Smámyndasmiðurinn

Höfundur: 
Útgefandi: 

Sagan sem smámynd

Það verður að játast að ég er líklega ekki sú hlutlausasta þegar kemur að umfjöllun um smáhluti, en ég hef alla tíð heillast af smækkuðum útgáfum hluta og heima og hef ævinlega verið þeirra skoðunar að fegurðin felist í hinu smáa, hvort sem það eru smáatriði eða bara smámyndir. Þessi áhugi jarðrar við blæti, sem kannski kemur best fram í því að á heimilinu er hilla lögð undir altari þar sem smækkaðar útgáfur hinna ýmsu guða (ó)líkra trúarbragða deila rými systursamlega og skrafa saman á nóttunni meðan ég sef.

Það var því með nokkurri eftirvæntingu sem ég las bókina Smámyndasmiðurinn eftir bresku leikkonuna Jessie Burton, en hún kom út á ensku undir titlinum The Miniaturist árið 2014 og er fyrsta skáldsaga höfundar. Þessi enski uppruni kemur þó ekki í veg fyrir það að bókin gerist í Hollandi, nánar tiltekið í Amsterdam, síðla á sautjándu öld. Bókmenntafræðingurinn Daisy Neijmann, sem er einmitt hollensk að uppruna, segir að sjálfir séu Hollendingar ekki giska áhugasamir um að skrifa sögulegar skáldsögur og því sé það hið besta mál að einhverjir aðrir taki það að sér. Ég er allavega þakklát Burton. Daisy benti mér reynar á aðra bók sem einnig varð mjög vinsæl og er líka eftir breskan höfund, Deborah Moggach, Tulip Fever frá árinu 1999. Sú bók gerist einnig í Amsterdam á svipuðum tíma og bók Burton – svo það er ljóst að útlendingar eru að taka að sér að skrifa um þennan gullaldartíma Amsterdam.

Margt kemur saman í þessari sögulegu skáldsögu sem í raun er dæmi um smámynd sjálf, smækkaða útgáfu af sögu og (horfnum) menningarheimi, borg, borgarbúum, viðhorfum, trúarbrögðum og umfram allt fjölskyldum og heimilinu.

Eftir stuttan inngang hefst sagan á því að Nella, átján ára stúlka úr sveitaþorpi, kemur til Amsterdam. Erindi hennar er hvorki meira né minna að flytja inn til eins auðugasta og valdamesta kaupmanns borgarinnar, Jóhannesar Brandt, en þau hafa gengið í hagræðingar hjónaband. Hún er af fínni ætt sem hefur tapað öllu fé, en hann er ríkur og vantar fína konu.

Eins og lög gera ráð fyrir gengur stúlkan inn í aðra veröld, sem reynist full af leyndarmálum – en eins og Freud benti á er heimilið staður leyndardóma og feluleikja. Eiginmaðurinn er ekki heima, en í staðinn tekur systir hans Marín á móti henni, strangtrúuð kona sem gengur í svörtum fötum og sparar mjög mat og drykk. Þjónustustúlkan Kornelía virðist í fyrstu fjandsamleg en síðar reynist vel og svo er þar einkaþjónninn Ottó, blakkur á hörund og afar dularfullur – en traustur.

Loks þegar eiginmaðurinn kemur heim sýnir hann brúðinni og brúðarsænginni lítinn áhuga en gefur henni fínan perlumóðurslegin skáp sem hýsir smækkaða mynd af húsi hans. Og það er þar sem smámyndasmiðurinn kemur til sögunnar, því Nella fær að auki fé til að fylla skápinn af smámyndum, með það óljósa markmið að kenna henni eitthvað um húshaldið. Hún finnur auglýsingu í kaupmannabæklingi og sendir inn óskir um smámyndir sem reynast búa yfir eigin lífi, jafnvel vera einskonar spámyndir. Ljóst er að smámyndasmiðurinn þekkir gjörla til heimilishaga og veit meira en Nella sjálf. Þetta bæði heillar og hrellir stúlkuna, en hún er rík af ímyndunarafli – þó ekki hvarfli að henni ástæðan fyrir áhugaleysi eiginmannsins, né fattar hún hvað umgangur um miðjar nætur gengur út á. Vanur lesandi er hinsvegar fljótur að átta sig á að leyndardómar hússins eru bæði hættulegir íbúum þess og tilvist Nellu sjálfrar.

Og hvað sem segja má um fattleysi Nellu í upphafi þá styrkist hún mjög þegar á líður og tekur að lokum einhverskonar stjórn á þeirri upplausn sem yfirtekur heimilið eftir því sem atburðarásin herðist.

Sagan gerist á tíma kalvínismans, sem var mjög sterkur í Niðurlöndum og meinlæti mikilvægur hluti trúarinnar, en sykur og sætmeti er eitt af því sem kemur við sögu. Marín hatast út í allt sætt (en borðar sætmeti í laumi) og Jóhannes hefur tekið að sér að selja farm af sykri fyrir fyrrum vin og viðskiptafélaga sem áður hafði augastað á Marín, en var hafnað og giftist til fjár. Sykurinn verður að táknmynd þeirra ströngu smáborgaralegu viðhorfa sem fylgja kalvínismanum, viðhorfa sem á endanum valda mikilli óreiðu á hinu nýja heimili Nellu.

Og yfir öllu þessu vakir smámyndasmiðurinn, sem virðist vita lengra en nef hans nær, auk þess að sýna ótrúlega færni í gerð smámyndanna.

Blanda af hinu dulúðuga – með skammti af óhugnaði – og hversdagslega einkennir verkið og á stundum er jafnvægið dálítið viðkvæmt. Sérstaklega er hlutur smámyndasmiðsins sjálfs ekki alveg nægilega vel smíðaður, þó vissulega sé þar athyglisverð persóna. Í umfjöllun í Guardian þykir bókin ekki eins vel heppnuð og efni standa til og vissulega er þetta ekki gallalaust verk. Það kemur þó ekki í veg fyrir að lesturinn er vel þess virði, Burton gefur góða og smækkaða innsýn inn í heim(ili) sem hefur heillað marga og persónugalleríið fannst mér skemmtilega fjölskrúðugt. Bakgrunnur höfundar í leikhúsi birtist vel í því hvernig allar sviðsmyndir eru vel útfærðar og góður gaumur gefinn að smáatriðum í lýsingum sem kallar fram tilfinningu fyrir hinni auðugu málverkahefð þessa tíma – en herbergi Nellu er einmitt skreytt kyrralífs málverkum sem margir lesendur gætu kannast við (eða gúglað).

Myndrænt umhverfi skapar sögunni viðeigandi umgjörð, í ætt við hið klassíska bragð málverksins, að skapa mynd innan í mynd, innan í mynd.

úlfhildur dagsdóttir, júní 2016

Kyrralífsmynd eftir Pieter Claesz
Kyrralífsmynd eftir Pieter Claesz