Þorgrímur Þráinsson

„Skyndilega hvarf sjálfsvorkunnin eins og dögg fyrir sólu því Tryggvi sá hvar stjarna hrapaði, næstum því á hraða ljóssins og öll ummerki hennar og halinn, sem myndaðist þegar hún steyptist niður, voru horfin þegar Tryggvi ætlaði að fara að skoða þetta betur.“
(Mitt er þitt)

Þorgrímur Þráinsson er fæddur í Reykjavík 8. janúar 1959. Hann lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum í Reykjavík árið 1980 og stundaði nám í frönsku við Sorbonne háskóla í París 1983-1984. Hann var blaðamaður hjá Fróða frá 1985 og ritstjóri Íþróttablaðsins og ritstjórnarfulltrúi barnablaðsins ABC frá 1989. Í lok árs 1996 var hann ráðinn framkvæmdastjóri Tóbaksvarnanefndar. Þorgrímur lék með meistaraflokki Vals í knattspyrnu frá 1979 til 1990 og gegndi fyrirliðastöðunni síðustu fimm tímabilin. Áður lék hann með Víkingi frá Ólafsvík. Hann varð þrisvar sinnum Íslandsmeistari á knattspyrnuferlinum með Val og tvisvar sinnum bikarmeistari. Þorgrímur lék alls um 180 leiki í efstu deild og 17 landsleiki fyrir Íslands hönd. Þá varð hann bikarmeistari í frjálsíþróttum með FH árið 1988 en hann keppti í spjótkasti.

Þorgrímur hefur skrifað fjölda bóka fyrir börn og unglinga og var fyrsta bók hans, Með fiðring í tánum (1989), metsölubók á sínum tíma. Hann hlaut Íslensku barnabókaverðlaunin 1997 fyrir bókina Margt býr í myrkrinu og aftur árið 2010 fyrir bókina Ertu Guð, afi?. Fyrsta skáldsaga hans fyrir fullorðna, Allt hold er hey, kom út 2004.

Þorgrímur Þráinsson býr í Reykjavík.

Forlag: Andi .

 

Um verk Þorgríms Þráinssonar

Þorgrímur Þráinsson er vinsæll unglingabókahöfundur um þessar mundir og hefur verið það undanfarinn áratug. Þrátt fyrir að vera þekktastur fyrir unglingabækurnar hefur hann einnig skrifað annars konar bækur, þar á meðal ævisögu Jóns Vídalín, kennslubækur og myndabækur fyrir yngri börn. Unglingabækurnar eru þó í miklum meirihluta hjá honum og verður þess vegna aðeins fjallað um þær hér.

Unglingabækur Þorgríms fjalla oftast um stráka sem eru tólf til sextán ára gamlir og nánast alltaf miklir fótbolta- eða íþróttakappar. Stundum fjalla bækurnar um einn strák en í flestum tilvikum koma fyrir alla vega einn eða tveir vinir aðalpersónunnar og oft jafnvel stelpa eða stelpur sem aðalstrákurinn er skotinn í. Í bakgrunninum eru svo bekkjar- og fótboltafélagar og fjölskyldan.

Bækur Þorgríms fjalla um algeng unglingavandamál svo sem ást og það að vera eða upplifa sig sem frábrugðinn hópnum. Fótboltaáhugi persónanna og umfjöllun bókanna um hann vegur svo upp á móti vandamálunum. Fótboltinn tengist þó á vissan hátt vandamálinu við að falla inn í hópinn og sanna sig en lýsingar á fótboltaleikjum sem aðalpersónurnar taka þátt í verða stundum ansi langdregnar. Eins og sönnum íslenskum raunsæisbarnabókum sæmir fjalla bækurnar þó einnig um alvarlegri vandamál sem geta komið upp í lífi unglinga, en þau vandamál tengjast þá yfirleitt fjölskyldu eða bestu vinum aðalpersónunnar og geta verið allt frá drykkjuskap til sjúkdóma og dauða. Ekki er kafað mjög djúpt ofan í vandamálin, ástæður þeirra eða bakgrunn, en umfjöllunin er raunsæisleg og alvarleg.

Nokkrar af bókum Þorgríms skera sig að einhverju leyti frá unglingabókaformúlunni sem hann virðist annars hafa tileinkað sér. Má til dæmis nefna Sex augnablik (1995) sem er óvenjuleg að því leytinu til að hún er sjálfsævisaga unglingsstráks. Hún er skrifuð annars vegar sem þriðju persónu frásögn og fylgist þá með aðalpersónunni sem er hress og skemmtilegur 16 ára strákur, en annars vegar í fyrstu persónu og segir þá strákurinn, Eiríkur, frá völdum atriðum í lífi sínu. Eiríkur er raunverulega að skrifa ævisögu sína í bókinni og það eru kaflar úr henni sem við fáum að lesa. Söguþráðurinn er nokkuð hefðbundinn, og Eiríkur glímir við unglingsástir og svik en þar sem hann er fyndinn og hress og formið nýstárlegt gefur það bókinni vissa sérstöðu meðal verka Þorgríms.

Amó Amas(1994) er önnur bók sem skilur sig nokkuð frá hinum en þar er það umfjöllunarefnið fremur en formið sem gerir hana öðruvísi. Bókin fjallar um frændsystkinin Ómar og Maríu og hefst frásögnin þar sem þau eru í sveitavist hjá ömmu sinni og afa. Þar kynnast þau geimverunni Amó Amas sem er kominn til jarðarinnar til að þroska sál sína og komast á hærra tilvistarplan á heimaplánetu sinni. Krakkarnir og Amó verða góðir vinir og þau taka hann að sér þegar sumri lýkur og þau þurfa að halda aftur til borgarinnar. Hann gengur svo í skóla með þeim og þar tekst honum loksins að ljúka verkefni sínu. Verkefnið kostar hann þó lífið á jörðinni og í lokin er sett fram sú tilvistarlega hugleiðing að dauðinn sé ekki endalok alls og að Amó hafi náð næsta tilvistarstigi.

Í bókinni Lalli ljósastaur (1992) lenda aðalpersónurnar í annars konar yfirnáttúrulegum verum en þar þurfa krakkarnir að glíma við álfa. Lalli er í upphafi venjulegur en nokkuð hrokafullur drengur sem tekur leikfang af álfastrák án þess að gera sér grein fyrir því og án þess að skammast sín. Álfurinn hefnir sín á Lalla og lengir hann um marga metra yfir nótt. Bókin hefur mjög greinilegan uppeldislegan boðskap sem kemur fram bæði í því að Lalli og vinir hans sættast við konu í bænum sem þau halda að sé norn og beri ábyrgð á lengingu Lalla, og í því að Lalli skilar á endanum leikfanginu til álfastráksins og biður hann afsökunar á framferði sínu. Þá eru önnur skilaboð til lesandans í textanum en þau eru að maður eigi að vera sáttur við sjálfan sig eins og maður er. Lalli er nefnilega í upphafi ekkert sérlega góður í körfubolta, sem er uppáhaldsíþrótt allra krakkanna í bænum, en verður sjálfsagður markaskorari þegar hann lengist. Þrátt fyrir að verða allt í einu mjög vinsæll og flinkur körfuboltaleikari vill Lalli breytast aftur, því hann áttar sig á því að það er betra að vera maður sjálfur og að vinsældir eru ekki allt.

Þriðja bók Þorgríms sem mætti segja að fjalli um óvenjulega persónu er Hlæjandi refur (2000). Undirtitill bókarinnar er Sagan um Úlfhildi og indíánastrákinn sem flúði til Íslands og er það nokkuð hnitmiðuð lýsing á söguþræði bókarinnar. Úlfhildur er íslensk stelpa sem kynnist indíánastráknum Hlæjandi ref og myndast með þeim mikil vinátta þann stutta tíma sem hann dvelur á Íslandi. Hlæjandi refur kemur til landsins sem laumufarþegi á skipi en hann er á flótta undan fyrrum kærasta móður sinnar, sem vill ættleiða hann. Móðirin er látin og faðirinn býr á verndarsvæði indíána en markmið Hlæjandi refs er að finna föður sinn, sem hann ólst upp hjá, og búa hjá honum.
Afstaða þessa óvenjulega drengs til lífsins er mjög frábrugðin því sem Úlfhildur hefur kynnst áður, og hann er mjög ólíkur íslenskum krökkum sem alist hafa upp í borginni. Hlæjandi refur er náttúrubarn og er í mjög nánum tengslum við umhverfi sitt. Hann kennir íslensku krökkunum í bókinni að skoða heiminn með öðrum augum en áður og að bera virðingu fyrir sjálfum sér og náttúrunni. Hlæjandi refur getur þó ekki dvalist lengi á Íslandi þar sem hann verður að halda áfram að flýja undan kærasta móðurinnar og að halda áfram leit sinni að föður sínum og frelsi.

Hin íslenska sveit og sumardvalir krakka í sveitinni eru algengt minni í bókum Þorgríms sem lætur margar persóna sinna dveljast í sveitinni hjá ættingjum. Krakkarnir fara þá til að hjálpa öfum og ömmum eða kynnast ættingjum sínum og koma ávallt aftur hraustari og sterkari og með heilbrigðari lífssýn en borgin getur veitt þeim. Sveitin kemur fyrir sem sögusvið í „fótboltasögunum“ þar sem aðalpersónurnar eru fótboltakappar sem sækjast eftir sæti í úrvalsliðum hinna og þessa liða en dveljast hjá ættingjum í sveitinni á sumrin. Hún er einnig sögusviðið í öðrum bókum svo sem Amó Amas og Margt býr í myrkrinu frá árinu 1997 sem hlaut Íslensku barnabókaverðlaunin það ár.

Margt býr í myrkrinu er mjög spennandi og skemmtilega skrifuð bók en hún fjallar um Gabríel, unglingsstrák sem fer í heimsókn til afa síns í sveitinni milli jóla og nýárs. Gabríel á að vera afa sínum til halds og trausts á meðan hann þarf að sjá um bæinn einn í nokkra daga. Það kemur í ljós að ekki er allt með felldu í sveitinni hjá afa og Gabríel fer að verða var við mjög undarlega hluti. Bókin nær að halda lesandanum spenntum við lesturinn alveg fram á síðustu síðu, meðal annars vegna þess að Gabríel er engin sérstök hetja og er frekar myrkfælinn en auðvelt er að setja sig í hans spor.

Atburðirnir á bænum verða undarlegri og undarlegri og að lokum hverfur afi Gabríels. Gabríel fær þá liðsauka úr borginni þegar hann biður bestu vinkonu sína, Andreu, að koma og hjálpa sér. Andreu tekst með naumindum að ná til hans þar sem skollið er á hræðilegt óveður en við það verður bæði rafmagnslaust og sambandslaust við umheiminn. Gabríel og Andreu tekst, á spennandi og ógnvekjandi hátt, að leysa gátuna um horfna afann, berjast við „draug“ og samtímis halda lífi í öllum skepnunum. Alveg fram undir lok bókarinnar er það gefið í skyn að þeir atburðir sem áttu sér stað í sögunni hafi raunverulega verið yfirnáttúrulegir og skuldin er lögð á Axlar-Björn, einn frægasta morðingja Íslandssögunnar. Á síðustu síðunum er þó sett fram raunsæislegri skýring sem er mjög trúverðug en þeir undarlegu atburðir sem áttu sér stað eru ekki allir útskýrðir, þannig að lesandinn er skilinn eftir í vafa sem eykur enn á spennu bókarinnar.

Spennan og söguþráðurinn í Margt býr í myrkrinu jafnast á við það sem maður getur búist við í spennandi glæpareyfara og er bókin mjög vel heppnuð í alla staði. Því miður gildir hið sama ekki um framhaldið Nóttin lifnar við (1998) sem þó lofar góðu í upphafi. Spennan er byggð upp á sama hátt og í fyrri bókinni en einhvern veginn er eins og höfundurinn gleymi sér eða fái leið á söguþræðinum og bókin tekur skarpa og óvænta beygju inn á allt aðra braut. Sú spenna sem er byggð upp tapast við þetta og óútskýrðum atburðum er aldrei veitt nein lausn en lesandinn situr eftir áttavilltur og frekar svekktur.

Þriðja bókin þar sem fjallað er um undarlega yfirnáttúrulega atburði er Spor í myrkri (1993) en þrátt fyrir að vera fyrsta spennubók Þorgríms er hún eins konar millistig milli hinna tveggja. Hún er ekki eins spennandi og draugaleg og Margt býr í myrkrinu en tekst samt auðveldlega að halda lesandanum við efnið. Bókin er frábrugðin hinum að því leyti að hún er meiri unglingabók en hinar og fjallað er um félagsleg vandamál, ástir og uppreisn í jöfnum mæli við draugaganginn.

Spor í myrkri fjallar um nokkra krakka sem vinna saman í sumarvinnu og ákveða að eyða verslunarmannahelginni saman í sumarbústað. Ein af stelpunum, Sóla, er skyggn og hefur undarleg áhrif á hina krakkana. Hún hagar sér öðruvísi en flestir jafnaldra sinna og er þroskaðri en þeir. Þessa helgi öðlast krakkarnir þó allir nýjan skilning á tilverunni, um leið og hópurinn er hristur vel saman. Aðalpersóna bókarinnar er strákurinn Binni sem á við margvísleg vandamál að stríða og upplifir sig frábrugðinn hinum fyrir vikið. Hann er einfari í upphafi en þegar líða tekur á helgina verður hann partur af hópnum þegar hann áttar sig á því að þau eiga öll við vandamál að stríða, þó ólík séu. Draugagangurinn í sumarbústaðnum verður svo til þess að krydda atburðarásina og líkt og í Margt býr í myrkrinu tekst höfundinum vel til hvað hann varðar. Spennan helst út söguna og fær tvíræða en fullnægjandi lausn að lokum.

Nýjasta bók Þorgríms þegar þetta er skrifað er Svalasta 7an (2003) en í henni snýr hann sér aftur að fótboltasögunni. Síðasta sannkallaða fótboltasagan sem kom út þar á undan var Mitt er þitt frá árinu 1991, sem er síðasta bókin í þríleiknum um fótboltastrákinn Kidda og vini hans. Svalasta 7an er dæmigerð unglingabók eins og flestar bækur Þorgríms en þar sem hún er mun lengri en flestar hinna bókanna gefst betri tími og rými til að kafa dýpra ofan í persónurnar og vandamál þeirra. Bókin segir frá Jóel sem býr ásamt systur sinni og drykkfelldri móður á Akureyri, þar sem hann á marga vini og gengur vel í fótbolta. Frásögnin tekur óvænta stefnu þegar systir Jóels greinist með krabbamein og litla fjölskyldan verður að flytja suður svo að hún geti fengið þá læknisþjónustu sem hún þarf. Jóel er í fyrstu ósáttur við flutninginn og á erfitt með að laga sig að lífinu í Reykjavík, sérstaklega þar sem veikindi systur hans hvíla mjög þungt á honum. Honum tekst þó að sætta sig nokkurn veginn við það á endanum, og er farinn að aðlaga sig í lok bókarinnar. Svalasta 7an er þannig skrifuð að ekki er úr vegi að búast við framhaldi á næstunni, enda viðbrögð ungra lesenda við henni mjög góð, ef hægt er að dæma af umfjöllunum í blöðum. Bókin er líka grípandi og alvarleg og áhugaverðara að fylgjast með lífi persónu sem kafað er dýpra í.

Bækur Þorgríms fjalla flestar um dæmigerð unglingavandamál og eru margar frekar svipaðar þó að sviðsetningin eða formið breytist. Þær fjalla um þau vandamál sem eru ofarlega á baugi í lífi flestra unglinga svo sem ást, sjálfsmynd og samsömun og eru skrifaðar á tungumáli sem unglingar skilja. Sletturnar og slangrið sem tilheyra nútímatali unglinga gætu gert það að verkum að bækurnar eldist illa þó ómögulegt sé að spá fyrir um það. Stöku sinnum gleymir höfundurinn sér og talar niður til persónanna eða leggur dóm á þær en á heildina litið eru þetta bækur sem höfða vel til unglinganna sem þær eru ætlaðar, þó að eldri lesendur botni kannski stundum lítið í þeim.

© María Bjarkadóttir, 2003.

Verðlaun

2016 – Viðurkenning Barnaheilla – Save the Children, fyrir sérstakt framlag í þágu barna og mannréttinda þeirra

2013 – Borgarlistamaður Reykjavíkur

2011 – Bókaverðlaun barnanna: Ertu Guð, afi?

2010 – Íslensku barnabókaverðlaunin: Ertu Guð, afi?

2010 – Bókaverðlaun barnanna: Núll núll 9

2006 – Fyrstu verðlaun í handritssamkeppni Lestrarmenningar í Reykjanesbæ: Litla, rauða músin

2000 – Barnabókaverðlaun Æskunnar, Búnaðarbanka Íslands og Sjóvar-Almennra: Kýrin sem hvarf

1997 – Íslensku barnabókaverðlaunin: Margt býr í myrkrinu

1992 – Menningarverðlaun Visa

1991 – Barna- og unglingabókaverðlaun Skólamálaráðs Reykjavíkurborgar: Tár, bros og takkaskór

Almenn umfjöllun

Silja Aðalsteinsdóttir: „Draumar Þorgríms“
Tímarit Máls og menningar, 56. árg., 3. h. 1995, s. 58-72

Um einstök verk

Steina-Petra

Helgi Hallgrímsson: „Steina-Petra“
Glettingur 2012, 22. árg., 2. tbl. bls. 49-50.

Svalasta 7an

Úlfhildur Dagsdóttir: „Únglingarnir í skóginum. Biobörn, Strandanornir og Svalasta 7an“
Börn og menning, 19. árg., 1. tbl. 2004, s. 10-11

Þriðji ísbjörninn

Úlfhildur Dagsdóttir: „Björn og börn“
Bókmenntavefurinn, umfjöllun um bækur, sjá hér

Year:
1994
Publisher:
Category:
Year:
1992
Publisher:
Category:
Year:
2015
Publisher:
Category:
Year:
2010
Publisher:
Category:
Henrí og hetjurnar eftir Þorgrím Þráinsson
Year:
2016
Publisher:
Category:
Year:
1998
Publisher:
Category:
Year:
2012
Publisher:
Category:
Year:
1994
Publisher:
Category:
Year:
2000
Publisher:
Category:
Year:
1992
Publisher:
Category:
Year:
2088
Publisher:
Category:
Year:
2003
Publisher:
Category:
Year:
1997
Publisher:
Category:
Year:
1989
Publisher:
Category:
Year:
1991
Publisher:
Category:
Year:
1998
Publisher:
Category:
Year:
2009
Publisher:
Category:
Year:
1995
Publisher:
Category:
Year:
1993
Publisher:
Category:
Year:
2003
Publisher:
Category:
Year:
1990
Publisher:
Category:
Year:
2004
Publisher:
Category:
Year:
2010
Publisher:
Category:
Year:
2008
Publisher:
Category:
Year:
2009
Publisher:
Year:
1998
Publisher:
Category:
Year:
2004
Publisher:
Category:
Year:
2014
Publisher:
Category:
Ár:
2004
Útgefandi:
Flokkur:
Ár:
1994
Útgefandi:
Flokkur:
Ár:
1992
Útgefandi:
Flokkur:
Ár:
2015
Útgefandi:
Flokkur:
Ár:
2010
Útgefandi:
Flokkur:
Ár:
1998
Útgefandi:
Flokkur:
Ár:
2009
Útgefandi:
Henrí og hetjurnar eftir Þorgrím Þráinsson
Ár:
2016
Útgefandi:
Flokkur:
Ár:
2014
Útgefandi:
Flokkur:
Það hefur löngum verið hlutverk bókmennta að fjalla um samtímann eða endurspegla hann á einhvern hátt. Þannig hafa íslenskar bókmenntir undanfarinna ára komið inn á hið svokallaða góðæri (sem reyndar aðeins fáir upplifðu að einhverju ráði), efling íslensku glæpasögunnar hefur verið tengdur auknum glæpum og umfjöllun um umhverfisvernd hefur sömuleiðis verið áberandi.
Núll núll 9: spennusaga eftir Þorgrím Þráinsson

Núll núll 9: spennusaga er sjálfstætt framhald bókanna Svalasta sjöan og Undir fjögur augu sem komu út 2003 og 2004. Hér er Jóel, aðalsöguhetjan og sögumaðurinn, 16 ára, nýbúinn með grunnskólann og nýfluttur aftur til Akureyrar, síns gamla heimabæjar, eftir að hafa búið í Reykjavík vegna veikinda litlu systur sinnar. Sagan gerist á rúmri viku sumarið 2009 og hefst á því að Jóel situr á kaffihúsinu Bláu könnunni íklæddur ljónabúningi, en hann hefur aukavinnu af því mæta á leikskóla í búningnum og skemmta krökkunum. Hjá honum sest útlensk stúlka, Ania, og þau taka tal saman. Jóel líður eins og asna, ljónabúningurinn þrengir að honum og stelpan gerir grín að honum með því að taka ljónabúninginn fyrir kanínubúning. Ania bregður sér frá og biður hann að geyma tölvuna sína á meðan. Hún kemur ekki aftur og Jóel situr upp með tölvuna og er þar með orðinn þátttakandi í æsilegri atburðarás án þess að fá nokkuð við það ráðið.

Ég efast um að ég hafi lesið meiri texta eftir nokkurn mann annan en Þorgrím Þráinsson í barnæsku minni. Ekki bara var ég sammála flestum jafnöldrum mínum um það að Tár, bros og takkaskór væri líklega besta bók í heimi, Þorgrímur ritstýrði nefnilega líka og skrifaði mestallt efni í Íþróttablaðið, uppáhaldsblað okkar bræðranna sem foreldrar okkar voru svo góðir að leyfa okkur að vera áskrifendur að. Þau blöð lúslas maður samviskusamlega frá upphafi til enda, síendurtekið þangað til að þau voru við það að detta í sundur. Maður kunni því næstum því vel við Þorgrím Þráinsson, ekki meira en það þó. Allir hans kostir náðu nefnilega ekki alveg að vega upp á móti hans stóru synd í augum ungra Vesturbæinga. Hann var jú auðvitað bölvaður Valsari.

Þorgrímur Þráinsson hefur sent frá sér fjölda barnabóka og tvisvar hlotið íslensku barnabókaverðlaunin, árið 1997 fyrir Margt býr í myrkrinu og árið 2010 fyrir Ertu guð afi. Hann hefur að mestu einbeitt sér að barna- og unglingabókum og hefur farið víða í vali á umfjöllunarefni. Ég elska máva er líkt og Ertu guð afi á andlegu nótunum og er hér blandað saman daglegu lífi tveggja barna og djúpri lífsspeki, sem er á köflum afskaplega falleg og full innsæis.