Brynhildur Þórarinsdóttir

„Hvað ertu að búa til?“ spurði Nonni og gægðist ofan í fötuna. Gumsið leit út eins og þykkur hafragrautur. „Þetta er steypa, karlinn minn,“ sagði afi. Hann tók væna slettu úr fötunni og leyfði krökkunum að pota í hana. „Við þurfum að festa kofann almennilega svo hann fjúki ekki burt.“
(Nonni og Selma: fjör í fríinu)

Brynhildur Þórarinsdóttir er fædd í Reykjavík 27. ágúst 1970. Hún lauk stúdentsprófi frá M.R. 1990, B.A. prófi í íslensku frá Háskóla Íslands 1995 og M.A. prófi í íslenskum bókmenntum frá sama skóla 2004. Ári síðar lauk hún kennsluréttindanámi við Háskólann á Akureyri. Milli prófa starfaði Brynhildur sem blaðamaður og pistlahöfundur, bæði fyrir útvarp og prentmiðla. Hún var einn umsjónarmanna Þjóðbrautarinnar á Bylgjunni og ritstýrði meðal annars Vinnunni, tímariti Alþýðusambands Íslands, og Tímariti Máls og menningar. Brynhildur hefur einnig fengist við kennslu meðfram ritstörfunum og er núna lektor í íslensku við Kennaradeild Háskólans á Akureyri.

Brynhildur vann til fyrstu verðlauna í smásagnasamkeppni Samtaka móðurmálskennara 1997 fyrir söguna Áfram Óli. Sagan kom út í samnefndu smásagnasafni 1998. Síðan hefur Brynhildur sent frá sér þrjár endursagnir fyrir börn á Íslendingasögum, Njálu, Eglu og Laxdælu og einnig aðrar barnabækur. Fyrir eina þeirra, Leyndardómur ljónsins, fékk hún Íslensku barnabókaverðlaunin 2004. Brynhildur hlaut Norrænu barnabókaverðlaunin 2007 fyrir endursagnir sínar á Íslendingasögunum Njálu, Eglu og Laxdælu.

Brynhildur býr á Akureyri. Hún er í sambúð og á tvær dætur og einn son, auk tveggja stjúpbarna.

Forlag: Mál og menning.

Frá Brynhildi Þórarinsdóttur

Engin bókmenntagrein er jafnnátengd nostalgíunni og barnabækur. Við sem erum fullorðin berum bækur barnanna okkar saman við það sem við lásum sem börn og skiljum engan veginn af hverju þær eru ekki jafnleiftrandi skemmtilegar og okkar bækur voru. Sætur keimur æskunnar leikur um okkur þegar við rifjum upp uppáhaldsbarnabækurnar, við finnum angan af sólþurrkuðu sængurveri, hitann frá ofnotuðu vasaljósi og röndótt bragðið af signal2 á tönnunum. Við stillum söguhetjum samtímans upp á hansahilluna í gamla barnaherberginu okkar, á milli Árna í Hraunkoti og Hjalta litla; vegum og metum hvort þær séu jafnfjörugar og Lína og jafnhugrakkar og Ronja; eða jafntápmiklar og Georg(ína) og jafnprúðar og Anna litla.

Ég las þetta allt, allt sem er svo skemmtilegt að rifja upp: Bláu bækurnar, rauðu bækurnar, Astrid Lindgren, Enid Blyton, Sval og Val og Jón Odd og Jón Bjarna. Mamma kynnti mig fyrir Dóru og Völu og pabbi fyrir Tom Swift. Ég fór upp til ömmu og gleypti í mig þjóðsögurnar hennar, sísvöng eins og Gípa greyið, heilsaði upp á móra og skottur og fann álfa í garðinum. Ég kynntist Lísu í Undralandi gegnum framhaldssöguna í Heimilis-Tímanum og Ívari hlújárni í sígildu sögunum. Á sama tíma sótti ég dönskunámskeið við Paradiseæblevej því Drési kom vikulega inn um lúguna frá því löngu áður en ég fæddist. Háaloftið hennar ömmu geymdi mikinn fjársjóð; þar voru gömlu Tarzan bækurnar hans pabba, lúnar og letursmáar en ákaflega spennandi. Ég dröslaði þeim niður brattan stigann til að týnast í frumskógum hitabeltisins. Skömmu seinna elti ég Tinna til Kongó og Afríkunám mitt var fullkomnað.

Ein uppáhaldsbókin mín hét Litla Inga og stóra Inga og hafði líka verið uppáhaldsbók mömmu. Hún var um munaðarlausa stelpu sem var svo heppin að kynnast gamalli konu sem tók hana að sér. Litla Inga og stóra Inga var ofsalega falleg og ég táraðist yfir heppni litlu Ingu í hvert sinn sem ég las bókina. Ég las bókina um litlu Ingu og stóru Ingu aftur fyrir fáeinum árum, og hefði betur látið það ógert. Hún var alls ekki um gamla góða konu sem bjargaði litlu munaðarlausu barni. Litla Inga var stálpaður krakki og það sem verra var; stóra Inga var ekki gömul kona – hún var jafnaldra mín. Hún var þrítug! „Aumingja stóra Inga“, stóð í bókinni, „mikið átti hún gott að taka barnið að sér í einsemd sinni, orðin þrítug og enn ógift og barnlaus“. Ég lauk bókinni án þess að fella tár og stakk henni hátt upp í hillu. Þar mun hún standa þar til ég gleymi mér í nostalgíukasti og læt dóttur mína lesa hana.

Það hlýtur að vera draumur hvers barnabókahöfundar að skrifa bækur sem börn munu varðveita sem ilmandi minningu til fullorðinsáranna; bækur sem standast tímans tönn og hreyfa enn við manni þegar maður tekur þær aftur niður úr hillu eftir 20 – 30 eða 70 ár.  Þannig bækur eru auðvitað ekki „bara“ barnabækur, þær eru fjölskyldubækur; bækur sem ömmur og afar, mömmur og pabbar, stóru systur og stóru bræður hafa gaman af að lesa með börnunum sínum. Mér finnst að það ætti að vera fjölskyldubókahilla á hverju heimili þar sem allir fjölskyldumeðlimir raða uppáhaldsbókunum sínum. Hillan á auðvitað að vera í seilingarhæð fyrir kríli jafnt sem kerlingar svo að börnin geti lesið uppáhaldsbækur foreldra sinna og foreldrarnir uppáhaldsbækur barnanna. Þannig brúum við ekki aðeins kynslóðabilið á heimilinu heldur einnig í menningarsögunni; við kynnum Harry Potter fyrir Sæmundi fróða, Gunnar á Hlíðarenda fyrir sverðberanum Ledu og Emil í Kattholti fyrir Móa hrekkjusvíni. Ég efast ekki um að hillubúarnir muni skemmta sér stórkostlega, rétt eins og heimilisfólkið. 

Brynhildur Þórarinsdóttir, 2006.

Brynhildur Þórarinsdóttir – Af hetjum, lúsum og klárum krökkum

Brynhildur Þórarinsdóttir er fremur ný á sviði barnabókanna. Fyrsta verk hennar er smásagan „Áfram Óli“ en hún birtist í samnefndu smásagnasafni Samtaka móðurmálskennara og Máls og menningar 1998 og í Skímu, málgagni móðurmálskennara, sama ár. Sagan segir frá þrem vinum, þeim Óla, Tarsani og Möggu en það er Magga sem er sögumaður og segir söguna löngu eftir að atburðir hennar eru liðnir. Í sögunni kemur fram söknuður eftir liðnum tímum en Magga er orðin fullorðin þegar hún hefur frásögn sína af atburðum sumars þegar hún var á barnaskólaaldri. Þrátt fyrir að sagan sé stutt er fjallað af innlifun og tilfinningu um alvarlega hluti svo sem ástvinamissi og sorg en einnig kemur fram söknuður eftir æskuárunum, tíma leikja og sakleysis. Einn vinanna þriggja lendir í alvarlegu slysi sumarið sem sagan gerist og við það breytist líf hinna tveggja mikið. Þegar Óli deyr verður eftir stórt og óbætanlegt skarð í þessum litla vinahóp en ekkert verður sér líkt upp frá því. Eftir að Áfram Óli kom út hefur Brynhildur sent frá sér tvær skáldsögur fyrir börn og unglinga og tvær bækur sem eru endursögn á fornsögum Íslendingasagnanna. Ásamt þessu hefur Brynhildur skrifað fjölda greina um Íslendingasögur, íslenska menningu, og ýmislegt fleira.

Sú fyrri af Íslendingasögunum sem Brynhildur stytti og aðlagaði er Brennu Njálssaga en í endurgerðinni ber hún einfaldlega heitið Njála (2002). Í fyrra kom svo næsta saga, endurgerð Egils sögu Skallagrímssonar, sem hlaut hið stytta nafn Egla (2004). Bækurnar eru báðar mjög skýrar og vandlega unnar og sögurnar komast vel til skila þrátt fyrir að vera óhjákvæmilega mikið styttar. Sögurnar eru fyrst og fremst ætlaðar skólabörnum en eru einnig góð leið fyrir aðra að kynna sér söguþráð og persónur fornsagnanna á einfaldan og aðgengilegan hátt.

Til þess að tengja styttingarnar upprunalegum texta sagnanna eru margar frægar tilvitnanir, ljóð og vísur látnar haldast óskertar en þar sem margar þeirra eru á torræðu máli eru þær skýrðar á spássíu bókanna. Spássían er annars vel nýtt, og hugtök sem ekki eru algeng í nútíma tali og skrifum eru útskýrð þar, sem dæmi má nefna orðið taðskegglingar sem kemur oft fyrir í Njálu en nútímalesendur eiga sennilega erfitt með að átta sig á. Þá eru atburðir innan sem utan sögunnar útskýrðir nánar til að varpa skýrara ljósi á sögurnar.

Í upphafi beggja bóka er ítarlegur inngangur þar sem bæði er greint frá atburðum sem eru mikilvægir í sögunum en verður að sleppa í frásögninni, og eins er lífinu á tímum Íslendingasagnanna lýst, verslun, skipasmíðum og heimilislífi svo dæmi séu tekin. Skemmtilegar og lýsandi myndskreytingar eftir Margréti Einarsdóttur Laxness prýða hverja síðu en hún hefur myndskreytt fjölda barnabóka.

Fyrsta skáldsaga Brynhildar í fullri lengd er Lúsastríðið sem kom út árið 2002 og fjallar um þrjá hressa og uppátækjasama skólakrakka sem eru tilbúnir að beita öllum brögðum til að komast í langþráð frí úr skólanum. Einn krakkanna þriggja finnur lúsuga húfu og þau taka upp á því að setja öll húfuna á kollinn til þess að þau fái öll lús, en síðan fá þau hina krakkana í bekknum til að gera slíkt hið sama. Að lokum er lúsin komin út um allan skólann og hvorki kennarar né foreldrar skilja upp né niður í því hvers vegna lúsin virðist ekki ætla að hverfa þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir þeirra til að losna við hana. Börnin eru skrúbbuð, þvegin og kembd daglega en allt kemur fyrir ekki enda hafa þau séð til þess að lýsnar haldist á lífi í húfunni og setja hana daglega á sig til að lúsafaraldurinn standi sem lengst. Á endanum virðist eina lausnin vera að loka skólanum í viku.

Það er einn af þessum þrem vinum, Inga Þóra, sem segir söguna, en vinir hennar þeir Maggi og Benni koma einnig mikið við sögu. Krakkarnir þrír eyða miklum tíma saman í fríinu og taka upp á ýmsu sem veldur foreldrum Ingu Þóru, og reyndar hinna líka, miklu hugarangri. Þau fara til dæmis í keilu í íbúðinni hjá Ingu Þóru og nota gosflöskur fylltar af vatni í stað keilna og keilukúlu pabba Ingu Þóru og tekst með því bæði að rispa parkettið til óbóta og valda töluverðum vatnsskemdum í blokkinni. Seinna fara þau Inga Þóra og Maggi á skíði í stigaganginum hjá Ingu Þóru, og renna sér á milli hæða, en það endar með ósköpum því Maggi stórslasast og foreldrar barnanna lenda upp á kant hvert við annað þegar þeir koma að börnum sínum slösuðum á stigapallinum.

Þrátt fyrir mikla velgengni krakkana við að halda lúsunum á lífi og baráttuna fyrir því að fá að njóta lífsins og skemmta sér í fríinu tekur allt enda og þau verða að snúa aftur í skólann að viku lokinni. Bekkjarfélagar krakkanna þriggja eru í fyrstu ekkert sérlega ánægð með vinina þrjá sem hafa hálfpínt þau öll til að vera lúsug í heila viku en í lokin fá þau uppreisn æru með merkilegu tilboði sem berst úr óvæntri átt.

Lúsastríðið er bráðfyndin bók og ótrúleg uppátæki Ingu Þóru og félaga hennar vekja mikla kátínu hjá lesandanum þrátt fyrir að þau gangi stundum svolítið langt. Oft er stutt í að hlutirnir fari verulega illa og það á kannski sérstaklega við í skíðaslysinu á stigapallinum. Þrátt fyrir mikla fyndni og lífsgleði krakkanna má greina alvarlegan undirtón í bókinni sem snýr að foreldrum Ingu Þóru og hinna krakkanna, ásamt fleiri fullorðnum sem koma við sögu. Viðbrögð foreldra barnanna við uppátækjunum í fríinu eru vægast sagt slæm enda tekst krökkunum að rústa íbúð Ingu Þóru og stórslasa hálfa blokkina í þokkabót.

Skoðun Ingu Þóru á viðbrögðum foreldra sinna er sú að þeim sé meira umhugað um parkettið og önnur veraldleg gæði en hana og margt bendir til þess að þessi skoðun sé ekki úr lausu lofti gripin. Inga Þóra er sjálf öll af vilja gerð til að vera góð dóttir en henni mistekst það því miður og foreldrar hennar misskilja nánast allt sem hún reynir að gera fyrir þau. Andrúmsloftið á heimilinu verður erfiðara og erfiðara með hverjum deginum sem krakkarnir eru í fríi og foreldrarnir hafa lítinn tíma til að vera með börnum sínum, því allur tími þeirra fer í að vinna fyrir munaði sem þau telja sig verða að fá og börnin lenda þá í öðru sæti. Botninum er náð þegar foreldrar Magga gleyma honum fótbrotnum og farlama í sturtu í dágóðan tíma en það er einungis fyrir heppni að Inga Þóra finnur hann og getur bjargað honum. Með aðstoð ömmu Ingu Þóru og afa Magga, tekst börnunum þó á endanum að koma foreldrum sínum aftur á rétta braut og kenna þeim að það séu ekki veraldleg gæði sem mestu máli skipta í lífinu.

Inga Þóra er í gegnum alla bókina stöðugt að velta lífi sínu og framtíð fyrir sér en hugsanir hennar bera vott um ríkt ímyndunarafl, líkt og uppátækin sem rústa íbúð foreldra hennar. Þegar Inga Þóra, Maggi og amma Ingu Þóru sem á að sjá til þess að hún fari sér ekki að voða í fríinu fara í feluleik læsist amman inni í skáp og þrátt fyrir að vera áhyggjulaus í fyrstu lýstur þessum hugsunum allt í einu niður í huga hennar:

„Hvað ef amma væri í alvöru dáin inni í skápnum? Það myndi enginn trúa því að hún hefði lokað sig þar inni sjálf í feluleik. Við yrðum dregin út í handjárnum með blýkúlur hlekkjaðar við fæturna. Síðan yrðum við kærð fyrir morð og send á rammgirta fangaeyju úti í miðjum Norðursjó þar sem blóðhundar vöktuðu klettana. Maggi myndi tærast upp í klefanum og deyja úr berklum en ég myndi reyna að strjúka og verða étin af hákarli rétt áður en ég kæmist í land. Þvílík örlög sem biðu mín.“ (Lúsastríðið bls 54)

Hið sama gerist þegar foreldrar Ingu Þóru fá reikning fyrir skemmdunum sem hún og vinir hennar hafa valdið í fríinu, þá fer hugur hennar aftur á flug:

Mamma vildi greinilega geyma mig sem lengst í burtu frá heimilinu. Kannski vildi hún helst að ég kæmi aldrei heim aftur. Því betur sem ég hugsaði þetta því sannfærðari varð ég. Ég yrði að flýja að heiman. Ég sá þetta alveg fyrir mér. Ég myndi pakka nauðsynlegustu hlutum í risastórann vasaklút, binda á hann rembihnút og hengja á trjágrein. Svo myndi ég taka minn skammt af fimmtíuköllum úr kassanum undir rúminu hans Magga. Verst að það eru engar járnbrautarlestir á Íslandi, annars myndi ég fela mig í einum flutningavagninum og lifa á skemmdum eplum. (Lúsastríðið bls. 114.)

Í þessum orðum má greinilega sjá að bókin er ekki aðeins fyndinn og hressilegur skemmtilestur fyrir börn heldur felast einnig í henni skilaboð til hinna fullorðnu sem virðast oft gleyma bæði börnunum sínum og þörfum þeirra og jafnframt því hvernig það er, og var, að vera barn.

Nýjasta bók Brynhildar er Leyndardómur ljónsins (2004) en fyrir hana hlaut hún íslensku barnabókaverðlaunin. Bókin fjallar um tvíburasystkinin Tomma og Önnu sem fara ásamt bekkjarfélögum sínum í skólabúðir að Reykjum í Hrútafirði. Börnin sjá fram á skemmtilega daga í skólabúðunum en ásamt þeim eru sjöundubekkingar frá Akureyri staddir að Reykjum og bæði Tommi og Anna eignast strax vini meðal þeirra. Fljótlega eftir komu þeirra taka þó undarlegir atburðir að gerast, rafmagnið fer óvænt af öllum skólanum, þau sjá ógnvekjandi mann læðast um í myrkrinu bæði innan dyra og utan og strákarnir heyra einhvern þylja upp nöfn í aðliggjandi herbergi. Málin fara þó fyrst að flækjast fyrir alvöru þegar Tommi, Anna og tveir nýfundnir vinir þeirra að norðan lokast inni í tækjageymslu leikfimisalarins en þar finna þau óvænt gamla mynd með undarlegri áletrun sem búið er að fela inni í einni dýnunni. Myndin leiðir þau á sporið á merkilegum atburðum sem áttu sér stað að Reykjum í heimsstyrjöldinni síðari en það kemur í ljós að maðurinn sem læðist um húsið á nóttunni er að reyna að komast að atburðum sem tengjast myndinni. Gömlu hjónin sem búa að Reykjum og sjá um skólabúðirnar virðast einnig vita meira en þau gefa uppi og brátt fara leyndarmálin að skjóta upp kollinum aftur.

Leyndardómur ljónsins er frumleg og skemmtileg unglingabók þar sem höfundurinn byggir á minnum sem lengi hafa verið vinsæl í unglingabókum. Skólabúðir, huldar ráðgátur, leyndardómar og unglingar í hlutverki spæjara eru öll vel þekkt fyrirbæri í bókmenntum fyrir unglinga, að ógleymdri unglingsástinni ljúfsáru. Brynhildi tekst vel að flétta saman þessi gamalkunnu minni og sýna þau frá nýju sjónarhorni með því að blanda óvenjulegum atburðum og persónum saman við þau. Það sem vekur mesta athygli í sögunni er leyndardómurinn sjálfur, sem verður ekki gefinn upp að sinni, en óhætt er að segja að leyndardómur ljónsins tengist áletruninni á myndinni og málið er stærra og flóknara en nokkurn grunar. Það er algengt að leyndardómarnir sem krakkar leysa í íslenskum unglingabókum séu fremur smáir í sniðum, alla vega í flestum tilvikum, og tengjast þá oft smáglæpum og glæpónum en segja má að Brynhildur fari þar ótroðnar slóðir í þessari nýjustu bók sinni.

Tommi og Anna eru heilsteyptar persónur sem vega hvora aðra upp, Tommi er lokaður og feiminn en Anna opin og hress. Höfundurinn leggur mikið upp úr mikilvægu og nánu sambandi þeirra systkina og umhyggjan sem þau sýna hvoru öðru gefur bókinni vinalegan og jákvæðan tón þrátt fyrir voveiflega atburði í skólabúðunum. Bæði Tommi og Anna og vinir þeirra að norðan, Valdís og Harri, eru viðkunnanlegar og trúverðugar persónur, sem búa bæði yfir jákvæðum og neikvæðum hugsunum en láta tilfinningar sínar í flestum tilvikum ekki hlaupa með sig í gönur.

Sem barna og unglingabókahöfundur hefur Brynhildur Þórarinsdóttir augljóslega margt fram að færa og með sögum hennar kemur nýr vinkill á gamla og gróna hefð innan greinarinnar. Léttur og gamansamur tónn hennar hrífur lesandann auðveldlega með sér en þrátt fyrir léttleikan býr alvaran alltaf undir, án þess að verða yfirþyrmandi. Endurgerðir Brynhildar á Íslendingasögunum eru þörf viðbót við barnabókaflóru nútímans enda fyrir öllu að ungir lesendur kynnist þessum mikilvæga sagnaarfi íslensku þjóðarinnar sem margir ungir lesendur kynnast annars aðeins sem skyldulesningu í framhaldsskóla. Þrátt fyrir að vera stútfullar af fróðleik eru þær á engan hátt yfirþyrmandi heldur vekja frekar áhuga bæði á sögunum sjálfum og þessu mikilvæga tímabili í íslenskri sögu.

© María Bjarkadóttir 2006

Verðlaun og viðurkenningar

2007 – Norrænu barnabókaverðlaunin: Njála, Egla og Laxdæla

2006 – Bæjarlistamaður á Akureyri

2004 – Íslensku barnabókaverðlaunin: Leyndardómur ljónsins

2003 – Vorvindar IBBY: Njála

1997 – Fyrstu verðlaun í smásagnasamkeppni Félags móðurmálskennara: „Áfram Óli“

Um einstök verk

Blávatnsormurinn: ævintýri úr Silfurbæ

Kolfinna Jónatansdóttir: „Í öðrum heimi“ (ritdómur)
Spássían 2012, 3. árg., 4. tbl. bls. 46.

Egla

Æsa Guðrún Bjarnadóttir: „Spássíukrot við sagnaarfinn“
Börn og menning, 22. árg., 2. tbl. 2007, s. 22-23

Laxdæla

Æsa Guðrún Bjarnadóttir: „Spássíukrot við sagnaarfinn“
Börn og menning, 22. árg., 2. tbl. 2007, s. 22-23

Njála

Sjón: „Íslendingamyndasögurnar“ Tímarit
Máls og menningar, 66. árg., 2. tbl. 2005, s. 96-97

Katrín Jakobsdóttir: „Njála fyrir börn“
Skíma, 26. árg., 1. tbl. 2003, s. 19

Æsa Guðrún Bjarnadóttir: „Spássíukrot við sagnaarfinn“
Börn og menning, 22. árg., 2. tbl. 2007, s. 22-23

Nonni og Selma: Fjör í fyrsta bekk

Úlfhildur Dagsdóttir: „Táp og fjör og (mis)frískir krakkar“
Bókmenntavefurinn, umfjöllun um bækur, sjá hér

Óskabarn: bókin um Jón Sigurðsson

Brynja Baldursdóttir: „Eldfjöll og óskabörn“ (ritdómur)
Börn og menning 2011, 26. árg., 2. tbl. bls. 26-7.

Greinar um verk Brynhildar og viðtöl við hana hafa líka birst í dagblöðum, sjá t.d. Gagnasafn Morgunblaðsins

Year:
2012
Publisher:
Category:
Year:
2004
Publisher:
Category:
Year:
2006
Publisher:
Category:
Year:
2004
Publisher:
Category:
Year:
2002
Publisher:
Category:
Year:
2002
Publisher:
Category:
Year:
2002
Publisher:
Year:
2002
Publisher:
Year:
1998
Publisher:
Category:
Year:
1998
Publisher:
Category:
Year:
2007
Publisher:
Category:
Year:
2008
Publisher:
Category:
Year:
2004
Publisher:
Year:
2005
Publisher:
Year:
2004
Publisher:

Það er athyglisvert að sjá hvernig bókmenntaleg viðmið og gildi virðast hafa ólíkt vægi eftir því hvort um er að ræða barnabók eða fullorðinsbók. Almennt séð er það ekki talið skáldskap fyrir fullorðna til tekna að hann sé of áróðurskenndur, eða beri boðskap sinn um of utan á sér. Hinsvegar virðist þykja mun sjálfsagðara að barnabækur beri með sér gagnsæan farangur umvandana og uppeldislegra sjónarmiða. Vissulega er misvel haldið á slíkum en stundum get ég þó ekki annað en haft samúð með börnum sem þrá bara innihaldslausa skemmtun.

Þeir eru ekki gamlir, bræðurnir og aðalsöguhetjur Gásagátunnar. Sá eldri er tólf ára og yngri bróðir hans er tíu. Þeir heita Kolsveinn og Kálfur og eru komnir til Gása frá Grímsey, bæði til að selja fálka sem þeir hafa fangað og svo ætlar Kolsveinn að hefna föður síns en fylgismenn Guðmundar biskups góða drápu hann. Sagan gerist árið 1222, á tíma Sturlunga, en þeir koma einmitt við sögu því þeir bræður vingast við Þórð kakala og Sturlu Þórðarson sem eru þá á svipuðum aldri.