Bókmenntaborgin og bokmenntir.is

Reykjavík var útnefnd Bókmenntaborg UNESCO í ágúst 2011, en hún var fimmta borgin í heiminum til að hljóta þennan heiður og sú fyrsta utan ensks málsvæðis. Titillinn er varanlegur. Bókmenntaborgirnar eru hluti af stærra neti Skapandi borga UNESCO og var Reykjavík 29. borgin til að fá aðild að samtökunum, sem síðan hafa vaxið og halda áfram að gera það.
 
Í útnefningunni segir meðal annars að Reykjavík státi af framúrskarandi bókmenntahefð í formi ómetanlegra miðaldabókmennta sem varðveittar eru í borginni og eru Íslendingasögurnar, Eddukvæði og Íslendingabók nefnd sérstaklega.  Þá segir að þessi rótgróna hefð sýni sig í varðveislu, miðlun, bókmenntakennslu og kynningu bókmennta í dag.  Einnig er tekið til þess að svo fámenn borg sinni bókmenntum af eins miklum krafti og raun ber vitni, með þátttöku og samvinnu ólíkra aðila sem koma að bókmenningu og miðlun bókmennta, svo sem útgefenda, bókasafna og rithöfunda.
 
Reykjavík Bókmenntaborg UNESCO er rekin sem menningarskrifstofa á Menningar- og ferðamálasviði Reykjavíkurborgar. Heimili hennar er í Ráðhúsi Reykjavíkur. Bókmenntaborgin stendur fyrir Lestrarhátíð í október ár hvert, Sleipnisverkefninu, Bókamessu í Bókmenntaborg í nóvember í samstarfi við Félag íslenskra bókaútgefenda, landsleiknum Allir lesa í samstarfi við Miðstöð íslenskra bókmennta, bókmenntaviðburðum og verkefnum ýmiss konar og hefur umsjón með Gröndalshúsi.
 
Reykjavíkurborg leggur áherslu á góða samvinnu við alla þá mörgu aðila sem koma að bókmenningu í borginni, því Bókmenntaborgin Reykjavík er fyrst og fremst sameign þeirra allra svo og íbúa borgarinnar. Einnig er alþjóðlegt samstarf, sérstaklega innan samstarfsnets Skapandi borga UNESCO mikilvægur hluti starfseminnar.
 

LEIÐARLJÓS:

Að Reykjavík verði þekkt sem borg orðlistar, jafnt innanlands sem og á alþjóðlegum vettvangi .
Að stoðir hennar verði styrktar í nánu samstarfi þeirra sem koma að menntun, bókmenntum og orðlist á breiðum vettvangi.
Reykjavík  Bókmenntaborg UNESCO stendur vörð um tjáningarfrelsi. Íslensk einkunnarorð Bókmenntaborgarinnar, Orðið er frjálst, endurspegla þessa áherslu og með þeim vill Bókmenntaborgin benda á að hvorki einstaklingar né samfélög geta þrifist á heilbrigðan hátt nema þegnunum sé frjálst að tjá sig, þrár sínar og sannfæringu.
 

MARKMIÐ

Að halda utan um það mikla starf sem er unnið á sviðum bókmenningar og orðlistar og það kynnt.
Að hvetja til samstarfs og nýrra verkefna.
Að efla alþjóðatengsl á vettvangi orðlista og annarra skapandi greina.