Reykjavík Reads 2016

Þema Lestrarhátíðar í ár er ORÐ OG MYNDIR og er samspil þessara þátta í bókmenntun og myndlist í brennidepli undir heitinu Meira en 1000 orð. Hvernig hjálpar myndlestur okkur að skilja og túlka heiminn og hvernig vinnur hann með orðlistinni? Að sama skapi er sjónum beint að því hvernig orðlistin fær vængi með litríku og lifandi myndmáli.

Myndir geta falið í sér mörg orð og orð geta einnig verið myndir. Við erum vön að líta á þessi tjáningarform sem aðskilin, en þau eru það síður en svo og er áhersla lögð á þennan þátt á hátíðinni í ár.

Myndmál, myndasögur, myndljóð, frásagnarmálverk, að draga upp myndir í orðum og orð í myndum – hvers kyns samspil eða samsláttur orða og mynda er í brennidepli.

Hátíðin var sett við Laugaveg 21, Kaffibrennsluna, þar sem skáldið Elías Knörr og myndlistarkonan Elín Edda afhjúpa verk sitt, „Morgunsárið er furðufugl“.

Elías Knörr og Elín Edda við setningu Lestrarhátíðar

Verkið er hluti af verkefninu Orðið á götunni sem samanstendur af sjö orð- og myndlistaverkum eftir 14 höfunda sem finna mátti víðsvegar um borgina í október.

Annað listamannapar Lestrarhátíðar, Ásta Fanney Sigurðardóttir og Kött Grá Pje fluttu textamiðaðan gjörning við setningu hátíðarinnar ásamt tilheyrandi hljóðum en þau eru bæði ljóðskáld sem vinna einnig með mismunandi útfærslur á textum, hvort sem það er í rappi, myndlist eða öðru.

Ljósmynd af Líf Magneudóttur

Líf Magneudóttir, nýskipaður forseti borgarstjórnar i október 2016 setti hátíðina. 

Ljósmyndir: Roman Gerasymenko