Árni Bergmann

„Þorvaldur var heldur ekki nógu vel að sér, ekki nógu sterkur í bæninni, til að geta ráðið við flökkuþrá hugarins sem spillir hverri upplifun, hve sterk sem hún er, og kemur í veg fyrir að hún ráði ein fyri allri sálinni nema skamma stund í einu. Heilagur andi nær vart að anda þínum nösum þrisvar sinnum þrisvar, svo er hann á förum.“
(Þorvaldur víðförli)

Árni Bergmann er fæddur 22. ágúst 1935 í Keflavík. Hann lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum á Laugarvatni 1954 og magisterprófi í rússnesku frá Moskvuháskóla 1962. Árni var lengi blaðamaður á Þjóðviljanum, hóf störf þar 1962, og gegndi ritstjórnarstarfi við blaðið í 14 ár til ársins 1992. Hann var jafnframt helsti bókmenntagagnrýnandi blaðsins. Árni hefur starfað sem stundakennari í almennri bókmenntafræði og rússnesku við Háskóla Íslands frá árinu 1973. Hann kom einnig að þáttagerð við Sjónvarpið á árunum 1973-1975. Hann átti sæti í stjórn Norræna menningarsjóðsins 1990, sat í stjórn Þýðingarsjóðs og var lengi í ritnefnd Tímarits Máls og menningar.

Árni hefur skrifað fjölda greina um rússneskar og sovéskar bókmenntir sem birst hafa í Tímariti Máls og menningar og víðar og þýtt aragrúa leikrita úr rússnesku fyrir Þjóðleikhúsið, Borgarleikhúsið og Ríkisútvarpið. Fyrsta skáldsaga hans, Geirfuglarnir, kom út 1982 en skáldsagan Þorvaldur víðförli var tilnefnd til Íslensku bókmenntaverðlaunanna 1994 og Bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs 1998. Auk skáldsagna hefur Árni sent frá sér barnabækur og endurminningabækur.

Árni býr í Reykjavík.

Forlag: Mál og menning.

Skáldskapur er alæta

Rithöfundar tala stundum um iðju sína sem böl og þraut sem þeir helst vildu vera lausir við. Þessu tali er erfitt að trúa. Menn skrifa vegna þess að þeir hafa gaman af því. Vegna þess að miklu ljósi slær niður í gráa daga. Ljúft vín streymir niður þurrar kverkar. Þegar rithöfundum finnst vel ganga stíga þeir öðrum fæti inn í Paradís. Að vísu er Helvítið aldrei langt undan: það er byggt útgefendum, gagnrýnendum og lesendum, sem steikja höfundinn á teini eða reka hann út á kaldan klaka og þetta víti nærist á þeirri hugsun að Ég hefi vel gert en enginn kann að meta það.

Skáldskapurinn er eins og mikil ást, hann nærist á hverju sem er. Höfundurinn er að skemmta sjálfum sér. Hann ímyndar sér að hann sé að skemmta öðrum og stundum hefur hann rétt fyrir sér. Hann léttir á sínu hjarta, hann skriftar fyrir heiminum og leikur sér að því um leið, að enginn getur vitað með vissu hvort hann er að afhjúpa sína eigin nekt og glæp eða þá sýna vesöld og afbrot annarra manna – og þá um leið þeirra sem texta hans lesa. Kannski er hann að leita að miklum sannindum, en gerir sér vonandi ljóst að hann þarf ekki að finna þau, miklu merkilegra er að láta aðra menn verða sér samferða í leit sem þeir trúa að sé mikils virði.

Kannski safnar höfundurinn saman miklum fróðleik, bæði um ást og afbrýði, rétt og rangt, hugsjónir og hindurvitni, viðskipti og hernað, löggjöf og fiskveiðar og bræðir hann saman við spennandi sögu. Margir gefa þessum fróðleik lítinn gaum, en hann smýgur um allt og skýtur upp kolli í heilastraumköstum þegar minnst varir. Stundum vilja lesendur hafa rithöfunda til að kenna sér að lifa: margt merkilegt hefur til orðið í spennunni milli þess að falla fyrir þeirri freistingu og reyna sem best að forðast hana. Enn oftar leita menn í bókum að og búa til uppbót á því mikla tíðindaleysi sem ræður í hvunndagsleika flestra manna, að salti og kryddi mikilla ásta, hrikalegs háska, galdurs hins óvænta, lævísrar fyndni.

Lengi má bæta við skrá yfir þá rétti sem bækur og höfundar nærast á, og eru ekki allir jafn virðulegir. Módernísk skáld grunuðu rómantísk skáld um að þau vældu hástöfum um einsemd sína í heiminum í þeim tilgangi að fá ungar stúlkur til við sig. Í Heimsljósi er minnt á einlæga fyrirlitningu margra dugnaðarmanna á þeim sem þykjast vera skáld af því þeir „nenna ekki að vinna fyrir sér“. Óendanlega margt hefur verið skrafað um frægðarfíkn rithöfunda og þeir fá líka á baukinn sem eru nógu vel stæðir til þess að fá skammir fyrir að skrifa „bara fyrir peninga.“

Og svo eru þeir sem gefa frá sér flestar skýringar á því hvers vegna þeir eða aðrir skrifi bækur. Tolstoj skildi ekkert í því hvers vegna hann, þá sjötugur karlfauskur og alveg óvitlaus að eigin mati, væri að bjástra við aðra eins vitleysu og óþarfa og skrifa skáldsögur. Hann fann ekki aðra skýringu á því en að „þetta er eins og kynhvötin“. Maður getur ekkert við þessari áráttu gert.

***

Ég hafði skrifað í nær tuttugu ár gagnrýni um annarra manna bækur þegar ég féll í þá synd að senda frá mér bók. En hún var ekki sett saman vegna þess að gagnrýnanda langaði til að afsanna þá algengu skoðun, að við krítík fengjust einkum þeir sem gætu ekki skrifað sjálfir. Bókin hét Miðvikudagar í Moskvu (1979). Henni var ætlað að segja frá reynslu sem fáir þekktu en gat vel skipt máli: hvernig unglingur af Íslandi tekur út drjúgan hluta af þroska sínum í allt öðrum heimi en hann hefur alist upp í. Með öðrum orðum: segja frá námsárum mínum í Sovétríkjunum og þá frá breytingum sem urðu á sjálfum mér og svo sovétkommúnismanum á þeim tíma. Þennan þráð tókum við konan mín, Lena Bergmann, svo upp síðar í bók sem við kölluðum Blátt og rautt (1986) þar sem við skiptumst á um að lýsa því hvernig tvö börn af árgerðinni 1935 uxu úr grasi í ólíkum heimum – íslenskum og sovétrússneskum.

Fyrstu skáldsögu mína, Geirfuglarnir (1982) byrjaði ég að skrifa sem skopstælingu á íslenskar endurminningabækur, en útkoman varð bók um lítið sjávarpláss, sem í mörgu líktist Keflavík bernsku minnar. Þetta varð plássið þar sem öll heimsins tíðindi geta gerst en með þeim sérstæða, sumpart elskulega og sumpart hlægilega hætti, sem smæðin og forvitið nábýli manna gefur. Í lok sögunnar tortímist þessi litli heimur með sviplegum hætti og veit enginn hvort það er heldur af mannavöldum eða vegna hamfara: líklega vildi ég með þessu móti draga saman í eitt stórslys þann trega eftir „veröld sem var“ sem hreiðrar um sig í okkur flestum.

Með kveðju frá Dublin (1984) er pólitísk ástarsaga: íslenskur kennari kynnist á sumarferðalagi írskri stúlku og frá henni liggja leiðir til IRA, Írska lýðveldishersins; áður en lýkur er kennarinn farinn að aðstoða við hryðjuverk gegn Bretum hér á Íslandi. Sagan er um það hvernig hryðjuverkastarfsemi gæti skotið upp kolli, einnig hér, norðan við öll stríð að því er við höldum. Hún er líka um hina „góðu terrorista“, um það hvernig háskaverk geta spunnist af hvötum og tilfinningum og réttlætiskröfum sem í sjálfu sér kalla á skilning og nokkra samúð.

Þorvaldur víðförli (1994) er söguleg skáldsaga um víkinginn góða sem gerist trúboði einna fyrstur manna á Íslandi en er hrakinn úr landi og leggur leið sína austur til Rússlands og Grikklands: um þær reisur er fátt sagt í Íslendingasögum og því meira frelsi hafði ég til að leika mér að spurningunni um það hvað verður um „okkar dreng“ í hinum stóra heimi. Til eru skáldsögur sem lýsa átökum kristni og heiðni sem valdabaráttu fyrst og fremst. En ég reyndi að lýsa Þorvaldi sem ungum manni sem tekur kristindóminn af fullri alvöru. Hann er ekki hentistefnumaður sem vill tolla í hugmyndatísku eða vera réttu megin í Evrópuþróuninni. Hann tekur þátt í leit að grundvallartrausti á tilveruna, hann fær köllun, hann heyrir raust sannleikans sem krefst þess að hann gangi út í heiminn og breyti honum. Síðan verður hann að prófa trú sína í sárum vonbrigðum með menn og með þau samfélög sem þegar eru kristin, hann verður líka að glíma við hinn eilífa vanda trúaðs manns: hvernig má koma heim og saman gæsku guðs og illsku heimsins? Og svo er annað: hvernig geta farið saman auðmjúk tilbeiðsla á guðs móður og ást til jarðneskrar konu?

Barnabókin Óskastundin (1997) er um eilífan dagdraum barna sem fylgir þeim einatt langt fram eftir aldri: hvernig get ég náð tökum á heiminum sem aðrir hafa ekki? Verða sterk eins og Lína langsokkur eða göldróttur eins og Harry Potter? Persóna mín, Hildur, fær vald til að láta óskir rætast – en með þeim sérstæða hætti að hún má ekki óska sjálfri sér neins, hún má ekki gera neitt sem sýnist alveg óhugsandi, og hún má ekki láta neinn vita af valdi sínu. Og þetta er erfiðara en nokkurn grunar. Ég samdi líka aðra barnabók með dóttur minni Olgu Bergmann myndlistarkonu: hún segir frá því hvernig Stelpan sem var hrædd við dýr (1994) villist inn í heim dýranna og lærir að treysta þeim.

Síðasta skáldsaga mín heitir Sægreifi deyr (1999). Þetta er fjölskyldusaga sem tengist mesta hitamáli samtímans, kvótamálum, stjórn fiskveiða! Það segir sig sjálft að ekki er hægt að finna lausn á slíku máli í skáldsögu. En það er hægt að nota það sem dæmi um vanda sem nær út fyrir það sem brennur mest á mönnum í íslensku sjávarplássi nú og hér. Vanda sem tengist háska sem vofir yfir ótal litlum samfélögum nú og á næstunni – þegar forsendum fyrri lífshátta og afkomu er kippt undan fólki og það stendur uppi bjargarlaust í næðingi heimsþorpsins svokallaða. Og eins og í öllum skáldsögum er talað um margt annað en það sem fyrst er nefnt: um vinstrimennskuna sem hvarf og túrismann sem kom, um guð og skáldskapinn og hvaða lífi þeim er leyft að lifa nú og hér. Ástin er auðvitað mikið hreyfiafl í þessari sögu eins og þeim sem áður voru nefndar: án hennar verður hver skáldsaga eins og saltfiskur sem hefur legið of lengi í bleyti, eins og ungur maður sem hefur gleymt að leika sér, eins og roskinn maður sem hefur týnt allri forvitni.

Árni Bergmann, 2002

Um verk Árna Bergmann

Árni Bergmann hefur sent frá sér fjórar skáldsögur, tvær minningabækur og tvær barnabækur, skrifað útvarpsleikrit upp úr skáldsögu Dostojevskís, Glæpi og refsingu, og gert leikgerðir að fjölmörgum rússneskum skáldsögum, auk þess sem hann er með afkastameiri bókmenntaþýðendum þjóðarinnar, einkum úr rússnesku.

Í einni þessara þýðinga, leikritinu Sjálfsmorðinginn eftir Nikolaj Erdmann sem Herranótt setti upp árið 1996, segir frá Semjoni Semjonovitsj, lánlausum sakleysingja, sem lendir undir þeim illa grun samborgara sinna að hann ætli að fremja sjálfsmorð. Ætla mætti að einhver fyndi til meðaumkvunar gagnvart svo reginvilltri sál og reyndi að leiða hana af vegi glapræðisins. En annað kemur á daginn. Semjon verður nú nokkurs konar uppdiktuð hetja í samfélaginu og fórnarlamb ýmissa útsmoginna fulltrúa þess sem reyna að telja honum trú um að drepa sig nú fyrir sannleikann, það er að segja þann málstað sem hverjum er kærastur. Haldin er mikil veisla Semjoni til heiðurs og dánarfylli hans drukkið í misjöfnum tilgangi; athafnamenn og iðjuleysingjar, kaupmenn og skáld og alls kyns miseinlægir heiðursmenn mæra þar hástöfum þessa hversdagshetju sem hefur ákveðið að fórna sér fyrir málstað fólksins. Á meðan á öllu þessu stendur skelfur auminginn hann Semjon á beinunum enda alltof mikið kveif til þess að svipta sig lífi, sem aldrei var heldur ætlunin. Inntakið í leikritinu snýst um hlutverk meðalmennis í samfélagi sem stöðugt þjarmar að honum og vill fá hann til þess að gegna ákveðnum hlutverkum sem hann rís ekki undir, enda hvort tveggja víst að hlutverkin eru fáránleg og maðurinn of veikgeðja til þess að fylgja öðrum hugsjónum en sínum eigin.

Þótt aðalpersónurnar í skáldverkum Árna Bergmanns séu ef til vill ekki alveg sömu kveifin og Semjon þá eiga þær það flestar sameiginlegt með honum að leita sér eða lenda í aðstæðum sem eru þeim ofviða. Þetta eru hversdagslegar manneskjur sem mæta þeirri stundarhugsýn að rísa upp úr meðalmennskunni og vinna mikil afrek, hvattar áfram ýmist af ástinni eða hugsjónum um sannleika og réttlæti. Aðstæðurnar sem þær mæta varða gjarna mál sem eru kröftum þeirra gjörsamlega ofviða, alþjóðleg stríðsátök, válega drauga Kaldastríðsins eða stórtíðindi í íslenskum stjórnmálum. Árni Bergmann vefur einatt inn í skáldsögur sínar mikilli umræðu um samfélagsmál og má því líta á þær sem rökrétt framhald endurminningabókanna sem segja frá dvöl hans í Rússlandi og reynslu hans af pólitík Kaldastríðsins. Þessar bækur nefnast Blátt og rautt og Miðvikudagar í Moskvu og komu út í lok áttunda áratugarins, en Geirfuglarnir, fyrsta skáldsaga hans, kom út árið 1982.

Í Geirfuglunum rekur maður á miðjum aldri uppvaxtarsögu sína og minningar frá æskustöðvunum, þorpi á Suðurnesjum sem nefnist Selatangar og er fyrir ill tíðindi orðið frægari staður en bæði Vestmannaeyjar og Reykjavík. Titill bókarinnar gefur það til kynna að hér er lýst heimi á hverfanda hveli, fólki sem heyrir fortíðinni til og er í bráðri útrýmingarhættu. Hin mikla tákngerving þessarar útrýmingar er ægilegt slys sem veldur bana meiri hluta íbúanna; aðeins fáeinir lifa af og þjást af söknuði, tómleikakennd og væntanlega samviskubiti yfir því að hafa komist af. Þannig lýsir sögumaður ástandi sínu eftir slysið mikla:

Ég forðaðist annað fólk, drakk oftast einn heima hjá mér. En Jóhannes gafst aldrei upp á því að reyna að rétta mig við. Hann kom við hjá mér á næstum hverju kvöldi. Þegar við höfðum þagað saman hélt hann fast að mér að ég hefði engan rétt til að fara í hundana. Það kemur engum við, sagði ég. Víst, sagði hann. Þú drepur þig á þessu. Og hvað með það? spurði ég, viltu að ég lafi hér áfram eins og sjaldgæft eintak í þessum djöfuls dýragarði?

Það hefur ekki komið fram fyrr í bókinni að sögumaðurinn, Egill Grímsson, eigi við áfengisvandamál að stríða og því má ætla að óhamingja hans sé fyrst og fremst afleiðing nýskeðra atburða, að hann sé beinlínis fórnarlamb sögunnar eins og allir þeir sem lifðu af og sitja eftir „eins og sjaldgæf eintök.“ Hin válegu tíðindi sem gerst hafa marka þáttaskil fyrir alla þá sem eftir lifa. Þessi þáttaskil eiga sér ef til vill djúptækar menningarlegar og pólitískar aðstæður sem um nokkurt skeið hafa mótast í landinu og stefnt þjóðinni í voða. Ýmsar blikur eru á lofti um að slysið tengist tilraunum bandaríska hersins og aðsetri kafbáta hans í sjávarhellum skammt frá byggðinni. Þetta fæst að vísu ekki staðfest og aðrir telja að ægilegar jarðhræringar hafi valdið slysinu. Það verður samt ekki annað skilið en að hinir nýju landnemar í íslensku samfélagi séu engir aufúsugestir, og að ýmsar þjóðfélagshræringar og stríðsræskingar sem þjóðin hefur bægt frá sér í ellefu aldir etji henni nú á vafasama braut með skelfilegum afleiðingum.

Bókin er sögð „í endurminningastíl“, eins og raunar kemur fram á kápunni. Sögumaður vitnar til ýmissa (skáldaðra) rita frásögn sinni til stuðnings, blaðagreina, ritgerða og ummæla. Á einum stað vitnar hann til rits sem ekki er komið út miðað við raunverulegt útgáfuár Geirfuglanna, og má vera að höfundur geri þetta til þess að framandgera aðstæður nokkuð og draga úr þeim ævisögulega blæ sem sveipar frásögnina. Engu að síður verður þessi endurminningastíll enn til þess að skerpa skilin á milli þess sem er og var og gera okkur ljóst að hin saklausa fortíð er liðin, hin válega framtíð fyrir höndum. Þessi lífssýn sögumannsins, sem væntanlega stendur í talsverðum tengslum við höfundinn sjálfan, virðist fyrst og fremst bundin stund og stað þótt færa megi fyrir því rök að hún sé ef til vill einnig tákn um hið mannlega ástand, um eilífa eftirsjá mannsins. Hún er án efa ágætis dæmi um þann ugg sem vakti í brjóstum manna þegar Kaldastríðið stóð sem hæst, ugg sem að öllum líkindum var meiri og nærtækari en sá ótti sem nú grípur um sig vegna svipaðrar deilu á milli Vesturs og Austurs. Kaldastríðsskjálftinn hlýtur að vera raunverulegur áhrifaþáttur við ritun þessarar fyrstu skáldsögu Árna Bergmanns, sem einnig er uppgjör við liðna tíma, horfna bernsku og þjóðlíf sem hans kynslóð hefur séð líða undir lok. Í grunninn eru Geirfuglarnir fyrst og fremst mannlífssaga með raunsæislegu yfirbragði en somofin frásögninni er mikil þjóðfélagsumræða og uppgjör við líðandi stund. Þetta er meginþráðurinn í öllum skáldsögum höfundarins. Það er ekki fjarri lagi að álykta að hann hafi numið sitt hvað af eldri höfundum íslenskum, kannski ekki síst Halldóri Laxness, en persónusköpun, frásagnaraðferð og stíll eru þó oftast lágstemmdari, málið gjarna hversdaglegra og miðið lægra. Hvort sem þetta er talið höfundinum til tekna eður ei þá verður sjaldnast við hann sakast um óþarfa hátíðleika. Sögur Árna Bergmanns eru jarðbundnar og blátt áfram þótt viðfangsefnin séu síst ómerkileg og söguþræðirnir sjaldnast hversdagslegir.

Næsta skáldsaga Árna kom út árið 1984 og á ýmislegt sameiginlegt með Geirfuglunum. Það er ekki aðeins að báðir bækurnar endi með afdrifaríkum sprengingum heldur lýsa þær báðar íslensku samfélagi og hversdagsleika í sambúð við alþjóðlegar deilur og átök, og eru aðalsöguhetjurnar að vissu leyti báðar fórnarlömb aðstæðna sem þær kjósa sér ekki endilega sjálfar, en mega þó sjálfum sér um kenna að hafa lent í (bæjarráð Selatanga samþykkir til dæmis að veita hernum aðstöðuna).

Með kveðju frá Dublin er ágætis tilraun til þess að víkka sjóndeildarhring íslenskra bókmennta og færa sagnaheiminn út úr litla þorpinu á landsbyggðinni. Í bókinni segir frá Birni, íslenskri kennarablók í vísitölumóki sem farinn er að þrá eitthvað stærra og meira, semsagt orðinn illa haldinn af gráa fiðringnum og albúinn að gerast yngri en hann hefur verið síðustu tuttugu árin. Hann heldur á ráðstefnu í Frakklandi ásamt vini sínum og verður þar ástfanginn af ungri írskri konu sem síðar kemur í ljós að haldin er illræmum sjúkdómi, MS. Það er tímanna tákn að stúlkan lítur á sjúkdóminn sem algjöran og nálægan dauðadóm og bjarg í götu ástarinnar. Kannski til þess að nálgast Derdrie á nýjan veg eða til þess að finna tilfinningum sínum farveg í hugsjónum sem upprunalega kviknuðu af sambandi hans við hana, þá gengst Björn alþjóðlegum skæruliðasamtökum á hönd og reynir að vinna fegurðinni í heiminum nokkurt gagn, eilítið utan við sig og valtur á þeirri braut sem hann velur. Aðstæður Björns eru nú ekki orðnar svo æríð ólíkar aðstæðum Semjons Semjonovitsj í leikriti Erdmanns, en munurinn er reyndar sá að Björn ákveður sjálfur af feta sína ótryggu slóð í þágu málstaðarins á meðan Semjon vill ekkert af honum vita. Hvað sem tilgangnum líður er ljóst að Björn flækist í atburðarás sem er ekki á hans valdi og hefði kannski verið skynsamlegast að forðast. En það verður sem verður og að lokum þarf hann að takast á við tilveru sína og gjörðir í miklu lokauppgjöri – sem best er að greina ekki frá þeim sem eiga bókina ólesna. Með kveðju frá Dublin er reyfarakennd saga og söguþráðurinn býsna ótrúlegur á köflum. Í bókinni tekst höfundurinn á við flest það sem segja má að einkenni verk hans í heild, hlutskipti hversdagshetjunnar, baráttu hennar við ástina og sannleikann og afstöðu hennar til samfélags sem líklega er torræðara en hún fær að fullu skilið og ráðið við.

Ekki veit ég hvernig gagnrýni Með kveðju frá Dublin fékk á sínum tíma eða hvað olli því að Árni tók sér nú talsvert langt hlé frá útgáfu skáldsagna. Eins er víst að næsta saga hans hafi verið lengi í undirbúningi meðfram öðrum verkum, enda lengsta og líklega metnaðarfyllsta verk hans, Þorvaldur víðförli, söguleg skáldsaga úr heimi miðalda. Þótt ekki séu nema níu ár síðan sagan kom út má segja að hún hafi á þess tíma mælikvarða verið þess konar verk sem íslenskur skáldsagnahöfundur þurfti til þess að vera sannarlega tekinn alvarlega, epísk saga um klassískt efni, í klassísku samhengi íslenskrar frásagnarhefðar. Hér víkur hin þumbaralega hversdagshetja reykvísks samtíma fyrir ástríðufullri hetju miðaldanna og liðinn tími lifnar við í yfirgripsmiklu sögulegu verki. Þótt íslenskir höfundar séu sem betur fer smátt og smátt að losna undan kröfunni um að skrifa „alvöru bókmenntir“, þá er hinn venjulegi skilningur sá að bókmenntalegt gildi slíks verks sé meira en til dæmis Með kveðju frá Dublin. Fyrir Þorvald víðförla var Árni Bergmann tilnefndur til Hinna íslensku bókmenntaverðlaun og Bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs og treysti sig í sessi sem „alvöru höfundur“.

Í þessari bók segir af ungum íslenskum dreng sem fæðist við lok þarsíðasta árþúsunds, uppvexti hans, þroska og leitinni að tilgangi lífsins. Þorvaldur elst upp í andúð á föður sínum og bróður en ást á ambáttinni Bringvet sem til Íslands hefur verið numin frá Írlandi. Í þessum manneskjum speglast togstreitur þeirra gilda sem setja stærst mark á Þorvald. Faðir hans og bróðir tákna á vissan hátt þá arfleifð hetjualdarinnar sem tekin er að úrkynjast og glata sinni reisn en Bringvet er boðberi misskunnar og nýrrar trúar. Efnistök bókarinnar, einkum framan af, eiga þannig margt sameiginlegt með Íslendingasögunum þótt sögumaður bókarinnar sé greinilega frá allt öðrum tíma, eins og t.d. má sjá þegar hann minnist á Jósep Stalín (bls. 110). Þessi sögumaður á það reyndar til að vera kúnstugur, tala um sjálfan sig í fleirtölu (t.d. bls. 22) og kenna sig við „anda sögunnar“, þann óræða þráð sem hvarvetna hylst og spinnur sögur heimsins. Ekki verður hjá því litið að þessi sögumaður eða andi sé nokkuð upphafnari en sögumennirnir í fyrri bókum Árna. Stíllinn er fyrntur, málið oft og tíðum myndríkt og lýsingagleðin meiri. Þetta má til dæmis sjá af all klúrum lýsingum sem víða birtast (t.d. 34, 37) og víðfeðmum hugleiðingum fyrirferðamikils sögumanns sem engu að síður er ósýnilegur og dulur. Það er engu líkara en „andi sögunnar“ sjái þangað sem hann lystir og vísi jafnt til fornra og nýrra tíma í stíl sínum. „Landið var fagurt og frítt en enginn gaf því gaum“ (7). Þessi sögumaður hefur lesið Jónas, hann þekkir sögu þeirra alda sem liðnar eru en tjáir sig í anda liðinna tíma, bæði í orðfari og frásagnaraðferð. Tengslin við stílbrögð fornritanna birtast t.d. í fyrirboðum eins og spásögnum Þórdísar spákonu (28) og draumum Þorvaldar. Einnig er áberandi sá biblíulegi blær sem leikur um textann, stundum svo að setningar eru teknar næstum beint upp úr íslenskum biblíuþýðingum sem gerðar voru löngu eftir sögutíma verksins.

Þorvaldur víðförli er yfirgripsmikið verk og leitar höfundurinn fanga mjög víða í sögu og menningu miðalda, stundum kannski svo að kapp sögunnar minnkar fyrir ávinning aldarlýsingarinnar. Þorvaldur gerist sannarlega víðförull og margt ber fyrir augu sem vert þykir til frásagnar. Þegar bernskunni lýkur slæst hann í víking með fóstbróður sínum, Þorsteini skelk, tekur kristna trú í útlöndum og reynir að boða hana löndum sínum en tekst ekki og hrekst þá aftur utan, til Rússlands og Miklagarðs, reynir klausturlíf og einsetur í fjöllum, breytist úr drambsömum og róstugjörnum veraldarmanni í innhverfan og dyggðsaman trúmann, finnur sálarfriðinn og rósemdina sem glatast honum enn í ástinni, þar sem hann stendur að lokum berskjaldaður fyrir guði og mönnum.

Þorvaldur hefur þegar hér kemur reynt að kristnin er ekki það efasemdalausa sæluland þar sem allir menn eru jafnir. Kristnir menn berjast ekki síður innbyrðis, drýja hór og karpa um pólitík en heiðnir. Kynni hans af samtíðinni bregða upp ágætri sýn af evrópskri trúarbragðasögu miðalda, íkonadeilum og flokkadráttum innan kirkjunnar, svo eitthvað sé nefnt. Togstreiturnar búa líka innra með Þorvaldi sjálfum, djöflarnir sitja um sál hans og halda að honum syndinni, hann efast og er klofinn innra með sér, gleymir ekki þeim drambslega metnaði sem mótaði hann í æsku en leggur samt traust sitt á hið góða. „Saga hvers manns er spunnin úr tveim þráðum: það sést hvaðan annar þeirra kemur, við skiljum meir en til hálfs hvaða leið hann ætlar sér í vefnum, hinn felur upphaf sitt og ætlun fyrir skynsemi okkar, en það er hann sem gerir söguna nógu ótrúlega til að það taki því að festa hana á blað.“ (11) Það er efinn öðru fremur sem knýr Þorvald áfram í leit sinni. Eins og Björn í Með kveðju frá Dublin verður Þorvaldur beinn þátttakandi í stórátökum samtíðar sinnar, skjaldsveinn veraldlegra og hugmyndafræðilegra samtímahræringa. Hjá Birni var það ástin sem leiddi hann á þennan veg, hjá Þorvaldi er það vegferðin sem færir hann til ástarinnar.

Þorvaldur víðförli á eins og áður sagði ýmislegt skylt með íslenskum miðaldaritum og kallast á við hefð þeirra en sögusviðið er víðfeðmara og hugmyndaheiminum lýst frá öðru sjónarhorni. Stíllinn er huglægari og ef til vill lausbeislaðri þótt augljóslega sé hann miðaður að þeirri veröld sem lýst er. Árni Bergmann reynir hér ekki að skrifa sig inn í hina klassísku hefð eins og Halldór Laxness gerði með Gerplu, heldur sækir hann efni og anda til liðins tíma og markar það nýjum dráttum. Persónur Þorvalds víðförla skipta tugum og sögustaðirnir sömuleiðis. Stór hluti þess gerist í Rússlandi þar sem höfundurinn þekkir vel til. Líklega birtist reynsla hans af því að vera útlendingur vel í þessari sögu, það hlutskipti að horfa á heiminn spurnaraugum og leita óvissra svara.

Síðasta skáldsaga Árna kom út árið 1999 og nefnist Sægreifi deyr. Í upphafi hennar slæst lesandinn í hóp með þýskum túristum sem kynna sér staðhætti í fylgd leiðsögumanns frá bænum þar sem sagan gerist. Lesandinn fær nasasjón af þeim goðsagnablæ sem einkennir landslagið, risavöxnum klettaborgum sem vísa til norrænnar goðafræði og huldutrúar sem nú hefur verið „peppuð upp með sexi“ fyrir ferðamennina. Leiðsögumaðurinn ýjar að líkindum dranganna við limaburð goðanna og bætir því við að „hefðirnar lifa í nýjungunum. Nýjungarnar í hefðinni.“ Þessi ferðamálafrömuður heitir Björn og er eitt af hinum ólánsömu börnum aðalsöguhetjunnar, sægreifans Ólafs Björnssonar, en öll er þau á sinn hátt til marks um að veldið er að hruni komið. Hinn bróðurinn, Gunnar, dreymir langsótta skáldadrauma og systirin, Sigrún, er óvirkur alkóhólisti sem hatar föður sinn (eins og bræðurnir gera reyndar líka). Það er augljóst að veldinu verður tæplega haldið uppi af þessum erfingjum greifans. Í lok fyrsta kaflans hrynur stórt bjarg úr hamrinum úti fyrir bænum eins og fyrsta sprungan í þessari smáu veröld sem síðan liðast smátt og smátt í sundur eftir því sem á líður bókina. Spenna bókarinnar liggur fyrst og fremt í því hvernig þessum átökum muni lykta.

Í Sægreifi deyr ymprar Árni Bermann á mörgum helstu þjófélagsmálum samtímans, svo sem kvótamálinu, brottkastinu, markaðshyggjuæðinu, kynlífs-væðingunni, byggðastefnunni og ýmsu öðru. Hann er trúr þeirri stefnu sem hann tók þegar í fyrstu skáldsögum sínum, þ.e. að nota skáldskapinn sem tæki til þess að segja eitthvað um heiminn og það sem betur má fara. Hér er þó líkt og fyrr langt í frá um eintóma samfélagsádeilu að ræða.

Stíllinn er jarðbundinn líkt og í fyrstu sögunum og oftast nær hversdagslegur í samtölum og öðrum beinum ræðum. Persónur sletta ensku og hent er grín að stofnanamáli og enskuskotinni málnotkun: „Lífið á að vera svona. Mutual exchange of adult needs. Gagnkvæm viðskipti á sviði þarfa … uppfylling gagnkvæmra þarfa fullþroska fólks, nei hvernig ætti að segja þetta?“ (32) Sögumaður fylgir persónum sínum gjarnan eftir með hálfbeinni ræðu, með því að sveigja stíl sinn að hugsanaferli þeirrar persónu sem lýst er hverju sinni. Að þessu leyti stendur sögumaður að öllu leyti utan frásagnarinnar og gegnir ekki öðru hlutverki en miðla atburðunum. Ólíkt fyrri sögum Árna er bygging þessarar einna líkust leikriti, frásögnin mestmegnis drifin áfram af samtölum og senum í þröngu, afmörkuðu rými. Hér er ekkert eiginlegt ris heldur líða helstu viðfangsefni hennar áfram í hægum straumi til enda og endurspeglast glöggast í samræðum aðalpersónanna. Í lok sögunnar lokast þessi heimur með ávarpi alltumvefjandi sögumanns sem ekki sér aðeins yfir þennan heim heldur einnig þá sem fyrr hafa sést í skáldsögum höfundarins: „Heimurinn endar með hvelli og gný eins og þegar Selatangar hurfu í hafið…“ (198). Það er ýmislegt líkt með Sægreifanum og Geirfuglunum, ekki aðeins aðstæður og andrúmsloft tilbúins íslensk smábæjar sem á margan hátt tákngerir stærri heild, heldur einnig viðfangsefnið og hugmyndirnar, umræðan um íslenskt þjóðlíf og hitamál líðandi stundar. Þannig má segja að hringurinn lokist í bili, höfundurinn stígur fram og horfir yfir verk sitt og hvað gerst hefur í íslensku samfélagi á tæpum tuttugu árum: „En Álfheimar, ekki hverfa þeir með braki og brestum, það er ólíklegt, ef til vill heyrum við þaðan ráðvilltar stunur á stangli en ekki mikið meira. Ekki veit Hamarinn að steinn sem brotnar úr honum er hann sjálfur að hrynja.“ (198) Heimurinn er kannski að farast eins og alltaf en það er ekkert áberandi, nánast aukaatriði. Lífið gengur sinn gang þótt margt fari úrskeiðis. En eftirsjáin eilífa er enn til staðar, og kannski sakna menn einhvers frá þeim tíma þegar hitamálin fengu að vera hitamál í stað þess að koðna niður í kæruleysilegum doða. Hér endar ekkert með sprengingu heldur gliðnar allt smám saman í sundur en hver veit nema allt bjargist samt sem áður fyrir horn og fólkið fái að lifa í sinni meðalmennsku í friði. Leikrit Nikolaj Erdmanns um lánleysingjann Semjon endar að vísu með hvelli eins og mörg af verkum Árna, en sjálfur sleppur Semjon með skrekkinn og fær að rogast áfram með sinn hversdaglega heimsharm og ótta um að líf og dauði eru stöðugt á hans eigin valdi. Það er existensíalískur strengur í öllum bókum Árna Bergmanns og stærsta spurningin oftast sú hvernig ósköp venjulegu fólki reiðir af í hálf brösukenndri tilveru, hvernig því tekst að leiða líf sitt til sigurs í sátt við aðra menn. Þetta er ekki auðvelt enda tekst það sjaldnast. Í lokin að Sægreifa deyr fer sögumaður nokkrum orðum um það sem fyrir höndum er, í því samblandi hálfkærings og alvöru sem víðast má finna í skáldsögum höfundarins:

Við fáum hugmyndir og við fylgjum þeim eftir með verkum, þetta er arfleifð okkar, þetta er í genunum. Hér hafði einu sinni vetursetu frægasti útlagi Íslands, Grettir sterki, og hann var einmitt slíkur maður, hann stóð fyrir sínu. Eins og Jean-Paul Sartre sagði þegar hann kom hingað til Álfheima: Grettir var existensíalisti. Hann gaf lífi sínu tilgang og merkingu með markvissum athöfnum og það gerum við einnig, ekki síst nú þegar sjálft almanakið, sjálf tímans rás sendir okkur ögrun og brýningu og nýtt árþúsund fer í hönd.

© Sölvi Björn Sigurðsson, 2003

Verðlaun og viðurkenningar

2013 - Heiðursmerki hinnar íslensku fálkaorðu, riddarakross fyrir framlag til bókmennta og menningar

2010 - Vináttuorða Rússlands

1995 - Barnabókaverðlaun skólamálaráðs Reykjavíkur: Stelpan sem var hrædd við dýr

Tilnefningar

1994 - Íslensku bókmenntaverðlaunin: Þorvaldur víðförli

1998 - Bókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs: Þorvaldur víðförli

Um einstök verk

Alvara leiksins

Björn Bjarnason: „Lifandi ævisaga einstaks sögumanns“ (ritdómur)
Þjóðmál 2010, 6. árg., 4. tbl. bls. 94-6.

Blaðið okkar

Hannes Hólmsteinn Gissurarson: „Blaðið þeirra“
Frelsið 1987 (3), s. 170-171

Geirfuglarnir

Dagný Kristjánsdóttir: „Einu sinni var gleðibragur yfir litlum plássum“
Tímarit Máls og menningar, 44. árg., 4. tbl. 1983, s. 443-6

Glíman við Guð

Gunnar Kristjánsson: „Hermt frá guðsglímu“ (ritdómur)
Tímarit Máls og menningar 2010, 71. árg., 3. tbl. bls. 122-7.

Margrét Eggertsdóttir: „Um hjarta okkar þvert er hræelduð víglínan dregin“ (ritdómur)
Glíman 2009, 6. tbl. bls. 233-6.

Listin að lesa

Hannes Hólmsteinn Gissurarson: „Bæta bókmenntir heiminn?“ (ritdómur)
Þjóðmál, 2. árg., 2. tbl. 2006, s. 95-96

Með kveðju frá Dublin

Ástráður Eysteinsson: „Herra frjáls í milliríkjasögu“
Tímarit Máls og menningar, 46. árg., 2. tbl. 1985, s. 252-6

Miðvikudagur í Moskvu

Guðmundur Heiðar Frímannsson: „Skilningur á Sovétríkjunum“
Frelsið, 1980 (3)

Sægreifi deyr

Gunnlaugur Ástgeirsson: „Kvótinn í Álfheimum“
Tímarit Máls og menningar, 61. árg., 4. tbl. 2000, s. 145-9

Þorvaldur víðförli

Gunnar Kristjánsson: „Vegir hins víðförla“
Tímarit Máls og menningar, 56. árg., 1. tbl. 1995, s. 115-8

Kristján Björnsson: „Þorvaldur víðförli og kristi Rússa“
Kirkjuritið, 61.árg., 1. tbl. 1995, s. 60-61

Torfi H. Tulinius: „Livets mening er livet selv: gammel saga blir ny / The purpose of life is life itself: an old saga renewed“
Nordisk litteratur 1998, s. 26

Greinar um verk Árna og viðtöl við hann hafa einnig birst í dagblöðum, sjá t.d. Gagnasafn Morgunblaðsins

Year:
1979
Publisher:
Category:
Year:
1967
Publisher:
Year:
1984
Publisher:
Year:
1968
Publisher:
Year:
1987
Publisher:
Year:
1987
Publisher:
Year:
1987
Publisher:
Year:
1994
Publisher:
Year:
1987
Publisher:
Year:
1987
Publisher:
Year:
1997
Publisher:
Year:
2001
Publisher:
Year:
1989
Publisher:
Year:
1991
Publisher:
Year:
1987
Publisher:
Year:
1994
Publisher:
Year:
1990
Publisher:
Year:
1982
Publisher:
Category:
Year:
1984
Publisher:
Category:
Year:
1999
Publisher:
Category:
Ég verð að játa það strax að ég hef verið mikill aðdáandi bóka Akúnins frá upphafi og átt margar góðar stundir með ríkisráðinu Fandorin og var því ekki lítið spennt þegar ég á sínum tíma fékk upp í hendurnar enska þýðingu á Leviatan.