Jump to content
íslenska

Eitraða barnið (Poisonous Child)

Eitraða barnið (Poisonous Child)
Author
Guðmundur S. Brynjólfsson
Publisher
Sæmundur
Place
Selfoss
Year
2018
Category
Novels

um bókina

Eitraða barnið er glæpasaga. Sögusviðið er Eyrarbakki um aldamótin 1900. Við sögu koma nafnkunnir Íslendingar, svo sem skáldin Einar Benediktsson og Jóhann Sigurjónsson, Nielsen faktor, séra Eggert í Vogsósum. En einnig skáldaðar persónur höfundar, hinn misheppnaði sýsluskrifari Kár Ketilsson og bjargvætturinn Anna sýslumannsfrú.

Fyrst og fremst hverfist sagan þó um ungan og óreyndan sýslumann, Eyjólf Jónsson sem dreginn er upp úr vesöld sinni í Kaupmannahöfn og er næsta óöruggur um sig í æsilegri atburðarás í spilltri brennivínsveröld fátækra Árnesinga.

úr bókinni

„Ég dey eins og allir aðrir, en er nú rétt að fagna komandi sumri og nýrri öld og ungu skáldi með svona dauðhjali? Skál, Jóhann Sigurjónsson verðandi dýralæknir og þjóðskáld!“ Eyjólfur tekur á sig rögg eins og til þess að rífa sjálfan sig og stemminguna upp - í burt frá dimmu tali og rökkurkenndum spádómum.
   „Ég vonast svo sannarlega... en, varla þjóðskáld þó maður klambri saman...“ segir Jóhann feimnislega og rjóður af víni.
   „Verst að hafa ekki hitt þig fyrr og ná að gleðjast með þér. Verst þú skulir ekki vera eldri, slæmt að við skulum ekki hafa verið hér samvista í öll mín dásamlegu djöfullegu ár í Höfn...“ Eyjólfur hlær en það er ekki tær hlátur.
   „Það er nú svo sem ekki komin nein helvítis ný öld og með öllu óvíst að hún láti sjá sig. En hvað hann varðar? Hann verður aldrei dýralæknir - en hann er skáld, vissulega gott skáld og mun verða betra, trúið mér,“ segir Tryggve og brosir undarlega. Hann hefur náð að kynnast Jóhanni ágætlega og Jóhann dáist að honum. Þeir þekkjast þó betur, Eyjólfur og Tryggve, hafa setið að sumbli og rætt skáldskap og skipbrot lífshamingjunnar sem Eyjólfur þykist finna þá fáu daga sem hann er ekki hreifur af víni. Þegar próf og annar óskundi hafa herjað á hann.
   „Ég ætla rétt að vona að mér takist að klára námið...“
   „Þú klárar það aldrei, minn kæri, en láttu vera að tárast yfir því, minn ungi vinur, þú klárar það aldrei - jafnvel þótt þú tækir tíu ár í lesturinn eins og hann vinur okkar hérna. Þessi nýjasti fulltrúi lögspekinnar á meðal vor.“ Tryggve sturtar í sig ákavíti og hristir sig.
   „Vertu ekki að minna mig á eigið dugleysi, Tryggve minn,“ segir Eyjólfur en tekur þó ekki nærri sér skensið.
   „Maður hlýtur að klára þetta á settum tíma - eða fast að því,“ segir Jóhann Sigurjónsson annars hugar. Í honum eru að brjótast orð, eða spádómur, þessa norska vinar sem er svo fullur af dulúð og undarlegu myrkri en samt svo ljómandi maður. Og mikið skáld. Það hefur Jóhann séð þegar hann gengur um með Tryggve; fólk þekkir hann, tekur ofan og bukkar sig ögn. Konan hans liggur heima „við það eitt að deyja“ eins og Andersen orðar það sjálfur.
   „Hvenær færðu saltkjötstunnuna, Jói?“ Jóhann hefur um hríð verið að bíða eftir kjöti og einhverju fleira frá Laxamýri. Eyjólfur er áhugasamur um sendingar að heiman. Þær færa honum yfirleitt eitthvað. Hann er líka ónískur berist honum sjálfum snedingar, hvort heldur það er matur eða peningar.
   „Jú, tunnan kom í gær. Og hangilæri tvö og tveir frampartar, vel feitir. Og aurar. Annars sæti maður varla hér,“ segir Jóhann og slær brosandi út höndunum.
   „Kom skip í gær?“ Allt í einu er eins og brái af Eyjólfi víman. „Ég hefði talið að það væru enn einhverjar, í það minnsta, tvær vikur í skip. Eða...“

(16-17)

 

More from this author

At og aðrar sögur (At and Other Stories)

Read more

Svartlyng

Read more

Endalok alheimsins (End of the World)

Read more

Kattasamsærið (Cat Conspiracy)

Read more

Þvílík vika (What a Week)

Read more

Gosbrunnurinn : sönn saga af stríði (Fountain: A True Story of War)

Read more

Líkvaka (Full of Life)

Read more

Þögla barnið (The Silent Child)

Read more

Tímagarðurinn : eða Leitin að fegurðinni (The Garden of Time: or the Search for Beauty)

Read more