Ár kattarins

Útgefandi: 
Staður: 
Reykjavík
Ár: 
2012
Flokkur: 

Um bókina:

Hver er veruleikinn bakvið lífshættulega árás fyrir utan skemmtistað? Eða óhugnanlegan hrekk í brúðkaupi sem síðan breytist í martröð? Hver sendir Einari klúr sms-skeyti? Og hvers konar pólitískum skollaleik er beitt í baráttunni um framtíð Síðdegisblaðsins? Blikur eru á lofti í samfélagi þar sem mennskan og illskan takast á. Og ráðgáturnar hrannast upp í lífi og starfi Einars blaðamanns. Ekki er allt sem sýnist – og kannski ekkert.

Úr bókinni:

Er allt falt? Er allt hægt?

Ég stend með kaffibolla við eldhúsgluggann og hugsa um samtal okkar Sólveigar gömlu áður en hún slasaðist.

„Öllum stendur allt til boða ef fólk á fyrir því, nema að fá að deyja,“ sagði hún þar sem við hittumst sem oftar í þvottahúsinu. „Hvers vegna er það?“

„Ég skil það ekki alveg sjálfur,“ svaraði ég.

„Fólk getur valið hvað sem er, nema sína eigin fæðingu og sinn eigin dauðdaga. Meikar það einhvern sens, eins og krakkarnir segja?“

Þvottahúsið er ekki svipur hjá sjón eftir að hún flutti. Ég minni mig á að hringja vestur til Ísafjarðar við tækifæri og heyra í henni hljóðið. Fyrir nokkrum vikum flaug ég þangað og dvaldi yfir helgi hjá Brandi Brandssyni varðstjóra. Þá leit ég við hjá Sólveigu á hjúkrunarheimilinu sem Alda Sif dóttir hennar gat komið henni inn á. Gamla konan var í móki og ég náði engu sambandi.

Umgangur berst af fyrstu hæðinni. Nýju leigjendurnir eru komnir á kreik. Hvað skyldu þeir geta lagt til þvottahúsumræðunnar?

Ég kveikti í sígarettu með kaffinu og rölti inn í stofu. Þar situr krukkuhelvítið á skrifborðinu eins og tifandi tímasprengja.

Getur verið að penismarkaðurinn teygi sig alla leið hingað norður? Á afbrigðileikinn engin landamæri?

Auðvitað ekki, ef markaður er fyrir hann. Allt er án landamæra ef eftirspurn er fyrir hendi.

(37)