viss um að þú viljir fara niður?
 Ég kinkaði kolli og steig upp í fötuna. Freyr lét fötuna síga örlítið. Ég greip fast í kaðalinn og mér fannst hjartað vera að brjóta sér leið út úr brjóstinu á mér. Freyr dró mig upp aftur.
 - Ég skal fara.
 - Þegiðu. Ég er léttari og þú sterkari.
 Hann mótmælti ekki frekar, en kyssti mig laust á ennið um leið og fatan seig niður í brunninn. Ég ríghélt mér. Mig langaði til að öskra. Skelfingu lostin hélt ég í spottann eins og hann væri mitt eina haldreipi í lífinu. Það mátti líka með sanni segja. Ég sá ekkert. Brunnurinn var myrkur og ég slóst harkalega út í hvassar steinbrúnir. En ég hugsaði ekki mikið um það. Ég þorði ekkert að slaka á taki því sem ég hafði á kaðlinum. Ekki einu sinni með annarri hendi, til að verjast skrámum.
 Sekúndurnar liðu eins og klukkustundir. Það brakaði í spottanum og á hverri stundu hélt ég að hann myndi gefa sig. Þetta var brjálæði. Ég var að fremja sjálfsmorð. Eitt augnablik hélt ég að ég myndi sturlast, en svo heyrði ég veika stunu. Hjarta mitt fór að slá með eðlilegum hraða. Þetta var þá ekki allt til einskis.
 Ég heyrði í vatni fyrir neðan mig, og því hlaut ég að vera að nálgast botninn. Allt í einu lenti fatan á einhverju mjúku og ég þreifaði fyrir mér. Ég fann blautan mannslíkama og mér fannst sem hárin risu á höfði mér. En nú mátti ég ekki láta hræðsluna ná yfirhöndinni. Ég flýtti mér upp úr fötunni og lenti þá í hnédjúpu ísköldu vatni. Ég saup hveljur og fann að ég fór strax að skjálfa. En það varð að hafa það. Skjálfandi þreifaði ég eftir konulíkamanum og fann mér til mikillar gleði að höfuðið var ekki í vatni. En hún var öll rennandi blaut og ég fann ekkert lífsmark. Ég hristi hana örlítið og þá stundi hún við.

(s. 49-50)