Stúlka eftir Júlíönu Jónsdóttur

1876

Stúlka eftir Júlíönu Jónsdóttur
Stúlka, ljóðabók eftir Júlíönu Jónsdóttur kemur út. Stúlka er fyrsta ljóðabókin sem kemur út eftir íslenska konu. Í samnefndri bók Helgu Kress frá 1997, sem geymir ljóð eftir íslenskar konur, segir Helga í formála: „Lítil mær heilsar löndum sínum, ung og ófróð, en ekki feimin; leitar gestrisni góðra manna föðurlaust barn frá fátækri móður. Þannig hljóða einkunnarorð Stúlku, fyrstu ljóðabókarinnar sem kom út eftir íslenska konu. Höfundurinn, Júlíana Jónsdóttir, vinnukona í Akureyjum í Breiðafirði, gaf hana út á eigin kostnað árið 1876, og var bókin prentuð á Akureyri. Þetta nafnlausa erindi er merkilega táknrænt fyrir konur og skáldskap þeirra. Það má lesa á marga vegu. Það getur einfaldlega verið sjálfsævisöguleg lýsing, en Júlíana var barn einstæðrar og fátækrar móður. Mærin getur einnig verið táknmynd skáldkonu sem er munaðarlaus í karllegri hefð og aðeins með fátæka kvennahefð að baki. En fyrst og fremst er hún persónugervingur bókarinnar sjálfrar serm er gerð að dóttur fátækrar en sjálfstæðrar móður, skáldkonunnar. [...] Upphafserindið í bók Júlíönu sýnir að hún hefur ekki litið á það sem vandalaust að gefa út bók og hún óttast að henni verði hafnað. Það reyndist líka rétt. Stúlku var fálega tekið og um hana birtist ekki ritdómur. Nokkru síðar fluttist Júlíana til Vesturheims, alfarin af landinu. [...] Þegar Júlíana Jónsdóttir gefur út Stúlku árið 1876 höfðu aðeins örfá ljóð eftir nafngreindar konur birst á prenti. Öldum saman hafði þó skáldskapur kvenna varðveist í munnlegri geymd samhliða hinni ríkjandi og lærðu bókmenntahefð karla. Í Eddukvæðum er oft vikið að kvenlegri reynslu svo sem barnsburði, lækningum, fatnaði, skartgripum og handavinnu, og í mörgum þeirra, einkum hetjukvæðunum, er sjónarhornið kvenna. Nafnð Edda í Eddukvæðum er dregið af Eddu Snorra Sturlusonar, kennslubók í skáldskap frá um 1220, þar sem hann hvetur ung skáld til að nýta sér gamalt efni, sagnir og kvæði, í dróttkvæðum sínum. Edda er skylt nafnorðinu óður og merkir langamma, eða gömul kona. Nafn bókarinnar sýnir að Snorri hefur gert sér grein fyrir kvenlegum uppruna hefðarinnar, þótt hann beini máli sínu til karla. Einnig eru konum eignuð kvæði í Íslendingasögum og ein þeirra, Bárðar saga Snæfellsáss, fjallar beinlínis um skáldkonu, Helgu Bárðardóttur, og er skáldkonusaga.“ Helga Kress: Stúlka. Ljóð eftir íslenskar konur. Reykjavík, Bókmenntafræðistofnun Háskóla Ísands 1997, bls. 13 – 18.