Allt í besta lagi

Allt í besta lagi
Útgefandi: 
Staður: 
Reykjavík
Ár: 
1992
Flokkur: 

um bókina

Allt í besta lagi er fjörug, hörkuspennandi og raunsæ saga um unglinga í Reykjavík á sjötta áratugnum. Lítið atvik hrindir af stað röð óvæntra atburða sem ekki sér fyrir endann á - og ekki er hægt að ræða um, því að Alli er aldrei til taks þegar þarf á að halda, Lína systir hertekur allt heimilið og Danni hugsar mest um að komast á pall í fegurðarsamkeppni karla í Tívolí. Rómantíkin setur líka strik í reikninginn, því að Inga Dóra er óútreiknanleg. 
   Meitluð frásögn skapar hér óviðjafnanlegt andrúmsloft fyrri ára, þar sem togast á hugrekki og kjarkleysi, ást og óöryggi.

úr bókinni

 Hún var komin yfir götuna.
 Ég kallaði til hennar, bað hana að bíða aðeins, og hljóp til hennar.
 - Gleymdi ég einhverju? spurði hún og horfði á mig með spurnarsvip.
 - Nei, nei, sagði ég og ímyndaði mér að ég væri Danni. Það var ég sem gleymdi einu.
 - Nú?
 - Ég ætlaði að bjóða þér í bíó.
 Hún missti málið. Horfði dolfallin á mig og vingsaði netinu. Spurði eftir langa og pínlega þögn hvort ég væri að grínast við sig.
 - Nei, nei, sagði ég og lagði mig fram um að vera léttur og hress. Ég ætla að bjóða þér með mér á Tommy Steele myndina í Austurbæjarbíói. Þetta er frábærlega góð mynd, segja allir. Fjórtán ný rokk- og kalypsólög. Hvenær viltu koma? Fimm, sjö eða níu?
 Hún lyfti upp annarri hendi eins og lögregluþjónn sem stöðvar bíl á götu og bað mig að bíða aðeins.
 - Er ekki allt í lagi með þig?
 - Allt í lagi? hváði ég og lét sem ég sæi ekki afar óþægilegt bros sem kom fram á varir hennar. Hvað meinarðu?
 - Heldurðu virkilega að mér detti í hug að fara í bíó með þér? Þú ert ekki heilbrigður! Í fyrsta lagi þekki ég þig ekki baun og í öðru lagi hef ég algert ofnæmi fyrir Tommy Steele!
 Hún hafði ekki um þetta fleiri orð, snerist á hæli og flýtti sér í burtu. Augljóslega dauðfegin að losna frá mér.

(s. 35)