Böðvar Guðmundsson

„Úkraínudrengirnir stilltu saman balalækurnar og úteygur Þjóðverji kom til liðs við þá með tvöfalda hnappaharmóniku á maganum. Það var að vísu eitthvað daufara yfir mörgum en í byrjun ferðar, en nú var hvorki pest eða sjóveiki lengur, hér var Ameríka í sjónmáli, landið þar sem tækifærin bíða og draumarnir rætast.“
(Híbýli vindanna)

Böðvar Guðmundsson fæddist 9. janúar 1939 á Kirkjubóli í Hvítársíðu. Hann lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum í Reykjavík 1962 og Cand. mag. prófi í íslensku frá Háskóla Íslands árið 1969. Hann stundaði nám í Þýskalandi 1964-1965 og í Frakklandi 1972-1973. Böðvar var stundakennari við Réttarholtsskóla í Reykjavík 1962-1963, síðar við Christians Albrechts Universität í Kiel, kenndi íslensku við Menntaskólann við Hamrahlíð 1969-1974, var stundakennari við heimspekideild Háskóla Íslands 1970-1972 og kenndi við Menntaskólann á Akureyri 1974-1980. Hann var stundakennari við Leiklistarskóla Íslands 1981-1983 og íslenskur sendikennari við Háskólann í Bergen 1983-1987.

Eftir Böðvar liggja ljóðabækur, leikrit og skáldsögur. Auk þess hefur hann þýtt fjölda erlendra verka fyrir börn og fullorðna. Fyrsta bók hans, ljóðabókin Austan Elivoga, kom út árið 1964. Skáldsögur hans um ferðir Íslendinga til Vesturheims hafa vakið mikla athygli og hlaut Böðvar Íslensku bókmenntaverðlaunin fyrir þá síðari. Þær voru síðar færðar í sviðsbúning og settar upp í Borgarleikhúsinu leikárið 2004 - 2005. Böðvar hefur einnig samið fjöldann allan af söngtextum. Meðal þýðinga Böðvars má finna verk eftir Heinrich Böll, Roald Dahl, Michael Ende og Astrid Lindgren.

Böðvar er nú búsettur í Danmörku og hefur snúið sér alfarið að ritstörfum.

Forlag: Mál og menning.

Bókmenntanálgunarferli mitt

Ég lifi ekki til að skrifa en ég skrifa til að lifa. Ég var enginn lestrarhestur sem barn, langt frá því, lærði fyrr að synda en að lesa, og rithönd mín var með þeim ósköpum í æsku að fólk vorkenndi foreldrum mínum – og þeir mér. Réttritun hef ég aldrei lært aðmennilega. Það er víst einhvers konar blinda, ekki eiginleg lesblinda heldur stafablinda, sem að mér gengur. Mitt versta fag í menntaskóla var stafsetning, mér var ómögulegt að leysa á viðunanlegan hátt stafsetningarþrautir eins og: „Holbekkt lækjarsytran seytlaði fram hjá örreytiskotinu,“ eða „húsfreyjan keypti stigna saumavél og signa ýsu með víum.“

En einhvern veginn þróuðust mín mál þannig að ég átti fárra kosta völ. Nú má auðvitað ekki gleyma því að faðir minn var þekkt ljóðskáld og bókmenntir voru daglegt brauð á mínu æskuheimili. Kvæði lærði ég auk þess utan að í barnaskóla og þótt mér tækist ekki að skrifa eitt einasta orð rétt þá mundi ég hverja rímaða hendingu sem ég heyrði. Sjálfur fór ég að bauka við að yrkja nokkuð snemma, mest voru það vammir og skammir um systkini mín en ljóð af alvarlegri toga slæddust þó með, til dæmis þegar Kristján konungur X dó, og þá var ég víst níu ára, þá orti ég um hann erfiljóð og flutti fyrir hrútinn okkar, en það var minn starfi að bera í hann vatn.
Ekki þorði ég að flytja öðrum það kvæði.

Og svo liðu árin, ég fór í skóla og orti um kennarana og svo þegar sálin vaknaði og kynhvötin fór að veifa halanum fór ég að yrkja sonnettur og jafnvel skrifa sögur í skólablaðið. Ég var óskaplega hrifinn af ljóðum á árunum kringum tvítugt, ég lifði í einhvers konar ljóðheimum, kunni allan Hannes Pétursson afturábak og áfram og reyndi að yrkja eins og hann. Síðar meir bættust svo önnur ljóðskáld við og þeim á ég öllum stóra þökk að gjalda, en Hannes er þó og verður konungur minnar ljóðæsku.

En alltaf skyldi maður fara krókaleiðir að markinu. Fyrir hundaheppni slampaðist ég á að innritast í íslensk fræði í Háskóla Íslands árið 1963. Það var nú ekki vegna þess að ég hefði neina meiningu um hvað ég ætlaði að verða þegar ég yrði stór, heldur vegna þess að í íslenskum fræðum var það fólk sem mér þótti merkilegast á þessari jörð. Prófessorar mínir hristu auðvitað æruverðuga hærukolla sína yfir stafsetningu minni. Þegar ég skilaði uppkasti að fyrsta verkefni mínu í háskóla, það var auðvitað ritgerð um Hannes Pétursson, þá sagði gamli, góði Steingrímur J. Þorsteinsson og var miður sín: „Það er heilmikið til í því sem þér segið, en þér kunnið enga stafsetningu.“ Og þegar gamli, góði Halldór Halldórsson hleypti mér í gegnum nálarauga fyrrihlutans í fræðunum þá hló hann við og sagði: „Aldrei hef ég áður séð Hafnarfyrði skrifað með yfsiloni á fyrrihlutaprófi í íslenskum fræðum!“

En vera mín í fræðunum varð þó til þess að ég lærði heilmikið í stafsetningu. Ég lærði að orð er afkvæmi annars orðs og skal bera svip af því. Ég var meira að segja orðinn svo öruggur í öllum „holbekktu lækjarsytrunum í Hafnarfirði“ að ég fór að kenna íslensku strax að afloknu háskólaprófi.

Ég hélt í reynsluleysi mínu að ég gæti kennt og samtímis skrifað eitthvað. Flestir rithöfundar sem ég þekkti „unnu“ við eitthvað annað. Nema þá þeir voru á öryrkjabótum. Faðir minn var bóndi, Jón úr Vör var bókavörður, Jóhannes úr Kötlum barnakennari. Einungis Þórbergur og Halldór Laxness „gerðu ekkert.“ En þeir voru ekki að marka, þeir voru nefnilega séní.

Í nokkur ár reyndi ég að nota frístundir mínar til að skrifa bókmenntaverk. Það gekk nú ekki vel. Og það sem mér þótti undarlegast var að þegar mér gafst gott næði til að skrifa þá var það svo leiðinlegt að engu var líkt. Ég var stundum blátt áfram með hljóðum af leiðindum. Ætli það sjáist ekki á því sem til er eftir mig frá þessum árum?

Þetta kallaði auðvitað fram tilvistarkreppu. Og að lokum komst ég að þeirri niðurstöðu að mig langaði ekki til „að skrifa“ bókmenntaverk, mig langaði til að „hafa skrifað“ bókmenntaverk.

Það var enginn einn, sérstakur atburður sem breytti þessu viðhorfi mínu til bókmenntaskrifa, það var röð atvika og tilviljana um árabil. Þyngst á metum held ég að hafi verið að ég settist að í Danmörku og þar liggja nú ekki á lausu störf handa miðaldra mönnum sem enga menntun hafa utan íslensk fræði. Það leiddi til þess að ég fór að skrifa til að lifa, vinna mér fyrir salti í grautinn með því að þýða sögur og leikrit og ljóð. Með öðrum orðum, atvikin ákváðu fyrir mig hvað ég ætlaði að verða þegar ég yrði stór. Þá var ég 47 ára.

Það var skelfilega leiðinlegt í fyrstu en svo má illu venjast að gott þyki. Og þar er nú komið fyrir mér að mér þykir engin stund betri en sú þegar ég er einn með sjálfum mér og tölvunni minni. Þar af leiðir auðvitað að mér þykir ekkert skemmtilegra aflestrar en það sem ég sjálfur skrifa og ekkert skemmtilegra að gera en að skrifa það sem ég sjálfur les.

Þannig var bókmenntanálgunarferli mitt.

Böðvar Guðmundsson, 2001.

Um verk Böðvars Guðmundssonar

Jafnvel þó Böðvar Guðmundsson eigi að baki afkastamikinn feril sem ljóðskáld og leikritahöfundur er hann vafalaust best þekktur fyrir tvær skáldsagna sinna, Híbýli vindanna (1995) og Lífsins tré (1996). Fyrir þá seinni, Lífsins tré, hlaut hann Íslensku bókmenntaverðlaunin árið 1997. Lífsins tré er framhald af Híbýlum vindanna og saman segja bækurnar fjölskyldusögu vesturfarans Ólafs fíólíns. Verðlaunin eru því án efa viðurkenning fyrir þessar tvær skáldsögur saman, enda full ástæða til að verðlauna svo vel skrifaðar og skemmtilegar bækur.

Frásagnaháttur bókanna er all sérstakur, en þær samanstanda báðar af bréfum sem spanna um 200 ár, eða ævi fimm kynslóða. Hitann og þungan af frásögninni ber þó sá bréfritari sem hefur leikinn. Bréf hans til dóttur sinnar þjóna sem rammi utan um bréf genginna kynslóða og ættarsöguna almennt. Frásögn hans er oft rofin með bréfum látinna ættingja sem gera söguna margradda og krefjandi lesningu án þess þó að vera sundurlausa því Böðvari tekst vel að flétta eina samfellda sögu úr mörgum mismunandi textabrotum.

Þó frásögnin sé jafn yfirgripsmikil og raun ber vitni, eigi sér stað í tveim heimsálfum og leiki sér að því að flétta saman marga söguþræði, er þungamiðjan saga fjölskyldu Ólafs fíólíns, forfeðra hans og afkomenda. Foreldrar Ólafs, þau Jens og Málmfríður, voru bæði sakamenn og tukthúslimir sem Jörundur hundadagakonungur náðaði á sínum stutta valdatíma. Auk þess að gefa þeim frelsi veitti hann þeim leifi til að ganga í hjónaband og gaf Jens forláta fiðlu. Jens og Málmfríður gerast svo vinnufólk hjá Magnúsi Stephensen allt þar til hann flytur út í Viðey en áður setur hann undir þau kotið Seyru þar sem þau stofna fjölskyldu. Ævi Jens og Málmfríðar er ekki auðveld, en þau hafa gaman af búi sínu og börnum svo ekki sé nú minnst á fiðluna sem Magnús Stephensen hjálpar Jens að læra á. Ólafur fíólín er þeirra yngsta barn, örverpi, 16 árum yngri en eldri systir hans, Jórunn hin fagra. Jórunn giftist presti og tekur móður sína og Ólaf með sér á prestsetrið. Þar á Ólafur góða daga, lærir að lesa og skrifa og líka að spila á fiðluna föður síns. En presturinn, maður Jórunnar, deyr eftir nokkurra ára hjónaband svo Jórunn og Ólafur neyðast til að flytja. Ráðsmaðurinn sem Jórunn ræður sér til aðstoðar á ekkjusetrinu og giftist seinna reynist versti þrjótur sem hrekur Ólaf ungan í burtu að leita sér að vinnu.

Saga Ólafs fíólíns eftir það er döpur og gefur dálítið aðra og dekkri mynd af bændasamfélaginu á Íslandi snemma á nítjándu öldinni en venjan er. Ólafur þykir ungur duglegur til vinnu og sérstaklega handlaginn smiður. Í raun er hann listamaður sem sker út, vefur, syngur og spilar á fiðluna. Og þó sveitungar hans njóti góðs af þessum hæfileikum og noti hann sem forsöngvara, láti hann skreyta nýja predikunarstólinn með útskurði og dansi við fiðluspilið þykir ekki ástæða til að greiða fyrir slíkt dútl, enda ekki hægt að kalla þetta eiginlega vinnu, og því safnast Ólafi seint fé. Ólafur og Sæunn kona hans reynast að auki óvenju frjósöm og slíkt þykir sjálfseignarbændum sveitarinnar hið versta mál. Sæunn vinnukona er oftast vanfær (í bókstaflegri merkingu), litlu börnin þarf að fæða en þau geta ekki unnið fyrir mat og því tekur hreppsnefndin á það ráð að sundra fjölskyldunni. Lýsingarnar á líðan Sæunnar sem má sjá á eftir manni sínum og ungum börnum til vandalausra eru átakanlegar. Ólafur fíólín bregður á það ráð að flytja ört vaxandi fjölskylduna í kotið Seyru sem er eina fáanlega landnæðið. Kotið reynist ekki bera svona marga og enn missa hjónin börnin á hreppinn því engin telur ástæðu til að borga Ólafi fyrir undirleik eða fyrir að negla saman nokkrar líkkistur. Ekki mega þau flytja í annan landsluta í leit að betra jarðnæði, fátæklingar dæmast til að búa í sínum fæðingarhrepp, og ekki geta þau sætt sig við að börnunum sé ráðstafað til misgóðra fósturforeldra. Þegar hér er komið sögu berast fregnir frá gnægtarlandinu Ameríku.

Það hefur ábyggilega verið sjálfstæðisbaráttu Íslendinga nauðsynlegt að magna upp þjóðerniskennd og glæða ættjarðarást í hjörtum landsmanna. En eins og fjöldamörg dæmi úr veraldarsögunni sanna getur heit þjóðerniskennd bæði dregið fram það besta og versta í mönnum. Myndin af heilnæma íslenska sveitamanninum sem elskar landið og kindurnar, les Íslendingasögurnar í frístundum auk þess sem hann yrkir dálítið sjálfur (bara svona til gamans, þetta er nú ekkert merkilegt) er ófullkomin nema það fylgi sögunni að bóndinn sé ekki upp á neina aðra kominn. Þessi bóndi var upphafinn sem holdgervingur sjálfstæðisins og gerður að tákni um að á Íslandi væri einstakt samband jarðar og ábúanda. Fólk sem féll utan þessa rómantíska ramma, fólk sem hafði ástæðu til að kvarta yfir aðbúnaðinum hér á landi, fólk eins og Ólafur fíólín og fjölskylda hans, var þar af leiðandi nauðsynlegt að sverta til að viðhalda þjóðerniskenndinni sem þjónaði sjálfstæðishugsjóninni. Tvískinningurinn sem felst í því að hrepparnir borguðu fargjöld fátæklinga og ógæfufólks til vesturheims og úthrópuðu síðan sömu menn sem svikara og landeyður er skammarlegur hvort sem það var meðvitað eða hlutirnir einfaldlega æxluðust þannig. Böðvar gefur vesturförum hér tækifæri til að segja sína hlið af sögunni í gegnum Ólaf fíólín og afkomendur hans.

Þar sem Híbýli vindanna og Lífsins tré eru byggðar á raunverulegum atburðum taka bækurnar nauðsynlega tillit til sögulegra staðreynda. Það er þó ljóst að með verkunum er Böðvar að hvetja til ákveðinnar endurskoðunnar á sögunni eða í það minnsta að vekja athygli á því að sagan er jú skrifuð af sigurvegurunum. Saga Ólafs fíólíns er saga þess sigraða í þeim skilningi að hans sjónarmið og lífsreynsla hafa ekki hlotið viðurkenningu sem opinber útgáfa meirihlutans. Eftirfarandi tilvitnun í Híbýli vindanna bendir til þess að Böðvari sé umhugað um að tekið sé fullt tillit til þessa fólks þótt seint sé.

Bréfafólkið er þolinmótt, það tekur ekkert illa upp þótt það þurfi að bíða, dagfar þess tekur mið af eilífðinni. Ef það glatast að fullu, þá breytir það engu hvað það sjálft varðar. En saga bréfafólksins á erindi til okkar sem enn lifum, og ætlum okkur að sættast við dauðann með því að skilja lífið, og eins fyrir þá sem eftir okkur koma og skulu flytja gjafir guðanna frá kynslóð til kynslóðar.

Ólafur fíólín, eins og svo margir sem kusu að flytjast vestur um haf, átti einfaldlega ekki möguleika á góðri ævi hér á landi og sá ekki fram á neitt betra til handa börnum sínum. Flutningurinn vestur var ekki landráð heldur örþrifaráð. Afkomendur þessa fólks, fjarskyldir ættingjar og allir hinir eiga rétt á að heyra þeirra útgáfu af þessu tímabili í sögu Íslands.

Það er líka skemmtilega kaldhæðið að hugsa til þess að fáir bera jafn sterkar taugar til Íslands og afkomendur vesturfara virðast gera. Ættjarðarástin og þjóðerniskenndin sem sverti fyrstu kynslóðirnar lifir hjá afkomendum þeirra í hátíðum eins og Fjallkonudeginum og í sögum um fallega landið Ísland sem ættmenni þeirra nauðug neyddust til að yfirgefa.

Híbýli vindanna og Lífsins tré eru með nýjustu verkum Böðvars enda bendir frágangur verkanna allur til þess að reynslumikill höfundur standi á bakvið þau. Við að lesa sig afturábak í gegnum fyrri verk hans kemur samt í ljós að málefnin sem honum eru hugleikin í þessum síðustu skáldsögum eru ekki langt undan í fyrri verkunum, bæði ljóðum, leikritum og sögum.

Fyrsta skáldsaga Böðvars, Bændabýti, kom út árið 1990 og er að mörgu leiti undirbúningur undir viðameiri skáldsögurnar tvær sem á eftir komu. Í Bændabýtum segir frá Þórði Hlíðar, strák sem finnst í fjósinu að Landá í Skógarhlíð. Sextugur bóndinn á bænum, ásamt með ungum hjónum sem þar vinna, tekur hann að sér því foreldrar drengsins finnast ekki. Þórður vex upp í grænni og búsældarlegri Skógarhlíðinni og kemur fljótt í ljós að hann er sérlega glúrinn í peningamálum. Atburðir í uppvextinum verða til þess að honum áskotnast snemma álitlegur höfuðstóll sem hann er duglegur að ávaxta. En á meðan Þórður verður ríkari verða fósturforeldrar hans að sama skapi fátækari. Þau leigja jörðina af gamla bóndanum og standa í þeirri trú að hann muni einn daginn selja þeim hana, en í ljós kemur að bóndinn hefur mun meiri trú á hinum unga Þórði og róttækum hugmyndum hans en hefðbundnum kúabúskap hjónanna. Að lokum er það Þórður sem kaupir jörðina, byggir hótel og golfvöll og efnalitlir fósturforeldrarnir eiga ekki annarra úrkosta völ en að vinna hjá honum við ferðaþjónustu.

Þórður Hlíðar er þungamiðja sögunnar tvo þriðju hluta framanaf frásögninni. En þegar í ljós kemur að hann ætlar að verða ríkur er eins og sögumaður missi áhugann á honum. Þórður dettur hálfpartinn út úr sögunni og athyglin færist yfir á fósturforeldra hans sem ekki eiga sjö dagana sæla. Það er eins og sögumaður geti ekki sætt sig við að persónu Þórðar geti gengið vel efnahagslega og samt haldið áfram að vera áhugaverð. Fósturforeldrarnir sem framanaf hafa verið aukapersónur í skugga Þórðar og gamla bóndans stíga nú fram og sorgarsaga þeirra verður aðalatriðið þar sem Þórður er í hlutverki aukapersónu. Fyrir vikið verður skáldsagan í heild hálf endaslepp. Lesandi missir sjónar á Þórði og örlögum hans en hefur ekki kynnst fósturforeldrunum nógu vel framanaf til að hafa fulla samúð með endalokum þeirra. Áhugi Böðvars á lítilmagnanum virðist hins vegar vera svo sterkur að hann getur ekki látið hjá líða að segja sögu þeirra, jafnvel á kostnað frásagnarinnar í heild.

Það er ekki bara í skáldsögunum sem Böðvar leitast við að segja sögu þess undirokaða. Flest leikrit sín hefur Böðvar skrifað fyrir ákveðið leikfélag og hafa þau ekki verið gefin út en þau snúast einmitt mörg um að veita þeim rödd sem gjarnan hafa verið þaggaðir.

Verkin Skollaleikur (1977), Heimilisdraugar (1980), Úr aldaannál (1982), Ættarmótið (1990) og Nýir tímar (1999) eru öll að meira eða minna leiti alvarlegar samfélagsádeilur þar sem fórnarlömb nornaveiða, lífsgæðakapplaupsins, atvinnulausir og fyrrverandi fangar fá rödd og uppreisn æru. Yfirleitt er húmorinn aldrei langt undan hjá Böðvari en greinilegt er að sum málefni finnast honum ekki aðhlátursefni. Spilling meðal valdamikilla embættismanna sem stunda hverskyns nornaveiðar og misnota vald sitt til að misþyrma efnalítilli alþýðu er sameiginlegt umfjöllunaratriði þessara verka sem þó fjalla um ólík málefni. Í Skollaleik og Úr aldaannál kemur Böðvar gagnrýni sinni á samfélagið til skila með því að láta persónur standa mjög skírt annað hvort fyrir gott eða illt. Persónurnar í Heimilisdraugum, Ættarmótinu og Nýjum tímum eru hins vegar öllu flóknari, hafa meiri dýpt og bera meiri ábyrgð á eigin örlögum en svarthvítar persónur eru færar um.

Sá þjóðlegi fróðleikur og endurskoðun á sögunni sem er svo stór hluti Híbýla vindanna og Lífsins tré er aldrei langt undan í þyngri leikritum Böðvars en hann nýtir sér þekkingu sína á sögunni einnig í léttari försum. Fyrsta leikritið hans, Loki þó (1972, einnig þekkt sem Hár og hafrar), segir á gamansaman hátt frá því þegar Loki krúnurakar Sif og er svo sendur í leit að nýjum haddi handa sköllóttri frúnni. Grísir gjalda, gömul svín valda er skrifað á ári barnsins 1979 og gerir stólpagrín að þeim óefnum sem skáldinu finnst uppeldi á afkvæmum þjóðarinnar komið í. Kvennaskólaævintýrið (1994) ber innihaldslýsinguna eiginlega í titlinum – það gefur nákvæmlega þá létt rugluðu og rómantísku mynd sem algengt er að menn geri sér af þessum skólum sem því miður heyra nánast sögunni til. Eins og í vesturfaraskáldsögunum hefur Böðvar lagt mikið upp úr rannsóknarvinnu þegar viðfangsefnin tengjast sögulegum atburðum eða goðafræði. Hann er alltaf með staðreyndirnar á hreinu og fléttar þær skemmtilega saman við skáldskapinn.

Sögurnar í smásagnasafninu Kynjasögur (1992) minna um margt á farsakenndari leikrit Böðvars. Þar gefur hann ímyndunaraflinu lausan tauminn og skrifar litlar fantasíur sem þó bera þess merki að Íslandssagan og málefni lítilmagnans eru helstu hugðarefni skáldsins. Endurkoma Snorra Sturlusonar til tuttugusta aldar Íslands er notuð til að gera grín að fortíðardýrkun núlifandi Íslendinga, páfi og fylgdarlið lenda í kynlífskrísu á Fróni og taðskegglingar víkingaaldar gera veraldarvana maddömu úr jómfrúnni sem heilagur Georg heldur fanginni í hreinlífinu. Fantasían er notuð til að benda á fáránleika hversdaglsegra hluta og Böðvari tekst oftar en ekki að afhjúpa vitleysuna á skemmtilegan hátt auk þess sem hann bendir á ýmislegt sem betur mætti fara í samfélaginu.

Samfélagsgagnrýnin er líka viðfangsefni margra ljóða Böðvars. Hann hefur gefið út sex ljóðabækur á ferlinum og kom sú fyrsta, Austan Elivoga, út árið 1964. Síðan hefur hann gefið út Í mannabyggð (1966), Burt reið Alexander (öðru nafni Burtreið Alexanders 1971), Vatnaskil (1986), Heimsókn á heimaslóð (1989) og síðast Þrjár óðarslóðir (1994). Í Þrem óðarslóðum harmar skáldið þær breytingar sem hafa orðið á íslensku samfélagi, frá auðmýkt gagnvart lífinu og náttúrunni til yfirráða yfir báðum fyrirbærum. Hann saknar fyrri forvitni og harmar það viðhorf nútímamannsins „að öll orð séu numin / að öll hlið séu læst“. Þrjár óðarslóðir er um margt tilraun til að endurvekja áhuga á orðum og lífga upp á forvitnina. Tilvitnunina hér að ofan er til dæmis ekki hægt að einkenna með ljóðaheiti eða blaðsíðunúmeri, enda standa hefðbundin flokkunarkerfi kannski einmitt í vegi fyrir nýjum skilningi og uppgötvunum. Til að ýta enn frekar undir forvitni lesandans fylgir lítil teikning hverju ljóði bókarinnar. Við fyrstu sýn virkar táknið óskiljanlegt en við nánari athugun tengist það yfirleitt efni ljóðsins. Táknið og ljóðið vinna þar sem best tekst til saman við að skapa merkingu; orðin útskýra myndina sem leggur fyrir sitt leiti áherslu á ákveðna þætti ljóðsins.

Eldri ljóðabækurnar eru öllu hefðbundnari. Umfjöllunarefni ljóðanna er lífið, ástin og dauðinn. Skáldið fer þó fljótt að brjótast út fyrir ramma hefðarinnar, bæði hvað efni og form varðar. Í þriðju bókinni, Burt reið Alexander, er bent á þær takmarkanir sem hefðbundið ljóðform setur skáldinu. Látum nokkur erindi úr „Skáldkvæði“ verða síðustu orðin hér, enda á þetta ljóð það sameiginlegt með öðru í höfundarverki Böðvars að taka söguna og hefðir ekki alltof hátíðlega og benda á nauðsyn þess að skoða allt með opnum huga og ekki síst með smá húmor fyrir sjálfum sér.

Svo skáldið það horfði í himininn upp
hvar hásæti meistarans stóð.
Nú réttir oss takmörkun rímformsins hupp
sem er reyktur við mókögglaglóð.

.../ /...

Svo talaði meistarinn: Menntaðu þig
hjá munkum í suðrænni borg
þá skrifar þú aðeins og yrkir um mig.
Vort endarím hér verður sorg.

.../ /...

Þá hneigði sig skáldið í þakklátri þögn
og þuklaði lendar og hné.
því fannst að það hefði strax hækkað um ögn.
Og hérna er rímorð vort spé.

Og vel hlýddi skáldið á meistarans mál
í minni það festi hvert orð
og lofar hann síðan af lífi og sál.
Vér látum hér ríma á morð.

© Agnes Vogler, 2003

Verðlaun og viðurkenningar

2010 – Barnabókaverðlaun menntaráðs Reykjavíkurborgar: Elskar mig – elskar mig ekki (þýðing)

2009 – Riddarakross hinnar íslensku fálkaorðu: Fyrir framlag til íslenskrar menningar og bókmennta

1997 – Íslensku bókmenntaverðlaunin: Lífsins tré

Tilnefningar

1994 – Íslensku bókmenntaverðlaunin: Kynjasögur

Almenn umfjöllun

Hrefna Haraldsdóttir (umsjón): „Skáldatími. Böðvar Guðmundsson“
Reykjavík: Hugsjón 1998. (Myndband)

Þórunn Sigurðardóttir: „Böðvar Guðmundsson (1939- )“
Icelandic Writers. Dictionary of Literary Biography, vol. 293, ritstj. Patrick J. Stevens, Detroit, Gale 2004, s. 17-22

Um einstök verk

Bréf Vestur-Íslendinga I

Hulda Sigurborg Sigtryggsdóttir: „Bréf Vestur-Íslendinga I. Böðvar Guðmundsson bjó til prentunar ; Burt – og meir en bæjarleið. Davíð Ólafsson og Sigurður Gylfi Magnússon tóku saman“ (ritdómur)
Saga, 40. árg. 2000, s. 280-284

Bréf Vestur-Íslendinga I

Hulda Sigurborg Sigtryggsdóttir: „Bréf Vestur-Íslendinga I. Böðvar Guðmundsson bjó til prentunar ; Burt – og meir en bæjarleið. Davíð Ólafsson og Sigurður Gylfi Magnússon tóku saman“ (ritdómur)
Saga, 40. árg. 2000, s. 280-284

Endursagnir Böðvars á ævintýrum H.C. Andersen: Eldfærin, Litla stúlkan með eldspýturnar, Ljóti andarunginn, Nýju fötin keisarans, Næturgalinn

Úlfhildur Dagsdóttir: „Myndir og orð“
Bókmenntavefurinn, umfjöllun um bækur, sjá hér

Heimsókn á heimaslóð

Gunnlaugur Ástgeirsson: „Margskonar ferðalag“
Tímarit Máls og menningar, 52. árg., 1. tbl. 1991, s. 104-6

Þórður Helgason: „Í leit að grænum reit“
Ljóðormur, 10. tbl. 1990, s. 57-59

Híbýli vindanna

Baldur Hafstað: „Ólafur ferjumaður frá Seyru“
Skírnir, 172. árg., vor 1998, s. 238-50

Eiríkur Guðmundsson: „Ofbeldi tímans : Hugað að nokkrum skáldsögum ársins 1995“
Andvari, 121. árg., 1996, s. 138-59

Gunnlaugur Ástgeirsson: „Bréf til Pat“
Tímarit Máls og menningar, 58. árg., 1. tbl. 1997, s. 123-7

Laufey Eiríksdóttir: „Minnisstæð bók árið 2000“
Bókasafnið 2000, 24. árg., s. 70-71

Victoria Ann Cribb: „From Three-Shoe Heath to the shores of Lake Winnipeg“
Iceland review, 38. árg., 4. tbl. 2000, s. 78

Íslensk bókmenntasaga 2

Aðalsteinn Davíðsson: „Böðvar Guðmundsson, Sverrir Tómasson, Torfi H. Tulinius, Vésteinn Ólafsson ritstjóri. Íslensk bókmenntasaga 2“ (ritdómur)
Saga, 32. árg. 1994, s. 269-276

Krakkakvæði

Ingibjörg Jóhannsdóttir: „Krakkakvæði“
Börn og menning, 18. árg., 1. tbl. 2003, s. 28-29

Kvennaskólaævintýrið

„Athyglisverðasta áhugaleiksýningin“
Leiklistarblaðið, 22. árg., 2. tbl. 1995, s. 18

Lífsins tré

Gunnlaugur Ástgeirsson: „Bréf til Pat“
Tímarit Máls og menningar, 58. árg., 1. tbl. 1997, s. 123-7

Baldur Hafstað: „Ólafur ferjumaður frá Seyru“
Skírnir, 172. árg., vor 1998, s. 238-50

Sögur úr seinni stríðum

Silja Aðalsteinsdóttir: „Sögur úr seinni stríðum“
Tímarit Máls og menningar, 40. árg., 4. tbl. 1979, s. 500-3

Vatnaskil

Ingibjörg Haraldsdóttir: „Galdur einlægninnar“
Tímarit Máls og menningar, 48. árg., 4. tbl. 1987, s. 504-5

Year:
1992
Publisher:
Category:
Year:
1983
Publisher:
Category:
Year:
2002
Publisher:
Category:
Year:
2005
Publisher:
Category:
Year:
2006
Publisher:
Category:
Year:
2007
Publisher:
Category:
Year:
2006
Publisher:
Category:
Year:
2008
Publisher:
Category:
Year:
2007
Publisher:
Category:
Year:
2005
Publisher:
Category:
Year:
2006
Publisher:
Category:
Year:
1999
Publisher:
Category:
Year:
1997
Publisher:
Category:
Year:
1997
Publisher:
Category:
Year:
2004
Publisher:
Year:
2006
Publisher:
Year:
2005
Publisher:
Year:
1979
Publisher:
Year:
1981
Publisher:
Year:
2004
Publisher:
Year:
2004
Publisher:
Year:
2004
Publisher:
Year:
1984
Publisher:
Year:
2001
Publisher:
Year:
2013
Publisher:
Year:
1989
Publisher:
Category:
Year:
1987
Publisher:
Category:
Year:
1979
Publisher:
Category:
Year:
1979
Category:
Year:
1976
Category:
Year:
1994
Publisher:
Category:
Year:
1973
Category:
Year:
1999
Publisher:
Category:
Year:
1975
Category:
Year:
1995
Publisher:
Category:
Year:
1982
Category:
Year:
1982
Publisher:
Category:
Year:
1964
Category:
Year:
1971
Publisher:
Category:
Year:
1989
Publisher:
Category:
Year:
1966
Publisher:
Category:
Year:
1986
Publisher:
Category:
Year:
1994
Publisher:
Category:
Year:
1990
Publisher:
Category:
Year:
2011
Publisher:
Category:
Year:
2009
Publisher:
Category:
Year:
1995
Publisher:
Category:
Year:
1996
Publisher:
Category:
Year:
2003
Publisher:
Category:
Year:
2007
Publisher:
Category:
Year:
2012
Publisher:
Category:
Year:
1992
Publisher:
Category:
Year:
1978
Publisher:
Category:
Year:
2002
Publisher:
Year:
1998
Publisher:
Ár:
1989
Útgefandi:
Flokkur:
Ár:
1964
Flokkur:
Ár:
2001
Útgefandi:
Flokkur:
Ár:
1971
Útgefandi:
Flokkur:
Ár:
1990
Útgefandi:
Flokkur:
Ár:
2011
Útgefandi:
Flokkur:
Ár:
2004
Útgefandi:
Ár:
2009
Útgefandi:
Flokkur:
Það er eins og að leggjast í tímaflakk að lesa nýjasta verk Böðvars Guðmundssonar, ekki eingöngu vegna þess að hér er fjallað um liðna tíma, heldur virðist frásagnarmátinn líka tilheyra fortíðinni.

Það er þetta með myndir og orð. Hvort er merkilegra og hvort skiptir meira máli? Er fallega myndskreytt bók, með slarkfærum texta endilega síðri en flottur texti með flötum myndum? Þessar spurningar leita óneitanlega á mig þegar ég er að skoða hið margvíslega samspil orða og mynda, hvort sem er í listaverkabókum, myndasögum eða myndlýstum barnabókum. Hugsanlega mætti setja upp fortíðarhygginn svip og segja sem svo: einu sinni var orðið alltaf aðalmálið og þá var þetta ekkert mál, því þá skipti málið meira en myndin.

Í bókinni Enn er morgunn segir frá svonefndri Knudsens-ætt í Reykjavík og fólki sem henni tengist. Úr nútímanum er litið til baka og ættarsagan skoðuð en fyrst og fremst eru skoðaðir atburðir sem gerast á stríðsárunum og árunum þar á undan. Sögumaður okkar í núinu verður fljótlega hlustandi.