1 1/2 bók Hryllileg saga

Útgefandi: 
Staður: 
Reykjavík
Ár: 
2006
Flokkur: 

Um bókina:

Í 1½ bók – Hryllilegri sögu tekst Guðbergur Bergsson á við íslenska menningu og áhrifavalda hennar, allt frá því að Íslendingar tilheyrðu Danaveldi til samtímans. 
 
Skáldsagan er hlaðin eftirminnilegum konum, allt frá dönsku bakarafrúnni frú Fiole sem Fjólugatan ku vera kennd við til hinnar þýsku Sophie von Knorr sem telur hland vera allra meina bót og systranna Kristínar og Jóhönnu sem eru að leita að einhverju meira en hvunndagslegri tilveru með hvunndagslegum eiginmönnum.
 
Skyggnst er undir yfirborð íslensks samfélags og tekist á við sannleikann og söguna og ekki síst hugmynd Íslendinga um sjálfa sig.

Úr 1 1/2 bók Hryllilegri sögu

Kristín reyndi hvorki að verja sig né sína sannfæringarlausu sannfæringu. Þegar hún ætlaði að safna matarrusli í bréfpoka til að gefa fátækri konu, lét hún sem hún sæi ekki manninn. Fátæka konan átti í bakgarði ofarlega við Hverfisgötuna nokkrar hænur sem voru hvorki matvandar né góðu vanar og kroppuðu í sig jafnvel fiskbein án þess að þau stæðu í hálsinum á þeim. Vegna þeirra verptu þær að sögn bragðbetri eggjum en aðrar reykvískar hænur Kristín gat borið vitni um það, konan launaði henni gjafmildina með því að láta hana njóta þeirra. Hún gaf henni aldrei öll vegna þess að maðurinn hennar var sólginn í eggjahvítu en fúlsaði við rauðunni, leit á hana sem eitthvað kvenlegt. Kristín var þakklát fyrir eggin en naut þeirra ekki sjálf heldur gaf vinkonu sinni, snauðari konu en hinni. Manninum hennar fannst gott að bryðja eggjaskurn og taldi sig þess vegna vera með bestu neglur í bænum og fyrir bragðið lá hann mikið heima til þess að eyðileggja þær ekki með vinnu. Konan skildi það og lét hænurnar éta allt sem gekk niður af honum. Líklega hafa þær ekki viljað fá annað í gogginn og verptu tvíblóma. Kristín naut góðs af og sauð tvíblóma egg í manninn sinn. Þannig fóru gjafirnar krókaleiðir sem hún kunni að meta sem hringrás lífsins. Eggjafléttan var í hennar augum ensk undraleið án þess að reynt væri að fela ógeðfellt eðli hennar. Svona laumuspili hafði hún kynnst á Englandi, að ganga aldrei hreint til verks eða snúa sér beint að efninu heldur örugglega á ská. Egg voru í eðli sínu flókin og áttu skilið að fá að fara krókaleiðir, ekki beint úr hænunni í magann á mönnunum. Það hefði verið móðgun. Egg var hugmynd og hlutur en öðru fremur tákn fyrir uppruna heimsins. Hún hafði þetta eftir Virginíu Woolf en fannst það ekki vera stór sannleikur.

(81-82)