Blái hanskinn og vinstrivillan

Útgefandi: 
Staður: 
Reykjavík
Ár: 
2010
Flokkur: 

Um söguna

Smásaga í safninu Elskar mig, elskar mig ekki. Í bókinni eru smásögur fyrir unglinga eftir sextán norræna höfunda og fjalla þær allar um ástina á einhvern hátt. Gefin út á íslensku, sænsku, dönsku, finnsku, norsku, færeysku, grænlensku og samísku. Böðvar Guðmundsson íslenskaði sögur erlendu höfundanna og auk Eiríks á Jónína Leósdóttir sögu í bókinni.

Úr Bláa hanskanum og vinstrivillunni

Rómur Böðvars var undarlega mjór og lítilmótlegur eins og hann hefði aldrei komist alla leið í gegnum múturnar heldur sest að á leiðinni, svo rödd hans var bæði fullorðinsleg og barnsleg en eiginlega hvorugt í senn.
Hann dró upp dökkbláan Nokia-síma og slökkti á honum. Böðvar var sá eini þeirra félaga sem ekki sat, heldur stóð við borðsendann, undir rauðu klóakröri sem á stóð með svörtu tússi: ,,Maó + Lenín = Sönn ást. Allt í kringum það stóð ,,X-D með litlum stöfum, þar sem x-ið var látið líta út eins og hakakross. Ofaná klóakrörinu, sem var alveg við endavegginn, stóð bókakostur félagsins. Auk stolinn abókasafnsbóka á borð við Kommúnistaávarpið, Das Kapital og Ríki og byltnigu, mátti þar finna tíu árganga af Rétti og tvo af Rödd byltingarinnar. Yngsta ritið á hillunni, sem var síðasta tölublað Raddar byltingar, var að nálgast fertugsaldurinn. En það sló ekki félagana út af laginu, enda grundvallaratriðin það sem mestu skipti og þau höfðu verið ljós frá því um miðja nítjándu öldina.

Böðvar stakk símanum aftur í vasann og hóf ræðu sína á ný. ,,Þegar ritari félagsins, Hann Björk Vídalín, kom hingað á skrifstofuna eftir hádegið, fannst þessi hanski sem sagt ofan í kaffivélinni, þar sem maður setur vatnið, sagði hann og leit á Hönnu. Hún brosti til baka og fékk sér sopa af kaffinu sem á þessum viðsjárverðu tímum var allt að því undirrituð stuðningsyfirlýsing við aumingjans formanninn og rannsókn hans á því hver hefði skilið hlandhanskann eftir í kaffivélinni. Böðvar hafði þrifið vélina vandlega og lagt ríka áherslu á það í samræðum sínum við Höllu fyrr um daginn að hellt skyldi upp á kaffi um kvöldið, enda væri annað táknrænn sigur fyrir hermdarverkamanninn og slíkt væri ólíðanlegt. Ekkert væri að óttast, vélin hefði verið þrifin vandlega og þar að auki hefði ekki fundist deigur dropi utan hanskans, þótt þvag væri langlíklegast, enda hanskinn vel volgur þegar hann fannst.

,,Hanna Björk hafði samband við mig í síðustu frímínútum og gerði mér stöðuna ljósa. Þess má geta að herbergið var læst og hefur verið það frá því Leshringurinn kom saman á þriðjudagskvöldið var. Að undanskyldum lyklum skólayfirvalda finnast þrír sem ganga að skrifstofu VFFVÍ.

(bls. 78-9)