Verndargripur

Verndargripur eftir Roberto Bolaño í þýðingu Ófeigs Sigurðssonar
Höfundur: 
Ár: 
2016
Útgefandi: 
Staður: 
Selfoss
Höfundur umfjöllunar: 

Tími, tannleysi og tíðarandi

Í fróðlegum eftirmála að stuttu skáldsögunni Verndargripur (Amuleto) eftir síleska höfundinn Roberto Bolaño nefnir þýðandinn, Ófeigur Sigurðsson, að verkið sé líklega það sjálfsævisögulegasta af skáldsögum höfundar og að það myndi einskonar millikafla eða ‚brú‘ milli tveggja stórra skáldsagna hans, Villtu spæjaranna og 2666. Á sama hátt má segja að sagan segi lesendum sitthvað um þýðandann, skáldskap hans og áhrifavalda, en slíkt er ekki óalgengt þegar um þýðingar rithöfunda er að ræða. Ófeigur var enda tilnefndur til Íslensku þýðingaverðlaunanna fyrir Verndargripinn og er vel að þeirri tilnefningu kominn, textinn er lipur og ljós og lesandi hverfur auðveldlega inn í andrúmsloft sögunnar.

Þessi tengsl þýðanda, höfundar og verks, og milli verka höfundar eru síðan afar viðeigandi fyrir Verndargripinn sjálfan, en sagan einkennist af margháttuðum tengslum við skáldskap Suður-Ameríku, eins og Ófeigur bendir á í eftirmálanum. Bókin kemur út nokkru eftir að hinar áhrifamiklu töfra-raunsæissögur nutu hvað mestra vinsælda og sækir að nokkru leyti til þeirra, en þó hvað helst til höfundanna Julio Cortázar og Jorge Luis Borges, sem hafa nokkra sérstöðu innan þessarar greinar. Þeir sem þekkja verk þessara höfunda sjá vel ummerki þeirra, en þeir sem gera það ekki þurfa ekkert að óttast, Verndargripur er sjálfstætt verk og áhrifamikil saga, hvort sem er í þessu margþátta samhengi eða stök.

Áhrifamátturinn kemur meðal annars til af því að sagan gengur að miklu leyti út á allskonar samhengi og tengsl og er byggð upp sem flókinn en fimlega ofinn vefur ýmissa þátta sem eiga það sameiginlegt að tengjast skáldskap og listum og pólitískum mætti menningar og menntunar. 

Sagan gerist að mestu leyti á seinni hluta sjöunda áratugarins en nær fram á þann áttunda og er sögð í fyrstu persónu af Auxilio Lacouture, konu á óræðum aldri sem er frá Úrúgvæ en býr ólöglega í Mexíkóborg. Hún umgengst aðallega skáld, helst ungskáld, en líka þau eldri og virkar á stundum eins og brú milli kynslóða. Bókin er því full af skáldum og lýsingum á skáldskap þeirra og þá sérstaklega bóhemsku næturlífi. Sjálf borgin kemur líka heilmikið við sögu, götur, hverfi og krár. Auxilio er móðir og músa skáldanna, hún lætur þau borga ofan í sig drykki, en borgar sjálf marga umganga með nærveru sinni, samræðum og þekkingu. Hún lýsir sjálfri sér sem aðlaðandi, en hefur misst fjórar framtennur. Missinum skýlir hún með því að bregða hönd fyrir munninn þegar hún talar eða brosir, enda er hún háttvís kona. Hér mætti velta fyrir sér merkingu tannlausrar móður/músu en þó með varúð því táknheimur verksins er víðtækur og nokkuð í ætt við völundarhús Borgesar.

Myndlistin kemur líka við sögu, þá sérstaklega súrrealískar myndlistakonur sem af ýmsum ástæðum settust að í Suður-Ameríku á sjöunda áratugnum. Auxilio hittir eina þeirra, Remedios Varo, eða réttara sagt hittir ekki, því fundur þeirra er uppspuni. Uppspuni er auðvitað hjarta skáldskaparins (í eftirmálanum kemur fram að bandarískir útgefendur hafi fundið sig knúna til að spinna upp sögur um Bolaño til að koma verkum hans á framfæri) enda teflir Bolaño hiklaust saman þekktum persónum við uppspunnar, eða gefur þekktum persónum dulnefni og svo framvegis. Í Verndargripnum er því unnið með ýmis mörk skáldskapar og veruleika, ekki síst þegar kemur að tímanum.

Einhversstaðar fyrir miðju verksins (en þó ekki) víkur sögunni að dvöl Auxilio á kvennaklósetti á fjórðu hæð í Mexíkóháskóla í september árið 1968. Herinn gerir innrás í háskólann sem hafði áður sérstakt sjálfræði, kennarar og nemendur eru handteknir og allt endar þetta með blóðugu fjöldamorði. Auxilio, sem meðal annars starfar við háskólann – þó alltaf á jaðrinum, við ýmis lausaverkefni – verður að miðpunkti hans (en þó ekki), þegar hún af tilviljun er stödd á snyrtingunni og finnst ekki þegar mokað er út úr skólanum. Þar er hún svo innilokuð matarlaus í þrettán daga og á þeim tíma rifjar hún upp dvöl sína í Mexíkóborg, bæði í fortíð og framtíð. Tíminn er því afstæður (og hér má sjá hvað greinilegast ummerki Borgesar), því minningar hennar eru ekki aðeins óljósar heldur án innistæðu því hún hefur ekki enn upplifað þá atburði sem hún minnist. Að auki eru minningar sem hún beinlínis býr til, eins og heimsóknin til Varo. Ekkert af þessu dregur úr sannleiksgildi þessara minninga, þær eiga sér allar tilverurétt – ekki síst þær sem snúast um framtíðina, því minnið umskapar ekki síður fortíð en framtíð.

Hér langar mig að nefna nýútkomna bók Gunnþórunnar Guðmundsdóttur, Representations of Forgetting in Life Writing and Fiction, sem kom út á síðasta ári, en þar fjallar hún einmitt um margvíslegar hliðar minninga og gleymsku. Eins og fram kemur í titlinum eru þessar spurningar iðulega tengdar æviskrifum, sjálfsævisögum og ævisögum, en eiga ekki síður við í skáldskap, enda mörkin þar á milli ekki alltaf ljós. Verndargripur Bolaño er einmitt gott dæmi um þetta, en skáldsagan er bæði að einhverju leyti sjálfsævisöguleg (eitt unga skáldið er einskonar hliðarsjálf höfundar) og söguleg.

Á vissan hátt er Verndargripnum beitt gegn gleymskunni, sagan viðheldur minningunni um fjöldamorðin á háskólafólkinu, en þó ekki með því að veifa þeim atburði framan í lesandann og lýsa honum í smáatriðum, heldur er vísað til hans stuttlega. Í staðinn flæða minningar Auxilio um skáld og skáldskap, ungdóm og næturlíf borgarinnar. Öllu þessu fylgir kraftur sem í sjálfu sér er uppreisnargjarn og því rammpólitískur, enda sýndi árásin á háskólann ljóslega að af menntun og menningu stafar eldfimri ógn.

Sagan sækir því heilmikið til tíðaranda tímabilsins sem hún tekur til, en þar er árið 1968 lykilár. Þetta er tímabil pólitískra átaka og hörmunga í Suður-Ameríku, þar sem tókust á bjartsýni og uppreisnargoð á borð við Che Guevara og banvænir einræðisherrar. Jafnframt vísar hún á sláandi hátt fram í tímann, en nú, 49 árum síðar virðist sem heimsbyggðin hafi lítið lært. Í dag talar Bandaríkjaforseti um að byggja múr á landamærum Mexíkó, en völd hans (og fleiri valdhafa, núverandi og vænlegum) byggja einmitt á því að bæla niður menningu og menntun. Í stað upplýsingar er stefnt að því að myrkva.

Slíkri myrkvun hafnar Verndargripur Bolaño. Sagan lýsir lífsþorsta, fögnuði og gleði, skáldskap og listum sem lifandi ögrandi náttúruafli sem ekkert fær stöðvað. Verkið getur svo ekki annað en vakið þorsta hjá lesandanum eftir meiri lestri og menntun; til dæmis eftir meiru af skáldskap Bolaños.

úlfhildur dagsdóttir, febrúar 2016