Um ljóð eftir Gerði Kristný

 

ÞEGAR LJÓÐ BREYTA HIMNINUM Í LAMBHÚSHETTU

HUGVEKJA UM LJÓÐ EFTIR GERÐI KRISTNÝJU

Í október beinir Bókmenntaborgin Reykjavík athyglinni að ljóðinu. Þess vegna eiga ljóðumskreyttir strætisvagnar eftir að aka á milli hverfa og barnaskólakennarar verða hvattir til að gera ljóðinu hátt undir höfði. Ég hef ekki trú á öðru en borgarbörnin eigi eftir að taka ljóðinu fagnandi. Þar sem ég hef kennt ritlist hefur ljóðið einmitt verið vinsælasta bókmenntaformið. Krakkarnir hlusta íhugulir þegar lesin eru fyrir þau ljóð Vilborgar Dagbjartsdóttur um það þegar Esjan var skyndilega orðin fjallið hennar eða ljóð Óskars Árna Óskarssonar um nótt við Nýlendugötu þar sem kviknar í glugga hafmeyju. Skemmtilegast finnst börnunum samt að fá að yrkja sjálf.

Það eru til ýmsar leiðir til að hjálpa þeim af stað. Hér er ein: Fáðu þér blað og blýant! Skrifaðu niður það fyrsta sem sagt var við þig í morgun. Þetta þarf bara að vera ein setning. Að því loknu skaltu skrifa niður setningu úr auglýsingu. Hún má vera úr sjónvarps-, útvarps- eða blaðaauglýsingu. Af nógu er að taka. Næst skaltu skrifa niður það sem þú sagðir við einhvern annan í dag og síðan gott ráð sem gaukað hefur verið að þér. Vonandi er það líka botnlaus brunnur að ausa úr. Því næst skaltu rifja upp hjátrú sem þú hefur heyrt um og skrifa hana á blaðið. Að lokum skaltu skrifa niður framtíðarsýn. Hún gæti tengst tækniframförum, framtíðardraumi eða því sem þú ætlar að vinna við þegar þú verður stór.

Nú ertu búin/nn að yrkja ljóð. Það gæti hugsanlega litið svona út:

Ljóðið mitt

Vaknaðu! Skólinn fer að byrja!
Ljón á veginum.

Til hamingju með daginn!

Trúðu á sjálfa þig! Þá fer allt vel.

Brotinn spegill þýðir sjö ára ógæfa.

Í framtíðinni göngum við í skóm

sem geta lyft okkur upp af jörðinni.

Skemmtilegast er auðvitað að lesa ljóðið fyrir krakkana í bekknum og heyra hvernig ljóðlínurnar tengjast. Erindið fyrir ofan sveiflast til að mynda á milli gleði og varnaðarorða. Fyrst er hlustandinn hvattur til að vakna en samt eru ljón á veginum. Honum er óskað til hamingju með daginn og beðinn um að trúa á sjálfan sig en síðan er hann minntur á ógæfuna sem fylgir brotnum spegli. Vonin birtist í síðustu línunum þegar því er lofað að við eigum eftir að geta flogið húsa á milli þegar fram líða stundir.

Ljóð í leiðinni er yfirskrift októbermánaðar hjá Bókmenntaborginni. Leitast verður við að dreifa ljóðinu sem víðast svo það verði sem oftast á vegi okkar. Þegar ljóðaáhuginn greip mig á unglingsárunum fór ég að taka eftir þeim út um allt. Ég klippti til dæmis ljóð út úr Þjóðviljanum og Lesbók Morgunblaðsins. Þótt stjórnmálaskoðanir ritstjóranna væru ólíkar fannst þeim nauðsynlegt að bera ljóð á borð fyrir lesendur sína. Ljóðin sem ég las í þessum blöðum voru líka öðruvísi en þau sem höfðu verið kennd í skólanum. Fjölbreytnin var mér nauðsynleg. Í miðbænum gekk ég oft fram á útkrotuð strætóskýli og veggi og einn daginn sá ég hvar skrifað hafði verið á hús: „Ef ég væri guð væri himinninn lambhúshetta og engum yrði kalt“.

Fyrir aðeins fáeinum vikum komst ég að því að höfundarnir voru tvær hugmyndaríkar 14 ára stelpur. Loksins gat ég látið þær vita hvað mér hafði fundist þetta áhugaverð skilaboð. Í menntaskóla rakst ég á eftirfarandi ljóð eftir Jón Friðrik Arason í bókinni Tveir fuglar og langspil:

Ef ég væri skáld væri himinninn lambhúshetta og engum yrði kalt.

Þetta fannst mér stór orð – og falleg. Ég var þá þegar farin að nota ljóð til að ylja mér, skemmta og opna mér nýja heima. Góð skáld gátu svo sannarlega breytt himninum yfir mér í lambhúshettu. Í ljóðinu „Brotnar borgir“ eftir Steinunni Sigurðardóttur segir að Reykjavík sé „borg næturfrostanna löngu“. Í slíkri borg er svo sannarlega þörf á ljóðum. Í fámennu og einsleitu samfélagi eins og hér þrífst hentar ljóðið einstaklega vel með sínum oft duldu vísunum. Ljóðin eiga ekki bara heima á blaði. Það má líka skrifa þau á vegg og teikna með fingri í móðu á rúðu, lauma miða með þeim ofan í pennaveski eða jafnvel skrifa þau beint í lófann. Maður kreppir ekki hnefann um ljóðið, heldur opnar lófann og leyfir öðrum að njóta með sér.