Rafrænar bókmenntagöngur

Rafrænar bókmenntagöngur

Nú getur þú sótt rafrænar menningagöngur um Reykjavík í snjallsímann þinn. Nú hafa bókmenntagöngurnar og fleiri menningargöngur um sögu Reykjavíkur verið færðar í rafrænt form svo fólk geti notið þessarar leiðsagnar hvenær sem hverjum og einum hentar. Göngurnar má hvort sem er skoða á vefnum eða hlaða niður í snjallsíma. Fyrstu tvær göngurnar eru enska gangan Literary Reykjavík, sem kynnir bókmenntir frá mismunandi tímum, og íslensk glæpasagnaganga með þátttöku nokkurra af okkar þekktustu glæpasagnahöfundum. Einnig er ganga á þýsku sem kynnir íslenska bókmenntasögu frá söguöld til okkar tíma og ganga á íslensku og ensku um landnámið í Reykjavík unnin af Minjasafni Reykjavíkur. Fleiri göngur munu síðar bætast við. Göngurnar eru aðgengilegar í smáforritinu Culture Walks Reykjavík og er hægt að hlaða þeim niður frítt í iStore og Playstore á iPhone eða Android símann þinn eða spjaldtölvuna.

Bókmenntagöngur Borgarbókasafnsins - júní, júlí og ágúst

Borgarbókasafn Reykjavíkur hefur boðið borgarbúum og gestum borgarinnar upp á bókmenntagöngur í höfuðborginni um árabil. Safnið hefur boðið upp á ljóðagöngur, þjóðsagnagöngur, glæpasagnagöngur, barnabókmenntagöngur og svo mætti lengi telja. Hægt er að panta bókmenntagöngur fyrir hópa í gegnum vef Borgarbókasafnsins. Á sumrin er farin bókmenntaganga á ensku um miðborgina hvern fimmtudag kl. 15 frá Borgarbókasafninu Tryggvagötu 15.