Ráðstefnur og hátíðir

Í Reykjavík er fjölbreytt flóra hátíða og spila þær stórt hlutverk í menningarlífi borgarinnar.

Bókmenntahátíð í Reykjavík

Fremst í flokki bókmenntahátíða er Alþjóðlega bókmenntahátíðin í Reykjavík, en hún hefur verið haldin annað hvert ár frá árinu 1985. Hátíðin nýtur virðingar jafnt innan lands sem utan en einstakt má telja að svo lítil hátíð státi af jafn mögnuðum gestalista. Meðal erlendra höfunda sem tekið hafa þátt eru Kurt Vonnegut, Günter Grass, J.M. Coetzee, Paul Auster, A.S. Byatt, Isabel Allende, Haruki Murakami, Ngugi wa Thiong‘o, Seamus Heany og Taslima Nasrin, svo aðeins fáeinir séu taldir. Að auki hafa flestir fremstu höfundar landsins tekið þátt í hátíðinni. Allir viðburðir eru ókeypis og nær undantekningarlaust hefur verið fullt út úr dyrum á upplestrum og öðrum viðburðum, sem fara fram í Iðnó og í Norræna húsinu

Mýrin – Alþjóðleg barnabókmenntahátíð

Barnabókmenntahátíðin Mýrin hefur verið haldin annað hvert ár í Reykjavík síðan 2001 og þar hefur fjöldi höfunda og fræðimanna tekið þátt frá ýmsum löndum. Að hátíðinni standa Norræna húsið, IBBY á Íslandi, Rithöfundasamband Íslands, Borgarbókasafn Reykjavíkur, SÍUNG (Samtök barna- og unglingabókahöfunda) og Menntavísindasvið Háskóla Íslands. Hátíðin er ætluð börnum og er boðið upp á ýmsar uppákomur með höfundum, svo sem upplestra, smiðjur, leik- og listsýningar, en auk þess er fræðileg dagskrá um barnabókmenntir fyrir fag- og áhugafólk.

Aðrar lista- og menningarhátíðir

Reykjavík stendur fyrir árlegum borgarhátíðum sem Höfuðborgarstofa hefur veg og vanda af. Þær stærstu eru Menningarnótt í ágúst og Vetrarhátíð og Safnanótt í febrúar. Þótt Reykjavíkurborg haldi utan um þessar menningarhátíðir eru þær í eðli sínu grasrótarhátíðir sem fjölmargir einstaklingar, stofnanir og félagasamtök koma að. Bókmenntir eru ætíð hluti af dagskrá þeirra og hafa bæði einstaklingar, samtök og stofnanir á borð við Borgarbókasafn, Norræna húsið, bókaverslanir, útgefendur, Rithöfundasambandið og fleiri staðið að fjölbreyttum viðburðum á því sviði. Menningarnótt er fjölmennasta og stærsta hátíð landsins, en undanfarin ár hafa allt að 100.000 manns komið saman í miðborg Reykjavíkur af þessu tilefni. Reykjavíkurborg efndi til Barnamenningarhátíðar í apríl 2010 í fyrsta sinn og er markmiðið að hún verði haldin annað hvert ár. Á þessum tíma er sumardagurinn fyrsti haldinn hátíðlegur og þá er einnig Vika bókarinnar, en bæði tilefnin hafa í gegnum tíðina ekki síst verið helguð börnum og bóklestri og er bók ein af klassískum sumargjöfum til barna landsins. Barnamenningarhátíð leggur áherslu á alls kyns menningarstarf með börnum og unglingum og koma grunn- og leikskólar borgarinnar markvisst að hátíðinni ásamt menningarstofnunum Reykjavíkurborgar. Meðal þess sem boðið var upp á í þetta fyrsta sinn var að bekkjardeildir í nokkrum skólum tóku rithöfund í fóstur og var verkefnið unnið í samvinnu Höfuðborgarstofu, Menntasviðs Reykjavíkur, bókaútgáfunnar Forlagsins og Borgarbókasafns Reykjavíkur. Sex höfundar fóru í jafn marga grunnskóla og sögðu nemendum frá verkum sínum. Krakkarnir unnu svo margvísleg verkefni í samvinnu við rithöfundana og var afraksturinn loks settur upp á sýningu í Ráðhúsin Reykjavíkur. Listahátíð í Reykjavík, sem haldin hefur verið frá árinu 1970, hefur jafnan bókmenntir á dagskrá ásamt öðrum listgreinum, en hún var haldin annað hvert ár til ársins 2005 og árlega síðan. Meðal nýjunga á síðustu hátíðum er Húslestur skálda, en þar býðst gestum að sækja skáldin heim í bókstaflegum skilningi og setjast inn í stofu hjá þeim til að hlýða á upplestur og spjalla. Þetta minnir nokkuð á hinn gamla og samnefnda sið á íslenskum bæjum, sem var stundaður hér á landi um aldir og fólst í því að einhver á heimilinu, yfirleitt húsbóndinn, las valda kafla úr þeim ritum sem til voru á bænum. Þessi persónulega nálgun við höfunda hefur verið afar vinsæl, en samskonar dagskrá hefur áður verið sett upp á Menningarnótt í Reykjavík og einnig hafa höfundar verið sóttir heim í bókmenntagöngum Borgarbókasafns.