Bensi og aðrir fuglar - Dagskrá

Bókmenntaborgin Tartu logo

BENEDIKT GRÖNDAL SKÁLD í Brennidepli Í OKTÓBER 2017

Frítt var inn í Gröndalshús allan mánuðinn á opnunartíma hússins, fimmtudaga – sunnudaga kl. 13 – 17. Einnig var frítt inn á alla viðburði í húsinu í október. 

Skólahópar gátu pantað heimsókn í húsið utan opnunartíma. 

Dagskrá:

Þriðjudagur 3. október
Gröndalshús v. Fischersund kl. 20:00
SKÁLDIÐ BENEDIKT GRÖNDA
L

Guðmundur Andri Thorsson rithöfundur spjallar um skáldið Benedikt Gröndal. Gröndal var fyrst og fremst þekktur sem ljóðskáld á sinni tíð en hann skrifaði líka háðsádeiluna Sagan af Heljarslóðarorrustu og fleiri prósaverk. Sjálfsævisaga hans, Dægradvöl, sem var gefin út löngu eftir dauða Gröndals er meðal skemmtilegustu og eftirtektarverðustu bóka af því tagi á íslensku, ekki síst fyrir húmor og einlægni, og er m.a. sögð hafa haft áhrif á skrif Þórbergs Þórðarsonar.

Guðmundur Andri þekkir skáldskap Gröndals vel. Skáldsaga hans Sæmd byggir m.a. á viðburðum í lífi Gröndals frá kennslutíð hans í Lærða skólanum og dregur Guðmundur Andri þar upp einstaklega lifandi og næma mynd af skáldinu og mannlífi í Reykjavík undir aldamótin 1900. Hér verður skáldið Benedikt í öndvegi í spjalli skáldbróður hans. 

Ekkert kostar inn á dagskrána en þar sem sætapláss í stofum Gröndals er takmarkað þarf að bóka þátttöku hér: Skráning á dagskrá með Guðmundi Andra

Föstudagur 6. október
HANN Á AFMÆLI HANN BENSI!
Blysför og sýningaropnun til heiðurs Benedikt Gröndal
Frá Gröndalshúsi kl. 16:30

Sýningaropnun Þjóðarbókhlöðu 17:30

Benedikt Gröndal fæddist þann 6. október 1826 og þennan dag er því 191 liðið frá fæðingu þessa litskrúðuga rithöfundar, lista- og fræðimanns. Bókmenntaborgin og Landsbókasafn Íslands - Háskólabókasafn bjóða til afmælisfagnaðar til heiðurs skáldinu sem hefst við Gröndalshús í Grjótaþorpi og lýkur á sýningaropnun í Þjóðarbókhlöðunni.  Þórarinn Eldjárn rithöfundur, Sigurður Skúlason leikari og Teitur Magnússon tónlistarmaður koma fram auk sýningarstjóranna Halldóru Kristinsdóttur og Guðrúnar Laufeyjar Guðmundsdóttur. Landsbókavörður, Ingibjörg Steinunn Sverrisdóttir, opnar sýninguna.

Þegar Gröndal varð áttræður árið 1906 fóru nemendur hans úr Lærða skólanum blysför að heimili hans, sungu fyrir skáldið og lásu honum ljóð. Nú, 111 árum síðar, kveikjum við á blysum fyrir skáldið að nýju við hús hans, sem stendur á horni Fischersunds og Mjóstrætis ekki langt frá upprunalegum stað þess við Vesturgötu. 

Safnast verður saman við Gröndalshús kl. 16:30. Þórarinn Eldjárn rithöfundur og Sigurður Skúlason leikari taka á móti gestum á tröppum skáldsins og flytja okkur stutta dagskrá. Síðan verður gengið í Þjóðarbókhlöðuna með viðkomu á leiði skáldsins í Hólavallagarði þar sem afkomendur Gröndals, feðgarnir Skúli Jónsson og Jón Pétur Skúlason, leggja blóm á leiðið. 

Í Þjóðarbókhlöðunni verður sýningin „MYNDAÐI JEG STAFI OG MARGA DRÁTTU…“ – BENEDIKT GRÖNDAL – SKRIFARINN OG SKÁLDIÐ opnuð kl. 17:30 með tónlist, tali og veitingum. Á sýningunni er fjallað um líf og störf Benedikts og sýnt úrval af handritaarfi hans. Sýningarstjórar eru Guðrún Laufey Guðmundsdóttir og Halldóra Kristinsdóttir sérfræðingar á handritasafni Landsbókasafns. Þær munu segja frá handritum skáldsins í safninu og Teitur Magnússon flytur lag við ljóð Benedikts.

Kjörgripur Landsbókasafns í október er handrit Benedikts Gröndals að Dægradvöl

Allir eru hjartanlega velkomnir í afmælisfagnaðinn. 

Laugardagur 7. október
Bessastaðakirkja, Álftanesi kl. 14:00 – 15:30
MAÐUR Á ALDREI AÐ HALDA SÉR TIL ANNARS EN ÞESS SEM ER ÁGÆTT

Félag áhugamanna um sögu Bessastaðaskóla, Lista og menningarfélagið Dægradvöl og Fugla- og náttúruverndarfélag Álftaness standa fyrir dagskrá sem helguð er Benedikt Gröndal.
Ragnheiður Gröndal, Guðmundur Pétursson og Teitur Magnússon flytja tónlist og haldin verða erindi um skáldið. 
Guðmundur Andri Thorsson, rithöfundur: „Af náttúru var ég fúll og einrænn.“
Pétur Gunnarsson, rithöfundur: „Allt sem ég gerði, það gerði ég út í bláinn.“
Kristín Viðarsdóttir, verkefnastjóri hjá Bókmenntaborginni Reykjavík, kynnir Gröndalshús. 

Eftir dagskrána, um kl. 15, býðst gestum að ganga til Bessastaðastofu og skoða útgefin verk Gröndals og skrifpúlt hans og föður hans, Sveinbjarnar Egilssonar.

Dagskráin er öllum opin. 

Þriðjudagur 10. október
Gröndalshús v. Fischersund kl. 20
GRÖNDAL OG NÁTTÚRAN

Kristinn H. Skarphéðinsson segir frá náttúrufræðingnum. Benedikt Gröndal var fyrsti formaður Hins íslenska náttúrufræðifélags. Hann lagði stund á náttúrufræðinám í Kaupmannahöfn og var alla tíð ástríðufullur í áhuga sínum á náttúru Íslands, hvort sem var sem fræðimaður eða listamaður. Teikningar Gröndals í bókum hans Dýraríki Íslands og Íslenskir fuglar komu ekki fyrir almenningssjónir fyrr en löngu eftir dauða hans en hafa á undanförnum árum átt þátt í að lyfta upp nafni hans á nýjan leik. 

Kristinn H. Skarphéðinsson dýravistfræðingur mun spjalla um náttúrufræðinginn Benedikt Gröndal og meðal annars gefa mynd af manninum sem óð um fjörur Reykjavíkur í sjóklæðum í „kvikindadaleit“ svo vitnað sé til orða Gröndals. Þessi kvikindi dró hann síðan heim í hús sitt á Vesturgötunni og teiknaði eftir þeim í stofunum sem við getum nú sest niður í og fræðst um þennan merkilega fræði- og listamann.

Ekkert kostar inn á dagskrána en þar sem sætapláss í stofum Gröndals er takmarkað þarf að bóka þátttöku hér: Skráning á dagskrá með Kristni H. Skarphéðinssyni

Þriðjudagur 17. október kl. 20
Gröndalshús við Fischersund
GRÖNDALSHÚS, SAGA OG ENDURGERÐ

Hjörleifur Stefánsson arkitekt spjallar um sögu Gröndalshúss og segir frá endurnýjun þess. Hann var arkitekt endurgerðarinnar sem Minjavernd annaðist fyrir Reykjavíkurborg. Hér mun Hjörleifur segja frá sögu þessa sérstæða húss sem oft gekk undir nafninu púltið, skrínan eða skattholið eftir að það reis við Vesturgötuna undir aldamótin 1900. 

Gröndalshús var byggt af Sigurði Jónssyni járnsmiði árið 1882 og hýsti það smiðju hans og heimili. Benedikt Gröndal skáld eignaðist svo húsið árið 1888, breytti smiðjunni í stofur og bjó í því til dauðadags ásamt dóttur sinni og vinnustúlkum. Reykjavíkurborg keypti húsið vegna menningarsögulegs gildis þess og var það endurgert af Minjavernd á nýjum stað í Grjótaþorpinu, en húsið stóð upphaflega við Vesturgötu 16b.

Gröndalshús var opnað sem menningar- og skáldahús í júní síðastliðnum og er nú sönn bæjarprýði þar sem það stendur á horni Fischersunds og Mjóstrætis. Saga hússins er bæði merk og forvitnileg og hér mun Hjörleifur rekja hana og gefa innsýn í endurgerðina sem var eins trú uppruna hússins og mögulegt var. 

Ekkert kostar inn á dagskrána en þar sem sætapláss í stofum Gröndals er takmarkað þarf að bóka þátttöku hér: Skráning á dagskrá með Hjörleifi Stefánssyni

Miðvikudagur 18. október 
Gröndalshús við Fischersund kl. 20:00-21:30
Ljóðakvöld, aftur

Skáld og verk: 
Kristín Ómarsdóttir, Köngulær í sýningargluggum 
Soffía Bjarnadóttir, Ég er hér
Sigurlín Bjarney Gísladóttir, Tungusól og nokkrir dagar í maí
Fríða Ísberg, Slitförin 
Hallgrímur Helgason, Fiskur af himni
Kynnir er Atli Sigþórsson, Hin svarta útsending/kött grá pje

Fimmtudagur 19. október
Kaffislippur kl. 17:00
SKÁLD, SJÓR OG HAFNIR

Fjögur skáld frá Reykjavík, Gautaborg, Newcastle og Þórshöfn í Færeyjum koma saman í Reykjavík vikuna 16. – 21. október og vinna saman að textum um vötn og hafnir í húsi Benedikts Gröndals, Gröndalshúsi. Líkt og hann munu þau kanna strendur borgarinnar og spinna út frá því texta sem verða birtir á vef Bókmenntaborgarinnar síðar í vetur. Þau eru hluti af stærri hópi rithöfunda frá þessum borgum sem taka þátt í verkefninu Waters and Harbours in the North. Borgirnar eru allar hafnarborgir sem standa við sjó eða á sem renna til sjávar. Að verkefninu standa Författarcentrum í Gautaborg, Norðurlandahúsið í Færeyjum, New Writing North í Newcastle og Reykjavík Bókmenntaborg UNESCO.

Fimmtudaginn 19. október koma skáldin fram á Kaffislipp, segja frá verkefninu, kynna sig og lesa upp. Skáldin eiga það öll sameiginlegt að vera ung og hafa vakið athygli með fyrstu verkum sínum. Þau eru Jónas Reynir Gunnarsson (Reykjavík), Hanna Wikman (Gautaborg), Degna Stone (Newcastle) og Trygvi Danielsen (Þórshöfn). 

Jónas Reynir Gunnarsson er fæddur 1987. Hann lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum á Egilsstöðum og grunn- og meistaranámi í ritlist frá Háskóla Íslands. Jónas hefur birt ljóð í Tímariti Máls og menningar og Stúdentablaði Háskóla Íslands, þar sem hann hlaut fyrsta sæti í árlegri ljóðakeppni blaðsins 2014. Árið 2015 varð hann hlutskarpastur í leikritunarkeppni sviðslistadeildar Listaháskóla Íslands með verkinu Við deyjum á Mars og sama ár kom út smásagan Þau stara á mig hjá Partusi. Fyrsta ljóðabók Jónasar, Leiðarvísir um þorp, kom einnig út hjá Partusi haustið 2017, sem og fyrsta skáldsaga hans, Millilending

Hanna Wikman er fædd 1981. Hún er rithöfundur, ritlistarkennari og bókavörður frá Kramfors en býr nú og starfar í Gautaborg. Hanna var í hópi sem skipulagði og heldur úti námskeiði um feminískar og "trans-seperate" bókmenntir undir heitinu "Þögn þín mun ekki vernda þig" í Kvinnofolkhögskolan. Hún stýrir einnig ritsmiðjum í tengslum við bókasafnið í Biskopsgården og kennir ritlist við Götlands folkhögskola.

Skáldsaga Hönnu, Lift, kom út hjá Kabusa árið 2010 og hún hefur líka birt ljóð í tímaritum, svo sem Bang og Provins. Í haust koma ljóð eftir hana út í safnriti og önnur skáldsaga hennar, Härdar, er væntanleg en í henni fjallar Hanna um ólík efni, svo sem verkalýðsmál, skógrækt, antifasisma, þrá og ást. 

Degna Stone er ljóðskáld og framleiðandi. Hún er fædd og uppalin í Midland sýslu en býr núna í Tyne and Wear. Hún er einn stofnenda og ritstjóra tímaritsins Butcher‘s Dog. Degna er með meistaragráðu í ritlist  frá Háskólanum í Newcastle og er eitt þeirra skálda sem tekið hafa þátt í Complete Works verkefninu. Degna hlaut Northern Writers verðlaunin árið 2015. 

Trygvi Danielsen er fæddur árið 1991. Hann er rithöfundur, skáld, kvikmyndagerðarmaður og tónlistarmaður . Hann sendi frá sér safn smásagna, ljóða og tónlistar árið 2013 og var verðlaunaður sem besti ungi listamaður Færeyinga árið 2014 af listasjóði Færeyja. Stuttmynd eftir Trygva var sýnd á kvikmyndahátíð í Palestínu 2016 og sem stendur leggur hann lokahönd á nýja mynd. Trygvi vinnur líka að nýju safni texta og tónlistar sem kemur út síðla á þessu ári eða í byrjun þess næsta.

Tónlist eftir Trygva má heyra hér 

Þriðjudagur 24. október
Gröndalshús við Fischersund kl. 20
GRÖNDAL OG MYNDLISTIN

Guðmundur Oddur Magnússon, Goddur, spjallar um myndlistarmanninn Benedikt Gröndal. Gröndal var bæði skáld og myndlistarmaður og raunar margt fleira. Honum hefur þó ekki verið haldið á lofti sem miklum myndlistarmanni og er til að mynda ekki getið í myndlistarsögu Íslands sem kom út fyrir nokkrum árum. Gröndal var sjálfmenntaður í myndlist og bæði teiknaði og málaði, en á síðari árum hafa teikningar hans af dýrum í íslenskri náttúru orðið þekktar í kjölfar útgáfu á bókunum Dýraríki Íslands og Íslenskir fuglar

Guðmundur Oddur Magnússon, prófessor við Listaháskóla Íslands telur framlag Gröndals vanmetið og hér mun hann gefa okkur mynd af myndlistarmanninum Gröndal og og setja hann í samhengi við list 19. aldar. 

Ekkert kostar inn á dagskrána en þar sem sætapláss í stofum Gröndals er takmarkað þarf að bóka þátttöku hér: Skráning á dagskrá með Goddi

Miðvikudagur 25. október
Menningarhús Gerðubergi kl. 20:00 – 22:00
BÓKAKAFFI - GRÖNDAL PÉTURS GUNNARSSONAR

Pétur Gunnarsson rithöfundur spjallar um Dægradvöl Benedikts Gröndal, ævisögur og ævisagnaskrif. Sjálfsævisaga Gröndals, Dægradvöl, er ein rómaðasta og ástsælasta sjálfsævisaga íslenskrar bókmenntasögu, einstök heimild um Reykjavík undir aldamótin 1900 og lifandi lesning. „Í bókinni kynnumst við einstökum sögumanni sem hlífir engum og síst sjálfum sér, hann birtir okkur horfna tíma í vægðarlausu ljósi og síðast en ekki síst er hann frábær rithöfundur, hann kemur á óvart á hverri síðu og það er sama hvar gripið er niður, alltaf er stíllinn ferskur, lifandi og óvæntur,“ segir Jón Yngvi Jóhannesson, bókmenntafræðingur, um Dægradvöl.

Pétur Gunnarsson er þaulkunnugur Gröndal og Dægradvöl hans. Pétur sendi sjálfur frá sér bókina Skriftir á síðasta ári, þar sem hann er á persónulegri nótum en oft áður. Þar lýsir hann fyrstu skrefum sínum inn á ritvöllinn, segir frá andrúmsloftinu í stóra fjölskylduhúsinu og viðkvæmum mótunarárum þegar sjálfsvitundin tekur heljarstökk.

Þriðjudagur 31. október
Gröndalshús við Fischersund kl. 20:00
SÖGUR AF BENSA

Guðrún Egilson spjallar um manninn Benedikt Gröndal. Gröndal var litríkur maður og setti svip á bæjarlífið á síðari hluta 19. aldar. Hann bjó við Vesturgötuna frá 1888 í húsinu sem nú stendur á horni Fischersunds og Mjóstrætis og er kennt við hann. Guðrún Egilson íslenskukennari er ættingi Gröndals. Hún þekkir ævi hans vel og margar sögur sem gengið hafa af honum í fjölskyldunni. Hér ætlar hún að setjast niður í stofu Gröndals og deila nokkrum þeirra með okkur.  Gröndal var skáld, teiknari, þýðandi og fræðimaður en hann var líka einstæður faðir, ekkill sem saknaði konu sinnar sárt, drykkjumaður og ólíkindatól sem hafði sterkar skoðanir á mönnum og málefnum og lá ekki á þeim. 

Þessi viðburður rekur endahnútinn á dagskrá sem Bókmenntaborgin helgar skáldinu í afmælismánuðinum.

Ekkert kostar inn á dagskrána en þar sem sætapláss í stofum Gröndals er takmarkað þarf að bóka þátttöku hér: Skráning á dagskrá með Guðrúnu Egilson