Lóa Hjálmtýsdóttir

Lóaboratoríum: Nýjar rannsóknir hafa mögulega leitt eitthvað í ljós eftir Lóu Hjálmtýsdóttur

Lóaboratoríum: Nýjar rannsóknir er þriðja myndasögubók Lóu Hlínar Hjálmtýsdóttur. Eins og í síðustu bók Lóu Hlínar, Lóaboratoríum, er ekki um að ræða heildstæða sögu heldur samansafn smærri sagna. Bókin er samansett úr fjölbreyttum einnar síðu myndasögum, sem eru allt frá því að vera eins ramma og orðlausar yfir í margra ramma og fjölmálga myndasögur. Þrátt fyrir að engar sagnanna nái lengra en eina blaðsíðu í senn er sterk innbyrðistenging milli þeirra í gegnum umfjöllunarefni og myndrænan stíl. Margir ættu að þekkja til efnistaka og teiknistíls Lóu þar sem myndasögur eftir hana birtast reglulega í dagblöðum og á netinu.

Íslensk dægurlög eftir Hugleik Dagsson

Æ, heimurinn er svo stór, jólin eru svo stór, ævisögulegu skáldsögurnar eru svo stórar. Og hafið, það er líka stórt. En maður hagar seglum eftir vindi. Nú skellur myrkrið á og þá er ekki hægt að biðja til guða hinna stóru hluta, þegar sólin sést hvergi og samfélagið situr heima í öreindum sínum. Þá má leggja traust sitt á minni hluti, til dæmis kökugaffal, ullarvettling, krossgátu eða tvöfalda sérhljóða almennt. Þegar jólin loksins ryðjast yfir er gott að geta gengið að þessum hlutum vísum, og þegar maður er á gangi er gott að hafa litla bók í vasanum til að lesa þegar maður sest niður aftur. Tvær slíkar komu út nýverið: Íslensk dægurlög eftir Hugleik Dagsson og Alhæft um þjóðir eftir Lóu Hlín Hjálmtýsdóttur. Þær eru gefnar út af nýju forlagi Hugleiks og Ólafíu Erlu Svansdóttur sem nefnist Ókeibæ(!)kur, en þar verður að sögn lögð áhersla á myndasögur og listaverkabækur, og er víst ekki vanþörf á.