Aldateikn

Útgefandi: 
Staður: 
Reykjavík
Ár: 
1973
Flokkur: 

Úr Aldateiknum:

,,Hér þarf að mála mynd

Það er ekki oft sem sýning málverks telst til stóratburða í stjórnmálasögunni. Venjulegast spinnur myndlistin aðeins hið innra virki þjóðlífs og huglægra samskipta, en reisir ekki gunnfána ytri átaka. Þó gerðist einmitt þetta í París árið 1785, þegar málarinn Jacques Louis David, þá 36 ára að aldri, sýndi opinberlega málverk sitt, Eið Hóratíussona. Myndin spurðist út og fólk streymdi daglangt fram hjá henni, ekki einasta Parísarbúar, heldur komu menn langleiðis að, og tendrandi afl hennar varð hvarvetna að umræðuefni, aðdáunar jafnt sem hneykslaðra andmæla. Koparstungur voru gerðar eftir henni og seldar um allt Frakkland.

En hvað var það sem gerði málverk þetta að þvílíkri kveikju? Að efni til vísar myndin til þeirrar rómversku sagnar, er synir Hóratíusar hins eldra sverja föður sínum þess dýran eið, við sverð sín, að berjast fyrir frelsið eða deyja ella. en um leið vefst inn í efni hennar minni úr einu leikrita Corneilles, þar sem frá því segir, að dóttir Hóratíusar hafi verið svívirt, og bræður hennar strengt þess heit að hefna sóma hennar. Því hallast hún hér hnípin að öxl móður sinnar og vekur grun áhorfandans um það, að bræður hennar muni verða að bana manninum sem hún ann.

Stjórnmálalegt inntak myndarinnar var þó ekki aðeins í frásagnarefninu, heitstrengingunni um að berjast fyrir frelsið eða láta lífið ella, heldur var um leið skírskotað til lýðveldishugsjónarinnar, sem Rómverjar hinir fornu hófu til vegs. Sjálft átti Frakkland enga sögulega fyrirmynd lýðfrelsis sem bent yrði til, og áhuginn beindist því að klassiskum fornminjum Grikklands og Rómarveldis, þar sem lýðfrelsi lyfti menningunni svo hátt sem raun bar vitni. Verið var að grafa fornborgirnar Pompei og Herkulaneum undan vikri aldanna, og hrifningin af því sem þar kom í ljós blandaðist hugsjóninni um byltingu og lýðveldi heima fyrir.

En Eiður Hóratíussona var enn annað og meira. Í myndinni var gunnþytur nýrrar stefnu, nýklassiska stílsins, sem reis hér öndverður gegn allri þeirri list sem tengdist hirðlífi og konungsveldi 18. aldar. Lýðveldissinnarnir, hugsjónasmiðir byltingarinnar, litu á allt hið flögrandi skraut rókokótímans sem tákn hnignandi yfirstéttar sem löngu hefði glatað öllu sambandi við þjóðina og fyrirgert forystuhlutverki sínu. Í stað þessa áhyggjulausa leiks, til skrauts í hallarsölum, kom nú hin harða lína og skarpa mótun í málverki Davids. Eiðurinn var því forboði byltingar á mörgum sviðum, þótt enn liðu fjögur ár þar til Bastillan félli, 1789.

(117-118)