Björn Þorláksson

„Drap í sígarettu númer tvö og fann fyrir svengd. Opnaði ísskápinn en uppgötvaði þá að hann hefði steingleymt að birgja sig upp fyrir jólin. Það var ekkert sem minnti á stórhátíð í ísskápnum nema þá helst hálfur lítri af rjóma sem Jens ákvað að þeyta.“
(Rottuholan)

Björn Þorláksson fæddist á Húsavík þann 28. apríl árið 1965. Hann er sonur Þorláks Jónassonar bónda og Lilju Árelíusdóttur húfreyju og ólst upp ásamt þremur eldri systrum sínum í Vogum, Mývatnssveit. Að loknu grunnskólaprófi í Laugaskóla í Reykjadal, lærði Björn við Menntaskólann á Akureyri og tók þaðan stúdentspróf árið 1985. Hann hefur lagt stund á nám í íslensku og bókmenntafræði við Háskóla Íslands og numið hótelrekstur  í Sviss.

Björn vann ýmis landbúnaðar-, iðnaðar- og þjónustustörf á yngri árum en gerði síðar píanóleik að aðalatvinnu um nokkurt skeið. Hann hóf störf í blaðamennsku í upphafi tíunda áratugar síðustu aldar og hefur síðan samhliða skriftum sínum starfað á öllum helstu dagblöðum landsins, Ríkisútvarpinu og Stöð 2.

Fyrsta bók Björns er smásagnasafnið Við sem kom út árið 2001. Síðan hefur hann sent frá sér nokkrar skáldsögur, sú síðasta er Villibörn frá 2008.

Björn er kvæntur Arndísi Bergsdóttur félagsfræðingi og eiga þau samtals fjögur börn. Heimili þeirra er á Akureyri.

Forlag: Tindur

Af hverju skrifa ég?

Móðir mín staðhæfir að ég hafi verið þriggja ára gamall þegar ég setti saman fyrstu vísuna. Orti ég um tófuveiðar, sem mér þóttu spennandi á þessum árum. Svona var vísan:

Ég ligg í leyni með riffilinn minn
og skýt allar tófur sem ég finn.
Svo kemur ein út,
þá hrekk ég í kút.

Hið unga skáld átti sér sem sagt draum, aðeins þriggja vetra gamalt, um að verða meiriháttar tófuveiðimaður, en á ögurstundu (þegar rebbi kemur út úr greninu) rennur það á rassinn. Og þetta var ekki í síðasta skipti sem sá sem hér heldur á penna rann á rassinn í kjölfar stórbrotinna áætlana. Þetta var ekki í síðasta skipti sem ljóðmælandinn hrökk í kút þegar síst skyldi, einsamall og tófulaus með öllu.

Hvers vegna skrifaði drengbarnið þetta vísukorn sumarið ‘68 um stórbrotnar áætlanir sínar sem urðu að engu? Hvers vegna orti ungskáldið vísuna? Til að vera fyndið? Eða til að sætta sig við örlög sín?

Því hefur verið líkt við fiskerí að leita og afla orða og sem bóndasyni, uppöldum á bökkum Mývatns, liggur fyrir að veiðieðlið er mér í blóð borið. Ég veiddi silung upp á dag hvern í bernskunni en í seinni tíð flokkast það undir meiriháttar viðburð að ná sér í soðið. En skáldið og veiðimaðurinn eiga það sameiginlegt að leggja net sín, draga inn aflann og gera að honum svo aðrir geti notið. Snyrting aflans líktog orðanna tekur gjarnan drýgstan tíma. Fyrst að henni lokinni er hægt að bjóða fólki til veislu. Hvort sem um ræðir spriklandi nýja sögu eða spikaðan urriða.

Af hverju skrifa ég? Á morgun kemur nýr dagur og þá munu mér örugglega birtast önnur svör en í dag við þeirri spurningu. Maðurinn er enda síbreytilegur í leit sinni að síbreytilegum sannleika. Til dæmis get ég sagt að ég hef löngu skipt um skoðun hvað varðar tófuveiðarnar og hef fullkomlega sæst við að ég muni aldrei nokkru sinni skjóta eina einustu tófu.

Björn Þorláksson, 2008

Verðlaun og viðurkenningar

2010 - Bæjarlistamaður Akureyrar

Um einstök verk

Villibörn

Úlfhildur Dagsdóttir: „Sveitasæla“
Bókmenntavefurinn, umfjöllun um bækur, sjá hér

Year:
2005
Publisher:
Category:
Year:
2003
Publisher:
Category:
Year:
2007
Publisher:
Category:
Year:
2001
Publisher:
Category:
Year:
2009
Publisher:
Ár:
2009
Útgefandi:
Ár:
2005
Útgefandi:
Flokkur:
Ár:
2003
Útgefandi:
Flokkur:
Ár:
2007
Útgefandi:
Flokkur:
Ár:
2001
Útgefandi:
Flokkur:
Lífsloginn eftir Björn Þorláksson

Logi Stefánsson, söguhetja þessarar nýju bókar Björns, er mikill andans jöfur og hefur á hraðbergi helstu ljóð bókmenntasögunnar, íslensk sem erlend. Hann getur auðveldlega þulið allan Hrafninn eftir Poe með leikrænum tilþrifum ef á þarf að halda. Uppáhald hans úr röðum íslenskra skálda er Jóhann Sigurjónsson. Einnig er hann hrifinn af Hemingway…en ekki hvað. Af ástæðum sem lesendum Lífslogans verða fljótlega ljósar býr íslenskufræðingurinn og stórskáldið á þeim útnára alheimsins er Akureyri nefnist og fæst við að kenna þar menntaskólakrökkum. En það er þó rétt til að þreyja þorrann á meðan hann lýkur við bestu bók allra tíma. Reyndar er hann fastur á blaðsíðu 67 í snilldarverkinu og búinn að vera það ansi lengi. Enda þarf mörgu að sinna og þó fyrst og fremst lífsnautninni sjálfri. Í tilfelli Loga felst lífsnautnin í áfengisdrykkju en aðrar holdsins lystisemdir fá vissulega að fljóta með. Eiginkonan er búin að gefast upp og farin frá honum með dóttur þeirra. Flutt til Dalvíkur sem er enn meira nápleis en Akureyri. Þar býr hún með verkstjóra í frystihúsinu. Meira að segja kötturinn á erfitt með að búa með honum.

Náttúruvernd hefur verið mörgum rithöfundum uppspretta skáldskapar og nú undanfarið hafa listamenn farið framarlega í umræðu um umhverfið og mikilvægi þess að ganga varlega að hagnýtingu náttúruauðlinda.