Ástin fiskanna

Útgefandi: 
Staður: 
Reykjavík
Ár: 
1993
Flokkur: 

Úr Ástin fiskanna:

Ég var ein á daginn, því vinir mínir unnu úti. Það voru litlir gluggar á íbúðinni, sem var eiginlega uppi í risi á hálfgerðum kastala. Ég kallaði húsið mitt í huganum útibú frá aðalkastala. Hann trónir á hæðinni, myrkur og risavaxinn, og ég horfði á hann tímunum saman úr eldhúsglugganum mínum. Hann var eins og áframhald af klettinum sem hann stóð á, þó höggvinn út á annan hátt en þessi undirstaða, og úr aðeins ljósari steintegund. Í vætu glansaði kolsvartur kletturinn og leit út fyrir að vera úr hrafntinnu.
Ég hafði verið á leiðinni að skoða kastalann innanverðan frá því ég kom. Einn daginn var ég komin upp þrjátíu og tvær tröppur, þegar ég sneri við, því mér fannst vera of mikið sólskin til þess að fara inn í kastala. Um leið hugsaði ég að þetta væri ekki beint rökrétt af því ég ætti sjálf heima í litlum kastala um þessar mundir.
Fyrir hádegi gluggaði ég stundum í indversk ástarljóð og var byrjuð að þýða þau mér til skemmtunar. Ég gekk um borgina eftir hádegi og fór á söfn ef það var sólarlaust. Eina vikuna fór ég dag eftir dag að rannsaka myndina af þremur aldursskeiðum mannsins eftir Tizian. Rauða litinn í kjól ungu stúlkunnar sem situr á tali við elskhuga sinn undir trénu hafði ég aldrei séð áður. Ég reyndi stundum að hugsa um þennan lit áður en ég fór að sofa af því ég vildi að mig dreymdi hann. En ég mundi aldrei til þess að morgni að hann hefði framkallast í myrkrakompu svefnsins.
Það einkennilega var að ég hafði heimþrá. Ég var hagvön í útlöndum og hér bar nýrra við. Það var útsýni yfir járnbrautarteina úr svefnherberginu mínu, og ég horfði á lestirnar fara hjá, alla leið út í buskann, áður en ég skreið upp í á kvöldin, og sannleikurinn er sá að mig langaði burt með þessum lestum og flýta för minni heim, en mér datt ekki í hug að láta verða af því og vinir mínir hefðu orðið hissa.
Það hafði vorað seint heima og almennt óþol í mönnum eftir betri tíð, en sumarið kom óvenju snögglega þegar það loksins kom, og síðan þá hafði verið stanslaus blíða. Þetta var alls ekki sumar upp á íslenskan máta; árstíð sem er vön að koma með skrykkjum og langdregnum afturkippum. Ég var farin að hringja í mömmu annan hvern dag til þess að spyrja um veðrið. Ég heyrði á röddinni að henni þótti þetta grunsamlegt en hún hélt uppi samræðum af fullri kurteisi og sagði í hvert skipti að þetta væri í rauninni ekki betra veður heldur þynnra ózonlag. Er ekki sama hvaðan gott kemur? spurði ég einu sinni og þá sagði mamma: Ég skal ekki segja, og hló svo hálf þvinguð.
Ég sat stundum á útikaffihúsi við rætur aðalkastalans og drakk vont kaffi og þóttist vera að skoða mannlífið: útiteknar mæður með sílspikuð pelabörn, rauðhærðan trúbadúr sem söng Streets of London, japanska ferðamenn með vídeóvélar og konu með lítinn herðakistil sem seldi rósabúnt. En ég horfði mest á bergið undir kastalanum þar sem örsmá hvít blóm spruttu í skorum, og ég hugsaði um Skaftafell heilu dagana. Mig langaði að vera á göngu þar, á leið í Morsárdal, þótt ég vissi að það væri ekki næði, eins og er snemma vors eða síðla hausts, að allt væri núna orðið fullt af fólki tjöldum og bílum. Mig langaði að sjá hvernig sindraði á birkilauf við læk í hnúkaþey og sólskini, og jökull yfir og allt um kring, svo víðáttumikill að hann er eiginlega margir jöklar og heitir ýmsum nöfnum. Augað var þyrst í blágresi í brekku, umvafið kjarri sem heitir skógur á Íslandi og straumþung vötn sverfa að þessum smáskógi á flóknu ferðalagi um svartan sand sem endar í hafnlausri strönd. Þar hafði marga útlenda sjómenn rekið lífvana á land, en einhverjir bjargast og getið börn við innfæddum konum. Sandflæmið var nekrópólis skipsskrokka frá ýmsum tímum. Þar hvíldu víkingaskip með gínandi trjónur, flök af skútum, togurum frá aldamótum, fyrir utan gangandi fjársjóð, hollenskt flaggskip frá sautjándu öld, hlaðið gullstöngum og kínversku postulíni, og beið þess að verða hleypt af neðanjarðarstokkum á dómsdegi, nema ævintýramenn yrðu fyrri til og næðu því upp með öllu saman.
Þar sem ég sat siginaxla við lítið kringlótt borð og horfði upp eftir snarbröttu berginu sem breytist í virki þegar ofar dregur, fannst mér að einn dagur hjá smáu sumarblómunum sem eru svo einkennilega skær; þrenningarfjólu, bláklukku, brönugrasi, að einn dagur yrði hamingjudagur, tímamótadagur, að óskirnar sem ég vissi ekki hverjar voru mundu rætast allar sem ein, ef ég fengi að sitja á steini úti í læk og fylgjast með ferð hans á stuttum kafla, ferðinni sem ber að sama stóra brunni, gegnum vatnakerfi sandsins. Ein lóa syngi sprellandi dirrin rétt við tærnar á mér og maríuerlur héldu uppi flírulátum og hvellu tísti. Ég gengi kannski fram á sjaldgæfan burkna, hríslur sem vaxa beint út úr berginu og íslenskan eini sem dafnar í skjóli við birki og víði. Ég bað ekki um meira en þennan eina dag á þessum eina stað, jafnvel þótt allra þjóða kvikindi með myndavélar væru truflandi. Það yrði að hafa það. Þarna vildi ég vera, hvíla mig í rjóðri, meðan hið skammvinna hásumar staldraði við, og halda svo áfram ferð minni upp með læknum, á brattann, eins nálægt jöklinum og ég kæmist, þessu glóhvíta flæmi sem var eins og land í landinu og ég þekkti best úr lofti.
Ég hafði hitt hann áður en ég mundi ekki hvað hann hét. Hann þekkti mig strax og sagði: Fyrirgefðu, ert þú ekki Samanta, þegar hann rakst á mig í kastalahliðinu, og ég sagði jú ég heiti það, eftir enskri vinkonu mömmu minnar. Hún dó.
Hann brosti, mest með augunum og sagðist heita Hans Örlygsson.

(s. 10-15)