Aflausn

Aflausn eftir Yrsu Sigurðardóttur
Útgefandi: 
Staður: 
Reykjavík
Ár: 
2016
Flokkur: 

Um Aflausn

Ráðist er á unglingsstúlku á salerni í kvikmyndahúsi. Á óhugnanlegum myndskeiðum sem send eru vinum hennar á Snapchat sést þessi vinsæla stelpa ítrekað biðjast fyrirgefningar – en á hverju og af hverju?

Lögreglan er ráðalaus í leit sinni að ofbeldismanninum og stúlkunni, sem er horfin. Og þá tekur málið ískyggilega stefnu.

Úr Aflausn

Kjartan vissi að hann yrði að fara að taka sér frí. Fá ritarann til þess að færa til þá tíma sem þegar höfðu verið bókaðir, panta hótel og flug í sólina þar sem iðjagrænir golfvellir biðu. Eitthvað lengst í burtu. Suður fyrir miðbaug þar sem vetur var sumar. Augu Kjartans leituðu út í horn á hlutlausri skrifstofunni. Hvít golfkúla, pútter og hola úr plasti. Með litlu flaggi. Jólagjöf frá börnunum sem kom sér vel þegar skjólstæðingarnir mættu ekki. Það gerðist að vísu sjaldan en engu að síður var hann orðinn mun betri í púttum en öðrum höggum. Skrifstofugolfari. Ef hann kæmist í tveggja vikna frí á heitari slóðir gæti hann rétt þessa skekkju af. Hvílt sig í leiðinni á þessum eilífa vetri.

Líf hans skorti stuttbuxur og bjór. Vinnustaðakaffi og ofgnótt skjólstæðinga bætti ekki úr þessum skorti. Síst af öllu maður á borð við þann sem sat fyrir framan hann í augnablikinu. Hann var frekar litlaus en kvartsár og Kjartan átti erfitt með að halda þræði þegar hann hitti hann á morgnana en gat það engan veginn undir lok dags.

Maðurinn sem hét Bogi blés mæðulega frá sér. Andlitið og fasið báru merki þess að á honum hvíldi allt böl heimsins. „Hvað myndir þú gera? Ég er alveg ráðalaus. “

Kjartan var líka ráðalaus. Hann hafði ekki lagt við hlustir á meðan Bogi útlistaði vandamálið fyrir honum. Var of upptekinn af hugleiðingum um eigin þreytu. Um óttann við að vera útbrunninn, þó ekki væri nema tímabundið. Hver myndi lá honum það? Hann þekkti nokkra sem unnu lengri vinnudag en þeir sinntu annars konar starfi sem var ekki jafn andlega krefjandi. Hann hafði ekki tekið sér almennilegt frí í tvö ár. Vinnusemin hafði kostað hann ýmislegt, ekki bara forgjöfina heldur líka lífsgleðina.

Þögnin var orðin vandræðalega löng og Kjartan varð einhvern veginn að snúa sig út úr þessu. Það gekk ekki að biðja manninn um að endurtaka söguna. „Manneskjur eru mismunandi. Lausn sem hentar mér myndi ekki endilega reynast þér vel. Hvað þætti þér eðlilegt að gera í stöðunni?"

„Ég sagðist vera ráðalaus. Þess vegna spurði ég þig. Ég veit ekki hvað ég á að gera. Sagðirðu ekki f síðasta tíma að það versta væri að gera ekkert þegar maður stæði frammi fyrir erfiðum vandamálum?"

„Jú. Og það er alveg rétt. En ég sagði líka að þú ættir að gefa þér tíma til að velta slíkum vandamálum fyrir þér. Sem og mögulegum lausnum. Og hafa það í huga að oftar en ekki er engin ein leið rétt.“ Kjartan þóttist skrifa eitthvað hjá sér á meðan hann renndi yfir punktana frá því í sfðasta tíma. Þeir voru fáir. Tilgangslausar teikningar af kössum og gormum minntu hann á að honum hafði sjálfum leiðst alveg jafn mikið þá og nú. Og þó hafði það verið fyrir hádegi.

Hinn drepleiðinlegi Bogi. Litlu skárri en hinn miðaldra skjólstæðingur hans, þessi síkvartandi Mörður sem þó hafði það með sér að kunna heilmikið fyrir sér í tölvum. Hann hafði tekið að sér að útbúa tímapöntunarkerfi fyrir Kjartan og hina sálfræðingana sem voru með stofur í þessu litla samlagi - gegn góðum afslætti af tímagjaldinu að sjálfsögðu. Kjartan yrði samt að fara að fella niður afsláttinn. Það gekk ekki að láta þau kjör gilda um aldur og ævi. Það var ekki eins og kerfið hefði verið ókeypis. Mörður hafði reyndar skrópað í tímanum fyrr um daginn, svo kannski styttist í að hann hætti af sjálfsdáðum. En svo heppinn yrði Kjartan líklega ekki. Menn eins og Bogi og Mörður voru yfirleitt komnir til að vera.

Bogi. Maður sem vann of mikið og átti of fáar gleðistundir. Lifði almennt leiðigjörnu lífi. Ef Kjartan gerði ekki eitthvað í sínum málum myndi miðaldra útgáfa hans sjálfs líkjast Boga.

Hann reyndi að gretta sig ekki yfir þessum hugsunum og minnti sjálfan sig á að hann væri öllu myndarlegri og áhugaverðari en maðurinn með flöskuaxlirnar sem sat fyrir framan hann. Það var í sjálfu sér ekki erfitt. Ef Bogi væri mánuður væri hann febrúar, uppfyllingarmánuður sem þjónaði eingöngu þeim tilgangi að vera brú frá vetri yfir í næstum vor. Kjartan var ekki viss um hvaða mánuður hann væri sjálfur. Skárri en mars, verri en júlí. Mögulega ágúst.

Bogi hélt áfram. „Þetta er ekki vandamál sem ég get gert neitt í. Þetta er liðið. Ég veit ekki af hverju ég er alltaf að velta mér upp úr þessu. Ég hef ekki hugmynd hvernig ég á að takast á við þessar vangaveltur. Þú ert sérfræðingurinn. Og hvað hefðirðu sagt mér að gera ef ég hefði leitað til þín þegar ég var ungur? Hvað ráðleggurðu öðrum skjólstæðingum? Alveg er ég viss um að margir af þessum krökkum sem þú sinnir aðallega standa frammi fyrir þessu sama.“

„Ég mun ekki ræða aðra skjólstæðinga við þig, Bogi. Ekki frekar en ég ræði þín mál við þá.“ Kjartan leit upp úr glósunum sínum. „Svo veit ég ekki hvaðan þú hefur upplýsingar um það hverjum ég sinni.“

Höfuðið á Boga hrökk aftur á bak, eins og honum hefði brugðið. Kannski hafði hann hljómað of hörkulega. „Ég byggi þetta nú bara á því sem ég sé frammi á biðstofunni. Þar eru mjög gjarnan krakkar.“

Kjartan kinkaði kolli. „Snúum okkur aftur að þér. Kannski er þessi fortíðarþrá yfirskin. Vandamálið liggur mögulega ekki í hinu liðna heldur deginum í dag. Með því að vera stöðugt að hugsa til baka, forðastu að takast á við vandamálin sem þú glímir við núna. Farðu nú yfir það sem hrjáir þig í nútímanum, til tilbreytingar. Þú veist hvað það hjálpar mikið að koma hlutunum í orð. Mig grunar að ef þú horfist í augu við þau muni fortíðin skipta þig minna máli.“

(100-2)