Elías Snæland Jónsson

„Súsí sneri bakinu að sjónum, hélt fast um grímuna með báðum höndum, hallaði sér varlega út fyrir borðstokkinn og lét sig falla. Hún skall beint á höfuðið í sjóinn. Henni brá við höggið, fór að hósta og kreppti sig ósjálfrátt saman um leið og hún sökk niður í djúpið þar sem þögnin ríkti.“
(Haltu mér fast!)

Elías Snæland Jónsson fæddist 8. janúar 1943 að Skarði í Bjarnafirði, Strandasýslu. Að loknu prófi frá Samvinnuskólanum 1962 stundaði hann nám í Skóla norsku verkalýðshreyfingarinnar í Sörmarka í Noregi og hóf störf sem blaðamaður við Sunmöre Arbeideravis í Álasundi vorið 1963. Hann var blaðamaður á Tímanum og Vísi þar sem hann gegndi einnig stöðu ritstjórnarfulltrúa, ritstýrði Nýjum þjóðmálum 1994 – 1996, Tímanum 1981 - 1984, var aðstoðarritstjóri á DV 1984 - 1997 og ritstýrði Degi frá 1997 til 2001.

Fyrsta smásaga hans, „Hvernig skyldi það vera?“, birtist í smásagnasafninu Vertu ekki með svona blá augu árið 1984 en hann hefur einnig fengist við leikritagerð, skrifað handrit að heimildamyndum, gefið út rit almenns eðlis og skrifað skáldsögu fyrir fullorðna. Elías Snæland hefur þó einkum skrifað skáldsögur fyrir börn og unglinga og hlotið verðlaun og viðurkenningar fyrir skrif sín. Leikritið Fjörubrot fuglanna var frumsýnt í Borgarleikhúsi ungs fólks í Dresden (Theater Junge Generation) í þýskri þýðingu 1999. Elías hlaut Íslensku barnabókaverðlaunin fyrir Brak og bresti 1993 en Návígi á hvalaslóð (1998) var á heiðurslista IBBY samtakanna (International Board on Books for Young People).

Elías Snæland býr í Kópavogi og er kvæntur Önnu Kristínu Brynjúlfsdóttur, latínukennara og rithöfundi. Þau eiga þrjá uppkomna syni.

Forlag: Vaka-Helgafell.

 

Að lýsa veröldinni

Þörfin fyrir að segja sögur hefur vafalaust fylgt mannkyninu allt frá því maðurinn gerði sér grein fyrir tilvist sinni. Skáldskapurinn er einungis eitt tjáningarform þessarar knýjandi innri þarfar til að lýsa veröldinni eins og hún kemur höfundinum fyrir sjónir.

Á æsku- og unglingsárunum las ég firnin öll af skáldskap, og þótti jafn spennandi að kynnast ævintýrum eftir Grimmsbræður og H.C. Andersen, vísindaskáldskap Jules Verne og sögum eftir jafn ólíka rithöfunda og London, Maupassant, Brontesystur, Hemingway og Halldór Laxness.

Ég fór snemma að setja á blað brot úr sögum en samt liðu mörg ár áður en ég gaf mér tíma til að sinna skáldskapnum af fullri alvöru. Ástæðan var ekki síst sú að á sjöunda áratugnum og fram á þann áttunda þótti okkur mörgum mestu máli skipta að reyna að breyta þjóðfélaginu, og helst heiminum í leiðinni.

Frá því fyrsta smásaga mín (Hvernig skyldi það vera?) birtist á prenti árið 1984 hefur orka mín hins vegar í vaxandi mæli beinst að því að semja sögur og leikrit, bæði fyrir börn og unglinga og fullorðna lesendur. Skáldsögurnar fyrir ungu kynslóðina eru orðnar sjö talsins, en einnig hafa birst eftir mig nokkur verk fyrir þá sem eldri eru, þar á meðal skáldsaga og tvö leikrit.

Það er ekki aðeins brýn þörf og mikið strit að skrifa bækur, heldur líka einstæð nautn. Í þeirri athöfn felst að nýta þekkingu sína, lífsreynslu og innsæi til að púsla saman brotum úr gjörólíkum áttum, móta persónur, umhverfi og atburðarás og skapa þannig veröld sem kann að vera byggð á einhvers konar veruleika, en er samt hvergi annars staðar til en í þínu eigin hugverki. Og að reyna að segja þannig frá að lesendurnir geti lifað sig inn í þennan skáldaða heim og finnist, að minnsta kosti um stundarsakir, að hann sé ekki síður raunverulegur og daglegt líf þeirra sjálfra.

Elías Snæland Jónsson, 2001

Um verk Elíasar Snælands Jónssonar

Elías Snæland Jónsson er fæddur 8. janúar 1943. Hann hefur stundað blaðamennsku og ritstörf frá árinu 1963. Auk barna- og unglingabókanna sem hér eru til umfjöllunar hefur hann skrifað fræðibækurnar Lýðveldið Ísland 50 ára (1994), The Republic of Iceland: 50th Anniversary (1994), Undir högg að sækja (1985) og Átök milli stríða (1984). Einnig hefur Elías skrifað leikritið Fjörbrot fuglanna – leikrit í tuttugu atriðum (1999), skáldsöguna Draumar undir gaddavír (1996), smásögurnar "Eldur himinsins" (1999), "Lífsins steinn" (1998) og "Hvernig skyldi það vera?" og útvarpsleikritið Myrkraverk (1996).

Fyrsta bókin sem Elías gaf út fyrir börn og unglinga var skáldsagan Davíð og Krókódílarnir sem kom út árið 1991. Bókin fjallar um borgardrenginn Davíð sem er alinn upp hjá fósturforeldrum en aðlagast illa í skólanum og verður fyrir einelti. Í kjölfarið hættir hann að mæta í skólann, leiðist út í slæman félagsskap og byrjar að brjóta af sér. Þegar sagan hefst er Davíð staddur á skrifstofu fyrirtækis eins í borginni sem hann hefur brotist inn í í skjóli nætur til að verða sér annars vegar úti um peninga og hins vegar til að skapa sér virðingu félaganna í Krókódílaklíkunni en hana vill hann gjarnan komast í.

Krókódílarnir reynast vera viðriðnir margt verra en Davíð gerir sér grein fyrir í fyrstu. Auk þess að bera ábyrgð á fjölmörgum innbrotum í borginni, stela þau einnig lyfjum úr apótekum til að selja en einnig til eigin neyslu og Davíð tekur þátt í ránunum. Afbrotin komast fljótt upp þegar vinkona hans tekur of stóran skammt af lyfjunum og fellur í dá. Hinir strákarnir benda á Davíð sem forsprakkann í innbrotinu í apótekið þar sem hann er undir lögaldri og þeir sjálfir með mörg afbrot á samviskunni. Vinkona Davíðs vaknar ekki úr dáinu aftur og hann fyllist örvæntingu og sjálfsásökunum. En þegar engin lausn virðist í sjónmáli kemur hjálp úr óvæntri átt.

Árið 1993 gaf Elías út aðra skáldsögu fyrir börn og unglinga. Sú bar nafnið Brak og brestir. Sagan segir frá Hákoni, fimmtán ára strák sem býr hjá einstæðum föður sínum í Reykjavík. Hákon hefur í upphafi sögunnar lent í slæmum félagsskap og meðal annars tekið þátt í innbroti. Pabbi hans verður skyndilega atvinnulaus í kjölfar gjaldþrots vinnuveitenda sinna og úr verður að þeir flytjast norður í land þar sem honum býðst önnur vinna og húsnæði.

Hákon er fljótur að aðlagast en fortíðin eltir hann að sunnan og fljótlega fréttist meðal skólafélagana að hann hafi tekið þátt í innbrotum og hafi verið handtekinn. Hann á því erfitt uppdráttar í byrjun.

Í páskafríinu býðst feðgunum að fara í jeppaferð upp á jökul og ætlunin er að eyða þar nokkrum dögum. Áætlunin breytist þó þegar þeir frétta að drengir úr kaupstaðnum hafi ekki skilað sér úr vélsleðaferð og úr verður að þeir Hákon, pabbi hans og Siggi vinur pabba taka þátt í leitinni. Við tekur æsispennandi björgunaraðgerð úr stórhættulegri jökulsprungu en allt fer vel að lokum og Hákon verður hetja dagsins. Í sögulok hefur hann sætt sig við breytingarnar sem hafa orðið á lífi hans og vill ekki eiga á hættu að fara aftur í gamla farið og félagsskapinn fyrir sunnan.

Elías sendi frá sér skáldsöguna Haltu mér fast árið 1994. Sagan segir frá fimmtán ára stúlku, Súsí sem er ósköp venjulegur unglingur í Garðabæ. Súsí er skilnaðarbarn og á erfitt með að sætta sig við að pabbi hennar hefur lítið samband haft við hana eftir skilnaðinn. Í upphafi sögunnar þarf mamma hennar að skreppa í vinnuferð til útlanda og ætlunin er að senda Súsí til föður hennar í Lúxemborg. Sú áætlun fer þó úr skorðum þar sem hann þarf skyndilega að vinna og úr verður að Súsí er send nauðug til afa síns vestur á firði.

Afi Súsíar er hálfgerður einyrki, býr einn með skepnum sínum og rær til fiskjar á milli búverka. Eftir lítilsháttar byrjunarörðugleika sættir Súsí sig við dvölina í sveitinni og reynist betri en engin hjálp hjá afa sínum. Hún kynnist einnig strák í nærliggjandi kaupstað sem hún verður strax hrifin af. Strákurinn, Hallur, kennir henni að kafa og þau lenda í ýmsum ævintýrum. Þegar afi hennar veikist svo skyndilega þar sem þau eru bæði stödd úti á rúmsjó við veiðar reynir á Súsí að sýna hvað í henni býr. Hún þarf að sjá ein um sjálfa sig og ganga í öll störf afa síns á meðan hann er á spítala og leysir það ágætlega af hendi en öðlast jafnframt aukinn þroska. Í sögulok er hún sótt af foreldrum sínum í sveitina en hefur ekki sagt skilið við Hall þar sem hann er einnig á leið til Reykjavíkur í skóla.

Árið 1995 gaf Elías út skáldsöguna Krókódílar gráta ekki. Sagan er framhald fyrstu bókar Elíasar, Davíð og Krókódílarnir, og fjallar um líf Davíðs eftir að hann flyst norður í land með föður sínum sem hann varla þekkir. Þeir sem lesið hafa fyrri bókina um Davíð vita að ástæðan fyrir því að Davíð flytur frá fósturfjölskyldu sinni og til pabba síns er sú að breyta um umhverfi þar sem hann var kominn í vafasaman félagsskap unglinga sem stunduðu innbrot, drykkju og fíkniefnaneyslu.

Eins og í fyrri sögunni hefst Krókódílar gráta ekki á því að Davíð brýst inn í hús í bænum. Hann hefur ekki verið í skóla né vinnu allan þann vetur, hefur lítið við að vera á daginn og heldur áfram að sækja í óæskilegan félagsskap eins og hann gerði þegar hann var í Reykjavík. Besti vinur hans, Gústi, er í slagtogi við menn sem hafa óhreint mjöl í pokahorninu og Davíð flækist í málið. Það sem rekur hann áfram er að Gústi býður honum mótorhjólið sitt fyrir þáttöku hans og Davíð getur ekki slegið hendinni á móti því. Orðsporið fylgir honum þó alltaf og áður en varir er hann lentur í útistöðum við aðra unglinga í bænum en hann verður einnig hrifinn af stúlku, Selmu, sem virðist sig engu varða hver fortíð hans er. Það eru þó ekki allir hrifnir af sambandi þeirra og Davíð mætir mótlæti úr öllum áttum. Þegar Gústi er svo barinn illilega og lendir einnig á spítala í kjölfarið gerir Davíð sér grein fyrir að hann er einnig í hættu staddur, sérstaklega eftir að hafa verið hótað af Kobba, manninum sem þeir Gústi höfðu unnið fyrir og er helsti landabruggari staðarins. Davíð lætur þá til sín taka en leggur um leið sjálfan sig í mikla hættu.

Töfradalurinn er skáldsaga skrifuð fyrir yngri börn en fyrri skáldsögur Elíasar og er gefin út árið 1997. Sagan gerist í heimi ævintýranna þar sem vinirnir Jenna og Júlíus búa, nánar tiltekið í Bókadalnum. Pabbi Jennu gegnir því ábyrgðarfulla starfi að vera bankastjóri Sögubankans þar sem allar hugmyndirnar að nýjum sögupersónum fyrir ný ævintýri verða til. Eina ógnin sem steðjar að íbúum Bókadalsins er bókanornin illræmda sem er þjóðsagnapersóna í dalnum og er sögð hafa verið sofandi í mörg hundruð ár. Sagan segir að því oftar sem nafn hennar er nefnt, styttist sá tími sem hún sefur og þegar hún vakni muni hún stinga öllum sögupersónunum ofan í óminnisbrunninn ægilega sem staðsettur er í bænum þannig að þær gleymist um aldur og ævi. Ef það gerðist yrðu engar barnasögur til lengur og það geta íbúar Bókadals ekki hugsað sér.

Í upphafi sögunnar er afmæli Jennu nýafstaðið. Hún hefur fengið margar fallegar gjafir en sú sem upp úr stendur er eins konar töfradagbók sem hefur áður verið í eigu nokkurra formæðra hennar en þó eru allar síður hreinar og auðar. Allt sem Jenna skrifar í dagbókina gerist svo í raun og veru. Þannig getur hún stjórnað atburðarásinni hverju sinni eða breytt henni.

Söguhátíðin sem aðeins er haldin á tíu ára fresti og er helsta hátíð íbúanna í Bókadalnum gengur í garð. Sá siður að fleygja líkneski af bókanorninni ofan í óminnisbrunninn til að hún geti ekki látið til sín taka misheppnast og Jenna og félagar hennar verða því að gera allt sem í þeirra valdi stendur til að bjarga dalnum frá hættunni sem stafar af norninni. Með hjálp dagbókarinnar góðu finnur Jenna leið inn í nornafjallið og eftir að hafa villst aðeins af leið ratar hún beint í fangið á bókanorninni ógurlegu. Henni tekst þó, ásamt Júlíusi, að yfirbuga nornina og halda aftur til Bókadalsins með hana í eftirdragi. Eftir talsverðar vangaveltur íbúanna er norninni þó hlíft við því að vera steypt í óminnisbrunninn en fær í stað þess þá refsingu að lesa ævintýri fyrir börnin í dalnum.

Elías gaf út sakamálasöguna Návígi á hvalaslóð árið 1998. Bókin fjallar um unglingsstrákinn Inga sem lifir óvenjulegu lífi að því leyti að hann ásamt foreldrum sínum býr um borð í hvalarannsóknarskipi. Foreldrar Inga eru sjávarlíffræðingar sem hafa fengið afnot af skipinu, sem er í eigu efnaðs Bandaríkjamanns, til að stunda rannsóknir sínar. Þau eru því oft lengi á sjó í einu. Ingi er þó ekki einangraður frá umheiminum því hann er í netsambandi við kennarann sinn í landi og á marga vini á Netinu sem hann hefur samband við. Einn af þeim er Helena sem býr í Kanada og Ingi er svolítið spenntur fyrir án þess þó að hafa nokkru sinni hitt hana.

Eftir æsispennandi björgunaraðgerð á hvölum undan strönd Bandaríkjanna lenda foreldrar Inga í útistöðum við samstarfsmenn skipseigandans sem virðast hafa tekið yfir stjórnina í fyrirtækinu og vilja fá að nota rannsóknir þeirra í einhverjum dularfullum tilgangi. Þessir dularfullu menn ræna svo skipinu með krökkunum innanborðs. Þau ná að gera pabba Helenu viðvart en þegar skipið verður vélavana úti á rúmsjó og ræningjarnir hafa horfið með björgunarbátinn eru þau í verri málum en nokkru sinni fyrr. Allt fer þó vel að lokum, krakkarnir bjargast í land og finnast og afbrotamennirnir hafa sig á brott hið snarasta.

Víkingagull er nýjasta skáldsaga Elíasar fyrir börn og unglinga en hún er gefin út árið 2000. Sagan segir frá íslenska stráknum Bjólfi sem býr með móður sinni Ylfu í Svíþjóð. Ylfa vinnur sem handritafræðingur í Konungsbókhlöðunni í Stokkhólmi. Bjólfi gengur illa að aðlagast í nýja landinu, nær ekki sambandi við bekkjarfélaga sína og hefur mestan áhuga á tölvum og netinu. Hann fær skyndilegan áhuga á dularfullu broti úr skinnhandriti sem mamma hans er að rannsaka, sérstaklega þar sem þar er fjallað um Búa digra og Sigurð son hans voru uppi á víkingaöld. Sagan segir að Sigurður hafi grafið gullkistur með fjársjóði föður síns í jörðu eftir dauða hans en hvar þennan fjársjóð var að finna fór mörgum sögum af.

Arne, norskur fræðimaður og vinur Ylfu, sem einnig hefur áhuga á fjársjóðnum, býður þeim mæðginum að koma til Noregs ásamt honum og dætrum hans og í siglingu með sér á seglskútunni hans en síðan er ætlunin að sigla með Norrænu til Íslands. Ekkert verður þó af því að Arne fari með þeim mæðginum og dætrum sínum því hann þarf skyndilega að snúa við vegna vinnunnar. Úr verður að hin fjögur fara með Norrænu.

Bjólfur getur losnað við þá hugmynd að vísbendingarnar á skinnblaðinu um fjársjóð Búa digra tengist Íslandi og kristnitökunni fyrir þúsund árum síðan. Hann er staðráðinn í að reyna að leysa gátuna og afræður að fara af stað frá gistiheimilinu þar sem þau gistu eftir að þau komu til landsins og leysa gátuna með vísbendingarnar upp á vasann. Sonja slæst í för með honum en ekki vill betur til en svo að þau villast í þoku og lenda í mikilli hættu uppi á fjöllum. Þar bíður þeirra ný og ógnvekjandi uppgötvun. Þau komast þó klakklaust til baka og í bókarlok er Bjólfur orðinn sáttur við þá tilhugsun að búa áfram í Stokkhólmi, nálægt Sonju.

Nýjasta saga Elíasar fyrir börn, Valkyrjan er gefin út 2003. Bókin fjallar um Hildi sem býr hjá ömmu sinni og afa í þorpi úti á landi eftir að hún missir móður sína í slysi en hún hefur aldrei þekkt föður sinn. Hildur er ákveðin og dugleg 12 ára stelpa og helsta áhugamál hennar er fótbolti sem hún stundar með strákunum í þorpinu enda er hún jafnoki þeirra í íþróttinni.

Þegar Hildur lendir í útistöðum við strákana og þarf að flýja undan þeim á hlaupum upp í fjall slasast hún og rankar við sér í öðrum heimi og á öðrum tíma. Hennar nánasta umhverfi sem hún þekkir eins og lófann á sér er gjörbreytt, þorpið er horfið og íbúar þess með. Hildur er skyndilega stödd í Goðheimum þar sem nokkrar valkyrjur taka hana að sér og fara með hana til Ásgarðs þar sem hún hittir allar helstu persónur goðafræðinnar. Ásamt valkyrjunum heldur hún til Valhallar, bústaðar Óðins þar sem goðin sitja að drykkju í veislu einni og þar kemst hún að því að Óðins er saknað. Úr verður að hún leitar upplýsinga um hvar hann er mögulega að finna með aðstoð ferðatölvunnar sinnar og heldur svo af stað í leitarleiðangur ásamt Brynhildi valkyrju. Þær halda til Mímisbrunns til að leita hjálpar hjá Mími og með aðstoð hans og frjósemisgyðjunnar Freyju finna þær Óðinn hangandi lífvana á aski Yggdrasils. Hann hjarnar þó fljótt við og tekur sér fyrri stöðu í hásæti sínu þaðan sem hann heldur áfram að stjórna Goðheimum. Hildur vill komast aftur til mannheima og fær til þess hjálp frá hinum lævísa Loka, gegn því að hann fái í staðinn ferðatölvuna hennar sem hann telur mikinn töfragrip sem sjái fyrir óorðna atburði. Í sögulok rankar Hildur við sér eftir að leikfélagar hennar hafa dregið hana upp úr ánni undir fjallinu heima í þorpinu hennar og blásið í hana líf.

Valkyrjan er eins og Töfradalurinn, skrifuð fyrir yngri lesendur en aðrar bækur Elíasar og telst einnig til fantasíubókmennta fyrir börn en í henni ferðast sögupersónan á milli raunheimsins og söguheims goðafræðinnar en finnst samt allir atburðir þar vera raunverulegir. Bókin kynnir fyrir ungum lesendum helstu atburði og persónur Goðaheima og hvaða hlutverki hver þeirra gegnir og hver helstu einkenni þeirra eru.

Elías Snæland Jónsson hefur verið afkastamikill barna- og unglingabókahöfundur síðasta rúmalega áratuginn. Sögur hans eru flestar samtímalegar raunsæisbókmenntir fyrir utan fantasíubækurnar Töfradalinn og Valkyrjuna svo og sakamálasöguna Návígi á hvalaslóð.

Eitt helsta einkenni á bókum Elíasar fyrir unglinga er að í flestu tilfellum fjalla þær um unglinga sem eiga í erfiðleikum í lífinu, bæði vegna ytri aðstæðna en einnig vegna þess að þau hafa sjálf komið sér með einum eða öðrum hætti í vandræði. Þannig fjalla nokkrar bókanna um unglinga sem hafa lent í slæmum félagsskap, innbrotum, eiturlyfjanotkun og þess háttar auk þess að eiga erfitt félagslega og búa jafnvel við erfiðar heimilisaðstæður. Stundum þarf þó ekki slíkt umhverfi til. Elías skrifar einnig um unglinga sem búa jafnvel við efnahagslegt öryggi en eiga samt í innri baráttu einhverrra hluta vegna, eru áhrifagjarnir sem verður til þess að þeir lenda í vandræðum eða eru á góðri leið með það. Það sem oft verður til þess að þessir unglingar sjá að sér eða breyti hegðun sinni er í flestum tilfellum breyting á umhverfi og aukin ábyrgð. Þannig eru þær sögupersónur Elíasar sem í mestum vandræðum eru, gjarnan sendar í annað umhverfi, yfirleitt út á land þar sem áreitið er minna og freistingarnar færri. Orðsporið fylgir þeim þó gjarnan sem verður til þess að sögupersónurnar þurfa að sanna sig fyrir öðrum. Í lokin uppgötva þær að breytingarnar hafa orðið þeim til góðs og jafnvel þroskað þær sem verður til þess að þær forðast að lenda í gamla farinu á ný.

Skáldsögur Elísar fyrir unglinga gefa ágætis mynd af því hvað ungt fólk þarf að glíma við. Áreiti fá umhverfinu og þrýstingur frá félögum gera sögupersónur Elíasar ráðvilltar og fær þær til að gera hluti sem þær annars myndu ekki gera. Þegar þeim tekst að losa sig undan þessum kröfum og hafa fengið tækifæri til að horfa á hlutina úr fjarlægð öðlast þær þann þroska sem þær skorti í upphafi. Því eru bækur Elíasar öðru fremur raunsæjar og samtímalegar þroskasögur unglinga.

© Regína Unnur Margétardóttir, 2003

Almenn umfjöllun

„Samtíðarskáld“
(Kristín Helga Gunnarsdóttir, Elías Snæland Jónsson, Ingibjörg Möller)
Börn og menning, 14. árg., 1999, s. 30-32

Um einstök verk

Aldarspegill : Undir högg að sækja

Eggert Þór Bernharðsson: „Elías Snæland Jónsson. Aldarspegill, undir högg að sækja“
Saga, 24, 1986, s 322-32

Aldarspegill : Átök milli stríða

Bergsteinn Jónsson: „Elías Snæland Jónsson. Aldarspegill, átök milli stríða“
Saga, 23, 1985, s. 324-8

Möðruvallahreyfingin: baráttusaga

Björn Bjarnason: „Möðruvellingar miklast yfir litlu“ (ritdómur)
Þjóðmál 2010, 6. árg., 4. tbl. bls. 81-7.

Bolli Héðinsson: „Mmikilvægur þáttur í íslenskri stjórnmálasögu“ (ritdómur)
Stjórnmál og stjórnsýsla 2010, 6. árg., 2. tbl.

Valkyrjan

Dagný Kristjánsdóttir: „Fleira en augað sér – : fimm nýjar fantasíur handa börnum og unglingum“
Tímarit Máls og menningar, 65. árg., 4. tbl. 2004, bls. 67-75

Year:
2013
Publisher:
Category:
Year:
1993
Publisher:
Category:
Year:
1991
Publisher:
Category:
Year:
2004
Publisher:
Category:
Year:
1994
Publisher:
Category:
Year:
1995
Publisher:
Category:
Year:
1998
Publisher:
Category:
Year:
1997
Publisher:
Category:
Year:
2003
Publisher:
Category:
Year:
2000
Publisher:
Category:
Year:
1984
Publisher:
Category:
Year:
1994
Publisher:
Category:
Year:
1985
Publisher:
Category:
Year:
1996
Publisher:
Category:
Year:
2009
Publisher:
Category:
Year:
1999
Publisher:
Category:
Year:
1984
Publisher:
Category:
Year:
1998
Publisher:
Category:
Year:
1996
Publisher:
Category:
Year:
2011
Publisher:
Ár:
2013
Útgefandi:
Flokkur:
Ár:
1984
Útgefandi:
Flokkur:
Ár:
1993
Útgefandi:
Flokkur:
Ár:
1996
Útgefandi:
Flokkur:
Ár:
2004
Útgefandi:
Flokkur:
Ár:
1999
Útgefandi:
Flokkur:
Ár:
1994
Útgefandi:
Flokkur:
Ár:
1984
Útgefandi:
Flokkur:
Rúnagaldur eftir Elías Snæland Jónsson

Elías Snæland, gamalreyndur blaðamaður og rithöfundur, kemur hér með sína fyrstu spennusögu. Ég vil frekar kalla þetta spennusögu en glæpasögu þótt vissulega séu skilin bæði óljós, loðin og teygjanleg. Án þess að fara í smáatriðum út í muninn á glæpasögu og spennusögu er samt hægt að gera ráð fyrir að glæpasögur nútímans séu alla jafna raunsærri og jarðbundnari en hinar. Spennusagnahöfundar leyfa sér frekar að leika svolítið lausum hala og hetjur þeirra lenda oft í býsna miklum svaðilförum sem jarðbundnar vindlareykjandi löggur gætu átt erfitt með að fóta sig í. Spennusagan enda oft kölluð þriller eða tryllir og eflaust ætlunin að trylla lýðinn eða lesendurna með ótrúlegustu ævintýrum. The Bourne Identity (1980) lagði á sínum tíma dálítið línuna fyrir þrillerinn sem var miklu æsilegri en hinar seigfljótandi njósnasögur Le Carrés, Littells og fleiri álíka höfunda. Svo kom Dan Brown og nú eru allir í því sama dularfulla stuði.