Beinagrind með gúmmíhanska

Höfundur: 
Útgefandi: 
Staður: 
Reykjavík
Ár: 
1996
Flokkur: 


Myndir : höfundur 

Úr Beinagrind með gúmmíhanska:

1

BEINAGRINDIN er alvöru leynifélag. Það á sér bækistöð á háalofti hjá konu sem þau kalla nornina. Nornin heitir Norma og er frænka Beina og Gusu. Hún er leikkona og leikur oft í útlenskum bíómyndum. Hún er stundum langdvölum í útlöndum og þá stendur húsið hennar autt. Hún er fegin því að Beini og hinir krakkarnir líti eftir því á meðan. Hún er auðvitað ekki norn í alvöru, en útlitslega gæti hún alveg verið það, svartklædd og svarthærð og þar að auki á hún svartan kött. Svo á hún líka sprenghlægilegan kærasta sem er skáld! Bækistöðina sína kalla krakkarnir Hauskúpuna eða bara Kúpuna. Leyninöfnin þeirra eru: Sköflungur, Dálkur, Öln og Spíra, en þetta eru allt nöfn á beinum í handleggjum og fótleggjum.
Auk þess að eiga svona frábæra bækistöð, á BEINAGRINDIN dulmál. Ásgeir og Birna bjuggu það til. Það er þannig að hver stafur stafrófsins hefur sérstakt tákn. Dulmálslykillinn er geymdur á sérstökum leynistað í Hauskúpunni. Þau þurfa reyndar ekki lengur á dulmálslyklinum að halda því þau eru öll búin að læra táknin fyrir löngu og geta lesið orðsendingar skrifaðar á dulmálinu jafn léttilega og orð sem skrifuð eru með venjulegum stöfum. En það er samt nauðsynlegt að geyma dulmálslykil einhvers staðar, ef þau skyldu nú gleyma einhverju tákninu.

(s. 13-14)