Einar Már Guðmundsson

„Ég var mættur á staðinn í myrkri en ég sá enga ketti, enga gráa kettti, bara nokkra bíla sem lagt hafði verið í stæðin. Ég heyrði þytinn í trjánum og horfði upp í stjörnubjartan himininn. Einhvers staðar í grenndinni rann lítil á, Litlaá, út í stærri á, Stóruá.“
(Bankastræti núll)

Einar Már Guðmundsson er fæddur í Reykjavík 18. september 1954. Hann lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum við Tjörnina 1975 og B.A. prófi í bókmenntum og sagnfræði frá Háskóla Íslands 1979. Hann bjó í Kaupmannahöfn í sex ár og stundaði framhaldsnám í bókmenntafræði við Kaupmannahafnarháskóla.

Fyrsta bók Einars Más, ljóðabókin Er nokkur í kórónafötum hér inni, kom út árið 1980. Árið 1985 fékk hann fyrstu verðlaun í bókmenntasamkeppni Almenna bókafélagsins fyrir skáldsöguna Riddarar hringstigans. Síðan hefur Einar Már sent frá sér fjölda verka og hlotið margvíslegar viðurkenningar fyrir ritstörf sín. Bækur hans hafa verið þýddar á fjölmörg tungumál og skáldsagan Englar alheimsins fékk Bókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs 1995. Kvikmynd Friðriks Þórs Friðrikssonar sem byggð er á sögunni var frumsýnd í Reykjavík á nýjársdag árið 2000.

Einar Már býr í Reykjavík, er kvæntur og á fimm börn.

Forlag: Mál og menning.

Heimasíða Einars Más.

Mynd af höfundi: Hörður Ásbjörnsson.

Pistill frá Einari Má

Ég: Óli hefurðu tekið eftir því hvað dúfurnar eru með litla hausa? Heldurðu að þær séu ekki með neina heila?
Óli: Nei, þær eru með vængi. Til hvers ættu þær að vera með heila?
Ég: Meinarðu að það sé betra að vera með vængi en heila?
Óli: Ég held að það væri best að vera með vængi á heilanum.

Þetta samtal tveggja drengja er að finna í annarri skáldsögu minni, Vængjasláttur í þakrennum. Hún kom út árið 1983. Ég veit ekki hvort ég hugsaði svo nákvæmlega út í það þá, en með árunum hefur þetta orðið markmið, að skoða töfrana í veruleikanum og veruleikann í töfrunum.
Það má heldur ekki hugsa of mikið út í málin. Því segi ég eins og stjórnleysingjar: Vertu raunsær – og framkvæmdu hið ómögulega.
En samt segi ég: Skáldskapurinn er leit að innri merkingu í hinum ytra heimi og ytri merkingu í hinum innra heimi.
Allt snýst þetta um tengsl, samband, ást. All you need is love.
Allt býr í skáldskapnum, en samt er hann ekkert sérstakt, ekkert eitt afmarkað fyrirbæri.
Þess vegna haldast ljóðið og sagan í hendur.
Ég hef horfið á vit barnæskunnar og sögunnar eða reynt að átta mig á hringiðunni sem hvert augnablik færir okkur.
Samt get ég ekki sagt að ég leiti söguefnanna, þau koma til mín, banka að dyrum og þar með er eltingaleikurinn hafinn; að hárreita hugann, að koma sér fyrir í örmum hins liðna: þetta er ferðalag með rútu sem heitir saga.
Leiðin liggur út í óvissuna, en þar byrja hlutirnir að fá merkingu.
Ég er fæddur í Reykjavík, á tímum breytinga sem hafa kennt mér að horfa í ýmsar áttir. Nýi tíminn var að fæðast en sá gamli ekki dáinn. Fjölmiðlaheimurinn ekki til, frelsi frekar mikið. Ótal börn. Mikið líf.
Þetta mannlíf rataði aldrei í sögubækur. Því hef ég áhuga á sögu sem ekki er álitin saga.
En nú er ég heltekinn af sögunni, sögunni sem ekki var sögð í sögunni sem okkur var sögð.
Meira get ég ekki sagt í bili en kveð með litlu ljóðabroti.

Úr Hómer í Reykjavík

Eitt regnþungt síðdegi,
á skipi úr víðförlum draumi,
kom sagnaþulurinn Hómer til Reykjavíkur.
Hann gekk frá hafnarbakkanum
og tók leigubíl sem ók með hann
eftir regngráum götum
þar sem dapurleg hús liðu hjá.

Við gatnamót sneri sagnaþulurinn Hómer
sér að bílstjóranum og sagði:
"Hvernig er hægt að ímynda sér
að hér í þessu regngráa
tilbreytingarleysi búi söguþjóð?"
"Það er einmitt ástæðan," svaraði bílstjórinn,
"aldrei langar mann jafn mikið
að heyra góða sögu og þegar droparnir
lemja rúðurnar."

Einar Már Guðmundsson, 2000.

Um verk Einars Más Guðmundssonar

I

... það sem skynsemishyggjan lítur á sem tvö andstæð
skaut sér skáldskapurinn sem eina heild,
ævintýrið og veruleikinn eru undir sama hatti.

Þannig kemst Einar Már Guðmundsson að orði í bók sinni Launsynir orðanna (1998) sem inniheldur greinar og þankabrot um skáldskap. Innsæið og innblásturinn eru Einari mikilvæg meðul í sagnalistinni. Hann er sennilega einn af fáum íslenskum rithöfundum af sinni kynslóð (og yngri) sem myndu ekki sverja af sér allar rómantískar hugmyndir um innblástur og önnur snillingselement. Enda hvernig gæti hann það þegar hann segir hluti eins og þessa: „Líklega byggist sköpunarkrafturinn fremur á innsýn í leyndardóma en þekkingu á náttúrulögmálum.“ Það eru leyndardómar á bak við skáldskapinn að mati Einars, einhver galdur á sér stað sem við þekkjum ekki til hlýtar, og þurfum kannski ekki að þekkja, það nægir okkur að vita að „sagnalist á ... upptök sín í sálu mannsins,“ eins og Einar tekur til orða. (1)

Við lestur á verkum Einars hafa gagnrýnendur jafnan verið uppteknir af samræðum á borð við þær sem birtast í setningunni hér að ofan á milli anda og efnis, ævintýrs og veruleika. Og það er mikilvægt að líta á þetta sem samræður andstæðna (hugtaka, hugmynda) en ekki átök vegna þess að textar Einars gerast á mörkunum þar sem andstæðurnar leysast upp sem slíkar, ganga hvor upp í aðra. Eða eins og Einar hefur sagt sjálfur þá „rata merkimiðar oft á vitlausa vöru. Hvað þýðir til dæmis hugtak einsog ævintýralegt raunsæi? Að til sé raunsæi án ævintýra? Að ævintýrin séu eitthvað sem bætt er við veruleikann? Að hvorki veruleikinn né ævintýrið geti verið hvort tveggja í senn?“ (2) Nei, ævintýrið og veruleikinn eru undir sama hatti í skáldskapnum.

II

Þessi pena afbygging á (rökrænni) andstæðuhugsun setur Einar í póstmódernískt samhengi. Í glænýrri grein hefur því raunar verið haldið fram að fyrstu ljóðabækur Einars (sem voru jafnframt fyrstu bækur hans og komu út árin 1980 og 1981) marki upphaf þess ástands á Íslandi. (3)

Bækurnar endurspegla síðkapítalískan samtíma sinn en eru jafnframt hörð gagnrýni á hann, neysluna, sjálfhverfnina, innihaldsleysið. Upplausnarástand póstmódernismans birtist meðal annars í vísunum í óstöðug tákn fjöldamenningarinnar og því hvernig Einar staðsetur sig á mörkum miðju og jaðars í bókmenntasögunni. Í ljóðabókunum má þannig finna vísanir í forngríska hefð, Shakespeare og æruverðugar nútímabókmenntir jafnt sem Hollywoodmyndir, popp, rokk og pönk. Og þar sem öllu ægir saman virðist hvað grafa undan öðru. Fátt stendur eftir og hugurinn framkallar einungis myndir sem aldrei voru teknar, eins og segir í ljóðinu "in memoriam" (4)

Við getum haldið áfram að lesa Einar inn í (brotinn) ramma póstmódernismans í næstu bókum hans, skáldsögunum þremur sem skutu honum upp á stjörnuhimin íslenskra bókmennta á fyrri hluta níunda áratugarins. Í þeim heldur áðurnefnt uppbrot á hinni dúalísku (rétt)hugsun áfram og þar má finna eins konar tilvitnanir í bókmenntaarfinn eða endurvinnslu á honum. (5) Samtíminn er enn umfjöllunarefnið. Einnig borgarmenningin, þó á annan hátt eða út frá öðrum sjónarhóli. Bækurnar kanna hvernig barnið skynjar borgina, lifir í henni og leikur sér. Borgin var vinsælt umfjöllunarefni íslenskra skáldsagnahöfunda fyrr á öldinni þegar þjóðin hópaðist til borgarinnar úr sveitunum í von um betra líf. Þessar sögur lýstu paradísarmissi og föllnum englum. Borgin var skoðuð með glýju sveitasælunnar í augunum, hún var lastabæli sem togaði þjóðina frá uppruna sínum, úr heiðríkju dalanna inn í sorta borgarglaumsins þar sem hefðbundnum gildum var snúið á haus. Í þríleik Einars Más má segja að tekist sé á við afleiðingar þessara vaxtarverkja borgarinnar. Að vissu leyti má sjá samsvörun í þeim og vaxtarverkjum drengjanna sem eru aðalsöguhetjur bókanna.

Fyrsta bókin heitir Riddarar hringstigans (1982). Sagan er sögð frá sjónarhóli sex ára drengs, Jóhanns Péturssonar, og fjallar um ævintýri og prakkarastrik hans í úthverfi Reykjavíkurborgar einhvern tíma á sjöunda áratugnum. En hún fjallar kannski ekki síður um vandann að vera til, að vera lítill drengur í þeim grákalda, lífvana heimi sem Einar hafði einnig lýst í ljóðum sínum. Þetta er andlaus heimur steinsteypu og malbiks og þótt barnslegt ímyndunaraflið gæði hann oft brosi og hlýju hefur hann vinninginn að lokum. Þannig vígjast drengirnir til veruleikans er einn þeirra, einn riddaranna, hrapar úr hringstiga miðaldakastalans – sem er í raun fokhelt steinhús – og lætur lífið.

Önnur skáldsagan, Vængjasláttur í þakrennum (1983), fjallar sömuleiðis öðrum þræði um árekstur tveggja heima, hins lífsfrjóa og skapandi heims barnsins og hins dauðkalda heims steinsteypunnar. Hér takast á sköpun og tortíming. Í upphafi sögu eru reistir dúfnakofar í hverfinu. Í augum drengjanna er þetta heilt þorp af vængjuðu lífi sem veitir þeim nánast ótakmarkað frelsi til leiks og starfa. En í lok sögu er þessi dýrðarheimur rifinn til grunna enda náttúran – í líki dúfnaskíts – farin að gerast of nærgöngul við malbikið, að mati húsmæðra hverfisins. Í síðasta kafla bókarinnar verður syndaflóð sem hreinsar götur hverfisins af lífi.

Í þriðju sögunni, Eftirmáli regndropanna (1986), er svo dregin upp mynd af andlausum og þyrrkingslegum heimi fullorðinna í hverfinu. Í henni er sjónarhornið annað en í tveimur fyrri bókunum. Jóhann Pétursson er hvergi nærri og við kynnumst lífinu í hverfinu í gegnum nokkrar kunnuglegar persónur af eldri kynslóðinni úr fyrri bókunum. Við fylgjum þeim í gegnum tilbreytingaleysi daganna. Atburðir verða fáir; hverfið hefur glatað leik drengjanna. Það er aðeins regnið sem lemur á íbúunum bókina á enda, húsum þeirra og malbiki.

Það er harður veruleiki að vaxa úr grasi. Eins og ljóðabækurnar má lesa þessar sögur sem gagnrýni á hina síðkapítalísku borgarmenningu. Hér er lífsanda og ímyndunarkrafti barnshugans stefnt gegn doðanum sem einkennir firrt borgar(a)lífið.

III

Frásagnarháttur og stíll í þessum þremur skáldsögum er all ólíkur og má kannski segja að Einar hafi verið leitandi hvað það varðar. Hröð, knöpp og dramatísk frásögn fyrstu bókarinnar, sem endurspeglaði vel framkvæmdagleði og leik æskunnar, vék þannig fyrir táknsæi í annarri bókinni. Í þeirri þriðju hverfist frásögnin um myndhlaðinn stílinn, sagan hverfur inn í tungumálið, ef svo má segja. Þessar tilraunir með frásagnaraðferð halda áfram í næstu bók Einars, smásagnasafninu Leitinni að dýragarðinum (1988). Þar verður stíllinn jarðbundnari, hlutlægari og hófsamari á allan hátt. Myndmálið er ekki eins gáskafullt og frásögnin þyngri þó að þematísk úrvinnsla einkennist oft af leik og húmor. Bókin hlaut misjafna dóma. Raunar hefur verið talað um hana og skáldsöguna sem fylgdi í kjölfarið, Rauða daga (1990), sem hálfgert antiklimax í höfundarverki Einars. Frásagnarháttur Rauðra daga er raunsær og hraður en gagnrýnendur sögðust margir sakna hins myndræna stíls þríleiksins. Sagan fjallar um unga sveitastúlku að norðan, Ragnhildi, sem kemur til borgarinnar á síðari hluta sjöunda áratugarins í leit að nýju lífi. Meginumfjöllunarefnið er 68-uppreisnin og samskipti Ragnhildar við hóp róttæklinga. Finna má þematískan samhljóm með Rauðum dögum og ljóðabókunum þremur (það er vinstriróttæknina), sem Einar gaf út í upphafi ferilsins, en talsvert skortir á að hún hafi sama slagkraft og þær. Hið sama á við um ljóðabókina, Klett í hafi (1991), sem Einar gaf út í samvinnu við myndlistarmanninn Þorlák Kristinsson (Tolla). Miðað við fárviðrið sem geysaði í fyrstu bókunum er lygna í henni.

Summuna af þessum tilraunum Einars Más má sjá í þeirri bók sem hefur borið hróður hans hvað lengst, Englum alheimsins (1993), en hún hlaut Bókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs árið 1995 og hefur verið þýdd á fjölmörg tungumál. Summa er kannski ekki rétta orðið, sennilega er réttara að segja að í Englum alheimsins takist Einari einna best upp í tilraunum sínum til að finna samhljóm forms og efnis. Aftur er umfjöllunarefnið árekstur tveggja heima en nú eru það ekki heimur barnsins og fullorðinna heldur hinna brjáluðu og hinna óbrjáluðu. Meginþemað orðar sagan best sjálf: „[V]ið sem erum lagðir inn á hæli og vistaðir á stofnunum, við eigum engin svör þegar okkar hugmyndir eru ekki í samræmi við raunveruleikann, því í okkar heimi hafa aðrir rétt fyrir sér og þekkja muninn á réttu og röngu.“ (6)

Sögumaður Engla alheimsins hefur nokkra sérstöðu þar sem hann er ekki í tölu lifenda. Páll Ólafsson rekur ævi sína allt frá því að honum er þröngvað út í heiminn gegn vilja sínum þar til hann yfirgefur hann aftur af fúsum og frjálsum vilja fjörutíu árum síðar. Páll fæðist sama dag og Ísland gengur í NATO, þegar „heimurinn varð allt í einu einsog smækkuð mynd af geðsjúkum manni, vitfirrtur og klofinn í tvennt; heimsmyndin krónísk ranghugmynd,“ (s. 23) en það verða einmitt örlög hans sjálfs að lenda í klóm geðveikinnar. Sagan lýsir hvernig geðklofi gerir smátt og smátt vart við sig hjá Páli og tekur að endingu öll völd í sálarlífi hans. Honum er komið fyrir á Kleppi. Þar er hann sprautaður niður og er það upphafið að endalokum hans. Eðli hans er bælt, það er rekið öfugt niður í sálardjúpin og svo er honum hleypt út. Hann verður „einn af þessum ósýnilegu þóðfélagsþegnum sem líða með vindinum í gegnum Austurstrætið“ (s. 206). En þótt myrkrið sé horfið úr sál hans er lífslöngunin slokknuð.

Frásagnarháttur sögunnar markast af óvenjulegri stöðu sögumanns. Rödd að handan (í fyrstu persónu eintölu þátíð) segir okkur sögu af því hvernig er að lifa í öðrum heimi í okkar heimi. Í raun er rödd sögumanns tvöföld vegna þess að iðulega skiptir sagan um sjónarhorn með því að láta Pál í lifanda lífi segja söguna (einnig í fyrstu persónu eintölu, en nútíð). Samspil og skörun þessarra tveggja (og reyndar mörgu) radda – sú fyrri gædd heilbrigðri skynsemi en hin(ar) brjáluð(-aðar) – klýfur textann og endurspeglar þannig formlega umfjöllunarefni sitt. (7) Með eilítilli einföldun má lýsa texta sögunnar sem geðklofnum. Flökt hans milli raunsæislegrar (röklegrar) frásagnar og ljóðrænnar (óröklegrar) undirstrikar þennan klofning en sumar klausur textans gætu talist hrein ljóð.

Túlka má söguna sem gagnrýni á samfélag sem útilokar brjálæðið, en það væri einfaldur og takmarkaður lestur. Það er engan veginn hægt að horfa fram hjá samfélagslegum lestri en, eins og bent hefur verið á, þá er sagan þversagnakennd – eða margradda – í umfjöllun sinni um geðveiki, og gerir þannig miklar kröfur til lesandans. Tíðar breytingar á sjónarhorni sýna mjög ólíkar hliðar á geðveiki sem gerir það að verkum að lesandinn fær tilfinningu fyrir ósamrýmanlegum viðhorfum samfélagsins til hennar. (8)

Þessi flókni formgerðarlegi vefur liggur undir niðri í sögunni og truflar ekki framvindu hennar. Gríðarlegar vinsældir bókarinnar liggja vafalaust í því hversu vel þessi flókni vefur er fléttaður inn í söguna og í sannfærandi en jafnframt húmorískri umfjöllun um líf og stöðu geðveiks manns.

IV

Í Englum alheimsins má vissulega lesa all róttækt uppbrot á tvíhyggju skynsemishyggjunnar, sem minnst var á í byrjun greinar, uppbrot á viðteknum andstæðum á borð við veruleika og ímyndun, lífi og dauða, viti og óviti. Að því leyti erum við aftur komin að hinni póstmódernísku skírskotun Einars Más. (9) Í næstu skáldsögu sinni tekur Einar svo aftur upp borgarminnið. Í Fótsporum á himnum (1997) segir sögumaður, sem er samtímamaður, sögu afa síns og ömmu, barna þeirra og vina sem byggðu Reykjavík í byrjun aldarinnar. Sagan hefst á mynd úr æsku ömmunnar þar sem hún verður vitni að sveitarflutningi fátæks fólks á nítjándu öld en lýkur einhvern tíma á fimmta áratug tuttugustu aldar þar sem hún heimtir til sín soninn Ragnar úr borgarastyrjöldinni á Spáni nokkurn veginn heilan á húfi. Um leið og Fótspor á himnum er fjölskyldusaga er ætlun Einars Más að segja sögu þjóðar sem kom hálfmeðvitundarlaus inn í nýja öld, nýjan og framandi heim. Þetta er saga um flutninginn úr sveit í borg en hún andæfir þeirri einföldu mynd sem dregin var upp af honum í verkum eldri höfunda.

Eitthvað við þessa sögu gerir hana afar íslenska. Kannski bara nesjamennskan sem auðugt og kynlegt persónusafnið endurspeglar. Eða skírskotunin í mannlýsingar og frásagnarbrögð Íslendingasagna. Sagt er frá á knappan hátt, sviðssetningar eru einfaldar, komist er beint að efninu. Hliðskipun er ríkjandi og setningar eru stuttar og einfaldar. Um Signýju nokkra á Oddsstöðum segir til dæmis aðeins þetta í sögunni: „Hún fór einförum og sagði aldrei fleira en hún þurfti.“ Orðalag á borð við þetta er líka dæmigert: „Ingibjörg móðir hans grét en bræður hans mæltu fátt.“ Eða: „Voru þá margir sárir í báðum liðum.“ Orðum er ekki eytt á það sem ekki skiptir máli, það sem ekki þykir nógu sérstakt og stórt: „Með aldrinum breytist fólk í sagnfræðinga og hreinsar burt atvik einsog orma úr fiski“, segir sögumaður. Það eru viðburðirnir sem skipta máli, hnittnu tilsvörin á örlagastundunum, það er ekki dvalið við hvunndaginn, hið smáa. Þetta er stóratburðasaga, stundum eins og stiklað sé á stóru með ljóðrænum milliköflum. Öðru hverju vill brenna við að hin epíska framvinda (samfella) rofni. Frásögnin verður hálfgert stakkató þegar verst lætur sem minnir nokkuð á kvikmyndir Friðriks Þórs Friðrikssonar sem Einar Már hefur skrifað handrit að og einkennast af þessum sama frásagnarhætti klippingarinnar, það er Börn náttúrunnar, Bíódagar og Englar alheimsins. Staða sögumanns er hins vegar allt önnur en í Íslendingasögum. Hér dylst hann ekki á bak við efnið heldur er sínálægur, lætur til dæmis vita hvernig sögu hann er að segja og greinir frá heimildum sínum eða heimildaleysi. Innskot hans eru fjölmörg. Oft leggur hann út af sögunni og er augljóst með hverjum hann hefur samúð: „. . . en þetta voru aðeins hugarórar vannærðra stráka sem reknir voru áfram með harðri hendi, voru aldrei kallaðir annað en skussar og trassar, stöðugt minntir á hvaðan þeir komu og hverjir þeir voru.“

V

Eins og sjá má á þessari samantekt er auðvelt að finna samhengi í höfundarverki Einars Más. Nokkur þemu koma endurtekið fyrir í verkum hans, svo sem borgin og róttæknin en hugsunin sem liggur alltaf undirniðri er uppbrotið, afbygging hins viðtekna, ruglun hins ríkjandi. Í nýjustu ljóðabók Einars, Í auga óreiðunnar (1995), verður reyndar ekki annað séð en að hið ríkjandi sé rugl (eða í rugli). Þessi bók er nokkurs konar uppgjör við samtímann og fortíðina sem við óhjákvæmilega höfum í farteskinu. Fall múrsins hefur skapað ringulreið og fæstir vita hvar þeir standa: „Veröldin ráfar alein um gangana / og villist á milli hæða.“ (10)

Fyrir áratug eða svo lentu fræðimenn í nokkrum skilgreiningarvanda með verk Einars Más og fleiri höfunda af hans kynslóð. Töldu sumir að sagan eða hin íslenska frásagnarhefð hefði endurfæðst í verkum hans. Aðrir sögðu að sagan hefði aldrei horfið úr íslenskri sagnaritun og sáu skapandi endurmat á módernismanum í verkum Einars. (11) Eins og hér hefur komið fram hafa verk Einars, og þá einkum sagnagerðin, einkennst af leit, leit að frásagnarhætti, sjónarhorni, orðum, merkingu. Þessi leit er lýsandi fyrir hið póstmóderníska ástand sem Einar hefur að nokkru leyti verið tengdur við hér. Hægt er að segja að stefnuleysi einkenni þetta ástand. Einnig má segja að við séum stödd í millibilinu, á mörkunum þar sem hefbundnar andstæður og hefðbundin form leysast upp. Þótt ekkert skuli fullyrt – enda fullyrðingar varhugaverðar á tímum sem þessum – þá virðist einhver slík skilgreining eiga ágætlega við um verk Einars Más.

Þröstur Helgason, 2000.

Tilvísanir

(1) Launsynir Orðanna, Bjartur, Reykjavík 1998.

(2) „Hin raunsæja ímyndun“, Tímarit Máls og menningar, 2, 1990, s. 99.

(3) Jón Yngvi Jóhannsson, „Upphaf íslensks póstmódernisma. Um fyrstu ljóðabækur Einars Más Guðmundssonar“, Kynlegir kvistir. Tíndir til heiðurs Dagnýju Kristjánsdóttur fimmtugri, Ritstjóri: Soffía Auður Birgisdóttir, Uglur og ormar, s. 125-142.

(4) Einar Már Guðmundsson: Ljóð, Mál og menning, Reykjavík 1996, s. 127.

(5) Sbr. Þröst Helgason, „Vitið í óvitinu. Um Engla alheimsins eftir Einar Má Guðmundsson“, Andvari 1995, s. 86-88; einnig Guðna Elísson, „Heimurinn sem krónísk ranghugmynd“ Átök undurs og raunsæis í verkum Einars Más Guðmundssonar“, Skírnir 171 (vor 1997), s. 166-167.

(6) Einar Már Guðmundsson, Englar alheimsins, Almenna bókafélagið, Reykjavík 1993, s. 10.

(7) Sjá nánar um hinn tvöfalda sögumann: Elenore M. Guðmundsson, „Á leiðinni út úr heiminum til að komast inn í hann aftur. Hinn tvöfaldi sögumaður í Englum alheimsins,“ Skírnir 171 (vor 1997), s. 79-91.

(8) Guðni Elísson, sama, s. 190-196.

(9) Þröstur Helgason, sama, s. 86-92.

(10) Einar Már Guðmundsson: Í auga óreiðunnar, Mál og menning, Reykjavík 1995.

(11) Sjá eftirfarandi: Halldór Guðmundsson, „Sagan Blífur. Sitthvað um frásagnarbókmenntir síðustu ára“, Tímarit Máls og menningar, 3, 1991, s. 49-56; Gísli Sigurðsson, „Frá formi til frásagnar. Munnmenntir, bókmenntasaga og íslenskur sagnaskáldskapur 1980-1990“, Tímarit Máls og menningar, 1, 1992, s. 69-78; Ástráður Eysteinsson, „Um formgerð og frásögn. Önnur sýn á skáldsagnagerð síðasta áratugar“, Tímarit Máls og menningar, 2, 1992, s. 39-45.

Verðlaun

2015 – Íslensku bókmenntaverðlaunin: Hundadagar

2012 – Norræn bókmenntaverðlaun sænsku akademíunnar

2010 – Viðurkenning úr minningarsjóði Carl Scharnberg

2002 – Rithöfundasjóður Ríkisútvarpsins

2002 – Riddarakross hinnar íslensku fálkaorðu: fyrir framlag til íslenskra bókmennta

1999 – Karen Blixen Medaljen, heiðursverðlaun veitt af Det Danske Akademi

1999 – Giuseppe Acerbi bókmenntaverðlaunin. Veitt í bænum Castel Goffredo á Ítalíu

1995 – Bókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs: Englar alheimsins

1994 – Menningarverðlaun VISA Ísland

1994 – Menningarverðlaun DV í bókmenntum : Englar alheimsins

1988 – Bjartsýnisverðlaun Bröstes

1982 – Fyrstu verðlaun í bókmenntasamkeppni Almenna bókafélagsins: Riddarar hringstigans

Tilnefningar

2007 – Íslensku bókmenntaverðlaunin: Rimlar hugans

2004 – Íslensku bókmenntaverðlaunin: Bítlaávarpið

2000 – Íslensku bókmenntaverðlaunin: Draumar á jörðu

1997 – Íslensku bókmenntaverðlaunin: Fótspor á himnum

1991 – Íslensku bókmenntaverðlaunin: Klettur í hafi

Almenn umfjöllun

Joseph C. Allard: „Einar Már Guðmundsson (1954- )“
Icelandic Writers. Dictionary of Literary Biography, vol. 293, ritstj. Patrick J. Stevens, Detroit, Gale 2004, s. 48-54

Guðmundur Andri Thorsson, Páll Valsson: „Lífsgleðin á grunnplaninu“ Viðtal við Einar Má Guðmundsson
Teningur, 3. árg., 3. tbl. 1987, s. 42-47

Guðni Elísson: „Heimurinn sem krónísk ranghugmynd. Átök undurs og raunsæis í verkum Einars Más Guðmundssonar“
Skírnir, 171. árg., vor 1997, s. 165-196

Hannes Hólmsteinn Gissurarson: „Þegar vöknaði í púðrinu: íslensk skáld kveða sig frá sósíalisma“
Þjóðmál 2009, 5. árg., 4. tbl. bls. 72-80.

Harriet Jossfolk: „Det globala i det lokala: ett samtal med Einar Guðmundsson“
Horisont, 49. árg., 1. tbl. 2001, s. 49-51

Hrefna Haraldsdóttir, Viðar Garðarsson: Skáldatími. Einar Már Guðmundsson
Reykjavík : Hugsjón, 1998 [myndband]

Illugi Jökulsson: Með vængi á heilanum
Viðtal við Einar Má Guðmundsson. Reykjavík : Garpur, 1995 [myndband]

Jón Ingvi Jóhannsson: „Upphaf íslensks póstmódernisma. Um fyrstu ljóðabækur Einars Más Guðmundssonar“
Í Soffía Auður Birgisdóttir (ritstj.): Kynlegir kvistir tíndir til heiðurs Dagnýju Kristjánsdóttur fimmtugri. Reykjavík : Uglur og ormar, 1999, s. 125-142

Jónas Maxwell Moody: „The Author of Revolution“ (viðtal)
Iceland review 2008, 46. árg., 4. tbl. bls. 32-3.

Kjartan Árnason: „Ung, græn- og yrkja ljóð! Um ljóðagerð ungra skálda á síðasta áratug“
Mímir, 24. og 25. árg., 1. tbl. 1986, s. 6-14

Silja Aðalsteinsdóttir: „Ósýnilegi barþjónninn segir frá“

Viðtal við Einar Má Guðmundsson
Tímarit Máls og menningar, 56. árg., 2. tbl. 1995, s. 9-33

Silja Aðalsteinsdóttir (umsjón): Ritþing 4. nóvember 2000
Reykjavík: Menningarmiðstöðin Gerðuberg, 2000

Skafti Þ. Halldórsson: „Vægðarlaus aðför veruleikans.“ Yfirlistgrein um feril Einars Más í tilefni fimmtugsafmælis skáldsins.
Lesbók Morgunblaðsins, 23. október 2004

Thomas Thurah: „At give de tavse stemme.“ Viðtal
Í Historien er ikke slut. Samtaler med 36 Eruropæiske forfattere. Köbenhavn, Gyldendal, 2000, s. 178-186

Um einstök verk

Bankastræti núll

Björn Bjarnason: „Þjóðfélagsgagnrýni Einars Más“ (ritdómur)
Þjóðmál 2011, 7. árg., 2. tbl. bls. 95-6.

Bítlaávarpið

Gunnþórunn Guðmundsdóttir: „Reimleikar“
Bókmenntavefurinn, umfjöllun um bækur, sjá hér

Skafti Þ. Halldórsson: „Öndergrándið er akademía“
Tímarit Máls og menningar, 66. árg., 1. tbl. 2005, s. 103-106

Draumar á jörðu

Hallberg Hallmundsson: „Draumar á jörðu“
Í World Literature Today, 2002, s. 196

Eftirmáli regndropanna

Alan Crozier: „Regndropparnas epilög“
Gardar, ársrit 22 1991, s. 49

Ástráður Eysteinsson: „Syndaflóð sagnaheims“
Skírnir, 161. árg., vor 1987, s. 178-189

Vésteinn Ólason: „Eftirmáli regndropanna“
Tímarit Máls og menningar, 48. árg., 3. tbl. 1987, s. 382-384

Sigríður Albertsdóttir: „Töfraraunsæi í íslenskum samtímaskáldsögum“
Tímarit Máls og menningar, 61. árg., 1. tbl. 2000, s. 81-100

Englar alheimsins

Elenore M. Guðmundsson: „Á leiðinni út úr heiminum til að komast inn í hann aftur. Hinn tvöfaldi sögumaður í Englum alheimsins“
Skírnir, 171. árg., vor 1997, s. 78-91

Friedhelm Rathjen: „Violinen der Welt, verstimmt“
Tintenkurs Nordwest. Scheeßel: Edition ReJoyce, 2006, s. 157-159

Helga Hlaðgerður Lúthersdóttir: „Fra sindets mørke: en afdød sindsyg mands memoirer / From the dark corners of the mind: reminiscences of a dead and mentally ill man“
Nordisk litteratur, 1995, s. 32-34

Lise Hvaarregaard: „Sagatræk í Einar Már Guðmundssons Universets engle“
The Fantastic in Old Norse / Icelandic Literature. Sagas and the British Isles. Durham: The Centre for Medieval and Renaissance Studies, Durham University, 2006, s. 407-416

Per Lagerholm: „Einar Már Guðmundsson, Universums änglar“
Gardar, 27, 1996, s. 69-70

Silja Aðalsteinsdóttir: „Verdenslitteraturen glöder af galskab / World literature is bursting with insanity“
Nordisk litteratur, 1995, s. 3-7

Páll Valsson: „Orrustan geisar í heitu höfði okkar“
Tímarit Máls og menningar, 56. árg., 2. tbl. 1995, s. 106-111

Þröstur Helgason: „Vitið í óvitinu. Um Engla alheimsins eftir Einar Má Guðmundsson“
Andvari, 120. árg., 1995, s. 86-92

Englar alheimsins (kvikmynd)

Richard Middleton: „One Flew Over Reykjavik“ Viðtal
Iceland Review, 38. árg., 1. tbl. 2000, s. 26-31

Ég stytti mér leið framhjá dauðanum

Kári Páll Óskarsson: „Ölvið ykkur – á skáldskap eða dyggðum“
Tímarit Máls og menningar, 68. árg., 4. tbl. 2007, s. 109-113

Þorgerður E. Sigurðardóttir: „Hvar er eilífðin?“
Bókmenntavefurinn, umfjöllun um bækur, sjá hér

Hvíta bókin

Benedikt Jóhannesson: „Í skugga hrunsins“
Skírnir 2009, 183. árg., haust, bls. 509-20.

Björn Bjarnason: „Fjórar bækur um hrun“ (ritdómar)
Þjóðmál 2009, 5. árg., 3. tbl. bls. 76-86.

„Óbærileg veröld frjálshyggjunnar“
Vísbending 2009, 27. árg., 32. tbl. bls. 4.

Stefán Karlsson: „Hlutverk ríkisvaldsins í ritum um efnahagshrunið“
Glíman 2010, 7. tbl. bls. 201-18.

Henrik Wivel: „Landsforræderi: en hvidbok af Einar Már Guðmundsson“ (ritdómur)
Nordisk tidskrift för vetenskap, konst och industri 2010, 86. árg., 1. tbl. bls. 77-80.

Leitin að dýragarðinum

Páll Valsson: „Leitin að stílgaldrinum“
Tímarit Máls og menningar, 50. árg., 3. tbl. 1989, s. 397-400

Rauðir dagar

Robert Zola Christensen: „Röda dagar“
Gardar, ársrit 24, 1993, s. 45-46

Skafti Þ. Halldórsson: „Rauðir dagar“
Tímarit Máls og menningar, 52. árg., 1. tbl. 1991, s. 109-112

Riddarar hringstigans

Vésteinn Ólason: „Stigamaður“
Tímarit Máls og menningar, 44. árg., 2. tbl. 1983, s. 221-225

Rimlar hugans

Böðvar Guðmundsson: „Að synda saman í land“ (ritdómur)
Tímarit Máls og menningar 2008, 69. árg., 3. tbl. bls. 135-6.

Gunnþórunn Guðmundsdóttir: „Rimlar hugans. Ástarsaga“
Bókmenntavefurinn, umfjöllun um bækur, sjá hér

Róbinson Krúsó snýr aftur

Helgi Grímsson: „Sendisveinninn og Róbinson Krúsó“
Tímarit Máls og menningar, 43. árg., 5. tbl. 1982, s. 606-617

Sendisveinninn er einmana

Helgi Grímsson: „Sendisveinninn og Róbinson Krúsó“
Tímarit Máls og menningar, 43. árg., 5. tbl. 1982, s. 606-617

Vængjasláttur í þakrennum

Finn Barlby: „Den flyvende garage; om Einar Már Guðmundssons fiktive univers, især i Vingeslag i tagrenden“
Nordica, bindi 8 1991. Odense: Odense Universitetsforlag, s. 69-80

Guðni Elísson: „Hefðin og hæfileiki Einars Más Guðmundssonar: Vængjasláttur í þakrennum og bókmenntasamhengið“
Í Ástráður Eysteinsson (ritstj.): Heimur skáldsögunnar. Reykjavík: Bókmenntafræðistofnun Háskóla Íslands, 2001, s. 157-169

Vésteinn Ólason: „Pegasus blakar vængjum í Reykvískum þakrennum“
Tímarit Máls og menningar, 45. árg., 5. tbl. 1984, s. 590-593

Myndbönd:

Illugi Jökulsson: Með vængi á heilanum
Viðtal við Einar Má Guðmundsson. Reykjavík : Garpur, 1995

Hrefna Haraldsdóttir, Viðar Garðarsson: Skáldatími. Einar Már Guðmundsson
Reykjavík : Hugsjón, 1998


Brot úr greinum

Úr „Heimurinn sem krónísk ranghugmynd“

Í skáldverkum sínum leitast Einar við að lýsa samfélaginu í listrænu ljósi sem á lítið skylt við umhverfislýsingar í Reykjavíkursögum þeirrar rithöfundakynslóðar sem kemst til vegs og virðingar á árunum 1950 – 70. Auk þess eru skáldverk hans kröftugt svar við þeim rithöfundum eftirstríðsáranna, s.s. Ólafi Jóhanni Sigurðssyni og Indriða G. Þorsteinssyni, sem drógu upp skarpar andstæður milli töfra sveitalífsins og þeirrar einangrunar og firringar sem borgarmenning átti að hafa í för með sér.

Endurskoðun Einars á samfélagsgildum sveitamenningarinnar veldur því að hann hafnar hefðbundnum andstæðum tilgangsríkrar tilvistar og merkingarsnauðs lífs. Í stað Jónasar Hallgrímssonar, fjallsins, dalsins, náttúrunnar og sjálfmenntaðra sveitamanna, teflir hann fram Bítlunum, blokkum, byggingarsvæðum og rökurum svo nokkur dæmi séu nefnd. Frásagnarandinn breytist þó lítið, því hið nýja er alltaf að hluta hefðbundið í meðförum Einars og þannig tekst honum að brúa bilið milli gamals og nýs tíma. Hann skapar heim þar sem skottur og mórar flytja í bæinn líkt og íslenskur almúgi, án þess þó að glata sínum þjóðlegu eiginleikum.

Reykjavíkurmyndir Einars Más Guðmundssonar eru því jafn langt frá raunsæislegum veruleika og rómantískar sveitalífslýsingar, enda viðurkennir hann sjálfur að bækur hans eigi ekki að vera „þjóðfélagslýsing um það ’hvernig var að lifa á tímum viðreisnarstjórnar’“. Ef fjarlægðin gerir fjöllin blá og sveitina sæta, skapar Einar sams konar hughrif í lýsingu á veruleika sem stendur borgarbúum mun nær. Hann vekur með lesendum sínum ljúfsáran söknuð til tíma sem flestum er enn í fersku minni og skapar þannig skáldlega fjarlægð á nánustu fortíð Íslendinga í nútímasamfélagi. Hann sýnir að galdur og fantasía geta eins þrifist á steinsteyptum svæðum borgarinnar, sem upp til dala.
(s. 166)

Sjá Guðni Elísson: „Heimurinn sem krónísk ranghugmynd“. Átök undurs og raunsæis í verkum Einars Más Guðmundssonar“


Úr „Upphaf íslensks póstmódernisma“

Ef undirritaður fengi það verkefni að útbúa tilvitnanabók úr íslenskri nútímaljóðlist er ekki nokkur vafi á því hvernig fyrsta síða þeirrar bókar myndi líta út: Titillinn og tileinkunin á fyrsta ljóðinu í fyrstu ljóðabók Einars Más Guðmundssonar yrðu fyrstu ljóðlínurnar:

flassbakk um framtíðina
shantih shantih shantih
shake it up shake it up

t.s. eliot/david bowie

Þetta er póstmódernismi. Í þessum þremur ljóðlínum og titlinum má sjá samankomin mörg einkenni þess póstmódernisma sem Einar Már stundar í bókum sínum. Hér tekst að koma fyrir í fjórum ljóðlínum vísum í módernismann, poppmenningu nútímans, kvikmyndamenningu og útópíska framtíðarsýn byltingarsinnaðrar æsku sem Einar Már tilheyrði sjálfur nokkrum árum áður en ljóðabækurnar komu út. Í titlinum er þversögn, flassbakk er einlægt endurlit, þá eru rifjaðir upp liðnir atburðir. Hér er hins vegar flassbakkað um framtíðina, rétt eins og hún sé liðin og samtíminn sé einhvers konar pósttími/tímaleysi. Hér má ef til vill sjá svipaða tímaskynjun og [Fredrick] Jameson eignar samtímanum, ef við skynjum tímann sem sífellda nútíð, hætta orð eins og þátíð og framtíð að hafa merkingu, og þá má allt eins flassbakka um framtíðina.

Einkunnarorð eru líklega um það bil jafngömul bókmenntum Vesturlanda og er óhætt að tala um þau sem sérstaka hefð. Þau gefa tóninn fyrir það sem á eftir kemur, og eru einnig aðferð til að tengja texta við aðra texta sem eru þekktir og búa yfir kennivaldi. Í þessu tilfelli er þetta hins vegar ekki svo einfalt, því einkunnarorðin senda frá sér a.m.k. tvíbent skilaboð, þau gefa upp tvenns konar viðmið fyrir lesandann, Bowie og Eliot, sem skiljast þó ekki nema í samhengi. Í þessari ljóðabók heyra þeir saman, og þá er væntanlega von á öllu.

[.../...]

Ein helsta nýjungin í ljóðabókum Einars Más er fólgin í nýstárlegri beitingu tungumálsins, eins og þessar fyrstu línur gefa raunar fyrirheit um. Ljóðmál hans er gagnólíkt því sem módernistarnir íslensku tíðkuðu, og þótt talmálið sé eitt aðaleinkenni þess er það langt frá því að líkjast því hversdagsmáli sem nýraunsæju skáldin ortu sín pólitísku ljóð á. Í titli og tileinkun fyrsta ljóðsins í Sendisveinninn er einmana má greina nokkrar uppsprettur þessa nýstárlega ljóðmáls. Þótt Eliot sé þar settur í samhengi sem ýmsum aðdáendum hans fyndist óviðeigandi er langt frá því að Einar sé ósnortinn af módernískri ljóðagerð. Raunar er ekki úr vegi að tala um ljóðmál hans sem niðurstöðu af módernismanum og þeim hræringum sem snerust gegn honum í nýraunsæinu. Með hæfilegri einföldun má segja að hann fylli form módernistanna með götumáli, slangri og grófyrðum og tilvísunum í jafnt rokktexta, pólitíska orðræðu og klassískar bókmenntir. Hann beitir myndmáli og vísunum eins og módernistarnir gerðu í ríkum mæli, en nýraunsæið hvarf frá að miklu leyti. Vísanirnar eru hins vegar í aðra hluti en atómskáldin tíðkuðu og myndmálið er býsna ólíkt líka.
(s. 128-130)

Sjá Jón Yngvi Jóhannsson: „Upphaf íslensks póstmódernisma. Um fyrstu ljóðabækur Einars Más Guðmundssonar“

 

Úr „Orrustan geisar í heitu höfði okkar“

Formlega þætti er [...] aldrei hægt að slíta úr tengslum við efni sögu og hér er mikilvægt að gera strax grein fyrir því að þessi saga [Englar alheimsins] er táknleg í eðli sínu, allegórísk. Þótt grunnur hennar sé persónusaga þá skírskotar hún í margar áttir og verður bæði fjölskyldu- og þjóðarsaga, auk þess sem hún hefur að sjálfsögðu ennþá víðari skírskotanir. Saga þessara áratuga á Íslandi kallast með sérstæðum hætti á við þá veröld sem nú blasir við, um leið og hún endurspeglar heimssöguna. Þessir eiginleikar sögunnar þurfa ekki að koma lesendum Einars Más á óvart, þvert á móti má kalla það eitt af hans greinilegustu höfundareinkennum hversu meðvitað hann leitast sífellt við að fanga hið stóra í hinu smáa, hið alþjóðlega í hinu staðbundna. Þetta táknlega eðli endurspeglast í byggingu sögunnar, hún er klofin í marga smáa kafla og brot, rétt eins og vitund sögumanns. Og þessi klofningur áréttast í sjálfum stílnum: Einar skiptir af miklu öryggi milli epísks og ljóðræns stíls, þar sem ljóðrænar myndir miðla sturluninni á talsvert annan hátt en rökleg og epísk frásögn sögumanns; þær dýpka tilfinningu lesanda fyrir henni.
(s. 107)

Sjá Páll Valsson: „Orrustan geisar í heitu höfði okkar“

Year:
1992
Category:
Year:
1993
Category:
Year:
1998
Publisher:
Category:
Year:
2009
Publisher:
Category:
Year:
1995
Category:
Year:
1997
Publisher:
Category:
Year:
1986
Publisher:
Category:
Year:
1997
Publisher:
Category:
Year:
1994
Publisher:
Category:
Year:
1991
Publisher:
Category:
Year:
2000
Publisher:
Category:
Year:
1991
Publisher:
Category:
Year:
1996
Publisher:
Category:
Year:
2002
Publisher:
Category:
Year:
1981
Publisher:
Category:
Year:
1980
Category:
Year:
2011
Publisher:
Category:
Year:
2004
Publisher:
Category:
Year:
2000
Publisher:
Category:
Year:
1993
Category:
Year:
1997
Publisher:
Category:
Year:
2005
Publisher:
Category:
Year:
2015
Publisher:
Category:
Year:
2012
Publisher:
Category:
Year:
2002
Publisher:
Category:
Year:
1990
Category:
Year:
2007
Publisher:
Category:
Year:
2001
Publisher:
Category:
Year:
1988
Publisher:
Category:
Year:
2011
Publisher:
Category:
Year:
2004
Publisher:
Year:
2005
Publisher:
Year:
2005
Publisher:
Year:
1999
Publisher:
Year:
1995
Publisher:
Year:
1996
Publisher:
Year:
2007
Publisher:
Year:
1997
Publisher:
Year:
2006
Publisher:
Year:
2003
Publisher:
Year:
1999
Publisher:
Year:
2005
Publisher:
Year:
1992
Publisher:
Year:
2011
Publisher:
Year:
1995
Publisher:
Year:
1987
Publisher:
Year:
2013
Publisher:
Year:
2003
Publisher:
Year:
1999
Publisher:
Það rísa draugar upp úr skrifborðsskúffu höfundar. Sagnaheimur sem löngu er orðinn að goðsögn lifnar við aftur, eða a.m.k. gengur aftur. Í Bítlaávarpinu birtast nefnilega persónur og sögusvið sem þekkt eru úr trílógíu Einars Más Guðmundssonar sem hófst með Riddurum hringstigans.
Skáldsagan er ólíkindatól og hefur margsýnt það og sannað að hún rúmar alls konar form og textagerðir. Einar Már notfærir sér það í nýjustu skáldsögu sinni, Rimlum hugans, þegar hann fléttar saman bréfaskáldsögu og sjálfsævisögulegan texta í eins konar esseyju- eða dagbókarformi.
Hérna um árið spurði Ari ömmu sína um eilífðina í Aravísum Stefáns Jónssonar en það var víst fátt um svör, spurningum Ara er ei auðvelt að svara eins og allir vita.

“Yfirvöldin sátu í útlöndum og enginn trúði því að heimurinn gæti verið eitthvað öðruvísi en hann var.