36 ljóð

Höfundur: 
Útgefandi: 
Staður: 
Reykjavík
Ár: 
1983
Flokkur: 


Úr 36 ljóðum:

[Þú gekkst mér við hlið]

Þú gekkst mér við hlið
að garði sofenda
vorkvöld þegar sólin
seig rauð til eyja.
 Svo reikaði ég einn
 hjá algrónum þúfum
 og rýndi, fávís
 þau rök: að deyja.

Línur sem ég kvað
um kvöldstund þessa
um leiðin og grasið
og gamlan nafna minn
þær lagðir þú allar
þér á ljóðelskt hjarta -
sem nú er komið
í næturstað sinn

því nú ert þú sjálfur
sofnaður í jörðu.
Þú heyrir mig ekki
er ég hugsa til þín
né veizt þó ég signi
yfir svörð þinn grænan
þegar vorkvöldsbjarmi
um Vesturdal skín.

Svo er því farið:
 Sá er eftir lifir
 deyr þeim sem deyr
 en hinn dáni lifir
 í hjarta og minni
 manna er hans sakna.
 Þeir eru himnarnir
 honum yfir.

Dáinn er ég þér.
En þú munt lifa
undir himni mínum
þar til myrkvast hann.
Missa hlýt ég þá
eins og þú hefur gert
 ljós dagsins
 land, sögu, hvern mann.

(s. 26-27)