Klefi nr. 6

Höfundur: 

Sigurður Karlsson þýddi

Uppheimar, 2013

Austurlandahraðlestin – eða ekki

Það er ekki beint draumaprins sem stígur inn í klefa stúlkunnar sem er á leið með lest frá Moskvu til Mongólíu, í sögu finnsku skáldkonunnar Rosu Likström, Klefi nr. 6. Þó reynist hann henni vel, á sinn hátt.

Hugmyndin að baki sögunni er einföld en virkar fullkomlega. Ung finnsk stúlka stundar nám í Moskvu og ákveður að ferðast til Úlan Bator að skoða fornar hellaristur. (Svo vill til að árið 1989 fór ég sjálf í langa lestarferð um það sem þá var alveg að hætta að vera Sovétríkin. Ég fór þó ekki eins langt og stúlkan og maðurinn, bara til Novosíbírsk.) Ferðin tekur sinn tíma, en lestakerfið er ekki alveg upp á sitt besta. Aðstæður bjóða lítt upp á þann lúxus sem þekktur er úr glæsilegum reyfurum á borð við Austurlandahraðlest Agötu Christie, ferðafólk þarf að deila klefum og lýsingin á klósettinu er eitthvað sem ég reyni að hugsa sem minnst um. Stúlkan er ekki glöð þegar maður á fimmtugsaldri reynist ferðafélagi hennar, enda er hann ansi skrautlegur, drykkjusjúkur verkamaður sem ber konuna sína og virðist líta svo á að allar konur séu hórur.

Á ferðinni segir hann henni henni sögu sína, í stuttum bútum sem ekki er alltaf ljóst hvort séu ‚sannir‘, og þrátt fyrir að sögurnar snúist að miklu leyti um samskipti hans og (vændis)kvenna, þá verður þarna til saga þjóðar – eða réttara sagt, saga þjóða, því ferðin nær yfir endilöng Sovétríkin með tilheyrandi viðkomu hjá fjölskrúðugum þjóðum og þjóðarbrotum. Þannig spannar sagan bæði austur og vestur. Lýsingarnar á samfélaginu í lestinni eru sömuleiðis ekki umfangsmiklar, en þannig fram settar að þær vaxa og þétta sundurlausar frásagnir mannsins.

Inn í þetta spila svo upplifanir stúlkunnar á ferðalaginu, lýsingar á mat og drykk, fatnaði og umbúnaði og svo auðvitað lýsingar á þeim bæjum og borgum sem lestin fer um, en eins og áður segir er hún hæggeng og stoppar víða, en þá fara þau og skoða sig um, stundum saman, stundum sitt í hvoru lagi. Og líkt og maðurinn rifjar upp ýmsar skrautlegar sögur úr ævi sinni minnist stúlkan atburða frá sinni ævi, þó aðallega frá Moskvu og sambandi hennar við ungan mann og móður hans.

Það er því hennar sjónarhorn sem er ráðandi sem gefur frásögninni sérstakan blæ fjarlægðar í bland við samkennd. Þó ber að taka fram að hún er að mestu leyti þögul alla bókina. Frásagnir mannsins eru látnar njóta sín í fyrstu persónu lýsingum en minningar hennar eru sagðar í þriðju persónu. Þannig skapast áhugavert samtal innan sögunnar, stúlkan er miðpunktur verksins en heldur sig þó til hlés í framsetningu textans meðan maðurinn breiðir úr sér. Með þessu skapast fínlegt jafnvægi milli hins persónulega (minningar og skynjun stúlkunnar) og þeirrar þjóðarsögu (mannsins og umhverfisins) sem smátt og smátt raðast upp.

Fínlegt er kannski ekki beint orðið sem á við einræður mannsins en þær eru ansi grófar. Þó er eitthvað fínlegt við þessa bók, sem kemur til af sterkri nærveru stúlkunnar og sambands þeirra tveggja sem hægt og hægt byggist upp í sögunni. Þessu er öllu ákaflega vel til haga haldið og ég andaði léttar í hvert sinn sem Rósa sveigði fimlega framhjá fyrirsjáanlegum klisjum.

Lýsingarnar eru svo saga út af fyrir sig, en þar er tungumálinu beitt af mikilli leikni, sem (án þess að hafa frumtexta til að bera saman við eða skilja) kemst ákaflega fagurlega til skila í þýðingu Sigurðar Karlssonar. Ég tek hér eitt dæmi af handahófi:

Stúlkan virti fyrir sér villta fegurð Rússlands út um ísvindblásinn afturgluggann. Öðru hverju huldi blikandi gulfjólublá snjódrífa allt landslagið að baki, inn á milli liðaðist slóði af snjó og ísflögum á eftir bílnum eins og blæja. Freðin þistlabreiða glitraði í þungbúnum starandi skógarjaðri. Í fjarska við sjónarrönd sveif bleiklituð púðurþoka, þykk ský sprungu út á himninum og flöksuðust eins og barnasængurföt. (65)

Annað heillandi einkenni eru allar lýsingarnar á mat og ekki má gleyma öllu því vodka sem flæðir um líkama mannsins, en það er yfirleitt selt og keypt á fremur óvenjulegan hátt. Uppáhaldssetningin mín tengist því, en þá hefur maðurinn nælt sér í tvær vodkaflöskur í einum bænum, auk þess að hafa „vönd af krýsantemum vafinn inn í Prövdu“ sem hann réttir stúlkunni. Þau eru komin alllangt austur og maðurinn kallar stúlkuna „Baba Jaga“ (129). Baba Jaga er þekkt rússnesk þjóðsagnafígúra, illskeytt norn og ákaflega ófríð. Maðurinn strýkur flöskunum blíðlega og dáist að þeim og segir svo: „Þegar um tvennt slæmt er að velja tek ég alltaf hvort tveggja“ (131).

Klefi nr. 6 er bók sem best er að njóta í takt við lestarferðina, hægt og rólega, með góðum stoppum inni á milli, rjúkandi tei, gúrkum, feitum fiski og helst einu vodkastaupi. Þetta er ein af þeim bókum sem mig langaði strax að byrja aftur á að loknum lestri, og þó ég hafi ekki getað látið það eftir mér að þessu sinni þá er ég staðráðin í að lesa hana aftur við gott tækifæri. En þá ætla ég að hafa meira vodka.

úlfhildur dagsdóttir, nóvember 2013