Perurnar í íbúðinni minni

Perurnar í íbúðinni minni eftir Kött Grá Pje
Höfundur: 
Útgefandi: 

Langhlaup í myrkri

Ljóðið er ekkert halt. Það gengur hnarreist og meira að segja í flunkunýjum skóm. Nú flytja menn og konur þau að vísu við takfastan undirleik en prinsippið er hið sama. Og eins og með öll önnur form, þá er listræna inntakið kannski misheimspekilegt og stíllinn ekki alltaf jafn bragðmikill. En ljóðið hefur raunar aldrei staðið jafn stöðugt á tveimur jafnlöngum og nú.

Það ætti ekki að koma manni á óvart, en gerir það samt svo skemmtilega, að hip-hop listamaðurinn Kött Grá Pjé skuli senda frá sér ljóðabók. (Hliðarsjálf Kött Grá Pje, Atli Sigþórsson, hefur áður sent frá sér stuttprósana Stálskip: nokkur ævintýri (2014) í takmörkuðu upplagi.) Ég er fullgengur meðlimur krúttkynslóðarinnar og hlusta mestmegnis á eitthvað sem er að verða að pabbarokki, og get ekki sagt að ég hafi verið mjög kunnugur verkum listamannsins. Ég hafði þó heyrt hans getið. Og stundum langað að brenna allt, rétt eins og hann. En rappi þessa norðanmanns kynnist ég nú fyrst í ljóðabókinni Perurnar í íbúðinni minni.

Það er þó kannski ekki margt skylt með kveðskap Kött Grá Pjé og rappi hans. Hér eru engar rímur og enginn taktur sem dunar. Mér sýnist á öllu að höfundur hafi raunar verið hálf smeykur við að kalla þetta ljóðabók, enda er undirtitill hennar Textar. Og svo ég gefi ljóðmælenda sjálfum orðið í ljóðinu „Ljósleiðari“:

Ég þarf ljósleiðara upp í rassgatið. Þetta er ekki metafóra heldur hreint og beint með kynhegðun að gera. Ljóð eru fyrir fagga.
(bls. 47)

En hér eru sumé á ferðinni prósar. Textar í óbundnu máli sem eru ýmist einskonar örsögur, litlar myndir sem höfundur dregur upp eða á köflum hálfgerðir brandarar. Orðbragðið minnir heldur ekki á rapp, en það hoppar á milli þess að vera afar hversdagslegt og skemmtilega uppskrúfað. Kött (er í lagi að ávarpa hann þannig?) nær þó ekki alveg að sverja af sér ljóðið, þar sem við lestur bókarinnar gildir oft sama prinsipp og við ljóðalestur: lesandi þarf að skynja áður en hann fer að skilja.

Titilljóð bókarinnar dregur blæbrigði bókarinnar ágætlega saman. Á sama tíma og umfjöllunarefnið er svolítið spaugilegt, þá liggur undir niðri einhver nístandi einsemd. 

Ein af annarri dóu perurnar í íbúðinni. Það gerðist ekki sísvona. Ég tók ákvörðunina um vor. Skömmu fyrir jól logaði enn á lesalapanum mínum og á ljósinu yfir helluborðinu. Leslampinn fór á milli jóla og nýárs. Peran yfir helluborðinu dó um miðjan janúar. Um hríð var algjört myrkur. Köttunum virtist vera nákvæmlega sama. Áfram barst daufur bjarmi af götuljósunum inn um stofugluggann. Þó ekki svo að ég sæi til nokkurs gagns. Mikið var það yndislegt. Fljótlega í kjölfar þess tók aftur að vora. Dag einn vaknaði ég í björtu. Þá stóð ég upp og dró fyrir.
(bls. 22)

Þannig eru allar sprungnu perurnar sárar minningar sem í dauða sínum skína í myrkrinu. Ljóðmælandi virðist baða sig upp úr myrkri þeirra og á þann hátt njóta þess að þjást. Og eina gjörðin af hálfu hans er að standa upp til að draga fyrir. Hann reynir ekki að sporna við kenndinni heldur leyfir henni að umvefja sig allan.

Umfjöllunarefni bókarinnar eru jafn mörg og textarnir sjálfir. Dregnar eru upp sýnir úr fortíð og framtíð, við heimsækjum IKEA, kynnumst baðvigt Erps Eyvindarsonar, stungið er á ferðamannabólunni og svo bölsótast svolítið út í trúarbrögð. Oftast er þetta gert með kímnina að vopni og á köflum er höfundur alveg meinfyndinn. Sumstaðar er kveðskapurinn þó eilítið persónulegri og þá hljóma dimmari undirtónar. Silfurskottur og kettir hvísla að ljóðmælenda ónotum og „svarti hundurinn“ birtist í horni svefnherbergisins í öfugri mynd, sem refur í vetrarbúningi.

Oftast tekst höfundi best upp í styttri textum, en þar nær hann að merg einhvers í nokkrum kjarnyrtum línum. Sem dæmi mætti nefna ljóðið „Sprengisand“:

Tunglið lítur út eins og Sprengisandur. En þar eru engir fávitar á jeppum. Ekki lengur.
(bls. 10)

Í fáeinum orðum kallar Kött fram þessa staðalmynd jeppakarlsins sem æðir yfir allt og alla í eigingirni sinni.  Sú hugmynd er útvíkkuð og tengd við ferðalög mannsins um gufuhvolfið. Hvernig maðurinn veður hreinlega yfir náttúruna á skítugum skónum til að fá sína drauma uppfyllta. Á sama tíma verður til skírskotun til ameríska túristans sem brunar yfir landið þessa dagana, rétt eins og hann gerði á tunglinu fyrir hartnær fimm áratugum.

Annað kjarnyrt kvæði sem mætti nefna er „Langhlaup“, þar má segja að ljóðmælandi fangi bókina í fjögurra orða spretti:

Einlægt sjálfshatur er langhlaup.
(bls. 16)

Perurnar eru á köflum mjög skemmtileg lesning. Sennilega hefði þó mátt ritstýra bókinni aðeins frekar, skerpa á veikustu textunum eða hreinlega taka suma út og enda þannig með sterkari heild. Ljóðin eru óneitanlega svolítið mistæk, en inn á milli leynast mjög sterkir textar sem fá mann ýmist til að skella upp úr eða naga handabakið af meðaumkun. Það verður fróðlegt að fylgjast með þessu skáldi í framtíðinni og jafnvel í svolítið lengri textum.

Guðmundur Vestmann, nóvember 2016