Hugmyndabanki fyrir Ljóð í leiðinni

 

Kennsluhugmyndir fyrir grunn- og leikskóla og frístundaheimili

Vinna með ljóð annarra:

Söngstund: Nemendur syngi saman Reykjavíkursöngtexta.

MYND SÖGUSTUND IÐNÓ

Lesa fyrir börnin: Kennari lesi ljóð og/eða þulur fyrir börnin. Ræða um hvað ljóðið er, skoða merkingu orða, skoða myndlíkingar. Hvað finnst okkur um þetta ljóð? Hvað er höfundurinn að reyna að segja okkur?

Ljóðagerð í nánasta umhverfi: Börnin semja ljóð um leiðina í skólann, uppáhalds staðinn sinn í hverfinu eða á leikskólanum. Kennari getur skrifað upp orð barnanna, lesið upp fyrir þau og hjálpað þeim að setja saman ljóðrænan texta úr því. Skemmtilegt væri að plasta ljóðið og hengja það upp á þeim stað sem ljóðið fjallar um.

Göngutúr um skóla og hverfi: Nemendur fái afhenta minnisbók/blað og semja ljóð á leið um nærumhverfi skólans eða jafnvel bara á leið um skólann sinn.

Ljóðaflutningur: Börnin semja ljóð, velja sér eða fá afhent Reykjavíkurljóð og lesa það upp með leikrænum tilburðum, rappi, flytji eins og þungarokkarar, í anda ættjarðarlaga, með kántrí sveiflu, reggae eða öðrum stíl að eigin vali. Þetta er skemmtilegt að taka upp á myndband og sýna nemendum síðar.

Ljóð við lag: Nemendur velja ljóð sem samið hefur verið lag við og spila það fyrir bekkinn. Svo kynna þeir ljóðið og lagið (spila það af Youtube eða koma með það að heiman) og segja frá því hvers vegna þeir völdu það, hvað þeim finnst heilla við það, segja frá höfundi og flytjanda svo eitthvað sé nefnt.

Ljóðapúsl: Kennari klippir  ljóð niður í strimla, línu fyrir línu. Nemendum er skipt í hópa. Þeir eiga að setja ljóðið saman eins og þeim finnst passa. Svo kynna þau ljóðið fyrir öðrum í bekknum. Aðrir nemendur geta sagt sína skoðun um hvort ljóðið virki vel eins og nemendur settu það saman. Hengja svo upp nemendaljóðið og setja hið rétta ljóð frá skáldinu við hlið nemendaljóðsins.

Ljóð – lestrardagbókhugarflæði: Nemendur skrái hjá sér upplifanir við ljóðalestur. Dæmi:

  • Hvaða hugsanir og tilfinningar vöknuðu við lestur ljóðsins? Hvernig leið þér þegar þú hafðir lesið ljóðið og velt því fyrir þér?
  • Minnir þetta ljóð þig á eitthvað? Hvað þá?
  • Hvað sástu fyrir þér þegar þú last/hlustaðir á ljóðið?
  • Ef þú gæri spurt skáldið spurninga, hvaða spurninga vildirðu spyrja?

Myndskreyting: Nemendur semji ljóð eða fái ljóð úr borgarljóðabankanum og myndskreyti með teikningu, klippimynd, ljósmynd, myndbandi, leirverki eða öðru.

Leikþáttur: Einn nemandi les ljóð, aðrir túlka það með spuna.

Að skipta út ljóðstöfum: Vinna með ljóð sem hefur hefðbundna stuðla og höfuðstafi. Setja svo ný orð í staðinn fyrir orðin með ljóðstöfunum. Ljóðið þarf að hafa rétta ljóðstafi eftir skiptingu og hafa raunhæfa merkingu.  

Andstæðuljóð: Börnin semja ljóð um eitthvað ljótt og eitthvað fallegt í umhverfi sínu, eitthvað sem gerir þau glöð og eitthvað sem gerir þau leið, eitthvað stórt og eitthvað smátt.

Rímorðaleit: Finna orð sem ríma við heiti í umhverfi okkar. Áfram má svo fjalla um orðin sem upp koma og búa til vísur. Vísurnar má flytja á skemmtunum og/eða setja þær í bókarform sem börnin myndskreyta.

Framandi orð: Nemendur velja sér ljóð og reyna að finna orð sem eru þeim framandi. Nota svo hin framandi orð til þess að semja nýtt ljóð sjálfir.

MYND FRÁ SMIÐJU Í IÐNÓ - BARN AÐ TEIKNA

Ljóðalandakort: Nemendurteikna upp Reykjavík. Finna ljóð sem tengjast örnefnum

og setja þau inn á kortið.

Ljóðagöngur: Gengið um hverfið og ljóð lesin á ákveðnum stöðum.

Ljóðaumræður: Nemendum er skipt í 3 eða 5 manna hópa. Hver hópur fær eitt Reykjavíkurljóð/lagatexta og á að ræða merkingu þeirra, hvað höfundur er að segja okkur með ljóðinu/textanum? Nemendur skrifa merkingu ljóðsins í 3-5 setningum og lesa fyrir allan bekkinn. Hér mætti bjóða upp á spurningar og hver hópur svarar fyrir sína túlkun. Hér gæti verið gaman að nota popplagatexta eða ljóð sem nemendur þekkja en hafa kannski ekki pælt djúpt í merkingu.

Uppáhalds höfundurinn: Nemendur sýna foreldrum sínum lista af höfundum Reykjavíkurljóða. Þeir fá foreldrana til að segja hver sé þeirra uppáhaldshöfundur á listanum.Þeir finna ljóð af vefnum og skrifa upp og myndskreyta. Eftir þetta gæti verið foreldrakvöld og nemendur lesa upp ljóðin eftir þá höfunda sem foreldrarnir völdu. Ef nemendur og foreldrar eru frá öðru landi geta þeir fundið ljóð á sínu móðurmáli sem þeir flytja og myndskreyta á sama hátt.

MYND FRÁ SMIÐJU Í AUSTURBÆJARSKÓLA

Hverfisskáld: Fá skáld úr hverfinu eða úr borginni í heimsókn.

 

VINNA MEÐ EIGIN TEXTA:

Götuljóð: Nemendur fari í vettvangsferð í götuna sína í þeim tilgangi að sjá hana með ljóðrænum augum. Þau haga sér eins og rannsakendur í leit að vísbendingum og skoða sérkenni götunnar sinnar, leita af orðum í umhverfinu (götuheiti, veggjakrot, umferðarskilti og annað) og skrifa hjá sér. Út frá þessu semja þau svo ljóð um götuna sína. Tilvalið er að láta krakkana taka ljósmyndir og myndskreyta ljóðið sitt með myndum af því sem ljóðið fjallar um.

Paraljóð: Tveir og tveir nemendur gera saman ljóð um hverfið/borgina.

MYND AF VERKEFNUM BARNA

Ljóð í mynd: Nemendur fá ljósmyndavélar, síma eða Ipads og taka myndir í nærumhverfi sínu og gera ljóð við.

Ég vildi að ég væri: Nemendur semji ljóð um að þeir vildu að þeir væru eitthvað í umhverfi sínu, borginni, hverfinu. Þetta getur verið stofnun, ljósastaur, stytta, fjall eða pollur. Hvað sem er.

Myndskreyting: Nemendur semji ljóð eða fái ljóð úr borgarljóðabankanum og myndskreyti með teikningu, klippimynd, ljósmynd, myndbandi, leirverki eða öðru.

Tígulljóð: Nemendur fái fyrirmæli um að nota nafnorð, tvö sagnorð, þrjú lýsingarorð, tvö sagnorð og eitt lýsingarorð. Það má víxla lýsingarorðum og sagnorðum.

Bókstafaljóð: Heiti kennileita sett upp lóðrétt, fyrsti stafurinn er byrjun ljóðlínu, annar upphaf næstu línu.

Rapp: Nemendur semji rapplag um sig og hverfið sitt, uppáhalds staðinn sinn í borginni og flytji fyrir bekkinn sinn eða víðar. Með þessu mætti vinna myndbandsverkefni og setja á sameiginlegan vef bekkjar eða vefsíðu skóla.

Ljóð í leiðinni: Fara í strætóferð eða gönguferð um hverfið og búa til ljóð um ferðina.

Haika/hæka náttúruljóð: Kenna hækuformið og búa til náttúruljóð um hverfið/borgina.

Orð í umhverfinu: Skoða t.d. götuheiti í hverfinu, skoða merkingu þeirra, sögu og uppruna.

Ljóð um stað/hlut í umhverfinu: nemendur semji ljóð um staði í Reykjavík, t.d. ljósastaur, biðskýli, styttu, fótboltavöll eða fánastöng. Þannig mætti ljóðskreyta þessa staði.Gæti verið hverfistengt.Dæmi:

Ljósastaur

Ég er upplýstur
þegar dimmt er
vísa veginn

Rímorðaleikur: Láta nemendur vinna 2-3 saman. Láta hvern hóp/par skrifa eins mörg rímorð og þeim dettur í hug niður á blað. Svo skiptast nemendahópar/pör á rímorðunum og eiga að semja ljóð úr þeim rímorðum sem þeir fá afhent.

Ljóðatré: Nemendur velja ljóð, teikna myndir, búa til hluti eða túlka á annan hátt og hengja í tréð. Þetta tré má vera alvöru tré en einnig er hægt að búa til tré úr pappír og hengja á vegg.

Ljóðaratleikur: Nemendur fara á milli stöðva og vinna ljóð á hverri stöð. Þetta er hægt að gera bæði með ljóð eftir aðra ein einnig er hægt að skapa ljóð með þessum hætti.

Ljóð með gefnum orðum: Kennari skrifar nokkur orð upp á töflu sem nemendur eiga að semja ljóð/ferskeytlu út frá. Þau eiga að velja að lágmarki þrjú af þessum orðum. Ljóðið gæti heitið: Borgin mín, hverfið mitt, á leið í skólann. Dæmi um orð sem gott er að vinna út frá er: ég sé, ég heyri, ég finn, gata, hús, tilfinning, uppáhalds, hverfi, framhjá. Nemendur gætu svo lesið ljóðið sitt upp fyrir bekkinn eða flutt með einhverjum hætti.

Reykjavík sem ég elska: Nemendur fái fræðslu um ljóðrænan texta og skrifi ljóð eða ljóðrænan texta um það sem þeim finnst jákvæðast við borgina. Þetta er æfing í að skrifa ljóð og finna jákvæðar hliðar á tilverunni.

Blaðagrein: Nemendur lesi ljóð um eitthvað þekkt fyrirbæri í Reykjavík og skrifi blaðagrein um afstöðu höfundar til þess staðar og borgarinnar.

Leikþáttur: Einn nemandi les ljóð, aðrir túlka það með spuna.

Ljóð út frá ljósmynd:  Nemendur taka ljósmyndir í borginni og láta ljósmynd/ir vera kveikju að ljóði. Þessar ljóðskreyttu myndir er skemmtilegt að hengja upp á veggi skólans.

Fjölskylduljóð: Foreldrar, forráðamenn eða aðrir fjölskyldumeðlimir semji ljóð með börnum sínum.

Krítarljóð: Nemendur kríta ljóð eða ljóðlínur á skólalóðina.

Ævintýri á gönguför (pdf) : Hægt er að nota upplýsingar úr meðfylgjandi skjali sem grunn til að semja ljóð um ýmis kennileiti í miðborg Reykjavíkur.

Valið í hópa með ljóðum: Nota ljóð til að velja saman tvo eða fleiri nemendur í hópa. Kennari ljósritar ljóð, tvö eða fleiri eintök að hverju ljóði og klippir niður í miða. Nemendur draga miða hjá kennaranum sem á er eitthvað ljóð. Þeir eiga svo að finna aðra sem eru með sama ljóð til að vita hverjir eru með þeim í hópi.

 

TIL ATHUGUNAR FYRIR LEIKSKÓLA

Þegar unnið er með ljóð með ungum börnum  sem ekki hafa bókmálið við að styðjast er mikilvægt að örva börnin til að semja út frá eigin reynsluheimi. Nálganirnar eru frumstæðari þegar lítil börn semja ljóð. Fyrir þau allra yngstu er best að spyrja og hvetja og nota myndir til aðstoðar. Gott er að ganga út frá því að barnið stjórni eða sé hið „alvitra“ og kennarinn aðeins ritari þess og stuðningsmaður

Gott er að byrja á að útskýra hvað ljóð er. Það má segja þeim t.d. að ljóð geti verið stutt saga, tilfinning eða mynd sem sett er í orð.  Stundum er hægt að syngja ljóð, stundum er hægt að klappa þau og stundum hægt að lesa.

Þegar ljóð eru unnin með leikskólabörnum er best að ganga út frá því að skrifa um það sem barnið vill skrifa um. Gott er að spyrja spurninga eins og „hvað gerðist svo?“ eða „eins og hvað?“ og skrifa jafnóðum niður. Best er að skrifa á töflu eða gæta þess að barnið sjái á blaðið eða bókina sem ritað er í. Í ferlinu les kennari oft fyrir barnið það sem komið er og spyr hvort þetta sé rétt? Þegar barnið er orðið sátt við útkomuna er ljóðið tilbúið. (Eygló Ida Gunnarsdóttir, Regnboginn á óteljandi liti 2008)