Ásgeir Ásgeirsson forseti : Ævisaga

Höfundur: 
Útgefandi: 
Staður: 
Reykjavík
Ár: 
1992

Af bókarkápu:

,,Ásgeir Ásgeirsson var vitur maður og hlýr í viðkynningu, sagði Kristján Eldjárn í minningarorðum um fyrirrennara sinn í starfi. ,,Hann naut virðingar og vinsælda þjóðarinnar í forsetastarfi og fór allt vel úr hendi sem það starf krefst. Góðar minningar lætur hann eftir hjá þjóð sinni.
Ævisaga Ásgeirs Ásgeirssonar er persónsaga í orðsins besta skilningi, en endurspeglar jafnframt helstu viðburði Íslandssögunnar á þessari öld.

Hann var guðfræðingur og hugðist gerast prestur í sveit þó að örlögin ætluðu honum annan hlut og átakameiri. Tímamót urðu í lífi Ásgeirs er hann hóf afskipti af stjórnmálum, en hann sat á Alþingi í nær þrjá áratugi. Hér er lýst stormasamri tíð hans sem fjármála- og forsætisráðherra, svo og átökum innan Framsóknarflokksins sem lyktaði með því að Ásgeir kvaddi hann og gekk síðar til liðs við Alþýðuflokkinn.

Árið 1952 vann Ásgeir einn stærsta persónulega kosningasigur í sögu þjóðarinnar er hann var kjörinn forseti lýðveldisins - gegn vilja og valdi forystumanna tveggja stærstu stjórnmálaflokka landsins. Þar varð þjóðarviljinn flokksvaldinu yfirsterkari. Embætti forseta gegndi hann í sextán ár með dyggum stuðningi konu sinnar, Dóru Þórhallsdóttur, enda nutu þau hylli og ástsæld þjóðar sinnar.

Gylfi Gröndal ritar sögu Ásgeirs og styðst við einstæðar heimildir sem ekki hafa komið fram áður, svo sem minnisbækur og drög að endurminningum, að ógleymdum bréfum Ásgeirs sjálfs sem hann skrifaði Dóru á meðan þau voru trúlofuð. Ævisaga Ásgeirs Ásgeirssonar er í senn viðburðarík og vönduð bók um einn af merkustu sonum þjóðarinnar.