Afturelding

Útgefandi: 
Staður: 
Reykjavík
Ár: 
2005
Flokkur: 

Um bókina:

Morgungráminn er besti tíminn fyrir grágæsaveiðar að hausti. Þar situr veiðimaðurinn einn með sínu skotvopni og bíður eftir gæsum, og á allra síst von á því að innan skamms muni hann sjálfur breytast í bráð...

Á fáeinum dögum eru þrír gæsaveiðimenn myrtir og lögreglan stendur frammi fyrir því að raðmorðingi gengur laus. Sú skoðun staðfestist þegar lögreglunni berst orðsending frá morðingjanum sem segir: Ég veiði menn og sleppi aldrei ... Frá þeim degi hefst æsileg glíma milli lögreglu og óvenjulegs morðingja upp á líf og dauða þar sem ekki má á milli sjá hvor er í hlutverki kattar og músar.


Úr Aftureldingu:

Fimmtudagur 21. september

06:10

Í löngu hruninni húsatóft í afskekktri sveit vestur í Dalasýslu sat einmana veiðimaður og horfði yfir Hvammsfjörð á Fellsströndina þar sem allra efstu fjallsbrúnir lýstust upp í fyrstu geislum morgunsólarinnar sem brutust út á milli skýjanna í austri. Fjallshlíðarnar þar fyrir neðan, láglendið og fjörðurinn voru hins vegar enn í dimmum skugga.

Maðurinn í tóftinni var á fimmtugsaldri, skarpleitur, grannvaxinn og vel á sig kominn. Hann var klæddur í hlý og vönduð útivistarföt, í grænum, brúnum og gulum felulitum. Þykk húfa huldi höfuðið að mestu en það sem sást af andlitinu var málað í þessum sömu jarðarlitum. Sætið sem hann hvíldi sig á var þægilegur dökkgrænn ferðastóll sem auðvelt var að brjóta saman og bera með sér. Þarna gat veiðimaðurinn setið í skjóli og skugga án þess að nokkur yrði hans var. Haglabyssa í grænum og brúnum poka með axlaról var reist við tóftina fyrir framan hann.

Við hlið mannsins lá svartur hundur grafkyrr fram á fætur sína í grasinu. Eyrun bærðust aðeins og trýnið titraði örlítið en augun voru lokuð. Öðru hvoru hallaði maðurinn sér að hundinum og strauk honum varlega eftir bakinu. Þeir voru að bíða eftir grágæs á morgunflugi.

Afgirtur kartöflugarður var niður undan tóftinni og lítill ræktanlegur túnskiki þar við hliðina. Í kartöflubeðunum voru fjórtán gæsir. Átta voru á beit, fjórar í hvíld og tvær á verði með höfuðin reist. Það þurfti vant auga til að sjá í rökkrinu að þetta voru gervigæsir, tálbeitur. Maðurinn hafði raðað þeim í hnapp milli kartöflugrasanna þannig að gott pláss var fyrir annan gæsahóp að tylla sér niður í garðinn á móti vindáttinni. Færið var mátulegt, um það bil 30 metrar.

Það heyrðist örlítið þrusk þegar tvær hagamýs skutust eftir tóftarveggnum og yfir handlegg veiðimannsins sem hvíldi á efstu grastorfunni. Síðan hurfu mýsnar niður í holu sína og allt varð aftur kyrrt. Maðurinn fann lyktina af döggvotum gróðrinum sem var farinn að búa sig undir haustið og af moldinni sem var troiðin niður í tóftargólfið. Þarna við hleðsluna hafði fé fundið sér forsælu um sumarið þegar sólin skein í hádegi og hitastigið varð óþægilega hátt fyrir menn og skepnur.

Nú hins vegar var lofthitinn rétt við frostmark og þrátt fyrir góðan búnað var manninum dálítið kalt. Hann krosslagði hendurnar framan á brjóstinu, hlustaði eftir nýjum degi og skimaði út á fjörðinn þar sem enn var rökkur við sjávarmál.

(7-8)