Andlit öfundar

Útgefandi: 
Staður: 
Reykjavík
Ár: 
1995
Flokkur: 

Úr Andliti öfundar:

 - Stundum finnst mér eins og ég sé vitskertur. Ég ræð ekki við það sem ég geri. Eitthvað hefur grafið um sig í huganum, sem ég ræð ekki við. Kannski er það öfund.
 - Öfund yfir hverju?
 - Ég veit ekki hvort þú getur nokkru sinni skilið það.
 - Eflaust ekki.
 - Mig langaði bara að þakka þér fyrir og mér finnst ég skulda þér skýringu. Það varð löng þögn en svo hélt hann áfram.
 - Það byrjaði þegar við Andrés Orri vorum ungir strákar. Ég veit varla hvað það var, en mér fannst hann alltaf fá það sem hugurinn girntist. Hann var uppáhaldsbarnið hennar mömmu og pabbi var yfir sig ánægður vegna þess hve listhneigður hann var. Honum gekk frábærlega í skóla en mér sæmilega. Hann kom heim með viðurkenningar og mig langaði mest til að drepa hann, svo að ég gæti hætt þessari vonlausu samkeppni. Í menntaskólanum var allt eins og við kynntumst Áslaugu. Hún féll strax fyrir listaskáldinu Andrési Orra, en hún er eina konan sem ég hef orðið hrifinn af. Ég öfundaði hann hræðilega, meira að segja af nafninu. Allir þekktu Andrés Orra en margir Böðvarar voru í skólanum, enda vakti ég aldrei athygli, var bara venjulegur Jón. Andrés Orri vakti aftur á móti athygli hvar sem hann fór. Svo giftu þau sig og allar vonir mínar brustu. Ástfangin héngu þau saman á kjöftunum fyrir framan mig vikum saman. Ég þoldi ekki við, vissi ekki hvað ég átti að gera. Mig dreymdi drauma um Áslaugu, óskaði þess að Andrés Orri dræpist í slysi og hún yrði mín. Það var eina lausnin sem ég sá, því að ég vissi að hún mundi aldrei skilja við hann. Ég reyndi meira að segja að búa með stúlku, en ég bar hana alltaf saman við Áslaugu og samanburðurinn var henni ekki hliðhollur. Sá tími var hreint helvíti.

(s. 189-190)