Skóladraugurinn

Skóladraugurinn eftir Ingu Mekkín Beck
Höfundur: 
Útgefandi: 

Missir, læstar dyr og draugagangur

Skóladraugurinn eftir Ingu Mekkín Beck hlaut íslensku barnabókaverðlaunin í ár en sagan fjallar um það hvernig ung stúlka tekst á við breyttar aðstæður í lífinu og sorgina í kjölfar bróðurmissis. Sagan gerist á Íslandi nútímans og segir frá Gunnvöru sem flytur 11 ára gömul í smábæ úti á landi ásamt foreldrum sínum, eftir að bróðir hennar og amma láta lífið í bílslysi. Þegar sagan hefst er Gunnvör að byrja í skólanum á nýja staðnum og verður fyrsta daginn vitni að áhugaverðum samræðum skólastjórans og húsvarðarins. Samræðurnar vekja forvitni hennar en þær benda til þess að eitthvað dularfullt sé í gangi í ákveðinni kompu í kjallara skólans.

Í kennslustofunni fær Gunnvör sæti hjá Petru sem er alger námshestur og dálítið útundan í bekknum. Þrátt fyrir að þær séu nokkuð ólíkar tekst strax með þeim vinátta þó að Petra sé frekar hikandi í fyrstu, enda vön því að fólki finnist hún frekar skrítin. Í hádeginu þennan sama dag segir Hávarður skólastjóri bekknum söguna af hörmulegum örlögum skóladraugsins sem gengur aftur í skólanum. Hann liggur í dvala og vaknar samkvæmt þjóðtrúnni á 50 ára fresti með látum og leiðindum. Gunnvör er ekki lengi að átta sig á því að skóladraugurinn hefur eitthvað með kompuna í kjallaranum að gera og ákveður strax að hún verði að komast að því hvort hann sé til í raun.

Á sama tíma og Gunnvör reynir að finna leið til að komast í kompuna, sem er harðlæst, kemst hún að því að Petra er lögð í einelti af hrekkjusvínum í bænum. Eineltið tengist með óvæntum hætti leyndarmálinu í læstu kompunni og þegar Gunnvör kemst loksins þangað inn finnur hún margt sem vekur áhuga hennar, meðal annars ummerki eftir gamlan fjölskylduharmleik í bænum. Hún tekur að sér að hjálpa þeim sem áttu hlut að máli að vinna úr sorginni en á sama tíma verður söknuðurinn eftir bróður hennar sífellt áleitnari. Til þess að leysa verkefnið sem hún hefur tekið að sér þarf hún að leggja ýmislegt á sig, fara í ferðalag, takast á við hrekkjusvínin og foreldra sína sem eru mjög hrædd um hana og líst ekki á að hún sé að fara ein að þvælast útfyrir bæinn.  

Heimilislíf Gunnvarar er nokkuð erfitt. Hún saknar bróður síns mikið og foreldrar hennar eiga bæði erfitt með að takast á við lífið eftir slysið. Mamma hennar sökkvir sér í vinnu og pabbi hennar eigrar um, hvorugt þeirra er í stakk búið til að sinna þörfum Gunnvarar sem þarf sjálf að greiða úr erfiðum tilfinningum eftir bróðurmissinn. Draugasagan blæs henni von í brjóst því ef er til skóladraugur þá er alveg möguleiki að hún geti ennþá náð einhverskonar sambandi við bróður sinn, kannski jafnvel talað við hann.

Þó sagan fjalli um sorg og missi þá er hún líka draugasaga og er sem slík á köflum frekar hrollvekjandi. Frásögnin af Sigtryggi skóladraug er sögð í þjóðsagnastíl og er ekkert dregið undan í lýsingum á voðalegum örlögum hans. Hann er óhugnanlegur og illskeyttur draugur sem á harma að hefna eftir hræðilega meðferð í lifanda lífi. Hann er hins vegar ekki ósigrandi og eins og oft gerist í þjóðsögum og draugasögum getur hann tekið sönsum, sé rétt farið að honum. Örlög Sigtryggs eru hrikaleg og kannski ekki fyrir viðkvæma eða hrifnæma lesendur. Kápan á bókinni getur því virkað villandi fyrir lesendur því af henni má ætla að markhópurinn sé yngri lesendur, en líklega hentar hún þó betur fyrir efra miðstig, þ.e. um það bil 11 ára og upp úr.

Í raun er Skóladraugurinn byggð upp í kringum örlög þriggja persóna sem öll tengjast á óvæntan hátt þó svo að Gunnvör sé í aðalhlutverki í sögunni. Saga hennar fléttast saman við söguna af skóladraugnum og við fjölskylduharmleikinn sem hún kemst á snoðir um þegar hún fer í geymsluna í skólanum. Allar sögurnar segja frá hörmulegum dauðdögum og erfiðleikum við að takast á við afleiðingar þeirra. Draugurinn hræðilegi í kjallara skólans verður dæmi um óuppgerða fortíð og víti til varnaðar.

Gunnvör reynir að greiða úr liðnum atburðum í eigin lífi og hjálpa öðrum að gera slíkt hið sama, og það kemur eðlilega róti á tilfinningar hennar. Þessu er vel lýst og samskiptum innan fjölskyldunnar í kjölfar slyssins einnig, hvernig fólk tekur að sér ólík hlutverk og glímir við sorgina á mismunandi hátt. Gunnvör er samt marghliða persóna og sorgin á ekki hug hennar allan heldur hugsar hún einnig meðal annars um vinkonu sína og hvernig hún geti komið henni til hjálpar gegn hrekkjusvínunum. Aðrar persónur falla meira í bakgrunninn og lesandinn fær bara takmarkaða innsýn í líf þeirra, sjónarhornið er Gunnvarar og lesandinn fylgir henni alfarið.

Þrátt fyrir að sagan fjalli um alvarleg mál og erfiðar tilfinningar er hún ekki niðurdrepandi heldur fremur grípandi, lesandinn fær samúð með Gunnvöru og vill að henni gangi vel að leysa úr öllu því sem hún stendur frammi fyrir. Í rökstuðningi dómnefndar fyrir barnabókaverðlaununum kemur fram að Skóladraugurinn hafi hlotið þau meðal annars vegna þess hve trúverðug lýsing hún er á barni sem hefur misst ástvin. Óhætt er að taka undir þessa umsögn því sagan er mjög sannfærandi, einlæg og trúverðug lýsing á lífinu eftir missi, viðbrögðum fjölskyldunnar og togstreitunni sem getur myndast þegar lífið heldur áfram þrátt fyrir allt.

María Bjarkadóttir, nóvember 2016