Friðgeir Einarsson

Takk fyrir að láta mig vita eftir Friðgeir Einarsson

Smásagnasafnið Takk fyrir að láta mig vita eftir Friðgeir Einarsson hefur að geyma þrettán smásögur. Það er vandasamt verk að fjalla um smásagnasafn á heildstæðan máta, sérstaklega þegar umrætt safn inniheldur mjög fjölbreyttar sögur, bæði hvað varðar sjónarhorn og efnisval. Þrátt fyrir að sögurnar séu margbreytilegar á yfirborðinu má engu að síður finna ákveðna stemningu sem sameinar sögurnar og umlykur verkið í heild sinni. Stemningin er ljúfsár þar sem Friðgeir dregur fram litlu atriðin í hversdagslífinu sem eru ósköp ómerkileg á yfirborðinu en reynast merkingarþrungin þegar kastljósinu er beint að þeim. Eftir lestur verksins er það angurværðin í sögunum sem stendur upp úr, smávægilega hryggðin sem sáldrað er yfir lífið í örlitlum skömmtum. Hryggðin sem við eigum að harka af okkur og ekki láta á okkur fá.