Ljóð í leiðinni í skólum

Hugarflug með Sleipni - LESTRARHVETJANDI VERKEFNI 

Ljóðormur í Vesturbænum

Leik- og grunnskólar í Vesturbænum, í samvinnu við Borgarbókasafn Reykjavíkur, standa fyrir sérlega skemmtilegu verkefni í tilefni Lestrarhátíðar í Reykjavík 2013. Börnin semja saman ljóð, en vinnan fer þannig fram að hver skóli leggur til tvær eða þrjár línur í ljóðið, sem gengur síðan áfram til næsta skóla.

Lestur út um allt: Lestrargleði í skólanum.

Þegar lestrarhátíð fer í gang er tilvalið að gefa lestri aukið vægi í stundaskrá skólans með það markmið að leiðarljósi að auka lestrarfærni nemenda og  efla áhuga á lestri góðra bóka. Yngstu nemendurnir hlusta á upplestur, búa til myndasögur, lesa og skrifa – allt eftir því hvað aðstæður leyfa.   Eldri nemendur fá bækur eftir valda höfunda, lesa og vinna úr þeim verkefni ásamt því að kynna þær fyrir öðrum nemendum. Tilvalið er að láta lestrarátakið enda með þemaviku eða uppskeruhátíð átaksins. Foreldrar eru hvattir til að taka þátt, ræða við börnin um verkefnið, lesa með þeim og fyrir þau, allt eftir hvað passar.

  • Söngstund: Nemendur syngi saman Reykjavíkursöngtexta.
  • Lestrarstund: Hafa hálftíma lestrarstund alla morgna. Í þennan hálftíma lesa allir, hvort sem um er að ræða kennara, nemendur eða annað starfsfólk skóla. Þetta gæti verið í eina viku eða allan lestrarhátíðarmánuðinn.
  • Upplestur: Nemendur lesi Reykjavíkurljóð hver fyrir annan. Þetta getur verið innan bekkjar, á milli bekkja, milli árganga og milli skóla, leikskóla og/eða frístundaheimila.

Gera lestrarhátíðina sýnilega í skólanum. Dæmi: Hengja upp miða fyrir hverja lesna bók í bekknum, t.d. á hurð bekkjarstofunnar eða á einhvern annan sýnilegan stað. Þegar nemandi klárar bók límir hann, eða kennarinn, upp miða með nafni bókarinnar sem hann kláraði.

Krakkar við lestrartré

Setja upp lestrartré í skólanum. Þetta getur t.d. verið tré í jólatrésstandi. Klippa niður laufblöð, eða bara ferkantaðan pappír, og gefa hverjum árgangi í skólanum einn lit. Þegar nemandi klárar bók hengir hann upp laufblað/blað á tréð. Nemendur hvers árgangs keppast svo við að lita tréð með sínum lit (án þess að talað sé um eiginlega keppni).

Líma upp bókahillu: Nota litað límband eða pappír til að búa til ímyndaða bókahillu á vegg.

Inn í bókahilluna líma svo nemendur pappírsstrimla með heiti þeirrar bókar sem þau eru búin að lesa. Þetta er hægt að gera fyrir hvern og einn bekk en einnig hægt að láta hvern árgang fá einn lit af pappírsstrimlum og gera þannig sýnilegt hversu mikið hver árgangur leggur af mörkum.

Hverfislestur – Að fyrirmynd vesturbæjarlesturs árið 2012. 
Koma á samstarfi við verslanir í hverfinu, sundlaugina, strætó og Borgarbókasafnið svo dæmi séu tekin.
Krakkar lesi upp í strætó, textar fljóti um í heitu pottunum, bókum pakkað inn í loftþéttar umbúðir og þeim komið fyrir í hillum matvöruverslana, láta textabrot hanga niður úr loftum verslana og vinnustaða, lesið upp í búðum, grunnskólabörn fari í leikskóla og lesi fyrir börnin. Þessa hugmynd má útfæra á ýmsan hátt og skemmtilegt ef sem flestar stofnanir hverfisins eru með og taki þátt í að gera hátíðina sýnilega. Þessi samstarfshugmynd kemur frá Vestubænum en þar var Vesturbæjarlestur 2012 og var hann unnin á þann hátt sem  hér er lýst.

Heimsókn til eldri borgara eða á leikskóla: Nemendur finna ljóð sem til eru um hverfið sitt eða semja sjálf og fara í heimsókn í félagsheimili eldri borgara í hverfinu sínu eða á leikskóla og lesa upp eða syngja.

Skiptibókamarkaður: Í Laufásborg komu nemendur með bækur að heiman og skiptust á bókum sem þeir voru hættir að lesa.

Uppáhaldsbækur í glugga: Nemendur skrifa í gluggana titlana uppáhaldsbókanna sinna.

Lestrarsprettur í skóla

 Bókatré á skóabókasafni