Gunnar Helgason

„Maður heyrði hróp og köll í þjálfurunum og dómararnir voru að dreifa sér á vellina. Fánar allra liðanna blöktu á fánastöngunum og á öllum völlunum voru lið að hita upp. Ég gleymdi um leið öllum draumum og stelpum. Það var kominn tími á fótbolta.“
(Aukaspyrna á Akureyri)

Gunnar Helgason er fæddur árið 1965 í Reykjavík. Hann er leikari að mennt, útskrifaðist frá Leiklistarskóla Íslands árið 1991 og hefur síðan þá unnið sem leikari, leikstjóri og handritshöfundur fyrir kvikmyndir, svið og sjónvarp. Gunnar hafði umsjón með Stundinni okkar á Ríkissjónvarpinu árin 1994-6 ásamt Felix Bergssyni og í kjölfarið hafa þeir samið og sent frá sér heilmikið af tónlist fyrir börn og leiknu barnaefni í ýmsum miðlum. Þá hafði Gunnar umsjón með uppsetningum leikrita Latabæjar víðs vegar um heim árin 2008-10.

Gunnar gaf frá sér sína fyrstu barnabók, Goggi og Grjóni, árið 1992. Árið 1995 birtist framhald á ævintýrum þeirra félaga, Goggi og Grjóni: vel í sveit settir. Síðan hefur Gunnar sent frá sér einar átta barnabækur, þar á meðal sögurnar um fótboltastrákinn Jón Jónsson sem hefjast með Víti í Vestmannaeyjum (2011). Gunnar fékk vorvindaviðurkenningu IBBY á Íslandi árið 2013 fyrir framlag sitt til barnamenningar, og hlaut Bókaverðlaun barnanna þrjú ár í röð 2013-2015. Þá hlaut hann Íslensku bókmenntaverðlaunin í flokki barna- og unglingabókmennta fyrir Mömmu klikk! árið 2015.

Gunnar býr í Reykjavík.

Forlag: Mál og menning.

Pistill frá Gunnari Helgasyni

Ég fæddist inn í mjög skemmtilega og hressa fjölskyldu. Mamma var hressasta mamman í blokkinni (Háaleitisbraut 18 – sögusvið Gogga og Grjóna) og þótt víðar væri leitað. Hún var alltaf að láta okkur krakkana gera eitthvað. Safnaðai saman fullt af krökkum og lét okkur fara í leiki eða syngja. Hún spilaði á gítarinn eða píanóið þó hún segðist ekkert kunna á hljóðfæri. Svona nett mamma klikk.

Ég á tvíburabróður, hann Ásmund og tvö eldri systkini, Nínu og Hallgrím. Ég deildi herbergi með Nínu (Ási með Hallgrími) alveg þangað til að hún varð svo unglingaveik að mamma og pabbi ákváðu að við þyrftum stærri íbúð þar sem Nína (og Hallgrímur) fengju sérherbergi. Reyndar svaf amma Malla inni hjá mér þegar hún bjó hjá okkur. Ég hef ekki hugmynd um hvar Nína var á meðan.

Pabbi vann hjá Vegagerðinni við að hanna brýr og seinna sem Vegamálastjóri.  Það þýddi að við ferðuðumst mjööög mikið um landið á sumrin og stoppuðum við hverja einustu brú til að kíkja undir hana og athuga ástandið á henni. Við fórum því ekki hratt yfir en þetta þýddi að við Ási fórum að hafa mikinn áhuga á að kasta einhverju út í straumvatn. Það voru steinar á þessum árum en það þróaðist út í flugur. Ég er forfallinn veiðisjúklingur og hef gert tvær myndir um seiði og tvær sjónvarpsséríur með Ása bró. Sú þriðja verður sýnd á RÚV í vor.

Ástæðan fyrir því að ég skrifa bækur er einföld. Mér finnst ég soldið góður í því og maður á að reyna að að gera það sem maður er góður í.

Ástæðan er hinsvegar flókin líka. Ég ólst upp við það að hámarkið, loka-takmarkið, hápunkturinn og það allra flottasta í lífinu væri að vera listamaður. Málari eða skáld var mest töff. Ég ætlaði aldrei að verða það enda fannst manni listamenn vera galdramenn og álíka líklegt að maður gæti orðið svoleiðis eins og að maður gæti orðið Harry Potter.

Hinsvegar skrifaði ég mína fyrstu bók í 8. bekk. Það er að segja, ég átti að skrifa ritgerð eða sögu og  endaði á því að fylla heila stílabók, spjaldanna á milli með sögu um innflytjendur til Ameríku og indjána og vonda karla og það allt. Guðni íslenskukennari var mjög ánægður með afraksturinn og las alla bókin fyrir bekkinn. Það tók heila viku. Mjög erfiða viku fyrir mig en að lestrinum loknum sagði Guðni að ég ætti að gera meira af þessu. Sem ég gerði ekki. Fyrr en í menntaskóla. Þar hitti ég annan kennara sem hvatti mig ákveðið áfram. Það var hann Brynjólfur. Hann gaf mér reyndar bara 6,0 fyrir smásögu sem var hluti af  lokaeinkunn sem var alveg glatað því ég hafði skrifað sögur fyrir tvo vini mína sem fengu 8,5 og 9,0 fyrir „sínar“ sögur. Ég fékk að skrifa aðra sögu og fékk 8,5 fyrir hana.  Ég hafði ætlað að vera svona rosalega djúpur og gáfaður í fyrstu sögunni minni að það skildi hana ekki nokkur maður „þó að stíllinn væri nokkuð góður“ eins og Brynjólfur sagði.

Ég var hálfbeygður eftir þetta en náði mér á strik mánuði síðar, því á stúdentsprófinu sjálfu fékk ég nokkur söguefni til að skrifa. Ég valdi „glæpur og refsing“ og skrifaði barnasögu. Prófdómararnir gáfu henni 9,5 og það fylgdi með að hún hefði átt að fá 10.0 en það tíðkaðist bara ekki að gefa smásögum 10,0.

Þannig að ég fékk það svona smám saman staðfest að ég gæti skrifað.

Strax eftir útskrift úr leiklistarskólanum skrifaði ég Gogga og Grjóna. Ég vann sem næturvörður þetta sumar í þjónustuhúsi fyrir aldraða – þar sem amma var – og eftir að hafa farið kaffirúntinn til nokkurra vina minna og fengið pönnukökur hjá ömmu settist ég niður og handskrifaði fyrstu bókina. Hún kom út tveimur árum síðar og fékk afbragðsdóma og seldist bara vel. Svo skrifaði ég aðra bók um þá félaga en varð svo mjög upptekinn af því að vera leikari. Skrifaði reyndar Grýlu en var að öðru leyti mest í því að leika og leikstýra. Það var svo árið 2008 að ég byrjaði að vinna hjá Latabæ (sá um leikritin þeirra, sem eru sýnd út um allan heim) og þá fann ég hvar ég átti heima. Það var í barnaefninu. Barnabókinni. Ég ákvað árið 2010, þegar ég hætti hjá Latabæ að héðan í frá skyldi ég skrifa eina bók á ári fyrir börn.

Það hefur tekist og gengið bara ágætlega.

Gunnar Helgason, nóvember 2016

Verðlaun og viðurkenningar

2017 - Bókaverðlaun barnanna: Pabbi prófessor

2015 - Bókaverðlaun barnanna: Mamma klikk!

2015 - Íslensku bókmenntaverðlaunin, flokkur barna- og unglingabóka: Mamma klikk!

2015 - Bókmenntaverðlaun starfsfólks bókaverslana, besta íslenska barnabókin: Mamma klikk!

2014 - Bókaverðlaun barnanna: Rangstæður í Reykjavík

2013 - Bókaverðlaun barnanna: Aukaspyrna á Akureyri

2013 - Vorvindaviðurkenning IBBY á Íslandi, fyrir framlag til barnamenningar


Tilnefningar

2016 - Vestnorrænu barnabókaverðlaunin: Mamma klikk!

Almenn umfjöllun

Jón Yngvi Jóhannsson: „Þetta á að vera FÓTBOLTABÓK!“
Tímarit Máls og menningar 2015, 76. árg., 4. tbl. bls. 32-44.

Um einstök verk

Gula spjaldið í Gautaborg

Gísli Skúlason:  „Fimm í fótbolta?“ (ritdómur)
Börn og menning 2015, 30. árg., 1. tbl. bls. 20-1.

Víti í Vestmannaeyjum og Aukaspyrna á Akureyri

Helga Birgisdóttir: „Spenna, gleði og sorg innan og utan vallar“ (ritdómur)
Spássían 2012, 2. árg., 4. tbl. bls. 18.

 

 

Aukaspyrna á Akureyri eftir Gunnar Helgason
Year:
2012
Publisher:
Category:
Goggi og Grjóni eftir Gunnar Helgason
Year:
1992
Publisher:
Category:
Grýla eftir Gunnar Helgason
Year:
1997
Publisher:
Category:
Gula spjaldið í Gautaborg eftir Gunnar Helgason
Year:
2014
Publisher:
Category:
Rangstæður í Reykjavík eftir Gunnar Helgason
Year:
2013
Publisher:
Category:
Víti í Vestmannaeyjum eftir Gunnar Helgason
Year:
2016
Publisher:
Category:
Mamma klikk! eftir Gunnar Helgason
Year:
2015
Publisher:
Category:
Pabbi prófessor eftir Gunnar Helgason
Year:
2016
Publisher:
Category:
Aukaspyrna á Akureyri eftir Gunnar Helgason
Ár:
2012
Útgefandi:
Flokkur:
Goggi og Grjóni eftir Gunnar Helgason
Ár:
1992
Útgefandi:
Flokkur:
Grýla eftir Gunnar Helgason
Ár:
1997
Útgefandi:
Flokkur:
Mamma klikk! eftir Gunnar Helgason
Ár:
2015
Útgefandi:
Flokkur:
Pabbi prófessor eftir Gunnar Helgason
Ár:
2016
Útgefandi:
Flokkur:
Rangstæður í Reykjavík eftir Gunnar Helgason
Ár:
2013
Útgefandi:
Flokkur:
Víti í Vestmannaeyjum eftir Gunnar Helgason
Ár:
2016
Útgefandi:
Flokkur:
Hér er komin þriðja bókin eftir Gunnar Helgason um þróttarann Jón Jónsson og vini hans, fótboltann og lífið. Bókin er sjálfstætt framhald af Víti í Vestmannaeyjum (2011) og Aukaspyrnu á Akureyri (2012) sem hafa báðar notið mikilla vinsælda meðal lesenda. Aukaspyrna á Akureyri hlaut nýverið Bókaverðlaun barnanna þar sem lesendur á aldrinum 6-12 ára velja bestu barnabók síðasta árs.

Eftir hinar geysivinsælu fótboltabækur um Jón Jónsson og félaga hans í Þrótti snýr Gunnar Helgason sér að sígíldu unglingavandamáli, eða hvernig það er að eiga klikkaða foreldra þegar maður er bara

Þá er komið að síðustu bókinni um Jón Jónsson þar sem hann tekst á við fótboltann, ástina og lífið.

Pabbi prófessor eftir Gunnar Helgason

Pabbi prófessor er sjálfstætt framhald á Mamma klikk! og nú er mamman í algeru aukahlutverki. Mamma Stellu fær nefnilega óvænt boð um vinnu erlendis í desember og fram á næsta ár og ákveður að setja sjálfa sig í forgang eftir að hafa látið fjölskylduna ganga fyrir í mörg, mörg ár. Í fjarveru hennar ætlar pabbi Stellu, sem er kennari við Háskólann, að taka að sér allan jólaundirbúning samhliða því að kenna, fara yfir próf og sjá um fjölskylduna. Stellu grunar að þrátt fyrir fögur fyrirheit muni pabbi hennar samt algerlega klikka á jólunum enda hefur hann fram að þessu ekki verið þekktur fyrir að hafa mikinn tíma í desember né sérstaka hæfileika við jólabakstur og þess háttar. En pabbi Stellu er bjartsýnn. Hann ætlar að taka þetta allt saman með trompi og ákveður, Stellu til hryllingar, að breyta öllum jólahefðum fjölskyldunnar og hafa „pabbajól“ með alls konar nýjungum. Áhyggjur Stellu af vanhæfi pabba hennar til að halda utan um jólaundirbúninginn virðast, þegar líður á desember, vera á rökum reistar. Dagarnir líða allt of hratt og jólin nálgast óðfluga en ekkert gerist heimafyrir. Stella og Siggi litli bróðir hennar verða að ganga í verkið og undirbúa jólin ef mamma á ekki að fá áfall þegar hún kemur heim í jólafrí og það á eftir að gera allt.