Andsælis á auðnuhjólinu

Höfundur: 
Útgefandi: 
Staður: 
Reykjavík
Ár: 
1996
Flokkur: 


Úr Andsælis á auðnuhjólinu:

„Hver djöfullinn! bölvaði hún upphátt. Hún hafði gleymt að það var föstudagur og Grettir hætti snemma í vinnunni. Hvað myndi hann halda ef hann fyndi ókunnan mann nakinn í baðinu sínu með koníaksglas á barminum? Hann mundi tryllast, lúberja mannaumingjann og spyrja síðan. Þórunn þekkti kærastann sinn; afbrýðisamari mann var hvergi að finna. Hversu oft hafði hann ekki lúskrað á þeim sem renndu til hennar hýru auga á skemmtistöðunum? Yfirleitt lét hún sér það vel lynda og þótti hvert kjaftshögg sem örvarskot Amors sem innsiglaði ást hans. En um bjargvættinn í baðinu gegndi öðru máli. Hann hafði í alla staði hegðað sér sem heiðursmaður og henni þætti leitt ef hún yrði þess völd að hann fengi það launað með limlestingum.

Af öllu því snarræði sem Þórunn réð yfir stökk hún inn í þvottahúsið, slökkti á þurrkaranum og dró ylvolg klæðin út. Þegar hún hljóp með þau fram hjá eldhúsborðinu þreif hún bindið og lausamuni Jóhannesar. Síðan hraðaði hún sér yfir ganginn, bankaði harkalega á baðherbergisdyrnar til viðvörunar og hratt þeim upp án þess að bíða eftir svari.

„Þú verður að drífa þig! sagði hún flaumósa um leið og hún ruddist inn. „Kærastinn minn er að koma heim og hann lemur þig í spað ef hann finnur þig hérna!

„Hvað á það að þýða að vaða svona inn á... hóf Jóhannes máls. Hann var kominn niður á málverk eftir Helga Þorgils í lista sínum yfir kynferðislega fráhrindandi fyrirbæri. Nú sá hann skyndilega fyrir hugskotssjónum ljósmyndina af vöðvatröllinu í rauðu sundskýlunni. Verst var þó að það hafði engin áhrif á þrútinn vöðvann í nárastað; ef eitthvað var, þá harðnaði hann frekar. Jóhannes reis til hálfs í baðinu, svo hátt sem honum þótti óhætt. „Ef þér væri sama... Meðan ég klæði mig...

„Þú skilur fjandakornið ekki, sagði hún óðamála, teygði sig eftir bleiku handklæði af slá og fleygði hranalega til hans. „Hann er hérna úti á helvítis bílastæðinu og er að koma upp. Hann fletur þig út eins og pizzudeig.

(s. 28-29)