Stefán Máni

„Smári kemur auga á svartan hnífastokk á eldhúseyjunni. Í stokknum eru ótal hnífar með svörtu skafti, stórir og smáir. Hann gengur að eyjunni og dregur upp stærsta hnífinn í stokknum. Það er búrhnífur með breiðu blaði og hvössum oddi, svo beittur að það syngur í egginni.“
(Grimmd)

Stefán Máni fæddist í Reykjavík 3. júní 1970. Hann ólst upp í Ólafsvík og bjó þar fram yfir tvítugt. Hann lauk grunnskólaprófi og hefur síðan stundað almenna verkamannavinnu og unnið þjónustustörf. Þar má telja fiskvinnslu, byggingarvinnu, smíðar, hellu- og pípulagnir, garðyrkju, næturvörslu, ræstingar, bókband, vinnu með unglingum og umönnun geðsjúkra.

Stefán Máni sendi frá sér skáldsöguna Dyrnar á Svörtufjöllum árið 1996 og síðan hafa fjöldamargar skáldsögur fylgt í kjölfarið, síðast Nautið (2015). Hann hefur einnig gefið frá sér tvær unglingabækur, Úlfshjarta (2014) og Nóttin langa (2015). Stefán hefur hlotið Blóðdropann, glæpasagnaverðlaun Hins íslenska glæpafélags í þrígang. Fyrst fyrir Skipið (2007), þá Húsið (2012) og loks fyrir Grimmd (2013). Skipið fékk einnig tilnefningu til Glerlykilsins 2008 en Svartur á leik var tilnefnd til sömu verðlauna 2006. Svartur á leik var kvikmynduð í leikstjórn Óskars Thors Axelssonar og kom út árið 2012.

Skipið hefur komið út í þýðingum í Tyrklandi, Ítalíu, Danmörku, Frakklandi og Þýskalandi.

Stefán Máni býr í Reykjavík.

Forlag: JPV útgáfa.

Að skrifa eða ekki skrifa : Aftur til fortíðar 1 & 2.

(F REW … 2002101999876, STOP. PLAY.)
/: BREAK ON THROUGH (TO THE OTHER SIDE)

Haustið 1996 ákvað ég að skipta um vinnu, hætti í stórri rækjuverksmiðju (sem fór svo á hausinn) og réði mig til starfa í nýlega fiskvinnslu þar sem ég sá um pökkun á frosnum fiskflökum, en hugurinn var ekki í nýju vinnunni, þó að líkaminn stritaði þar frá 6 á morgnana til 8 á kvöldin, ég var nefnilega búinn að semja litla skáldsögu í frítíma mínum, sögu sem mér þótti alveg óskaplega vænt um, og þykir enn, ég tvísteig mikið í gúmmístígvélunum og hugsaði um bókina, um hugsanlega útgáfu, um ritstörf, á meðan kaldar og bólgnar hendurnar flokkuðu fiskflök eftir tegund og þyngd, og að lokum sigraði andinn efnið og ævintýramennskan skynsemina, ég sagði vinnunni hikandi upp, tróð aleigunni í gamla Lödu og keyrði til Reykjavíkur með hnút í maganum, ljós í höfðinu og handritið að Dyrnar á Svörtufjöllum í brúnu umslagi í farþegasætinu...

(F REW … 199654321, STOP. PLAY.)
/: LIGHT MY FIRE

Þegar Hraðfrystihús Ólafsvíkur fór á hausinn árið 1991 myndaðist tóm í þessu litla sjávarplássi, ég missti vinnuna, ásamt stórum hluta bæjarbúa, og innan í mér myndaðist líka tóm, stór og svört hola full af efasemdum um framtíðina og áleitnum spurningum um tilgang og trú, hola sem auðvelt hefði verið að hrapa ofan í og týnast í að eilífu, en eftir að hafa rambað á barmi hennar í eitt, tvö ár og starað von-daufur og ringlaður niður í syndandi myrkrið settist ég einn daginn niður með blað og penna í hönd og tókst með þrautseigju, þolinmæði og þrotlausum stílæfingum að byrgja þennan sálarlausa brunn með samannegldum orðum á blaði : ég hafði samið ljóð, sem ég kallaði leikhús:

í ilmandi þögninni
sem lifir eftir
endurtek
ég sporin
endurtek
ég orðin
endurtek
ég leikinn
frá upphafi
til enda
í tómu húsinu
og hneigi mig síðan
og felli tár
á myrkvuðu sviðinu
um ókomin ár

því þótt tjaldið sé fallið
blómin skrælnuð
og fólkið
fyrir löngu farið
er sýningin
rétt að hefjast.

Stefán Máni, 2002

Verkamaður í víngarði Drottins: eða hæfileikinn til að geta komið auga á hið ómerkilega og smáa. Um verk Stefáns Mána

I

Undir lok skáldsögu Stefáns Mána, Ísrael: Saga af manni (2002), lendir aðalpersónan Jakob, kallaður Ísrael, í stjórnmálarökræðum við matargest sinn sem er aðstoðarfjármagnsflæðistjóri alþjóðalífeyrissjóðs með annan fótinn í pólitík. Sá heitir Haraldur og er kallaður borgarstjóri morgundagsins. Rökræðurnar fara fram yfir borðum en þar er dregin upp allgrótesk mynd af þessum þéttvaxna framtíðarleiðtoga sem smjattar á matnum og virðist ekki kunna eða vera tilbúinn til að sinna almennum borðsiðum. Kannski er það vegna þess að heiðarleiki og hreinskilni er hans mottó en allavega hikar hann ekki við að gera lítið úr verkafólki og heimi þess. Þegar Jakob bendir konu Haraldar, ritstýrunni Líf, á þann möguleika að skrifa greinar í glanstímarit hennar um hið hversdagslega, eins og til dæmis kartöflur og herðatré, bregst hún við með því að tala niður til hans og segir:

Það er kannski gjöf guðs til hins fábrotna verkamanns, þessi undarlegi hæfileiki að geta komið auga á hið ómerkilega og smáa í umhverfinu, á hluti og fyrirbæri sem við, sem hlutum menningarlegt uppeldi og eigum langskólanám að baki, förum á mis við í amstri dagsins [...] hún sagði mér, hún Hrefna sambýliskona þín, Jakob, í trúnaði reyndar, að þegar þið kynntust hafir þú verið rótlaus og drykkfelld barfluga sem átti margra ára flakk og farandverkavinnu að baki, og kallaði sig þar að auki Ísrael, er þetta satt? (248)

Jakob neitar því að hafa verið barfluga, en hikar hinsvegar ekki við að lýsa því yfir að hann sé farandverkamaður í húð og hár, „og verð alltaf farandverkamaður, svona innst inni, ... og er stoltur af því, enda einn af þeim síðustu, ... jafnvel sá síðasti“ (248). Því „tilverunni hefur verið kippt undan fótum farandverkafólksins, ... kvótakerfið, minni afli, vélvæðing og ódýrt erlent vinnuafl hafa séð til þess að íslenskt samfélag er laust við þessa bannsettu plágu“ (253). Þessi plága á sér auðvitað aldagamla hefð á Íslandi, og því er nafnið Ísrael réttnefni að því leyti að það felur í sér sögu heillar þjóðar.

Ísrael: Saga af manni er fjórða skáldsaga höfundar, en sú fyrsta, Dyrnar á Svörtufjöllum (1996) er örstutt og minnir í uppsetningu meira á ljóðabók en skáldsögu. Önnur skáldsaga hans, Myrkravél (1999), vakti nokkra athygli en það var ekki fyrr en með þriðju skáldsögunni, Hótel Kalifornía (2001) sem lesendur og gagnrýnendur fóru verulega að gefa þessum unga höfundi gaum. Ísrael uppfyllir þau loforð sem Hótel Kalifornía gaf, og það er ljóst að þessi ungi höfundur hefur allt það sem þarf til að verða að varanlegri í íslenskri bókmennta- og menningarumræðu.

Líkt og kemur fram í umræðunum í Ísrael er heimur Stefáns Mána heimur verkamannsins. Myrkravél, Hótel Kalifornía og Ísrael eru allar sagðar frá sjónarhorni verkamanns, og þegar æviatriði höfundar eru skoðuð er ljóst að hann færir sér eigin reynslu í nyt. Í pistli sínum hér á síðunni lýsir hann því hvernig hann stóð með hendurnar á kafi í fiskikerum og hugsaði um hvort hann ætti ekki bara að drífa sig og gefa Dyrnar á Svörtufjöllum út: „ég tvísteig mikið í gúmmístígvélunum og hugsaði um bókina, um hugsanlega útgáfu, um ritstörf, á meðan kaldar og bólgnar hendurnar flokkuðu fiskflök eftir tegund og þyngd“. Það er þó ekki fyrr en í Ísrael sem ákveðið stolt gerir vart við sig, meðan aðalpersóna Myrkravélarinnar er maður sem er alvarlega truflaður á geði, og sögumaður Hótels Kaliforníu virðist vera fremur mikill einfeldningur, er Jakob stoltur maður sem lætur ekki troða á sér. Hann er fær í flestan sjó, vinnuþjarkur sem á auðvelt með að aðlagast ólíkum verkamannastörfum og sinna þeim af natni. Þetta kemur sérstaklega vel fram í tengslum hans við vélar, en við þær nær hann sérstöku sambandi, hefur skilning á virkni þeirra og lempar þrjóskustu vélar til samvinnuþýðni. Hann hefur mun meiri stéttarvitund en hinir sögumennirnir og þekkingu á hinu pólitíska landslagi, auk þess sem hann á sér draum um að leiða sína þjóð. Þegar Líf spyr – hæðnislega – hvort nafnið Ísrael vísi til þess að Jakob ætli að verða ættfaðir eða konungur og láta niðja sína skipta þúsundum þá svarar Jakob því til að hann hafi dreymt um „að farandverkafólk sameinaðist undir merkjum ákveðinnar hugsjónar, stofnaði einhverskonar samtök eða hreyfingu, ekki hefðbundna verkalýðshreyfingu eða stjórnmálaflokk, heldur eins konar bræðralag“ (249). Jakob er maður sem stendur á mörkum tveggja heima eða tíma, og þrátt fyrir að hugsjón hans sé honum enn kær, gerir hann sér vel grein fyrir því að svona viðhorf eiga ekki lengur við. Þessi einlægi pólitíski eldmóður er horfinn, eins og farandverkafólkið, en eftir stendur Jakob, og sem fulltrúi horfinna hugsjóna og heimsmyndar þá hlýtur hann að deyja.

II

Heimur verkamannsins er þó fjarri góðu gamni í Dyrunum á Svörtufjöllum, en hún er eina saga Stefáns Mána sem er sögð frá sjónarhorni konu. Sagan er nokkuð dæmigert byrjendaverk, tilraunakennt í stíl og uppsetningu, en höfundur gaf bókina út sjálfur og hannaði útlit hennar. Inni í fjalli býr lítill hópur fólks, sú sem segir söguna, foreldrar hennar og amma. Eitthvað hefur gerst og heimurinn fyrir utan er orðinn óbyggilegur, framtíð mannkyns hvílir á þessum fimm sálum, en þrátt fyrir að afinn sé dauður stendur til að hann endurfæðist. Textinn er örstuttur, og eins og áður sagði minnir hann frekar á langt prósaljóð eða einræðu í leikriti en skáldsögu.
Sami knappi stíllinn einkennir Myrkravél, þó þar sé á ferðinni mun lengra verk. Myrkravél er einskonar stutt skáldsaga, eða nóvella, sem lýsir sjúkum hugarheimi ungs manns. Sagan er sögð í fyrstu persónu og sögumaðurinn situr í fangelsi og segist ekki mennskur, að hann sé myrkravél. Hann rekur ævisögu sína frá bernsku, en svo virðist sem hann hafi alltaf verið undarlega truflað barn. Að endingu er honum vísað úr heimahúsum og eftir það liggur leiðin hratt niður á við. Það gengur illa að fóta sig í samfélaginu og þrátt fyrir að ráða sig tvisvar í byggingarvinnu og gera með því tilraun til að lifa reglubundnu lífi verður óreiðan í sálinni æ meiri, þar til að lokum hann fremur það voðaverk sem hann er fangelsaður fyrir. Skáldsagan er áhugaverð um margt, kannski dálítið unggæðingsleg á köflum, en gaf klárlega til kynna að hér væri metnaðarfullur höfundur kominn á skrið.

Í Myrkravél kemur vel fram sá einmanaleiki sem einkennir verk Stefáns Mána, en þar brýst einsemd sögumanns fram í ofbeldi gegn umhverfi sínu og að lokum manneskju. Stúlkan í Dyrunum á Svörtufjöllum bregst við einmanaleikanum með því að loka sig enn frekar inni, en sögumenn Hótel Kaliforníu og Ísrael streitast gegn einsemd sinni með því að leita misörvæntingarfullt að félaga, kærustu, fjölskyldu. Stefán í Hótel Kaliforníu dreymir um rómantísk samskipti við hitt kynið en er ákaflega óhæfur til að uppfylla slíka drauma, því hann nemur ekki bilið milli þeirra og veruleikans. Jakob í Ísrael á hinsvegar auðvelt með að umgangast konur en samskiptin eru þó ekki alltaf sem skildi, og þrátt fyrir að vera farinn að búa nokkuð hamingjusamlega með Hrefnu þeirri sem heldur matarboðið, sem vitnað er til að ofan, er ljóst að hann kann ekki allskostar við sig og er ekki kominn í höfn.

Naprasta einsemdin loðir þó við sögumann Hótel Kaliforníu, þegar hann í enda sögunnar gengur einn inn sjúskaðan gang skemmtistaðarins, en áður hefur komið fram í sögunni að þetta kvöld eigi ekki eftir að lukkast vel. Hótel Kalifornía sver sig í ætt við hefðbundnar þroskasögur ungra manna, líkt og birtist í misheppnuðum samskiptum sögumanns við konur. Þessi vandræðagangur sögumanns í Hótel Kaliforníu varð til þess að mér leist ekki meira en svo á blikuna og hugsaði með mér hvort ekki væri nóg komið af þessum endalausu sögum um unga menn, þeirra óspennandi komplexum og lífsviðhorfum og hvort ég þyrfti virkilega eina ferðina enn að sitja undir því að lesa sögu um einhverja stráka í tilvistarkreppu og þeirra tilbreytingalausa líf. Nema Stefán Máni kom mér ánægjulega á óvart og skrifar sögu sem sker sig úr þessum annars einsleita hópi skáldsagna. Því eitt af því sem er eftirtektarvert við Hótel Kalíforníu er að söguhetjan þroskast bara ekki par. Og í því liggur sjarmi þessarar annars yfirlætislausu sögu, hetjan unga, ungi maðurinn á tilgangslausri leið sinni í gegnum lífið sem samkvæmt formúlunni á að vera annar maður í bókarlok en hann var í upphafi, er enn jafn tilgangslaus og hann var í byrjun.

Fyrri hluti skáldsögunnar segir frá því hvernig söguhetjan, sögumaðurinn Stefán, lifir sínu tilbreytingalausa lífi. Hann vinnur í fiski, við vél sem hausar þorska. Yfirleitt er svo mikið að gera að hann verður að vinna laugardaga líka. Það kemur hinsvegar ekki í veg fyrir að hann fari á formúlukennd fyllerí með vinum sínum um helgar, þarsem íslenskt brennivín í pepsí leikur aðalhlutverkið. Eftir því sem á líður söguna verður ljóst að sögumaður hefur nokkra sérstöðu í fiskvinnslusamfélaginu og þykir dálítið skrýtinn. Hann til dæmis fer í gönguferðir. Og í einni slíkri rifjast upp áhrifarík en stutt dvöl í höfuðborginni, þarsem drengnum var ætlað að sækja Menntaskólann í Reykjavík. Hann hinsvegar dreymdi um að fara í Iðnskólann, enda sérlega laginn við allt sem gekk fyrir rafmagni. Skólagangan – sem einmitt býður upp á enn eina þroskasöguklisjuna – endar sem fíaskó og Stefán flýr aftur heim á vit hins fullkomna tilbreytingalausa lífs.

Stíllinn er agaður og hreinlega eintóna á köflum, sem hæfir hinu eintóna lífi sögumanns. Til að byrja með var þetta dálítið erfitt en eftir því sem á líður fer lesandi að finna fyrir veðrabrigðum í lífi Stefáns, vonum og draumum, þreytu og örvæntingu auk hins linnulausa leiða og vonleysis. Tónlistin sem hann hlustar á spilar nokkuð hlutverk og á sinn þátt í að auka á blæbrigðin og opna leið inn í huga sögumanns. Aðalstefið er náttúrulega „Hotel California“, en í stað þess að láta það lag hljóma sínkt og heilagt, þá birtast laglínur úr því á stöku vel völdum stað, auk þess sem það leikur lykilhlutverk fyrir endalok sögunnar.

III

Því hefur verið haldið fram að skáldsögur yngstu kynslóðar íslenskra rithöfunda einkennist af einhverskonar afturhvarfi til raunsæis, og hefur orðið ný-raunsæi jafnvel verið nefnt í þessu sambandi. Er þá væntanlega verið að vísa í skáldsögur Auðar Jónsdóttur, Gerðar Kristnýjar, Guðrúnar Evu Mínervudóttur og Mikaels Torfasonar, en þrátt fyrir að Andri Snær teljist vissulega til yngstu kynslóðarinnar verða verk hans hingað til seint kölluð raunsæisleg. Ég er ekki fyllilega sannfærð um þessa skilgreiningu því þrátt fyrir að vissulega einkennist skáldverk þessara höfunda af ákveðnu raunsæi, þá er það raunsæi ákaflega skilyrt fyrirbæri, og þessi skilyrðing birtist greinilega í skáldsögum Stefáns Mána. Reyndar birtst sérstök nálgun á raunsæi einnig í skáldsögum Auðar, Guðrúnar Evu og Gerðar Kristnýjar, en þar virðist það einhvernveginn alltaf í hættu statt, og sífellt við það að tryllast og verða eitthvað allt annað. Svona eins og það sé tæplega tamið dýr í búri.

Og þessi tilfinning fór semsagt að grafa um sig í mér eftir því sem ég las mig lengra í inn eftir göngum Hótel Kaliforníu. Undir hinu ördauða yfirborði leynist spenna sem brýst annað slagið út – oftar en ekki í drykkjuspýju. Átökin við raunsæið eru svo enn meiri í Ísrael, en þar siglir höfundur lesanda gegnum langar nákvæmar lýsingar á vinnubrögðum og atvinnuháttum og hversdagslegum smáatriðum í lífi sögumanns. Það eru einmitt þessi tök á hversdeginum, þetta næmi fyrir því venjulega, eða, svo notuð séu orð höfundar hér að ofan, „þessi undarlegi hæfileiki að geta komið auga á hið ómerkilega og smáa í umhverfinu“ sem gefa látlausum stíl Stefáns Mána lymskulegan kraft sem þegar best lætur hefur dáleiðandi áhrif á lesandann.

Dæmi um slíka lýsingu er sagan af uppvasksstarfinu á fínum matsölustað í Reykjavík. Senan opnast fyrir utan veitingastaðinn, en hann er til húsa í hundrað ára gamalli bruggverksmiðju í gamla austurbænum. Við fylgjum gestum inn um þungt járnhlið sem opnar klukkan sex síðdegis og inn ganginn, lagðan rauðu teppi, inn í móttökuna og þaðan inn í koníaksstofuna. Eftir nokkra dvöl þar kemst lesandi loks inn í borðsalinn sem er lýst nákvæmlega, en þar sveima þjónar inn og út úr eldhúsinu. Og það er ekki fyrr en á fimmtu síðu kaflans um uppvaskið sem lesandi fær að sjá eldhúsið og vinnuaðstöðu Jakobs, sem er lýst af sömu námkvæmninni og innbúi veitingahússins. Stefán stýrir ferðinni af öryggi og ég fylgdi honum alveg dáleidd í gegnum rangala hússins, rifrildi þjóna og aðferðir við að hreinsa sjóðheita uppþvottavélina. Tökin eru fumlaus og fim, rétt eins og tök Jakobs á vélinni og starfi sínu og framfarirnar frá Hótel Kaliforníu eru greinilegar, en á stundum urðu álíka nákvæmnislýsingar þar dálítið þungar í vöfum og þreytandi aflestrar. Aðrar slíkar senur eru kaflinn í prentverksmiðjunni sem er einskonar þungamiðja skáldsögunnar, og hefst á langri forsögu prentsmiðjunnar og stofnenda hennar, en lýsingar þar á samskiptum Jakobs við vélar og annað starfsfólk eru hreint frábærar.

Það er í slíkum ílöngum og íhugulum nákvæmnislýsingum sem hugmyndin um hefðbundið raunsæi brestur. Þriggja síðna lýsing á ferð bókar gegnum fæðingavegi vélanna reynir um of á þanþol veruleikablekkingarinnar, en hún hefst svo:

Í bókbandsdeild prentsmiðjunnar var samankomið ótrúlegt safn af vélum, bláum, gráum og grænum, sem gengu fyrir rafmagni og lofti, skröltu áfram og soguðu og blésu, flestar orðnar lélegar, fornar í skapi og pínulítið sérvitrar, tannhjólin slitin, keðjunrnar slakar, öxlarnir bognir og reimarnar trosnaðar, en þær gerðu sitt gagn og unnu oft myrkranna á milli við að skera, brjóta, sauma, taka upp, líma og hefta framleiðslu fyrirtækisins, allt frá einföldum bæklingum og eyðublaðaheftum til dýrra glanstímarita og fallegra, innbundinna bóka. (92)

Þessi persónugerving vélanna heldur svo áfram, en eins og áður sagði hefur Jakob sérstaka hæfileika þegar kemur að vélum.

Í prentsmiðjunni vinnur einnig unglingssonur eigandans, Rósi Brekkan sem er ’droppát’ úr skóla með ýkt litað hár og furðulegar hugmyndir um heiminn. Hann er ekki liðtækur til vinnu en þeimmun duglegri við að spinna upp undarlegustu dagdrauma, eins og þann að „prentsmiðjan væri alls ekki prentsmiðja heldur bara blekking, við værum ekki frjálsir verkamenn heldur lífstíðarfangar í einu rammgerðasta fangelsi alheimsins“ (145). Hér mætti hugsa sér að ýjað sé að því að allur almenningur sé fangi blekkingar; ekki frjálsir verkamenn heldur lífstíðarfangar í því rammgerða fangelsi sem nútímasamfélag er. Persónugerving vélanna og uppspuni stráksins er líka dæmi um hvernig undirtónar fantasíu smeygja sér inn í verkið. Fantasíu í íslenskum bókmenntum hefur vaxið fiskur um hrygg á tíunda áratugnum og þrátt fyrir að verk áðurnefndra ungra höfunda geti ekki talist fantastísk bera þau mörg merki þess þrots raunsæisins sem birtist svo vel í ofurnákvæmum raunsæislýsingum Stefáns Mána.

Og í raun er þessi hugmynd Rósa ekki fjarri lagi þeirri sýn á raunsæi sem Stefán Máni skapar í verki sínu, með sínum útsmognu lýsingum og linnulausri skrásetningu á hversdagslegustu atburðum. Lesandinn fær það eiginlega á tilfinninguna að þetta hljóti allt að vera blekking.

© Úlfhildur Dagsdóttir, 2002

Verðlaun

2014 – Blóðdropinn: Grimmd

2013 – Blóðdropinn: Húsið

2007 – Blóðdropinn: Skipið

Tilnefningar

2008 – Glerlykillinn, norrænu glæpasagnaverðlaunin: Skipið

2006 – Glerlykillinn, norrænu glæpasagnaverðlaunin: Svartur á leik

Viðtöl

Tine Maria Winther: „Fra fiskefileter til forfatter“
Viðtal við Stefán Mána í Politiken í tilefni danskrar útgáfu Skipsins.
Politiken 13. júní 2009, sjá hér

Greinar um einstök verk

Grimmd

Kormákur Bragason: „Bókmenntaspjall: Kormákur Bragason fjallar um bækur“ (ritdómar)
Stína 2014, 9. árg., 2. tbl. bls. 122-32.

Myrkravél

Berglind Steinsdóttir: „Myrkir innviðir.“
Tímarit Máls og menningar, 61. árg., 3. tbl. 2000, s. 118 - 121.

Björg Gísladóttir: „Saga af illum huga.“
Vera 18. árg., 6. tbl. 1999, s. 60.

Ódáðahraun

Ingvi Þór Kormáksson: „Eiturlyfjabarón gerist bisnessmaður“
Bókmenntavefurinn, umfjöllun um bækur, sjá hér

Skipið

Davíð Stefánsson: „Að ferðast án meðvitundar“ (ritdómur)
Tímarit Máls og menningar 2007, 68. árg., 4. tbl. s. 128-33.

Úlfhildur Dagsdóttir: „Sjómannslif - ástir og ævintýr?“
Bókmenntavefurinn, umfjöllun um bækur, sjá hér

Svartur á leik

Erna Erlingsdóttir: „Bissness og blóðhefnd.“
Tímarit Máls og menningar, 66. árg., 3. tbl. 2005, s. 97 - 102.

Úlfhildur Dagsdóttir: „Sveitapiltsins draumur“
Bókmenntavefurinn, umfjöllun um bækur, sjá hér

Túristi

Páll Ásgeir Ásgeirsson: „Bók með óþarfan farangur“
Tímarit Máls og menningar, 67. árg., 2. tbl. 2006, s. 130-133

Úlfshjarta

Ásdís Guðrún Sigmundsdóttir: „Íslenskar fantasíur : upprisa tegundabókmenntanna“
Spássían 2013, 4. árg., haust/vetur, bls. 11-6.

Erla Elías-Völudóttir: „Að beisla úlfinn hið innra“ (ritdómur)
Börn og menning 2013, 28. árg., 1. tbl. bls. 28-9.

Helga Birgisdóttir: „Spangól í einmana úlfi“ (ritdómur)
Spássían 2013, 4. árg., vor/sumar, bls. 8.

Greinar og viðtöl við Stefán Mána hafa einnig birst í dagblöðum, sjá t.d. Gagnasafn Morgunblaðsins

Year:
1996
Publisher:
Category:
Year:
2011
Publisher:
Category:
Year:
2013
Publisher:
Category:
Year:
2001
Publisher:
Category:
Year:
2012
Publisher:
Category:
Year:
2009
Publisher:
Category:
Year:
2002
Publisher:
Category:
Year:
2014
Publisher:
Category:
Year:
1999
Publisher:
Category:
Year:
2015
Publisher:
Category:
Year:
2008
Publisher:
Category:
Year:
2006
Publisher:
Category:
Year:
2004
Publisher:
Category:
Year:
2005
Publisher:
Category:
Year:
2008
Publisher:
Category:
Year:
2015
Publisher:
Category:
Year:
2013
Publisher:
Category:
Year:
2009
Publisher:
Year:
2012
Publisher:
Year:
2010
Publisher:
Year:
2011
Publisher:
Year:
2013
Publisher:
Year:
2009
Publisher:
Ár:
2009
Útgefandi:
Ár:
2008
Útgefandi:
Flokkur:
Ár:
1996
Útgefandi:
Flokkur:
Ár:
2011
Útgefandi:
Flokkur:
Ár:
2013
Útgefandi:
Ár:
2013
Útgefandi:
Flokkur:
Ár:
2001
Útgefandi:
Flokkur:
Ár:
2012
Útgefandi:
Flokkur:
Ár:
2009
Útgefandi:
Flokkur:

Það er ekki beint jarðarfararstemning yfir skáldsögu Stefáns Mána, þó hún beri nafnið Feigð. Né er þetta föl og fá bók, titrandi eins og lauf í vindi. Vissulega er hún uppfull af ógn, en það sem einkennir verkið mest er kraftur, þungur taktur, öflugur sláttur sem birtist bæði í efnistökum og textanum og gerir það að verkum að lesandi hálfpartinn dáleiðist á stundum og hjartað byrjar að hamast.

Þrátt fyrir að úlfar hafi aldrei fundist á Íslandi má finna ýmis ummerki þeirra í sögum og kvæðum frá miðöldum. Berserkir hafa löngum tengst hamförum, meðal annars varúlfum og í Egils sögu er mikið um úlfslegar lýsingar, allt frá afa Kveld-Úlfi til augnabrúna Egils sjálfs. Norræn goðafræði er auðug af úlfum og er Fenrisúlfur líklega þeirra þekktastur. Óðinn sjálfur er nátengdur úlfum og hefur tvo til fylgdar, úlfar gleypa sól og mána þegar Ragnarökin bresta á (nú í apríllok) og ekki má gleyma Garmi, hvers gól er upphafið að endalokunum.

Svartur á leik eftir Stefán Mána

Það er kannski best að byrja á því að afhjúpa hvað ég er mikill smáborgari og lýsa því yfir að svona almennt séð hef ég óttalega lítinn áhuga á veröld undirheima og eiturlyfja, handrukkara og dílera. Mér hefur alltaf þótt þetta fremur óspennandi og almennt leiðst meira með eiturlyfjum en án þeirra. Það var því ekki með neinni sérstakri tilhlökkun sem ég hóf lestur á þykkri bók Stefáns Mána, Svartur á leik, en hún fjallar einmitt um undirheima, eiturlyf og hverskyns glæpi og ofbeldi þar í kring. Á hinn bóginn met ég Stefán Mána mikils sem rithöfund og ætlast til mikils af honum og vonaðist því eftir að að hann gerði mér þennan lestur einhvers virði. Í stuttu máli sagt gekk það síðarnefnda eftir, færni Stefáns Mána varð yfirsterkari áhugaleysi mínu á viðfangsefninu og ég át mig í gegnum doðrantinn.

Túristi eftir Stefán Mána

Stefán Máni hefur sýnt og sannað að þrátt fyrir að hann sé tiltölulega nýinnvígður í heim bókmenntanna þá hefur hann náð tökum á þeirri hlið hans sem snýr að markaðsmennsku og kynningu. Þegar hann vann að skáldsögu sinni frá síðasta ári, Svartur á leik, birtust reglulega viðtöl við hann þarsem hann lýsti kynnum sínum af undirheimum Reykjavíkurborgar (svo rammt kvað að að margir héldu því staðfastlega fram að bókin héti ‘Undirheimar Reykjavíkurborgar’) og í ár lék hann sama leikinn aftur með því að boða komu þessarar nýju bókar, Túristi, með mis-dularfullum vísunum til þess að bókin fjalli um heim og helstu persónur íslenskra bókmennta.

Titillinn hér að ofan hefði getað verið undirtitill Ódáðahrauns, nýjustu skáldsögu Stefáns Mána. Skúrkurinn Óðinn R. Elsuson er reyndar bisnessmaður að upplagi en alltaf röngu megin við lögin. Þegar hann svo fær tækifæri til að taka þátt í nokkurn veginn lögmætum viðskiptum grípur hann það þótt ófús sé í fyrstu. Hann hefur nefnilega verið nokkuð ánægður með sig og sitt fram að þessu. Hann gengur til starfa í viðskiptageiranum af sama miskunnarleysinu (en kannski ekki sama ákafanum) og tíðkast hinum megin við línuna og er að lokum orðinn stórefnamaður. Það er svo spurning hvort hann er hamingjusamur í hinu nýja hlutverki sem góðborgari og styrktaraðili Óperunnar.

Ofgnótt hefur verið helsta einkenni á skáldskap Stefáns Mána - allavega frá og með Hótel Kalifornía; ofgnótt í tungumáli sem birtist í ofurnákvæmum drekkhlöðnum lýsingum á umhverfi, atburðum og aðbúnaði og er einhvernveginn alltaf heillandi, þrátt fyrir að lesönd sé á stundum byrjuð að bölva þessum eilífa orðavaðli og jafnvel fletta síðum til að telja hvað sé mikið eftir. Meira að segja í Túrista, síðustu skáldsögu Stefáns Mána og eina verki hans sem ekki gekk fyllilega upp, var ofgnóttin það sem gladdi mest og dreif lesturinn áfram, eins þversagnakennt og það hljómar.

Hyldýpi eftir Stefán Mána

Tíu ára strákur sekkur í hyldjúpt og kyrrt vatnið og sér þar sýn; stelpu á aldur við hann sjálfan sem réttir honum eitthvað. Tíu árum síðar verður strákurinn fyrir árás og finnst nakinn í skurði. Hann man ekkert eftir aðdraganda árásarinnar en fréttir svo að sama dag hvarf ung stúlka, sem hann er sannfærður um að sé sú sama og hann sá í vatninu. Hann er einnig sannfærður um að hvarf hennar tengist sínu á einhvern hátt og sé glæpsamlegt og reynir að rannsaka málið í trássi við allt og alla, en stúlkan hafði verið nokkuð þekkt fyrir lauslæti og því er hvarf hennar ekki tekið mjög alvarlega. Grunur hans beinist að samstarfsmönnum sínum á fasteignasölunni, frændanum Bergi og bræðrum sem eru vinir hans. Þeir þrír voru einmitt með honum úti á báti á vatninu þegar hann sökk ofaní djúpið. Þeir stunda ekki aðeins vafasöm viðskipti heldur virðast þeir hafa tileinkað sér einskonar heimspeki illskunnar. Inn í málið blandast svo misnotkun í æsku, en allir voru strákarnir misnotaðir af sama manninum, föður Bergs, en hann rekur einmitt fasteignasöluna sem þeir vinna allir hjá.

Bók Stefáns Mána, Nautið, var ekki fyrr komin út en það fréttist að gera ætti sjónvarpsþáttaröð byggða á henni.