Auður Jónsdóttir

„Þetta er ekki barnabók heldur eitthvert heimspekistagl með drungalegu kroti sem hræðir börn. Til hvers að innræta börnum efa um allt þegar brýnast er að þau upplifi öryggi? Það er enginn tilgangur með þessum bókum, nema síður sé. Í sannleika sagt terrorísera þær ómótaðar sálir.“
(Vetrarsól)

Auður Jónsdóttir er fædd 30. mars 1973. Hún starfar sem rithöfundur og sjálfstæður blaðamaður og hefur skrifað greinar, pistla og viðtöl fyrir ýmis tímarit og dagblöð.

Smásaga hennar, „Gifting“, birtist í tímaritinu Andblæ haustið 1997 og fleiri smásögur eftir hana hafa birst í blöðum og safnbókum síðan. Fyrsta skáldsaga Auðar, Stjórnlaus lukka (1998), var tilnefnd til Íslensku bókmenntaverðlaunanna 1998. Hún hefur síðan sent frá sér fleiri skáldsögur, auk bóka fyrir börn og unglinga, meðal annars bókina Skrýtnastur er maður sjálfur (2002) þar sem hún dregur upp mynd af afa sínum, Halldóri Laxness. Skáldsaga Auðar, Fólkið í kjallaranum, hlaut Íslensku bókmenntaverðlaunin 2004 og Tryggðarpantur var tilnefnd til sömu verðlauna 2006. Auður var valin „hirðskáld“ Borgarleikhússins 2009.

Auður bjó um tíma í Kaupmannahöfn og síðan í Barcelona ásamt eiginmanni sínum Þórarni Leifssyni, en þau búa nú í Reykjavík. 

Forlag: Mál og menning.

Heimasíða Auðar Jónsdóttur.

Afi unglingur og barnabarnið: Um verk Auðar Jónsdóttur

Írar hafa löngum stært sig af því að vera eina þjóðin sem beinlínis fór í stríð út af bók. Þessu tefla þeir fram til að staðfesta menningarauðgi sína og menningaráhuga. Öfugt við Íra gáfust Íslendingar að mestu upp á styrjöldum eftir Sturlungaöld, en þó hefur eldheitur bókmenntaáhugi haldið áfram að vera partur af þjóðarsálinni. Svo heitur að þeir áhugasömustu létu sér ekki nægja að meðtaka hetjusagnir í orði og hljóði heldur beinlínis innbyrtu þær, bardagasögur, bókfell og blek. Bækur nútímans eru illa ætar en enn berast menn þó burt með spjótum vegna tilnefninga til Íslensku bókmenntaverðlaunanna. Árið 1998 vakti það ákaft umtal að ekki færri en þrír nýliðar fengu tilnefningar, Árni Sigurjónsson fyrir Lúx, Huldar Breiðfjörð fyrir Góða Íslendinga og Auður Jónsdóttir fyrir Stjórnlausa Lukku en þetta eru allt skáldsögur (þó saga Huldars sé reyndar einskonar ferðasaga). Mestu fjaðrafoki olli þó saga Auðar, en að því var ýjað á sínum tíma að hún hefði ’bara’ fengið tilnefningu fyrir það að vera barnabarn Halldórs Laxness. Fjórum árum seinna stígur Auður aftur upp á pall og tekur við tilnefningu í flokki fræðirita og rita almenns efnis, fyrir bók sína um afa sinn, Skrýtnastur er maður sjálfur (2002), en sú bók er ætluð börnum. Allt þetta – tilnefningarnar jafnt sem nöldrið yfir þeim – er heilmikil byrði að bera fyrir ungan höfund, en svo virðist sem Auður bara valdi þessu vel, og heldur sínu striki. Stjórnlausri lukku fylgdi hún eftir með skáldsögunni Annað líf (2000) sem er að ég held fyrsta skáldsagan til að taka á póstlistapöntunum íslenskra karla á austurlenskum konum. Ári seinna kom út barnabókin Algert frelsi og nú síðast Skrýtnastur er maður sjálfur fyrrnefnd. Það er því óhætt að segja að verkefnaval Auðar sé nokkuð fjölbreytt.

Stjórnlaus lukka er samtímasaga utan af landsbyggðinni, sögð af ungri konu og án beiskju eða rómantíseríngar. Strákasögur hafa valdið ákveðinni slagsíðu í landsbyggðafrásögnum, en hér er bæði nýstárlegt og hressandi að skoða búskap og fiskvinnslu út frá augum ungrar stúlku, sem sér stöðu sína í nokkuð öðru ljósi en strákarnir. Söguhetjan Didda er á vissum tímamótum í lífi sínu, komin á menntaskólaaldur, og þarf að gera upp við sig hvað hún vill, menntun eða áframhaldandi slor með tilheyrandi óléttum. Í þessum vangaveltum mátar hún sig við móður sína, sem er af hinni frægu hippakynslóð.

Mæðgur og samskipti mæðgna eru nokkuð algengt minni í skrifum kvenna, svona ekki ólíkt og feðgar og feður vaða uppi í skáldskap karla. Hjartastaður Steinunnar Sigurðardóttur tók eftirminnilega á þessu mæðgnasambandi og af erlendum bókum má nefna bækur Amy Tan, kannski sérstaklega Leik hlæjandi láns. Í þessum samskiptum mæðgna birtist bæði kynslóðabil og sjálfsmyndarleit, sjálfsmyndarleit sem í tilfelli kvenna er ekki síst mörkuð spurningum um kynhlutverk og stöðu konunnar. Kynslóðabilið blandast þar inní líka, því staða kvenna hefur verið að taka breytingum á undanförum árum og því er oft að finna mikla togstreitu í þessum mæðgnasamböndum, þarsem takast á breyttir tímar og breyttar aðstæður. Inn í þetta samband blandar Auður svo á skemmtilegan hátt hippatímabilskomplexinum, og gerir grín að 68 kynslóðinni frægu og öllu þeirra far-angri. En háðið er aldrei beiskt eða biturt, og sama beiskjuleysið einkennir lýsingar á samfélagi og einstaklingum. Þetta kemur nokkuð vel út og er kærkomin hvíld frá oft öfgakenndum dreifbýlislýsingum, þarsem skiptist á upphafning og örvænting. Þó koma tilfinningarnar sterkt inn þegar kemur að sjúkdómi Diddu, en hún er flogaveik.

Undir lokin er eins og sagan renni svolítið út í sandinn og lýsingarnar á dramatísku sjóslysi og ástarsorg verða ekki sterkar, og má þar kannski kenna um ákveðnum skorti á plotti, en sá skortur er allsekki einsdæmi meðal byrjenda, heldur nokkuð almennt vandamál íslenskra bókmennta um þessar mundir.

Í heildina tekið er Stjórnlaus lukka liðlega skrifuð og lifandi bók, og þægilega afslöppuð og laus við rembing. Og það er kannski helst í því sem Auði tekst vel upp, að nálgast viðfangsefni sitt á dálítið írónískan en fyrst og fremst hlýjan og tilgerðarlausan hátt. Að þessu leyti minnir hún á samtímasögu Gerðar Kristnýar, Regnbogi í póstinum (1997), en báðar eru þessar sögur nokkuð ólíkar sambærilegum samtímasögum karla frá síðari hluta tíunda áratugarins. Kannski að þessi tónn þeirra sé ástæðan fyrir því að þessar sögur vilja gleymast þegar fjallað er um samtímasögur, eða skort á þeim, en ég hef hvað eftir annað þurft að minna á að það eru ekki bara strákar sem skrifa slíkar. Á sínum tíma var skáldsögu Hallgríms Helgasonar, 101 Reykjavík (1996) fagnað ákaft, enda væri þar loksins komin saga sem fjallaði um íslenskan samtíma og lét einn gagnrýnandi hafa eftir sér að sú saga virkað eins og hnefahögg í andlit samtímans. Það var fátt um svör þegar spurt var hvort samtímasögur kvenna, eins og Auðar Jónsdóttur, gætu ekki virkað eins og hnefahögg. Á sama hátt var úttekt Mikaels Torfasonar á 68-kynslóðinni í Heimsins heimskasta pabba (2000) ákaft fagnað sem loksins-kom-að-því afreki.

Það mætti halda að til þess að samtímasaga sem tekur á mikilvægum málefnum nái máli þurfi hún að vera knúin áfram af ruddaskap og kynlífslýsingum, með tilheyrandi ofurdramatískum átökum við samfélag, foreldra og fjölskylduharmleiki. Þær sögur sem nálgist ekki um samtímann á þennan hátt séu annaðhvort alls ekki að takast á við hinn raunverulega samtíma, eða séu einfaldlega bara teprulegar.

Á sama hátt hefur það vakið athygli mína hvað næsta skáldsaga Auðar, Annað líf, vakti litla athygli, en undanfarið hefur fjölmenningarsamfélagið í íslenskum bókmenntum, eða réttara sagt, fjarvera fjölmenningarsamfélagsins í þeim, verið nokkuð til umræðu. Annað líf segir frá samskiptum ungrar tælenskrar konu og miðaldra karlmanns. Í sögunni er ólíkum persónum slegið saman, og eins og til að undrstrika það er öll persónusköpun mjög einföld, Guðmundur Jónsson er sveitakarl og verkamaður, sem hefur aldrei kvenmanns kennt og er ákaflega einfaldur og góður, og vill ekki misnota hina fínlegu Napassorn, tekur hana inn sem ’leigjanda’ til að hjálpa henni. Á meðan stofnar vinur hans og vinkona Napassorn til hjónabands og skilja ekkert í tregðu Guðmundar. Fyrir utan þau kemur fjöldi aukapersóna við sögu. Napassorn kemur frá fátækri fjölskyldu og dreymir um að eiga pening og leiðist því út í vændi. Hún les mikið og lifir í dálitilum draumaheimi, en á ákaflega erfitt með að aðlagast íslensku samfélagi. Sagan lýsir svo samskiptum þessara ólíku einstaklinga, sem eru ákaflega einmana hvort á sinn hátt, án þess þó að ná að hjálpa hvort öðru. Sömuleiðis sjáum við ísland með augum útlendingsins sem reynir að fóta sig innan um margskonar fordóma.

Hjónabönd af þessu tagi eru mjög viðkvæmt efni í íslenskum samtíma og það hlýtur að teljast bæði djarft og smart hjá Auði að fjalla um þetta efni. Eins og fyrr velur hún ekki þá leið að hella sér út í grimmilegt félagsraunsæi, uppfullt af nauðgunum og ofbeldi, heldur færir þetta í form sem minnir helst á sápuóperu, sem er bæði áhugaverð og þorin nálgunarleið. Í framhjáhlaupi mætti nefna myndasöguna Mail Order Bride eftir Mark Kalesniko (2001), sem einmitt velur einnig að segja sögu af álíka sambandi í gegnum einmanaleik persóna og ólík lífsviðhorf, fremur en að hella sér út í að lýsa verstu hliðum þessa umdeilda fyrirbæris.

Hinn eilífi misskilningur er drifkraftur sápuóperunnar, og í Annað líf er mikið um misskilning. Napassorn heldur að hún sé keypt sem vændiskona, og skilur ekki af hverju Guðmundur leitar ekki á hana, og sveitamaðurinn Guðmundur skilur alls ekki þessa konu sem fer í Kolaportið og eyðir öllum laununum sínum í risastóran útskorinn fíl: „Þetta var metershá tréstytta, dökkbrún og glansandi, og ansi fyrirferðarmikil“ (72). Guðmundur, sem er ímynd hins hagsýna Íslendings, skilur ekki að stúlkan sem á í fyrsta sinn peninga nýtur þess að kaupa fallega hluti. Þetta atvik endurspeglar andstæðurnar í þeirra sambandi og í raun andstæðurnar sem brjótast innra með Napassorn, því þrátt fyrir að hún þrái að komast burt frá Íslandi og aftur heim, og sé í raun alltaf að safna fé fyrir þá ferð, þá langar hana líka að njóta lífsins. Eftir þetta tekur Guðmundur stjórnina á fjármálum hennar, lætur leggja peningana inn á bankabók, og gefur henni ráðstöfunarfé úr eigin vasa: „Samt undi Napassorn hlutskipti sínu illa, jafnvel þótt Guðmundur gerði þetta af góðum hug“ (74).

Þó Guðmundur ætli sér ekki að misnota líkama stúlkunnar kynferðislega þá ætlast hann til að hún haldi honum heimili eins og góð kona, og því nennir Napassorn æ síður og „áleit að hún hefði ýmislegt skemmtilegra við tímann að gera“ (75). En Napassorn finnur fátt til skemmtunar og því röltir hún um miðbæinn frekar en að vera heima og taka til. Í einni slíkri ferð hittir hún Geirþrúði, sem hefur ákafa þörf til að láta gott af sér leiða, en gengur ekki nógu vel við hjálparstörfin, og hafði meir að segja verið „gefið til kynna að hún misskildi eðli starfsins og það særði Geirþrúði“ (90). Geirþrúður gerir sjálfkrafa ráð fyrir að illa sé með Napassorn farið og hefst handa við að bjarga henni. Hún tekur Napassorn heim með sér, en stúlkan unir ekki þar og leggst á flakk. En þrátt fyrir að hún endi aftur heima hjá Guðmundi er ljóst að sambandið gengur ekki og sagan endar á því að Napassorn flýgur aftur heim, reynslunni ríkari og einnig sæmilega auðug af fé. Guðmundur situr eftir á heimili sem er furðuleg blanda af austri og vestri og er sömuleiðis breyttur maður. Hinum hefðbundna endi sápuóperunnar er því hafnað, og Napassorn og Guðmundur ná ekki saman þrátt fyrir ólíkan uppruna eins og hefðin segir til um.

Óvænt flakk Tinnu trassa um Reykjavík er uppistaðan í Algert frelsi, og er Auður þar komin á allnokkuð ólíkar slóðir. Það er sumar og Tinna trassi í félagi við talandi hundinn Lubba og afa ungling sem ferðast um með staf í annari hendi og gettóblaster í hinni, vill helst bara borða nammi og súkkulaði. Mamma hennar hefur sett hana í nammibindindi en þegar Tinna vaknar og æpir „Ef ég fæ ekki súkkulaði þá drepst ég!!!“ (10), þá tekur afi unglingur sig til og byrjar að hræra deig fyrir súkkulaðiköku. En Tinna getur ekki beðið og þau ráðast þrjú á deigið með þeim afleiðingum að það skvettist út um allt eldhús. Ekki eykur það á gleði móðurinnar og prakkararnir þrír flýja húsið í leit að pabba Tinnu, sem „gefur manni fullt af nammi og verður aldrei reiður“ (19). En þegar þau koma að húsi föðurins er þar fyrir annar maður með sama nafni „Guðjón Ísleifsson ráðherra, hinn eini og sanni“ (20). Pabbi Tinnu er fluttur og nú hefst mikil leit um bæinn, því það reynast ansi margir Guðjónar Ísleifssynir búa í Reykjavík. Á leiðinni koma þau við í Beyglunni en þar lendir afi unglingur í klónum á tískulöggunni Stebba sem hefur platað karlinn til að gera við sig samning um róttækar útlitsbreytingar. Þegar hann sér Tinnu lýsir hann því yfir að hún sé of feit og þurfi fitusog. Og áður en veit eru þau aftur komin á flótta! Þeim er bjargað af leigubílsstjóra sem tekur síðan þátt í leitinni að pabbanum. Síðan hitta þau fyrir Guðjón Ísleifsson (misheppnaðan) listamann, Guðjón Ísleifsson dýralækni – en hundarnir hans bjarga afa unglingi úr klóm tískulöggunnar, Guðjón Ísleifsson blaðamann sem er í felum vegna prentvilla í viðtölum, og að lokum Guðjón Ísleifsson pabba Tinnu.

Aðalstefið er sagan af tískulöggunni sem vill að allir séu eins og samkvæmt stöðlum, en slíkt er harðlega fordæmt. Eins og í öllum góðum ævintýrum koma söguhetjur vorar ýmsu góðu til leiðar á ferð sinni, og tengja saman ólíka menn og málefni svo allir eru glaðir.

Gleðin felst ekki síst í frábærum myndlýsingum Þórarins Leifssonar, en hann er einnig nefndur sem höfundur sögunnar, enda eru myndir hans ekki veigaminni en texti Auðar. Myndirnar eru í sterkum litum, í ýktum en glaðlegum skopteikningastíl og gera það að verkum að sagan birtist ljóslifandi fyrir hugskotssjónum lesanda. Þórarinn sér líka um umbrot og hönnun og kemur hans framlag því einnig fram í myndbirtingu textans, sem fylgir sögunni að því leyti að upphrópanir og áhersluatriði birtast með öðru og stærra letri, sum orð í öðrum litum og þannig leikur leturgerðin sitt hlutverk í sögunni. Þessi leikur með letur endurspeglar svo skemmtilegan leik sögunnar með tungumálið, en afi unglingur rembist mikið við að tala unglingamál, með tilheyrandi slettum og slangri, sem hundurinn Lubbi túlkar samviskusamlega fyrir Tinnu á pottþétta íslensku, og veitir ekki af. Þannig fást skemmtileg blæbrigði í textann, sem sveiflast á milli þess að vera illskiljanlegt götumál og hátíðlegt tungutak.

Öllu hefðbundnari og formfastari hönnun er á sögu Auðar um afa sinn, rithöfundinn Halldór Laxness. Skrýtnastur er maður sjálfur er einskonar ævisaga fyrir börn, og skiptast á minningar Auðar um afa sinn sem gamlan mann, og frásögn hennar af honum sem litlum strák. Inn í þessi minningabrot blandast svo kynning á verkum Halldórs, eða Dóra, eins og hann er alltaf kallaður í bókinni og teiknað upp æviskeið hans, áhugamál og lífsviðhorf. Jafnframt er minnt á að eftir allt var hann bara afi eins og aðrir afar, og að oft erum við ekki nægilega forvitin um fortíð okkar fólks og vitum í raun fátt um það annað en það sem snýr að okkur sjálfum.

Stíllinn er lipur þó hann sé dálítið formlegur og Auður gerir hetjulega tilraun til að gefa nýja sýn á þennan höfund sem hefur haft svo mikil áhrif á íslenskar bókmenntir og menningarlíf. Eins og áður sagði er áhersla lögð á að lýsa honum sem uppátækjasömum strák, og er sá hluti bókarinnar best heppnaður, enda óneitanlega gaman að skoða hvernig ímynd skáldsins mótast frá upphafi. Ekki er síður skemmtilegt að skoða upplifun Auðar af afanum sem gömlum manni, og óhjákvæmlega kemur afi unglingur úr Algeru frelsi upp í hugann, en þó þeir virðist í fyrstu algerar andstæður, þá kemur í ljós að þessir tveir eiga í raun ýmislegt sameiginlegt.

Í ár, 2002, hefði Halldór Laxness orðið hundrað ára. Af því tilefni hefur heilmikið umstang verið í kringum skáldið og verk hans, sérstaklega þó fyrri hluta ársins. Mörgum þótti nóg um, enda hætt við að fólki ofbjóði og áhrifin verði þveröfug við það sem ætlast er til: í stað þess að auka áhuga á verkum skáldsins, fái fólk yfrið nóg. En því má ekki gleyma að Halldór Laxness hefur einstaka stöðu í íslensku bókmenntalandslagi og reyndar í öllu menningarlandslaginu. Sem rithöfundur hefur hann haft gífurleg áhrif á íslenskar bókmenntir og sér ekki fyrir endann á því – sem hugmyndasmiður hefur hann ekki síður haft áhrif á sjálfsmynd Íslendinga og ímynd íslensks samfélags.

Mér finnst því ákaflega viðeigandi að Auðar Jónsdóttir ljúki þessu Laxnessári með sögu af afa sínum sem litlum prakkara og á sú bók án efa eftir að kynna hann fyrir nýjum kynslóðum, jafnvel gefa ímynd skáldsins nýtt og ferskt yfirbragð; annað líf eða kannski algert frelsi?

© Úlfhildur Dagsdóttir, 2002

Verðlaun og viðurkenningar

2015 – Bókmenntaverðlaun starfsfólks bókaverslana: Stóri skjálfti

2012 – Fjöruverðlaunin, bókmenntaverðlaun kvenna: Ósjálfrátt

2004 – Íslensku bókmenntaverðlaunin: Fólkið í kjallaranum

2002 – Besta barnabókin í kosningu íslenskra bóksala: Skrýtnastur er maður sjálfur

2002 – Viðurkenning Upplýsingar; besta fræðibók fyrir börn: Skrýtnastur er maður sjálfur

Tilnefningar

2015 – Menningarverðlaun DV í bókmenntum: Stóri skjálfti

2015 – Íslensku bókmenntaverðlaunin: Stóri skjálfti

2013 – Bókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs: Ósjálfrátt

2012 – Menningarverðlaun DV í bókmenntum: Ósjálfrátt

2006 – Íslensku bókmenntaverðlaunin (fagurbókmenntir): Tryggðarpantur

2006 – Bókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs: Fólkið í kjallaranum

2002 – Íslensku bókmenntaverðlaunin (fræðirit): Skrýtnastur er maður sjálfur

1998 – Íslensku bókmenntaverðlaunin (fagurbókmenntir): Stjórnlaus lukka

Viðtöl

„Lífsstílsþátturinn Fyllt í eyðurnar: Eyðan í Auði“
Stína 2009, 4 (!), s. 28-29.

Almenn umfjöllun

Katrín Jakobsdóttir: „Mömmur, ömmur, dætur: hugleiðing um sköpun kvenna í sögum Auðar Jónsdóttur“
Skírnir 2014, 188. árg., haust, bls. 301-22.

Um einstök verk

Fólkið í kjallaranum

Dagný Kristjánsdóttir: „Hvað er í kjallaranum?“ (ritdómur)
Tímarit Máls og menningar, 66. árg., 4. tbl. 2005, s. 100-103.

Soffía Bjarnadóttir: „Hvað gerir mig að mér?“
Vera, 23. árg., 5. tbl. 2004, s. 51-52.

Úlfhildur Dagsdóttir: „Samúð“
Bókmenntavefurinn: umfjöllun um bækur, sjá hér

Ósjálfrátt

Soffía Auður Birgisdóttir: „Hugarburður skálds“ (ritdómur)
Tímarit Máls og menningar 2013, 74. árg., 2. tbl. bls. 134-40.

Stjórnlaus lukka

Arnaldur Máni Finnsson: „Axjóngleðiskrifari sem trúir á guð þegar hún er á bömmer: segir þetta sig ekki sjálft?“ (ritdómur)
Vera, 17. árg., 5. tbl. 1998, s. 38-39.

Sigríður Albertsdóttir: „Að slíta strengina – lífið bíður!“
Tímarit Máls og menningar, 60. árg. 3. tbl. 1990, s. 112-115

Tryggðarpantur

Ingi Björn Guðnason: „Tryggðarpantur“
Bókmenntavefurinn, umfjöllun um bækur, sjá hér

Ingólfur Gíslason: „Hatur eða heilbrigð skynsemi“ (ritdómur)
Tímarit Máls og menningar 2007, 68. árg., 4. tbl. bls. 122-7.

Úlfhildur Dagsdóttir: „Heimilið og heimurinn“
Skírnir 2007, 181. árg., haust, bls. 517-23.

Vetrarsól

Björn Þór Vilhjálmsson: „Heimsmynd í upplausn: íslenska sakamálasagan, fjölmenningarsamfélagið og Vetrarsól eftir Auði Jónsdóttur“ (ritdómur)
Tímarit Máls og menningar 2009, 70. árg., 4. tbl. bls. 121-38.

Úlfhildur Dagsdóttir: „Á tjá og tundri“
Bókmenntavefurinn, umfjöllun um bækur, sjá hér

Greinar og viðtöl við Auði hafa einnig birst í dagblöðum, sjá t.d. Gagnasafn Morgunblaðsins

Year:
2001
Publisher:
Category:
Year:
2005
Publisher:
Category:
Year:
2003
Publisher:
Category:
Year:
2005
Publisher:
Category:
Year:
2005
Publisher:
Category:
Year:
2000
Publisher:
Category:
Year:
2004
Publisher:
Category:
Year:
2012
Publisher:
Category:
Year:
1998
Publisher:
Category:
Year:
2015
Publisher:
Category:
Year:
2006
Publisher:
Category:
Year:
2008
Publisher:
Category:
Year:
1998
Publisher:
Category:
Year:
2010
Publisher:
Category:
Year:
2001
Publisher:
Category:
Year:
2006
Publisher:
Category:
Year:
2006
Publisher:
Depositum eftir Auði Jónsdóttur í þýðingu Claus Clausen
Year:
2009
Publisher:
Year:
2012
Publisher:
Ár:
2001
Útgefandi:
Flokkur:
Ár:
2005
Útgefandi:
Flokkur:
Ár:
2005
Útgefandi:
Flokkur:
Ár:
2000
Útgefandi:
Flokkur:
Ár:
2012
Útgefandi:
Ár:
2006
Útgefandi:
Depositum eftir Auði Jónsdóttur í þýðingu Claus Clausen
Ár:
2009
Útgefandi:
Ár:
2005
Útgefandi:
Flokkur:
Ár:
2004
Útgefandi:
Flokkur:
Auður Jónsdóttir hefur getið sér gott orð í íslenskum bókmenntaheimi fyrir skáldsögur sínar sem hafa skýran raunsæislegan undirtón, eru skrifaðar af kaldhæðni og húmor og veita fyrir vikið sannfærandi og næmt sjónarhorn á mannlegt líf. Sögur Auðar hafa verið vinsælar meðal lesenda og hafa þrisvar sinnum verið tilnefndar til Íslensku bókmenntaverðlaunanna. Árið 2004 hlaut hún svo verðlaunin fyrir Fólkið í kjallaranum. Leikgerð sögunnar sló einnig í gegn á fjölum Borgarleikhússins nokkrum árum síðar og undirrituð man eftir einstaklega eftirminnilegri og vel leikinni sýningu.
Fólkið í kjallaranum eftir Auði Jónsdóttur

Uppar og hippar, börn og foreldrar, eru umfjöllunarefni Auðar Jónsdóttur í skáldsögunni Fólkið í kjallaranum. Hún hefur áður tekið á þessu efni, í fyrstu skáldsögu hennar, Stjórnlaus lukka, sagði frá unglingsstúlku sem bjó úti í sveit hjá móður sinni sem er ráðskona og ''fyrrum'' hippi. Átakamálin voru meðal annars hugsjónir og lífstíll 68 kynslóðarinnar, og segja má að hér taki Auður aftur upp þann þráð, en setur hann í annað samhengi (hnykil?) og tekur sterkari tökum.

Glæpasagan er meðal viðfangsefna skáldsögu Auðar Jónsdóttur, Vetrarsól. Jólin nálgast og sögukonan Sunna starfar á litlu forlagi sem allrahandamanneskja, sem meðal annars þarf að selja heimspekilegar barnabækur í stórmarkaði og sjá um glæpasagnanámskeið í tilefni af útkomu nýrrar bókar eftir íslenskan höfund sem hlotið hefur alþjóðlega frægð fyrir sögur sínar. Af námskeiðinu lærum við að sögur sem fjalla um glæpi eru ekki endilega allar glæpasögur og svo er um Vetrarsól, því þar eru glæpir en sagan er þó ekki glæpasaga.

Í skáldsögunni Tryggðarpanti fæst Auður Jónsdóttir við málefni sem nú um stundir eru ofarlega á baugi í samfélagsumræðu um öll vesturlönd – nefnilega málefni innflytjenda.
Þú, segir röddin. Þú heitir eitthvað. Manstu hver þú ert?
Ég?