Ástarsaga úr fjöllunum

Útgefandi: 
Staður: 
Reykjavík
Ár: 
1981
Flokkur: 

Vaka Helgafell 1999.

Myndir: Brian Pilkington.

Úr Ástarsögu úr fjöllunum: 

Hún Flumbra gamla tröllskessa varð einu sinni ógurlega skotin í stórum og ljótum tröllkarli. Hann átti heima langt, langt í burtu. Tröllkarlinn var svo ægilega latur, að hann nennti næstum aldrei að heimsækja hana. Þess vegna varð hún að elta hann út um allar jarðir. Hún hljóp svo hratt að jörðin titraði og skalf undir fótum hennar, því að hún varð að komast heim áður en sólin færi að skína.
Veturnir voru henni betri. Þá er nóttin svo löng og sólskinið svo lítið. En á sumrin hljóp hún heit og sveitt og móð og másandi yfir fjöll og firnindi til að hitta tröllkarlinn sinn. Og þegar hún var komin og þó að hann væri latur, varð hann líka voðalega skotinn í henni. Þau fóru að faðmast og kyssast og veltast um af ást. Þau kysstust svo fast að jörðin titraði og fjöllin skulfu og raflínurnar hrukku í sundur.
Bannsett læti eru þetta, sagði mannfólkið.
Þetta gat ekki endað nema á einn veg. Eina óveðursnótt eignaðist skessan átta stráka. Ósköp voru þeir stórir og ljótir og líkir honum pabba sínum. Skessunni fannst þeir undurfallegir. Öllum mömmum í heiminum finnst börnin sín undurfríð. Líka skessum. Hún elskaði þá svo mikið að hún titraði og skalf. Litlu birkihríslurnar í hlíðinni höfðu ekki svefnfrið.
Við skiljum ekki þessi læti, sögðu þær og reyndu að sofna. Tröllastrákarnir orguðu allir í einu svo að undir tók í fjöllunum. En skessunni datt ekki í hug að flengja þá eins og skessur gera í sögunum. Hún horfði bara á hvað þeir voru fallegir með hárstrýið út í allar áttir og kafloðnir í framan.