Bara við tvö

Útgefandi: 
Staður: 
Reykjavík
Ár: 
1994
Flokkur: 

Úr Bara við tvö:

Maríanna!
 Ég sat við eldhúsborðið yfir mjólkurglasi og fullum diski af kornflögum og starði á baksíðu Moggans. Trúði varla mínum eigin augum.
 Það var mynd af henni!
 Þessi líka flennistóra litmynd!
 Og mesti montrass í heimi, Aðalbjörn Pálsson, eins og límdur við hana!
 Mér varð svo mikið um að mér svelgdist á. Ég stóð á öndinni góða stund en datt síðan aftur ofan í svo heiftarlegt hóstakast að mjólkin frussaðist út úr mér yfir eldhúsborðið og langt út á gólf. Mamma kom óðara fljúgandi með borðtusku.
 - Viltu nú ekki fara að drífa þig í skólann, Geiri minn, sagði hún mæðulega og þurrkaði sletturnar upp. Klukkan er alveg að verða átta.
 Ég svaraði ekki. Kom ekki upp orði því að ég var svo gapandi hissa. Á dauða mínum átti ég von en ekki því að sjá kærustuna mína uppstækkaða í litum í Mogganum í örmum Aðalbjörns Pálssonar! Eða svo gott sem. Þetta var slíkt áfall að því verður ekki með orðum lýst.
 Ég renndi augunum yfir textann sem fylgdi myndinni.

Innritun í dansskólana stendur nú yfir og er aðsókn með mesta móti enda hefur áhugi á dansi farið vaxandi meðal ungs fólks hin síðari ár. Hér eru Íslandsmeistararnir í samkvæmisdönsum í flokki 14 og 15 ára, Maríanna Sigurðardóttir og Aðalbjörn Pálsson, en þau gerðu garðinn frægan með glæsilegri frammistöðu í danskeppni á Englandi á liðnu vori. Má vænta mikils af þessu efnilega pari í framtíðinni.

Þessu efnilega pari!
 Ég hefði öskrað ef mamma hefði ekki verið á flögri í kringum mig í eldhúsinu og pabbi sofandi hinum megin við vegginn, nýkominn af vaktinni í slökkviliðinu. Ég lýg því ekki að ég hefði öskrað.

(s. 5-6)