Áferð

Áferð, Ófeigur Sigurðsson
Útgefandi: 
Staður: 
Reykjavík
Ár: 
2005
Flokkur: 

um bókina

Maðurinn frá Hvergilandi skröltir um ókunnar þriðja heims lendur í leit að einhverju, engu, öllu, hattinum sínum og sjálfum sér. Stíllinn lyktar af sagga og brennisteini líkt og sjálfur andskotinn mygli á húsbitanum. Áferð er þeirra sem hafa dug til að lifa í bók.

úr bókinni

Enn og aftur vel ég stöð af handahófi, sem kannski hefur ekki alltaf reynst vel, en það bægir burt grunsemdum að standa ekki eins og álka að hugsa sig um. Ég hrifsa töskuna, sveifla henni í hring upp í loftið, fólkið í lestinni þarf að passa sig, skýst út um dyrnar rétt áður en þær lokast, og æði rakleitt út af stöðinni. En hérna fyrir utan eru allt of stórar byggingar og heilu akrarnir af túristum, þannig að ég hlýt að hafa lent í helvítis miðbænum. Hér er allt sem ég vil forðast. Í staðinn fyhrir að snúa við og vekja upp grunsemdir um efasemdir mínar geng ég ákveðinn af stað í þá átt sem ég tel hvað fýsilegasta, auðvitað án þess að líta í kringum mig, slakur í framan, með svona vís-til-alls svip. Það ætti að halda þjófum, glæpamönnum og unglingahópum í burtu.

Ég hlýt að vera búinn að labba í fimm klukkutíma fram hjá fimmtíu hótelum þegar byrjar að rökkva. Svipnum mínum held ég ennþá, þrátt fyrir að nánast enginn sé á götunum sem ég geng. Maður veit aldrei. Það er alltaf verið að fylgjast með manni bak við gluggatjöld og úr húsasundum. Þá sé ég gamalt skilti með rúmi á, það veit kannski á gott. Þetta er einhverskonar skrifstofa. Dyrnar eru læstar en ég sé konu þarna inni. Hún lítur upp og sér mig. Án þess að hika, mér til undrunar, kemur hún og opnar, og býður mér inn. Get ég hjálpað? Já, segi ég, og stíg varkár inn fyrir og rannsaka krullurnar hennar. Aldrei verið mikið fyrir konur með krullur, en það virðst vera að breytast. Það ódýrasta sem ég veit um? spyr hún á móti, nú það eru farfuglaheimilin, í átján manna herbergjum. Ég fæ hroll. Massahroll. Það er samevrópskt verð; þúsundkall nóttin í krónum reiknað. Ég segist ekki hafa efni á því... ég hafi ákveðna summu fyrir ákveðinn tíma. Allt í einu dettur mér í hug að ljúga að henni að ég sé skáld og hafi komið til þess að leggja lokahönd á ljóðabókina Á fæti faralds sem eigi eftir að slá í gegn. Ró, næði og einhvera sé algert skilyrði fyrir því að meistaraverkið geti fullkomnast. Við þessar upplýsingar veðrast konan öll upp og segir mér að fá mér sæti og taka því rólega. Því næst tekur hún upp símann, fær samband og blaðrar eitthvað með tón sem gefur mér von. Hún brosir til viðmælandans á hinum enda línunnar. Hún hlýtur að skrifa ljóð sjálf, hugsa ég, sem er mjög líklegt þar sem 80% af fólksfjölda heimsins skrifar ljóð, mun fleiri en kunna að lesa og skrifa, og hún er kannski ein af því 1% sem tekur það alvarlega, í tómstundum. Konan leggur á og segir mér að fylgja sér. Hún er jafnvel ein af 0,0000000001% sem skrifar læsileg ljóð. Þetta er hérna rétt hjá, segir hún.  Já, já, segi ég, en hugsa: Hvað er hérna rétt hjá?

(s. 86-87)