Bak við þögla brosið

Útgefandi: 
Staður: 
Reykjavík
Ár: 
1994
Flokkur: 

Úr Bak við þögla brosið:

 Ég skalf þegar ég stakk lyklinum í skrána. Það ískraði í hjörunum. Andartak stóð ég í anddyrinu og dró djúpt andann. Hvar átti ég að byrja? Ég útilokaði eldhúsálmuna og ákvað að byrja í suðurturninum. Þar voru gestaherbergi, setustofur og spilaherbergi. Ég æddi úr einu herberginu í annað. Sem betur fer var rafmagn á húsinu, svo að ég gat kveikt ljós. Ég kannaði hvern krók og kima. Hjartað barðist í brjósti mér og ég var dauðhrædd. Það brakaði í gólfunum, mér fannst ég heyra umgang alls staðar og allar hræðilegu draugasögurnar um Mánakastala rifjuðust upp fyrir mér. Þetta voru hræðilegar sögur um vansæla anda þeirra sem höfðu fyrirfarið sér, sögur um útburði, skrímsli og magnaða drauga.
 Ég kannaði veislusalinn, borðstofuna, herbergi ömmu og svo fór ég í turninn sem var einkaheimur frænda míns. Þangað fengum við ekki að koma þegar við vorum gestir í Mánakastala. Ég hafði alltaf verið afar forvitin um þessi herbergi en nú fannst mér skelfilegt að þurfa að fara um þau. Ég skalf eins og hrísla. Á einum veggnum hékk mynd af hengdum manni og á móti stóð glottandi beinagrind. Ég hljóðaði og hrökk sjálf í kút við eigin rödd.
 Ég var stödd í herberginu fyrir framan það sem ég hélt að væri svefnherbergi Charles, en ég komst ekki lengra. Þykk eikarhurðin var rammlega læst. Ég reyndi að hugsa hratt. Að utan kæmist ég ekki inn. Glugginn var of hátt uppi og þar að auki of lítill fyrir mig. Hvað átti ég að gera? Ég barði á hurðina.
 - Kristy.
 Rödd mín var draugaleg og ég hélt að ég væri að missa glóruna. Hvernig datt mér í hug að hún væri fyrir innan þessa hurð? Ég hamaðist á hurðinni og hlustaði. Ekkert hljóð. Mér fannst ég heyra hurð skella niðri og hjarta mitt stóð kyrrt eitt andartak. Ég þorði ekki að hreyfa mig. Hvað ef Charles kæmi að mér hér? Eftir það sem ég vissi nú um hann langaði mig ekkert að hitta hann einan í þessum auða kastala.
Ég hentist fram hjá beinagrindinni og niður stigann. Í anddyrinu rakst ég á mann og rak upp hljóð. Mér til léttis var bílstjórinn kominn inn. - Mér heyrðist þú hljóða. Ég skalf og nötraði.
 - Já. Ég hitti glottandi beinagrind og var næstum búin að missa vitið af skelfingu.
 Hann horfði rannsakandi á mig.
 - Hvað er um að vera hér?

(s. 121-122)