Birgitta Halldórsdóttir

„Ég hafði alltaf verið afar forvitin um þessi herbergi en nú fannst mér skelfilegt að þurfa að fara um þau. Ég skalf eins og hrísla. Á einum veggnum hékk mynd af hengdum manni og á móti stóð glottandi beinagrind. Ég hljóðaði og hrökk sjálf í kút við eigin rödd.“
(Bak við þögla brosið)

Birgitta Hrönn Halldórsdóttir fæddist 20. júní 1959 að Eldjárnsstöðum í Blöndudal. Birgitta ólst upp að Syðri-Löngumýri, gekk í Húnavallaskóla en fór síðan í Héraðsskólann að Laugarvatni og lauk landsprófi þaðan. Eiginmaður hennar er Sigurður Ingi Guðmundsson frá Leifsstöðum í Svartárdal. Fyrstu búskaparárin bjuggu þau að Leifsstöðum en hafa búið að Syðri-Löngumýri frá vorinu 1986. Þau eiga tvö börn.

Birgitta hefur skrifað skáldsögur og viðtalsbækur. Fyrsta skáldsaga hennar, Inga, kom úr árið 1983 og síðan hafa komið út bækur eftir hana svo til á hverju ári. Sögur hennar sem eru blanda af spennu- og ástarsögum hafa notið mikilla vinsælda lesenda.

Forlag: Skjaldborg.

Hugleiðing um skrif

Frá því að ég var barn og lærði að skrifa, hef ég haft mjög ríka þörf fyrir að tjá mig á þann máta og finnst það ein besta leiðin sem ég þekki til að skrifa mig frá hlutum, fá útrás fyrir sköpunarorku og leyfa ímyndunaraflinu að leika lausum hala. Sem barn var ég að kæfa ættingja mína og vini í misvelgerðum sendibréfum, en síðan þróuðust skrifin út í smásögur, ritgerðir eða ljóð eftir að ég fór að fá nasasjón af slíku í skóla. Hjá mér er þessi þörf mjög sterk, þ.e.a.s. að tjá mig á pappír. Vissulega verð ég stundum mjög leið á tölvunni og forðast hana um tíma, en alltaf kemur aftur að því að ég sest niður með höfuðið fullt af hugmyndum sem vilja ekki víkja fyrr en ég hef komið þeim á blað.

Mér finnst ég hafa verið mjög lánsöm að hafa fengið útgefnar sögurnar mínar, þar sem ég veit að það er takmarkaður markaður fyrir íslenskar afþreyingarbækur. Þegar ég tala um sögurnar mínar sem afþreyingu þá er ég ekki að tala niður til þeirra, ég veit af eigin reynslu að það er góð hvíld að lesa spennandi skáldsögur. Ég hef mjög gaman af að skrifa sögurnar mínar og ég vona að aðrir hafi gaman af að lesa þær. Mig hefur alltaf langað að skrifa spennandi bækur sem gleðja lesandann í dagsins önn, sögur sem gerast oftast að mestu leyti á Íslandi og hafa fremur hraðan söguþráð. Hvort mér hefur tekist þetta sæmilega eður ei verða aðrir að dæma um.

Það eru ekki bara spennusögur sem ég hef skrifað. Alla mína ævi hef ég verið að semja smásögur og ljóð. Framan af skrifaði ég ljóð þegar ég var leið og þau voru full af trega, en seinna komst ég uppúr því og nú skrifa ég einungis ljóð ef ég er glöð og stórkostlegir hlutir hafa gerst í mínu lífi. Mig langar að láta eitt ljóðið mitt hér, ljóð sem ég sendi yfir hálfan hnöttinn í huganum, á meðan ég beið eftir að fá litlu dóttur mína heim, en hún fæddist í Calkútta á Indlandi.

Ást til barns

Ást berst yfir hálfan hnöttinn, til þín
ást sem næstum sprengir hjartað
og við bíðum og fáum ekkert að gert.

Lítið barn bíður
veit ekki hver framtíðin verður
finnur einungis ást
frá fjarlægum heimi.

Tíminn silast áfram
hjörtun slá af ást til þín.
Lítið barn kemur heim
tár blika á hvörmum.
Gleðitár.

Áfram berst ást yfir hálfan hnöttinn
til kvenna sem fóstruðu þig
og lands sem fæddi þig.
Við horfum í fallegu brúnu augun
og finnum til ástar sem nær út yfir allt.
Ást sem getur sigrað allan heiminn.

Við elskum þig litla barnið okkar.
Elskum börnin okkar sem gefið hafa lífinu gildi
og innihald,
elskum löndin og þjóðirnar sem þið komuð frá.
Hjörtun eru full af ást.

Megi ást okkar áfram berast
vernda litlu foreldralausu börnin.
Megi ást heimsins vernda og næra
öll börn.

Fyrir mér er svo misjafnt hvaða þörf ég er að fullnægja eftir því hvað ég er að skrifa. Ég skrifa einnig um fólk, það er mjög skemmtilegt. Ég hef um nokkurra ára skeið tekið forsíðuviðtöl fyrir „Heima er best“ og það er mjög skemmtilegt. Maður kynnist mismunandi fólki sem áhugavert er að hitta og spjalla við. Í mínum huga er allt fólk áhugavert. Við höfum öll frá svo mörgu að segja. Ég hef einnig skrifað tvær viðtalsbækur, bók um Guðrúnu Óladóttur reikimeistara og nú síðast bók um Valgarð Einarsson miðil. Þessi vinna var mjög skemmtileg en ólík, þótt þau séu bæði að vinna að andlegum málum en samstarfið við þau bæði var mjög fróðlegt og ánægjulegt. Guðrúnu þekkti ég vel áður enda lærði ég sjálf reiki hjá henni og þekki því hennar vinnuaðferðir mjög vel. Aftur á móti hafði ég ekkert kynnst Valgarði fyrr en við fórum að vinna bókina, svo að það var gjörólík staða. En bæði eru þau að vinna við að hjálpa fólki og ég hef haft mikla ánægju af kynnum mínum við þau.

Sem barn og unglingur las ég mjög mikið, en seinni ár hef ég orðið að velja ofan í mig lesefnið, þar sem tími minn er fremur ásetinn. Mest finnst mér þó gaman að lesa íslenskar bækur og fylgjast með hvað okkar ágætu rithöfundar eru að gera. Vissulega hef ég mikinn áhuga á spennusögunum íslensku og bíð nú á hverjum jólum mjög spennt eftir að fá nýjasta afkvæmi Arnalds Indriðasonar, sem mér finnst sérstaklega góður. Bækur Árna Þórarinssonar, Hrafns Jökulssonar og Viktors Arnars Ingólfssonar eru einnig mjög góðar. Ég er mjög ánægð með þá þróun að fleiri spennusagnahöfundar hafa komið fram á sjónarsviðið á Íslandi, mér finnst það mjög af hinu góða.

Að skrifa spennusögu finnst mér mjög skemmtilegt og ögrandi verkefni. Að gera beinagrind að góðri sögu, byggja hana upp og hnýta að lokum alla lausa enda, það er eitt það skemmtilegasta sem ég geri. Vissulega eru sögurnar miserfiðar í fæðingu. Stundum hugsa ég að nú sé best að hætta, en það er samt eitthvað sem enn rekur mig áfram, ný hugmynd og alltaf ákveð ég að byrja upp á nýtt.

Ég er félagi í „Hinu íslenska glæpafélagi“ sem var stofnað til að stuðla að viðgangi glæpasagna á Íslandi. Mér finnst það mjög skemmtilegt og gagnlegt félag. Félagið fékk tilboð í byrjun janúar 2000 að höfundar skrifuðu saman glæpasögu og kom það í minn hlut að skrifa einn kaflann. Sagan heitir „Leyndardómar Reykjavíkur 2000“ og er raðsaga, þar sem einn höfundur byrjar söguna og síðan tekur sá næsti við, þannig koll af kolli uns lausnin var fundin. Þetta var mjög skemmtilegt verkefni og gaman að vinna að því. Sögumaðurinn er karlmaður og mér fannst sérstaklega skemmtilegt að skrifa í fyrsta sinn sem karlmaður í fyrstu persónu. Þetta sýndi hve margt skemmtilegt er hægt að gera ef fólk vinnur saman.

Ég hef skrifað nítján spennusögur og finnst kannski mörgum að nóg sé komið af svo góðu. En ég er samt enn ekki hætt og býst við að halda áfram á meðan ég finn þessa þörf innra með mér. Mig langar til að hvetja fólk til að skrifa ef það finnur þessa þörf. Við þurfum öll að finna okkur leið fyrir sköpunarþörf okkar svo að við séum í jafnvægi og okkur líði vel. Við höfum margar leiðir til að tjá okkur og sjálfsagt að nota þær sem henta hverju og einu okkar best. Ég er þakklát fyrir að fá að koma mínu efni frá mér og vona að bækur og prentað mál muni skipa veglegan sess hjá okkur íslendingum hér eftir sem hingað til. Að lokum langar mig að láta fljóta með eitt ljóð af trúarlegum toga.

Ljósið þitt

Þráirðu ljósið?

Að lifa lífinu í hinu
ómeðvitaða sjálfi
og undrast uppruna sinn
og Guð.
Að leita fullnægju í
efnislegum allsnægtum,
óútskýranlegum tilfinningum
til samsömunar
annarri persónu.
Hver þekkir ekki efnið
undarlegt tilfinningaflóð
og ótal spurningar.

Ó, þú leitandi sál, líttu nær.
Innra með þér er almættið
að störfum.
Innra með þér er hið
guðlega sjálf.
Innra með þér er allt
sem þú þráir,
þú ert guð og guð ert þú.

Í öllu formi býr guðlegur neisti
guðlegt afl og guðlegur vilji.
Undrast ekki
þetta er ljósið.
Ljósið þitt.

Í hjarta þér finnurðu guð
finnur frið og fullnægju.
Horfðu í augu þín og sjá
þar er guð.
Guð í þér og þú í guði.
Órjúfanleg heild
sem ekkert fær aðskilið
og enginn dauði er til,
einungis sannleikur þinn.

Ó hve lífið er gott og hver
stund er dásamleg í guði.
Guð er ljós, friður og kærleikur.
Guð er ALLT.
Guð er ljósið,
ljósið þitt.

Birgitta H. Halldórsdóttir, 2001.

Kvenhetjur í háska

Rétt fyrir síðustu árþúsundamót var ég stödd í einni stærstu og virtustu bókaverslun Lundúna, Dillon’s. Þar gerði ég dauðaleit að bók Tönju Modleski, Loving With a Vengeance eða Elskað af heift, sem fjallar um ástar og spennurómana eftir konur. Ég leitaði árangurslaust í bókmenntafræðinni, kynjafræðinni, menningarfræðinni og að lokum í fjölmiðla og kvikmyndahillunum, þar sem ég vissi að hennar var í raun ekki von. Í örvæntingu minni sneri ég mér að hinu húðlata starfsfólki Dillon’s og spurði um bókina. Jú hún er til svaraði einhver óvenjuhjálplegur og skundaði í bókmenntahilluna. Hún er ekki þar sagði ég ákveðin, hann sneri sér að kynjafræðinni og ég stoppaði hann líka af þar. Í miðju þessu hringsóli um hillur kallaði annar (óvenjuduglegur) starfsmaður í okkur og hafði lagt það á sig að fletta upp í tölvu. Hún er ekki á þessari hæð upplýsti hann glaður, hún er á næstu hæð í bókunum um skapandi skrif. Ha, sagði ég og ha sagði afgreiðslumaðurinn, jú sjáiði og sá tölvuvæddi kom skundandi með bókina. Þessu er vitlaust raðað! sagði ég hneyksluð (bókaverja verður alltaf bókaverja) en þá höfðu þeir báðir misst áhugann. Ætlarðu að fá bókina?

Af því að ég er líka menningarfræðingur þá gat ég ekki annað en túlkað þetta sem gott dæmi um það viðhorf sem afþreyingarsögur kvenna þurfa sífellt að glíma við. Bók Modleski sem er fræðileg greining og femínísk túlkun á ástar og spennusögum kvenna og menningarheimi þeirra er ekki nógu ’fín’ til að flokkast með öðrum fræðum og lendir því í hillu með skapandi skrifum og hvernig á að gera sjálfshjálparbókum – sem þykja mun ófínni en fræðiritin. Modleski leggur áherslu á það hvernig þessar sögur sem almennt hafa þótt afturhaldssamar flóttabókmenntir bjóða lesendum sínum upp á ýmsa möguleika í lestrarupplifun, möguleika sem felast oft í því að lesa gegn formúlunni eða að finna í henni þætti sem þær (lesendurnir eru yfirleitt kvenkyns) geta upplifað sem ögrandi. Bók Modleski var algert brautryðjendarit í umfjöllun og skrifum um afþreyingarmenningu kvenna, hvort sem það eru ástarsögur, spennusögur, sápuóperur eða rómantískar kómedíur.

Sögur Birgittu H. Halldórsdóttur eru hefðbundnar í máli, stíl og byggingu og fylgja ákveðnum og kunnuglegum formúlum afþreyingarsagna. Þetta er ekki sagt sögum hennar til lasts, því sú einlæga og afslappaða nálgun á formið sem hún hefur er ekki síður nauðsynleg reyfaranum en hin írónísku póstmódernísku átök. Birgitta skrifar ástar- og spennusögur sínar inn í ákveðna hefð slíkra sagna hér á landi, sveitarómana Guðrúnar frá Lundi og Ingibjargar Sigurðardóttur og síðar Snjólaugar Bragadóttur. Þó skera bækur hennar sig úr að því leyti að í þeim er að finna sterka þætti glæpa- og spennusagna og geta þær því flokkast bæði sem ástarsögur og spennu- eða glæpasögur. Innan þessa ramma raðast bækur hennar í flesta flokka ástar- og spennusögunnar. Sumar bækurnar eru nær hinni hefðbundnu ástarsögu, eins og Inga og Í greipum elds og ótta, sumar eru nær glæpasögunni eins og Örlagadansinn, Áttunda fórnarlambið og Sekur flýr þó enginn elti og sumar eru í anda gotneskra ástarrómana eins og Bak við þögla brosið, Fótspor hins illa og Dagar hefndarinnar.

Fyrsta saga Birgittu, Inga, er skyldari hefðbundinni ástarsögu en spennusögu, þrátt fyrir að inn í söguna fléttist glæpur. Sagan segir frá ungri stúlku í sjávarþorpi og samskiptum hennar við karlmenn. Hún á í sambandi við Geira, ungan sjómann úr plássinu en er ekki fyllilega ánægð og þyrstir í ævintýri. Þau finnur hún með Halli, ungum og glæsilegum Reykvíkingi sem hún fer að búa með, en hann reynist ekki allur þar sem hann er séður og fer illa með hana. Þá flýr hún aftur á vit Geira en Hallur eltir hana og ræðst á hana. Henni er bjargað á elleftu stundu og virðist Hallur nú úr sögunni, nema þá finnst hann myrtur og Geira er kennt um. Þegar Inga fer á stúfana að kanna málið kemst hún óþyrmilega að því að það er sálsjúk móðir Halls sem er morðinginn: og sú eitrar fyrir Ingu líka. Á spítalanum kynnist hún ungum lækni sem hún hrífst af og áður en veit eru þau gift og ævintýraþránni svalað.

Í næstu sögu, Háski á Hveravöllum, hefur glæpasöguþátturinn aukist til muna. Þar segir frá ungri blaðakonu sem er send til Hveravalla til að kanna dularfullt lát starfssystur sinnar. Þar dvelur hún í einangruðum skála með nokkrum öðrum sem er dauði konunnar ekki óviðkomandi, lendir í ástarævintýri, er ofsótt af morðingjanum og fyrrum kærasta sínum (sem gætu verið einn og sami maðurinn) og leysir að lokum málið. Fjórða bókin, Gættu þín Helga, gerist á gistiheimili úti á landi, en þangað kemur ung stúlka til hressingardvalar eftir alvarlegt bílslys. Hún er fótbrotin og skorin í andliti og í ástarsorg eftir að unnustinn hefur hafnað henni vegna útlitsgalla. Á sama tíma fyllist gistiheimilið af fólki, gestum af ýmsu tagi og tegundum; eldri hjónum sem koma til hressingardvalar, listrænum systkinum í leit að vinnufriði, auðugum hjónum í leit að tilbreytingu, auk eins ungs manns sem virðist ekki hafa neitt sérstakt markmið með dvölinni. Þegar kærasti Helgu birtist óvænt og krefst ástar hennar aftur verður ljóst að eitthvað er í aðsigi og áður en varir hefur Helgu verið rænt ásamt auðugu eiginkonunni. Þrátt fyrir meiðsli tekst Helgu að finna leið til að sleppa úr klóm mannræningjanna og bjarga konunni.

Í þessum þremur bókum koma strax fram helstu einkenni sagna Birgittu. Hún staðsetur atburðina oftar en ekki á einangruðu svæði – í húsi úti á landi eða litlu þorpi – aðalsöguhetjan er ung sjálfstæð og yfirleitt kynferðislega virk stúlka sem hrífst fljótlega af einhverjum karlmannanna – oft þrátt fyrir að hana gruni viðkomandi um græsku – og lausn glæpsins er iðulega að finna innan mjög lokaðs hóps, glæpamaðurinn er nákominn eða hreinlega fjölskyldumeðlimur. Þrátt fyrir að upphaflega beinist ógnin að einhverjum öðrum en sjálfri stúlkunni flækist hún fyrr eða síðar persónulega í atburðarásina og að hætti nútímakvenhetja er hún dugleg að bjarga sjálfri sér og jafnvel öðrum. Þetta er nokkuð mikilvægur þáttur í sögum Birgittu og minnir í raun á fræga greiningu Carol J. Clover á unglingahrollvekjum og hlutverki kvenhetjunnar þar. Því þrátt fyrir að sögur Birgittu tilheyri frekar ástar- og spennusögum bera þær á tíðum ýmis merki hrollvekjunnar, eins og nýjasta skáldsaga hennar, Fótspor hins illa, er dæmi um. Þar segir frá ungri íslenskri stúlku sem er alin upp í Englandi, en er skyndilega kölluð heim þegar systir hennar finnst myrt. Heima a Íslandi verða svo fljótlega ýmsir vafasamir atburðir og þetta friðsæla land reynist fullt af hættum: í ljós kemur að systirin var fórnarlamb djöfladýrkenda og að sjálfri er kvenhetjunni ætluð sérstök örlög þar að lútandi. Samkvæmt Clover hefur unglingahrollvekjan breytt hefðbundnu hlutverki kvenhetjunnar á róttækan hátt, og hefur sú breyting haft áhrif utan þessarar tegundar kvikmynda. Clover bendir á að hefðbundið hlutverk kvenhetju er að vera fórnarlamb sem bjargað er af karlhetju, en í unglingahrollvekjum áttunda og níunda áratugarins hafi þessu verið snúið við og í stað þess að bíða eftir björgun, bjargi stúlkan sér sjálf og því leiki hún tvö hlutverk, fórnarlambsins og hetjunnar, sem renna í raun saman í eitt. Þessi greining passar vel við bækur Birgittu sem einmitt einkennast af forvitnum, ákveðnum og sjálfstæðum kvenhetjum, sem bæði eru ófeimnar við að takast á við glæpamál og kunna að bjarga sér sjálfar úr þeim klípum sem forvitni þeirra og lögregluleikir koma þeim í. Það sem greinir kvenhetjur Birgittu hinsvegar frá kvenhetjum unglingahrollvekjunnar er að þær eru mjög kynferðislega virkar. Meðan kvenhetjur hryllingsmynda eru iðulega hreinar meyjar eða kynferðislega bældar á einhvern hátt eru stúlkurnar í bókum Birgittu almennt séð miklar kynverur og kynlíf og karlmenn skipta miklu máli í lífi þeirra. Þannig iðka þær mjög líflegt kynlíf með þeim mönnum sem þær falla fyrir – og jafnvel öðrum – og eru að auki oft sá aðili sem tekur fyrsta skrefið í slíkum viðskiptum. Einnig eru þær mjög ófeimnar þegar þær velja sér karlmenn, en þar skiptir útlit miklu máli og þær mæla út þá karlmenn sem þær langar í, horfa á líkama þeirra og meta þá útfrá karlmennsku og kynferðislegu aðdráttarafli. Eins og segir í Myrkraverkum í miðbænum: „Ég gat ekki stillt mig um að stara á líkama hans. Hvergi var gramm af fitu en vöðvarnir voru á sínum stöðum. Hann var girnilegur og það er vægt til orða tekið“ (57). Að þessu leyti falla sögur Birgittu vel að femínískum hugmyndum um að ástarsögur séu einskonar ’klám’ kvenna; að konur sæki í ástarsögur og njóti þess að lesa þær á sama hátt og karlar sem sækja í klámefni.

Á sama hátt er ógnin sem beinist gegn kvenhetjunum oftar en ekki kynferðisleg og er það annað einkenni sem skáldsögur Birgittu deila með hrollvekjum. Kynferðisleg ógn, sérstaklega frá einhverjum nákomnum, er einnig einkenni á gotnesku skáldsögunni og gotnesku rómönsunni sem Modleski fjallar um í bók sinni. Í gotnesku skáldsögunni er það viðtekið að hver fjölskylda eigi sér eins og eina beinagrind í skáp (þetta er reyndar næstum gert bókstaflegt í sögunni Bak við þögla brosið), og að unga söguhetjan sé saklaust fórnarlamb atburða úr fortíð.

Einangrunin er annað einkenni gotnesku skáldsögunnar og rómönsunnar sem Birgitta færir sér vel í nyt. Dæmi um skáldsögur sem einkennast öðru fremur af einangrun eru Ofsótt, Eftirleikur og Klækir kamelljónsins. Ofsótt gerist í Skagafirðinum, en þar eru friðarspillar á reiki og það kemur í ljós að gömul sár gróa seint. Með því að nota sér íslenskt (ó)veðurfar og aðstæður á bóndabæjum – svo sem haughúsið! – skapar Birgitta magnaða spennu og jafnvel hrylling: lausnina er síðan að finna í flóknum fjölskylduböndum fortíðar.

Í sögum Birgittu er einnig oftar en ekki að finna ákveðna yfirnáttúrulega þræði. Þannig er algengt að í sögum hennar birtist fyrirboðar af ýmsu tagi, í formi drauma, skyggnigáfu, spádóma eða hjátrúar. Söguhetjan í Andliti öfundar er skyggn og spádómsgáfa Söru í Myrkraverkum í miðbænum felst í því að hún skrifar ljóð sem rætast. Á þennan hátt tengir Birgitta sig bæði við þjóðsagnahefð Íslendinga og hefð Íslendingasagnanna, því fyrirboðar þessir vísa framávið að hefðbundnum hætti slíkra sagna og með þeim er gefið til kynna að ýmislegt muni fara öðruvísi en ætlað er. Þannig er það sem virðist í upphafi sakleysisleg frásögn drifin áfram með því að vekja væntingar lesenda um æsilega atburði.

Þessir gotnesku þættir eru þó ekki til staðar í öllum sögunum, þó vissulega séu þeir algengir. Sumar sögurnar eru hreinar spennu- eða glæpasögur sem leggja aðaláherslu á glæpi borgarlífsins. Dæmi um þetta er Renus í hjarta, hún er hrein spennusaga, sem inniheldur alþjóðlega glæpamenn, skrifuð á áreynslulausan hátt inn í hefðbundið form reyfarans, en þó alltaf með tilheyrandi ástarsögu, glæsimennum og meyjum.

Birgitta hefur skrifað tvær skáldsögur sem gerast fyrr á öldum, Dætur regnbogans og Nótt á mánaslóð. Dætur regnbogans lýsir ævi og ástum ungrar stúlku sem gengur í hjónaband með miklu eldri manni, en verður svo ástfangin af öðrum yngri og Nótt á mánaslóð fjallar um nornir. Hún hefur skráð ævisögu Guðrúnar Óladóttur reikimeistara. Einnig á hún bráðskemmtilegan kafla í safnglæpasögunni Leyndardómar Reykjavíkur 2000.

Í menningarsögunni hefur afþreyingarmenning eða fjöldamenning verið tengd hinu kvenlega og sú tenging hefur almennt verið neikvæð. Þessi tengsl konu og fjöldamenningar eiga rætur sínar að rekja til sögu skáldsögunnar, en hún varð á síðari hluta 18. aldar og á 19. öld bæði kvennaform og afþreyingarform. Tania Modleski bendir á að viðhorfið gagnvart fjöldamenningu sé þéttofið hugmyndum okkar um hið kvenlega og því sé nauðsynlegt að skoða fjöldamenningu með tilliti til femínískra hugmynda og kenninga. Frá upphafi, segir Modleski, hefur konan verið miðlæg í umfjöllun sögunnar um fjöldamenningu, og yfirleitt fordæmd, til dæmis af bandaríska rithöfundinum Nathaniel Hawthorne á 19. öld, sem gagnrýndi skáldsögur síns tíma fyrir að vera framleiddar af ’múgi párandi kvenna’. Þessi umkvörtun Hawthornes kallar fram í hugann umræðuna um ’kellingabækur’, sem átti sér stað hér á landi á sjöunda áratugnum, en þar var kvenkynslýsingarorð eða kvenkyns myndmál notað til að lýsa – og fordæma – skemmtiskrifum bæði kvenna og karla. Á þennan hátt var konan gerð ábyrg fyrir niðurlægingu góðs smekks, sem fólst meðal annars í því að menningin var flött út og útþynnt – til dæmis með því að ýta undir væmni.

Meginhluti skáldsagna frá síðari hluta 18. aldar eru svokallaðar tilfinningaskáldsögur og það er þetta form sem er flokkað sem afþreyingarform og rennur oft saman við gotnesku skáldsöguna. Gotneska stefnan átti rætur sínar að rekja til miðrar 18. aldar en nær hámarki á síðasta áratug 18. aldar og fyrstu áratugum þeirrar 19. líkt og rómantíkin. Gotneska skáldsagan verður fljótlega mjög sterkt kvennaform, jafnframt því að vera fordæmd á þeim forsendum að hún ýtti undir fjöldamenningu og hefði þannig skaðleg áhrif á lesendur. Þegar lestur og læsi varð almennari, varð hann tengdur sjálfs-ákvörðunarrétti, en um leið og áherslan færðist yfir á lestur sem einstaklingsákvörðun og einstaklingsmótun, kom upp vantrú á hæfileika lesandans til þess að fara vel með þennan rétt sinn, og möguleg ill áhrif lesturs fóru að verða umrædd. Sérstaklega óttuðust menn skaðleg áhrif á konur og lágstéttir.

Skáldsagan var sú grein fagurbókmennta sem höfðaði mest til hins vaxandi hóps læsrar alþýðu og miðstéttar, og þó einkum kvenna, sem samfara uppgangi miðstéttarinnar voru í æ ríkari mæli innilokaðar á heimilum sínum, og útilokaðar frá hverskyns störfum. Saga skáldsögunnar á 18. öld er því nátengd konum, en konur létu mikið til sín taka í mótun skáldsögunnar, þrátt fyrir að þær séu sjaldan taldar upp með bókmenntarisum 18. aldar. Á nítjándu öld verða skáldkonur áberandi, en þá koma fram rithöfundar eins og Jane Austen og Brontë systur sem í dag hafa fengið viðurkenningu bókmenntastofnunarinnar, þrátt fyrir að sögur þeirra séu skyldar ýmsu léttmeti, svo sem gotnesku skáldsögunni og ástarsögunni. Þegar kemur að módernisma tuttugustu aldar er konan enn látin standa sem tákn fyrir fjöldamenningu í neikvæðum skilningi eins og fram kemur í frægu ljóði T.S. Eliot um eyðilandið. Í nútímanum birtist þessi tenging kannski helst í aukinni umræðu um stöðu kvenlíkamans sem söluvöru og óvirks viðfangs augnaráðs í myndrænu efni allt frá auglýsingum til kvikmynda.

Eins og áður sagði skrifar Birgitta sögur sínar inn í hefð íslenskra skemmtisagna sem fordæmdar voru á sjöunda áratugnum sem ’kellingabækur’, en sú tenging á sér greinilegar menningarsögulegar rætur erlendis. Einnig eru skáldsögur Birgittu greinilega skyldar erlendum reyfurum kvenna, svo sem gotneskum rómönsum Phyllis A. Whitney og spennu- og ástarsögum Mary Higgins Clark. Þrátt fyrir misjafnar viðtökur gagnrýnenda hefur Birgitta haldið áfram að senda frá sér eina bók á ári og þannig haldið uppi merkjum íslenskar afþreyingarmenningar og í raun verið okkar helsti útvörður hefðarinnar í glæpa- og ástarsögum.

© Úlfhildur Dagsdóttir, 2001

Almenn umfjöllun

Katrín Jakobsdóttir: Glæpurinn sem ekki fannst: Saga og þróun íslenskra glæpasagna
Reykjavík: Bókmenntafræðistofnun Háskóla Íslands, 2001.

Steinunn Eyjólfsdóttir: „Bóndakona, spennusagnahöfundur, reikimeistari“ (viðtal)
Vera, 19. árg., 5.-6. tbl. 2000, s. 56-57.

Um einstök verk

Sekur flýr þó enginn elti

Magdalena Schram: „Karlfjandsamlegar afþreyingarbókmenntir ; Out of focus, writings on women and the media“
Vera, 9. árg., 5. tbl. 1990, s. 34-35

Greinar og viðtöl við Birgittu Halldórsdóttur auk ritdóma um bækur hennar, hafa birst í dagblöðum. Sjá t.d. Gagnasafn Morgunblaðsins

Year:
1995
Publisher:
Category:
Year:
1987
Publisher:
Category:
Year:
1994
Publisher:
Category:
Year:
1988
Publisher:
Category:
Year:
1992
Publisher:
Category:
Year:
1999
Publisher:
Category:
Year:
2000
Publisher:
Category:
Year:
1985
Publisher:
Category:
Year:
1984
Publisher:
Category:
Year:
1986
Publisher:
Category:
Year:
2001
Publisher:
Category:
Year:
1991
Publisher:
Category:
Year:
1990
Publisher:
Category:
Year:
1997
Publisher:
Category:
Year:
1996
Publisher:
Category:
Year:
1993
Publisher:
Category:
Year:
2004
Publisher:
Category:
Year:
1998
Publisher:
Category:
Year:
1989
Publisher:
Category:
Year:
2002
Publisher:
Category:
Year:
2010
Publisher:
Category:
Year:
2010
Publisher:
Category:
Year:
2001
Publisher:
Category:
Ár:
1995
Útgefandi:
Flokkur:
Ár:
1987
Útgefandi:
Flokkur:
Ár:
1994
Útgefandi:
Flokkur:
Ár:
1988
Útgefandi:
Flokkur:
Ár:
1992
Útgefandi:
Flokkur:
Ár:
1999
Útgefandi:
Flokkur:
Ár:
2000
Útgefandi:
Flokkur:
Ár:
1985
Útgefandi:
Flokkur:
Ár:
1984
Útgefandi:
Flokkur:
Ár:
1986
Útgefandi:
Flokkur:
Já, hún er mætt aftur til leiks eftir að hafa tekið sér frí í fyrra – átti enda 20 ára útgáfuafmæli og kannski bara full ástæða til að halda uppá það með því að slappa svolítið af!
Blómlegt bókmenntalíf byggir ekki aðeins á útgáfu tormeltra fagurbókmennta heldur þrífst það og dafnar í skjóli fjölbreyttrar útgáfu. Síðan íslenska glæpasagan varð að föstum þætti í bókaútgáfu hér á landi hafa reglulega heyrst raddir um að nú sé allt búið og að þessar léttvægu bókmenntir séu að taka yfir.