Arnaldur Indriðason

„Það rann upp fyrir Erlendi að það voru engir aðrir persónulegir munir í herberginu. Hann leit í kringum sig en sá hvergi bókahillu eða geisladiska eða tölvu, ekki útvarp eða sjónvarp. Aðeins skrifborð, stól við og rúm með þvældum kodda og skítugu sængurveri. Kompan minnti hann á fangaklefa.“
(Röddin)

Arnaldur fæddist í Reykjavík þann 28. janúar árið 1961. Foreldrar hans eru Þórunn Ólöf Friðriksdóttir, húsmóðir, og Indriði G. Þorsteinsson, rithöfundur. Arnaldur varð stúdent frá Menntaskólanum við Hamrahlíð 1981 og lauk B.A. - prófi í sagnfræði frá Háskóla Íslands 1996. Hann var blaðamaður við Morgunblaðið 1981 - 1982, lausamaður við kvikmyndaskrif frá þeim tíma og kvikmyndagagnrýnandi blaðsins frá 1986 - 2001.

Arnaldur hefur sent frá á annan tug skáldsagna sem allar eru spennusögur. Hann hefur unnið útvarpsleikrit upp úr þremur bóka sinna, sem Leiklistardeild ríkisútvarpsins flutti á árunum 1999 - 2001. Skáldsögur hans hafa verið þýddar á önnur mál og hlotið mjög góðar viðtökur, einkum í Þýskalandi þar sem bækur hans hafa selst í hundruðum þúsunda eintaka. Arnaldur hlaut Glerlykilinn, Norrænu glæpasagnaverðlaunin, fyrir Mýrina 2002 og aftur ári síðar fyrir Grafarþögn. Hann fékk Gullna rýtinginn 2005, verðlaun samtaka breskra glæpasagnahöfunda, fyrir þýðingu Bernards Scudders á Grafarþögn, Silence of the Grave. Þá hefur Arnaldur hlotið styrki frá Kvikmyndasjóði Íslands til að skrifa kvikmyndahandrit upp úr bókunum Dauðarósum og Napóleonsskjölunum. Kvikmynd byggð á Mýrinni, í leikstjórn Baltasars Kormáks, var frumsýnd 2006. Hann hreppti Blóðdropann, íslensku glæpasagnaverðlaunin, fyrir Harðskafa (2007) og var þar með tilnefndur í þriðja sinn til Glerlykilsins, Norrænu glæpasagnaverðlaunanna.

Arnaldur býr í Reykjavík. Kona hans er Anna Fjeldsted og eiga þau þrjú börn.

Forlag: Vaka-Helgafell.

Mynd af höfundi: Einar Falur Ingólfsson.

Pistill frá Arnaldi Indriðasyni

Fyrsta spennusagan sem kom út eftir mig var Synir duftsins árið 1997 en síðan hef ég sent frá mér eina á ári, Dauðarósir 1998, Napoleónsskjölin 1999 og núna fyrir síðustu jól Mýrina. Napoleónsskjölin skera sig talsvert úr hinum bókunum þremur vegna þess að hún er ekki löggusaga eins og þær heldur söguleg og alþjóðleg spennusaga sem gerist í síðari heimsstyrjöldinni að hluta en þó mest í samtímanum. Hinar sögurnar eru svokallaðar lögreglusögur eða morðsögur. Þær segja frá hópi lögreglumanna sem fá sífellt ný mál inn á borð til sín og leysa úr þeim í bókarlok.

Ég er iðulega spurður að því hvort hægt sé að skrifa spennusögur á Íslandi. Ég hef skrifað fjórar og er að vinna við þá fimmtu svo ég verð að svara þessu játandi en spurningin á fullkomlega rétt á sér: Er Ísland nógu góður eða æskilegur vettvangur fyrir spennusögur? Er það ekki hlægilegt að ætla íslenskum lesendum að þykja trúverðugt allt það sem gerist í íslenskum sakamálasögum? Geta rannsóknarlögreglumenn sem heita eitthvað eins og Erlendur Sveinsson eða Sigurður Óli einhvern tíma keppt á jafnréttisgrundvelli við stjörnur eins og Morse og Taggart og Dalglish eða hvað þær nú heita allar löggurnar í bresku sakamálasögunum og við þekkjum svo vel úr sjónvarpinu? Hvað þá ofurstjörnur eins og Bruce Willis og Arnold Schwarzenegger í hasarmyndum sínum frá Hollywood?

Ég skil ekki hvers vegna Íslendingar ættu ekki að geta skrifað spennusögur eins og aðrar þjóðir. Sakamála- og spennusögur njóta hvarvetna annarstaðar mikilla vinsælda og það sem kannski meira er og furðulegra fyrir okkur sem fáumst við þetta hér heima, njóta virðingar bókmenntasamfélagsins. Mjög rík hefð er auðvitað fyrir slíkum sögum í Bretlandi, föðurlandi Sherlock Holmes og Agatha Christie, og í Bandaríkjunum þar sem Chandler og Hammett urðu til fyrir mannsaldri og á Norðurlöndunum hefur skapast mjög skemmtileg hefð í gegnum áratugi en líklega þekkjum við hér á Íslandi best sögur sænsku höfundanna Sjöwall og Wahlöö, sem allar voru gefnar út á íslensku. Þau skrifuðu bækur sínar ekki síst undir áhrifum frá bandarískum lögreglusagnahöfundi sem heitir Ed McBain, sem er einn af höfuðpostulum sakamálasögunnar vestra.

Saga íslenskra sakamálasagna er aftur á móti ekki mikil eða bitastæð. Á fyrrihluta síðustu aldar komu bækur á stangli sem gerðust í Reykjavík eins og Leyndardómar Reykjavíkur en bókmenntagreinin festi ekki rætur. Það voru fáir sem reyndu við hana og menn, sem voru feimnir að láta nafn sitt við slík skrif, sömdu bækur undir dulnefni. Þegar leið á öldina kom út ein og ein bók með löngu millibili sem heyrði undir sakamálasögu. Á áttunda áratugnum kom fram ungur höfundur, Gunnar Gunnarsson blaðamaður, sem fékkst við formið og hafði til hliðsjónar bækur sænsku höfundanna Sjöwall og Wahlöö. Hann skrifaði löggusögur og var aðalpersóna hans lögreglumaðurinn Margeir. Gunnar gerði um hann tvær bækur m.a. Margeir og spaugarann, en hætti svo um 1980 og hefur ekki skrifað neitt síðan af glæpasögum. Viktor Arnar Ingólfsson skrifaði Heitan snjó á níunda áratugnum og Ólafur Haukur Símonarson skrifaði stuttu seinna sína einu glæpasögu, Líkið í rauða bílnum, sem merkilegt nokk vann til verðlauna í spennusagnasamkeppni í Frakklandi. Síðan gerist ekkert fyrr en ég sendi frá mér bókina Syni duftsins árið 1997 og á sama tíma gaf Stella Blómkvist, eða höfundur sem skrifar undir því dulnefni, út Morðið í stjórnarráðinu. Þá verður nokkur vakning í gerð íslenskra spennusagna og fleiri bætast í hópinn: Viktor Arnar sendir aðra bók frá sér, Engin spor, Árni Þórarinsson skrifar Nóttin hefur þúsund augu og Hrafn Jökulsson skrifar Miklu betra en best svo nokkuð sé nefnt.

Ég held að ég hafi rambað inn á sakamálasögugerð af slysni. Það var að minnsta kosti ekki meðvituð ákvörðun og ég gerði mér ekki grein fyrir því fyrr en ég var búinn með fyrstu söguna mína að hún gæti flokkast sem spennu- eða sakamálasaga. Hún fjallar um ungan mann sem á bróður á geðsjúkrahúsi er fremur sjálfsmorð. Það er ákveðin ástæða fyrir því, sem hann leitar að bókina á enda. Tveir lögreglumenn koma honum til aðstoðar við rannsóknina og þeim tveimur hef ég síðan haldið til haga og skrifað sérstaklega um þá tvær bækur í viðbót og er nú að vinna við fjórðu bókina um þá.

Þessir lögreglumenn heita Erlendur Sveinsson og Sigurður Óli og þegar ég er spurður að því hvaða fyrirmyndir ég noti þegar ég skrifa um þá verður mér svarafátt. Það er auðvitað til eins og þið vitið mýgrútur af erlendum lögreglumönnum og spæjurum í bókmenntum, sjónvarpi og kvikmyndum og voru aðeins fáeinir þeirra nefndir hérna áðan. Mínar löggur eru án efa samdar undir einhverjum áhrifum af því sem ég hef kynnst sem neytandi sakamálasagna og -mynda; ég er kvikmyndagagnrýnandi og kvikmyndaskríbent á Morgunblaðinu og hef verið það í fjölda ára og séð meira af slíku skemmtiefni en mér er kannski hollt, auk þess sem ég nú skrifa um erlendar spennusögur í blaðið. Svo ég hef auðvitað orðið fyrir áhrifum af því sem ég þekki og sé og les en ég á erfitt með að benda, í þessu flóði öllu, á einhverjar sérstakar fyrirmyndir sem hafa haft áhrif á mig meira en aðrar þegar ég var að búa til mínar löggur.

Þótt ég geti ekki nefnt beinar eiginlegar fyrirmyndir þá hef ég á tilfinningunni að þær séu fremur íslenskar en útlenskar, fólk sem ég þekki eða hef komist í kynni við í gegnum árin. Rétt eins og sögurnar eru fyrst og fremst íslenskar, fjalla um Íslendinga, gerast í íslensku umhverfi og snúast jafnvel um það sem er efst á baugi í íslensku samfélagi hverju sinni. Að öðru leyti held ég að á margan hátt sé um klassískt löggupar að ræða í mínum sögum. Erlendur er sá eldri. Hann er gamaldags í háttum og skoðunum, ættjarðarvinur og þjóðernissinni, afturhaldssamur, einbúi sem hefur dálæti á íslenskum skáldskap, þjóðlegum fróðleik og hrakningasögum (uppáhaldsbókaflokkurinn Hrakningar og heiðavegir þar sem hann les um menn sem farast á heiðum uppi), hann á að baki vondan skilnað og börnin hans eru fjarlæg honum; hann er einmana og þunglyndur en þrjóskur þegar kemur að sakamálum og gefur sig ekki fyrr en í fulla hnefana. Sigurður Óli er algjör andstæða, nútímalegur, í hjónabandi, snyrtilega klæddur, þolir ekki að hugsa til fortíðarinnar, vill aðeins sjá fram á veginn, óþolandi smámunasamur, uppalegur og leiðinlegur. Þeir eiga fremur illa saman þessir tveir en þegar á þarf að halda kemur samvinna þeirra þeim á áfangastað.

Þeir hafa grúskað í mörgu. Þeir hafa rannsakað sjálfsmorð, íkveikjur, klónvísindi, mannshvörf, barnadauða, kvótasvindl, flóttann af landsbyggðinni, eiturlyfjasölu, stækkun Reykjavíkur, líffærastuld, gagnagrunninn, morð, þeir hafa kynnst sorginni og ástinni og dauðanum og þótt Sigurður Óli láti það ekki svo mikið á sig fá leggst hvert og eitt mál á sálina á Erlendi sem gerir hann viðskotaillan, þunglyndan og lífsleiðan. Hann tekur nærri sér það sem hann sér á götum Reykjavíkur og það sem hann verður vitni að í morðrannsóknum sínum og það mótar skapgerð hans sem verður æ stirðari. Það er í gegnum Erlend sem lesandinn upplifir sakamálin og hann á að upplifa þau, ef ég geri þetta rétt, með sama hætti og hann. Þannig er Erlendur lykilmaður í sögunum og aðalpersóna og eftir því sem sögunum fjölgar kynnast lesendur honum betur og ég sjálfur kynnist honum betur, því ég er ekki enn farinn að þekkja hann almennilega eða skilja.

Eitt veit ég þó, hann er fyrst og fremst íslenskur. Ég held að Ísland sé ekkert síðri kostur en aðrir staðir í heiminum fyrir spennu eða sakamálasögur og mér finnst eins og viðhorfið gagnvart íslenskum sakamálasögum sé að breytast. Þær eiga sér að vísu enga hefð, saga þeirra í samhengi við sögu íslenskra bókmennta, er mjög fátækleg og einstaklega slitrótt nema núna á allra síðustu árum þegar, eins og ég sagði áðan, nokkrir höfundar hafa komið fram og leyft sér að kljást af einhverju viti við Ísland sem vettvang glæpaverka. Svo er nú komið að gefnar eru út á hverju ári tvær eða fleiri íslenskar sakamálasögur sem vakið hafa athygli og jafnvel notið vinsælda. Ein skýringin á uppgangi sakamálasögunnar síðustu árin er sú að fólk er orðið ginnkeyptara fyrir Íslandi sem sögusviði slíkra sagna. Ísland hefur rofið einangrun sína sem aldrei fyrr eftir að tölvu- og sjónvarpsöld gekk í garð, netið og kvikmyndirnar, tölvuleikir, erlendar skáldsögur, bæði þýddar og á frummálinu, og auðveldari ferðamáti hefur ekki aðeins dregið okkur nær hringiðu heimsatburða heldur einnig gert Ísland að þátttakanda á fjöldamörgum sviðum tækni og viðskipta og stjórnmála.

Ég held líka að fólk vilji í æ ríkari mæli, eftir því sem framboð erlends skemmtiefnis eykst með ári hverju, sjá Ísland eða Reykjavík og Íslendinga, gegna hlutverki. Það sama á við til dæmis um kvikmyndir. Við viljum gera íslenskar kvikmyndir þótt hér flæði allt yfir af erlendu skemmtiefni vegna þess að við viljum geta samsamað okkur þeirri veröld sem við þekkjum best og því fólki og hugarfari og umhverfi sem er okkar eigið en ekki búið til af útlendingum. Viðkvæðið er að það gerist aldrei neitt hér á Íslandi sem hægt er að byggja á spennusögur eða sakamálasögur. Stórglæpir eins og morð eru fátíðir og yfirleitt framdir í ölæði þegar samkvæmi í heimahúsum taka óvænta stefnu. Það fer sjaldnast fram víðtæk leit að morðingjanum. Vitni eru fjölmörg. Ógæfumaðurinn dúsir í nokkur ár í fangelsi og er svo sleppt. Á þessu eru auðvitað undantekningar og því miður virðist sem ofbeldi færist í vöxt hér á landi og er sjónvarpi og kvikmyndum oft kennt um. En ég held að ofbeldishneigð Íslendinga eða glæpaeðli spili enga rullu þegar samdar eru sakamálasögur. Það sem skiptir höfuðmáli er hvort höfundinum takist að gera sér mat úr því umhverfi sem hann hefur að vinna úr svo það sé bæði sannferðugt og trúverðugt í augum lesandans. Þá skiptir staðsetningin ekki máli í rauninni þótt mér persónulega finnist Ísland mjög spennandi og skemmtilegur vettvangur sakamálasagna. Það sem skiptir mestu máli þegar búnar eru til sakamálasögur í hvaða landi sem er, er að þú trúir og skilur á þínum forsendum það sem gerist í sögunni, þú trúir persónum sögunnar og því sem þær gera og segja, þú trúir á þær, að þær geti verið til og fengist við þær kringumstæður sem þær eru settar í eins og morðrannsókn. Þannig er það fremur undir höfundinum komið en umhverfinu sem hann lifir í hvort honum takist að gera trúverðugar sakamálasögur. Danski rithöfundurinn Peter Høeg skrifaði fræga spennusögu, Lesið í snjóinn eða Frøken Smillas fornemmelse for sne, og hún gerist að mestu leyti á Grænlandi. Honum tókst að gera sögusviðið sannfærandi með góðu ímyndunarafli og ritleikni.

Høeg er einmitt höfundur sem vakti athygli fyrir bókmenntalega vandaða spennusögu. Hann ruglaði fólk í ríminu. Það vissi ekki almennilega hvort hann hefði skrifað reyfara eða gilt bókmenntaverk. Menn voru mjög á báðum áttum rétt eins og þegar ítalski rithöfundurinn Umberto Eco skrifaði Nafn rósarinnar fyrir eins og einum og hálfum áratug. Þar var á ferðinni morðsaga eða reyfari en hún var hnýtt inn í sögusvið og umhverfi miðaldanna og samin með þeim hætti að fremur var rætt um hana sem bókmenntaverk eða skáldsögu en reyfara. Báðir þessir menn, og fleiri, hafa gert mjög óskýrar línurnar á milli lágmenningar og hámenningar í bókmenntum, þess sem talið er ódýr skáldskapur og þess sem talið er dýrt kveðið.

Hér á landi ríkir sterk bókmenntahefð eins og við þekkjum og það hefur verið mjög litið niður á hverskonar lággróður í bókmenntaflórunni. Það er ugglaust ein ástæða þess að hérna hafa aldrei orðið til sakamálasögur og við eigum enga hefð í gerð slíkra bókmennta. Hér var allt miðað við það sem maður getur kallað hátimbraðar og vandaðar bókmenntir og krafan var alltaf sú að skrifa mikinn skáldskap. Spennu- og sakamálasögur rúmuðust greinilega ekki inni í þeirri skilgreiningu sem ríkti um hvernig íslenskar bókmenntir ættu og skyldu vera og menn voru feimnir að skrifa eitthvað sem gæti dæmst sem lággróður. Orðið afþreying og afþreyingarsögur voru ljót orð sem áttu ekkert skylt við íslenskan skáldskap. Rithöfundar auðvitað skrifuðu um glæpi í skáldsögum sínum en það urðu ekki til eiginlegar sakamálasögur. Það er í rauninni ekki fyrr en á allra síðustu árum sem menn byrja að þora að þreifa sig í átt að þeim. Nýir höfundar koma til sögu, lesendur taka við sér þegar þeir sjá að þetta er ekkert hættulegt og ekki má gleyma því að útgefendur sýna spennusögunum æ meiri áhuga og ég held beinlínis að þeir séu farnir að sækjast eftir þeim til útgáfu nú um stundir.

Þeir vita að það er ekkert sem segir að góð sakamálasaga geti ekki líka verið góður skáldskapur og meiri og betri bókmenntir en það sem kallaðar eru vandaðar skáldsögur. Vönduð sakamálasaga getur verið vönduð skáldsaga og ég held að þegar frá líður muni þetta verða viðurkennt. Bókmenntagreinin, það er íslenska sakamálasagan, er mjög ung að árum og hefur í raun ekki enn slitið barnskónum en ef hún fær tækifæri til þess að dafna og menn halda áfram að semja spennusögur, þá eigum við eftir að viðurkenna þær hinar bestu sem raunverulegar bókmenntir og skemmtilega viðbót við íslenska skáldsagnaritun.

Eina krafan sem ég held að við getum gert til skáldverks er nefnilega sú að það sé skemmtilegt og spennandi og þannig úr garði að við nennum að lesa það og að það segi okkur eitthvað nýtt um okkur sjálf, varpi nýju ljósi á líf okkar og tilveru. Að mínu viti eru allar skáldsögur afþreyingarsögur. Þá skiptir ekki máli hvort til dæmis um eiginlega spennusögu sé að ræða eða hátimbraðar bókmenntir; sama reglan gildir um hvort tveggja. Að því leyti held ég að línurnar á milli fagurbókmennta og afþreyingar séu ekki eins skýrar og þær voru. Fagurbókmenntir eru afþreying og afþreyingu er að finna í fagurbókmenntum og þetta skarast að miklu leyti í þeim bókum sem skrifaðar eru í dag.

Ég vona að sakamálasagan festi rætur í íslenskum bókmenntum og verði viðurkennd sem bókmenntagrein jafnrétthá öðrum. Það er ýmislegt sem bendir til þess að svo verði. Það er kannski seint af stað farið en sennilega skiptir það ekki máli. Aðalmálið er að íslenska sakamálasagan er orðin að veruleika og verði rétt haldið á spöðunum er ég ekki í nokkrum vafa um að hún eigi eftir að dafna.

Arnaldur Indriðason, 2001.

Fagmennska í fyrirrúmi: um verk Arnaldar Indriðasonar

Það var bara heilmikill atburður í mínu lífi þegar ég fékk í hendur fyrstu skáldsögu Arnaldar Indriðasonar, Syni duftsins (1997). Í dómi fyrir Víðsjá það ár gat ég varla nógsamlega tjáð hamingju mína yfir því að almennilegar afþreyingarsögur væru loks að spretta upp á Íslandi.

Arnaldur var svosum ekki fyrstur til þess að reyna við krimma hér uppi á klaka, en á áttunda og níunda áratugnum skrifuðu bæði Gunnar Gunnarsson og Ólafur Haukur Símonarson hinar ágætustu glæpasögur, sem fengu þó lítinn hljómgrunn. En nú virðist íslenskt bókmenntasamfélag hafi þroskast og hefur lýst sig reiðubúið að meta að verðleikum góða íslenska reyfara, því Arnaldur hefur fylgt Sonum duftsins eftir með þremur gæðakrimmum, hver öðrum betri.

Það sem vakti strax athygli og ánægju mína varðandi sögu Arnaldar er hversu vel honum tekst að skrifa hana á sannfærandi hátt inn í íslenskt samfélag, sem, eins og Arnaldur bendir sjálfur á í bókinni, er ekki beint glæpasöguvænt því íslensk glæpamál eru yfirleitt: ’Ömurlega óspennandi mál. Íslenskir glæpamenn voru yfirhöfuð afar ómerkilegir’, eins og segir á einum stað. Þrátt fyrir þessa fötlun skapar Arnaldur hér trúverðugan söguþráð, sem hann spinnur vel úr íslenskum veruleika í bland við bandarískar bókmenntir. Íslenskar ljóðlínur Einars Ben. renna inn í hátækni nútímans, enda er aðalillmennið stórhugi líkt og Einar Ben.

Sagan er á allan hátt hefðbundin í byggingu og fylgir formúlu þessarar bókmenntategundar út í ystu æsar. Bækur Arnaldar sverja sig mest í ætt við norræna krimma, og er ekki leiðum að líkjast, því norrænir krimmar hafa verið í mikilli sókn á undanförnum árum. Norræni krimminn hallast nokkuð að félagslegu raunsæi, hann er pólitískur og inn í sögurnar fléttast iðulega ýmis mál sem eru ofarlega á baugi í það og það skiptið. Þannig eru sögur Arnaldar mjög miklar samtímasögur að því leyti sem hann tekur markvisst fyrir hin ólíklegustu þjóðfélagsmál. Formúla sú er Arnaldur fylgir byggist fyrst og fremst á hinu klassíska löggupari, annar er yfirmaðurinn, gamall í hettunni, þreyttur og bitur, ómenntaður og keyrir oftar en ekki á innsæinu. Hinn er yngri og ferskari, hvatvís og vel menntaður og máli farinn. Hann vill fara eftir reglunum og er afskaplega framagjarn. Þrátt fyrir að ég hafi nefnt hér til sögunnar norræna krimma, þá er pörun af þessu tagi alþjóðlegt fyrirbæri, og það er frekar tónninn sem sver sig í ætt við norrænuna.

Söguþráður Sona duftsins er á þessa leið: Gamall kennari er brenndur inni á sama tíma og einn fyrrverandi nemandi hans fremur sjálfsmorð á stofnun fyrir geðsjúka. Það verður fljótlega ljóst að málin eru skyld og rannsóknarlögreglumennirnir Erlendur og Sigurður Óli sem rannsaka mál kennarans og bróðir hins geðsjúka komast, hver með sínum hætti, að lausn málsins. Þó ég segi að sagan sé hefðbundin í byggingu, þá er hér ekki á ferðinni neitt gamaldags stykki, því Arnaldur rennir sér beinustu leið inn í alnýjustu tískuna í krimmum, sem einkennist af blöndun þátta úr hrollvekju og glæpasögu. Geðveiki vísindamaðurinn sem tilheyrt hefur hrollvekjunni síðan Mary Shelley og Frankenstein skópu sitt skrýmsl árið 1818 er orðinn æ handgengari krimmanum, eftir því sem glæpir hafa breyst og tengjast nú nýjustu tækni og vísindum, en ekki bara ránum og launmorðum. Kvikmyndaþekkingin leynir sér ekki, en slík blanda tegunda eða greina afþreyingarinnar er orðin æ algengari í bókmenntum og kvikmyndum. Kvikmyndin á líka annan þátt í að aðstoða Arnald við verkefni sitt, því trúverðugleiki sagna hans – og annarra íslenskra glæpasagnahöfunda – er að hluta til sprottinn af því að heimur glæpasögunnar er orðinn lesendum nákunnugur vegna gríðarlegs kvikmyndaáhorfs, og því ásættanlegri en annars. Kemur þar líka til aukinn fréttaflutningur utan úr heimi, bæði hvað varðar glæpi og nýjustu tækni og vísindi.

Önnur bók Arnaldar er Dauðarósir (1998). Lögguparið Erlendur og Sigurður Óli úr fyrri bókinni eru hér enn á ferð, og líkt og fyrri bókin sver þessi sig í ætt við norræna krimma, með tilheyrandi félagslegu raunsæi og þjóðfélagsgagnrýni. Plottið hefst á þann frumlega hátt að stúlkulík finnst við gröf Jóns Sigurðssonar. Nafn hennar er óþekkt og það er greinilegt að hún tilheyrir undirheimum Reykjavíkur. Leitin færist vestur á firði þarsem bakgrunnur stúlkunnar kemur í ljós en svo leynist lausnin á gátunni í Reykjavík með tilheyrandi flækjum. Inn í söguna blandar Arnaldur vangaveltum um stöðu sjávarútvegsins, sérstaklega með tilliti til kvótakerfisins, og skapar úr þessu öllu hið ágætasta samsærisplott. Í heildina er þó sagan veikari en Synir Duftsins, og vantar nokkuð upp á þann slagkraft sem sú saga hefur, kannski fyrst og fremst vegna þess að mesta nýjabrumið er nú farið af, og hin hefðbundna nálgun Arnaldar á glæpasöguformið virkar næstum óþarflega hefðbundin. Hinsvegar má með réttu segja að þessi hefðbundna nálgun sé nauðsynlegur upphafsreitur í hinni barnungu sögu íslenskra krimma, að það verði að fara í gegnum hið hefðbundna form áður en sjálfstæð úrvinnsla getur hafist. Íslenskir glæpasagnahöfundar hafa litla sem enga hefð að glíma við, utan nokkra lítt þekkta titla frá fyrri hluta aldarinnar.

Þar fyrir utan má ekki gleyma því að það er ákveðin list að skrifa innan formúlu glæpasögunnar, list sem má ekki vanmeta. Afþreyingarbókmenntaform eru iðulega fordæmd á þeim forsendum að þau byggi á formúlum, og matið á slíkum verkum hefur tilhneygingu til að fá skjóta afgreiðslu: hér er á ferðinni enn ein formúlan. En formúlurnar sjálfar eru merkingarbærar, auk þess sem mikil merking felst í endurtekningarferlinu, svo og fyrirkomulagi þátta innan formúlu. Þannig getur merking verks gerbreyst bara fyrir tilstilli örlítilla tilbrigða við formúluna, en þessi merking er lokuð bók þeim sem hafna formúlunni sem merkingarbærri. Svo má ekki gleyma því að hugmyndir okkar um frumleika eru tiltölulega nýjar af nálinni, rétt tveggja alda gamlar, og að fram til þess tíma þótti ekkert listaverk efniviðarins virði nema það fylgdi ákveðinni formúlu. Formúla glæpasögunnar er í föstum skorðum og hvílir á ákveðnum grundvallarþáttum sem verða að vera til staðar ef vel á að takast til. Slík formúla er ekki bara spurning um tækni, heldur krefst hún líka innsæis og ríkrar þekkingar. Bygging glæpasögu er mjög vandasamt ferli og það að skila af sér góðri formúlusögu er meira en margur höfundurinn getur státað af.

Í þriðju bók sinni tók Arnaldur sér hlé frá hinni hefðbundnu krimmaformúlu og tókst á við aðra, formúlu spennusögunnar, eða þrillersins. Napóleonsskjölin (1999) tekur upp umræðuna um veru hersins á Íslandi og tímarammi sögunnar nær allt aftur til seinni heimsstyrjaldarinnar. Að þessu sinni er það ung kona, Kristín, sem er aðalhetja sögunnar, en hún lendir óvænt í miðju dramatískra atburða. Bróðir hennar er á ferð um Vatnajökul á björgunarsveitaræfingu og kemur að þarsem bandarískir hermenn eru að grafa flugvél upp úr ísnum. Hann hringir í hana úr farsíma sínum en er síðan tekinn höndum. Aðgerðin reynist háleynileg og því eru útsendarar gerðir út til að þagga niður í systurinni. Plottið er hágæðasamsærisplott sem minnir á köflum á Ráðgátur (X-Files), kryddað með hæfilegum skammti af rómantík, og Arnaldur fléttar inn í sögu sína ákaflega skemmtilega samsæriskenningu um tunglæfingar bandaríkjahers hér á landi árið 1968, sem samkvæmt skáldsögunni voru einungis til að hylma yfir fyrri björgunartilraun á sömu flugvél! Allavega get ég ekki lengur heyrt talað um þær frægu æfingar án þess að detta Napóleonsskjölin í hug og glotta með sjálfri mér. Ekki vakti það síður lukku þegar lögguparið úr hinum bókunum tveimur birtist örstutt í svokölluðu ’kameói’, en þeir Erlendur og Sigurður Óli eru kallaðir á staðinn þegar látinn maður með skotsár á enninu finnst í íbúð Kristínar. Það eru einmitt svona vísanir sem sýna að bókmenntategundin er að festa sig í sessi.

Arnaldi tekst sérlega vel upp í þessari bók, stíllinn er liprari en áður og tónninn léttari, sagan rennur ljúflega og er æsispennandi. Með Napóleonsskjölunum sannaði hann að hann hefur náð tökum á bæði stíl og formi sem færir þennan hugmyndaheim á sannfærandi hátt inn í íslenskt samfélag.

Árið 2000 varð sá merkisatburður að í viku bókarinnar, hjá bókmenntaþjóðinni sjálfri, var raðglæpasaga valin sem gjöf bókaútgefenda til viðskiptavina sinna. Nokkrir krimmahöfundar tóku sig saman um að skrifa bókina Leyndardómar Reykjavíkur 2000, einn kafla hver. Þrátt fyrir að vera nokkuð hrá og óregluleg í laginu, er sagan ákaflega góð niðurstaða af þessari nýju glæpasagnahrinu og það er hreint ótrúlegt að á aðeins þremur árum hafi myndast grundvöllur fyrir bók af þessu tagi. Frásagnargleðin leynir sér ekki, auk þess sem höfundarnir taka sig allir hæfilega alvarlega. Það er ákaflega ánægjulegt að sjá hvernig þessir ólíku höfundar ná að samhæfa sig og stilla sig saman, jafnframt því að halda eigin sérkennum. Ekki var það síður mikil hamingja að komast loksins aftur í glæpatexta eftir brautryðjandann Gunnar Gunnarsson í samvinnu við foringja Hins Íslenska Glæpafélags, Kristinn Kristjánsson.

Arnaldur á að sjálfsögðu kafla í bókinni og sýnir glæsilega takta í meðförum sínum á harðsoðna krimmanum, og er greinilegt að hann er fullfær um að takast einnig á við það form glæpasögunnar.

Leyndardómarnir urðu vonandi til þess að almenningur kynntist þessum höfundum betur og gæti tekið hina íslensku glæpasögu upp á sína arma, en vinsældir íslensku glæpasagnanna sem út komu fyrir jólin 2000 eru reyndar gott dæmi um hversu vel íslenska glæpasagan er komin á veg.
Þess má geta að framtak bókaútgefanda í viku bókarinnar 2000 var ekki eina dæmið um velvilja til handa glæpasögunni. Borgarbókasafn Reykjavíkur lagði sitt af mörkum með samkeppni um endi á glæpasögu Steinunnar Sigurðardóttur.

Með fjórðu skáldsögu sinni Mýrinni (2000) festi Arnaldur sig svo endanlega fest í sessi sem besti glæpasagnahöfundur Íslands. Allt fellur fimlega saman í þessari skemmtilegu og flottu sögu af dularfullu morði í kjallara í Norðurmýrinni. Erlendur og Sigurður Óli eru mættir til leiks á ný og í fyrstu virðist þeim morðið á einfaranum í kjallaraíbúðinni óskiljanlegt, sérstaklega með tilliti til þess að dularfull skilaboð sem skilin eru eftir á miða í íbúðinni virðast ekki hafa neina merkingu. En innsæi gamla skröggs lætur ekki að sér hæða og þrátt fyrir að rannsóknin leiði hann á óhefðbundnar slóðir, þá verður það fljótlega ljóst að málið er langt því frá einfalt. Eins og áður fléttast mál sem efst eru á baugi á ritunartíma sögunnar inn í hana, en hér fer Arnaldur aftur á svipaðar slóðir og í fyrstu sögunni með umræðu um líftækni og erfðavísindi.

Það sem kannski skiptir sköpum varðandi gæði þessarar nýjustu sögu er áframhaldandi vinna með lögregluhópinn sem að rannsókninni stendur. Það er sérlega skemmtilegt að fá að fylgja þessum persónum eftir frá bók til bókar, en þróun og líf aðalsöguhetjanna er oft það sem gefur glæpasöguseríum líf. Aðalsöguhetjan, löggan, einkaspæjarinn, eða hver sá sem óvænt lendir í hlutverki spæjarans, er oft og iðulega drifkrafturinn sem heldur seríunni gangandi. Því þarf persóna hans að vera áhugaverð, og gott jafnvægi verður að vera á milli ákveðins stöðugleika og ákveðinnar þróunar, eða tilbreytingar. Lesandinn vill fá gamla góða spæjarann sinn aftur, en hann vill líka halda áfram að kynnast honum, barasta eins og góðum vini, kynnast nýjum hliðum á honum og uppgötva meira og meira um hans fyrra og innra líf. Og ekki bara aðalhetjunni, heldur og samstarfsfólki hans og aðstandendum, því allt skiptir þetta jú máli þegar kynnast á persónu. Úrvinnslan á þessum persónulega þætti er iðulega lykillinn að langlífi glæpasagnasería af þessu tagi.

Það er einmitt þessi áhersla á úrvinnslu úr og vinnu með formúlu sem hefur fengið aukið vægi og meiri viðurkenningu í bókmennta og menningarumræðu undanfarinna áratuga. Með tilkomu míns uppáhalds glæpafélaga, póstmódernismans, hefur vegur afþreyingarmenningar erlendis aukist til muna og umfjöllunin um hana batnað. Þetta kemur meðal annars til af því að höfundar svokallaðra fagurbókmennta hafa verið að uppgötva glæpasöguna og nýta sér möguleika hennar til frásagnar og framvindu. Með þessu hafa fagurbókmenntahöfundar ekki aðeins loksins fundið leið til að smygla sér inn á metsölulista, heldur hafa þeir verið að læra af glæpasögunni, hreinlega hvernig segja á sögu. Glæpasagan temur sér agað og hnitmiðað tungumál, þar sem ýmsar vísbendingar eru stöðugt gefnar um framgang mála og yfirvofandi lausn, og síðast en ekki síst er hún leið til að koma ýmsum þjóðfélagsmálum á framfæri án þess að umræðan taki á sig yfirbragð áróðurs. Því glæpasagan hefur í gegnum tíðina verið hið ágætasta verkfæri til að segja svo miklu meira en söguna af glæpnum: hún dregur upp mynd af samfélagi ekki síður en einstaklingum og eðli málsins samkvæmt dregur rannsóknin fram í dagsljósið hina ólíklegustu hluti. Sögur Arnaldar eru einmitt góð dæmi um hvernig nota má glæpasöguna til að fjalla um og greina samfélagsástand.

Grafarþögn (2001) er einmitt glæpasaga sem tekur á ólíkum og erfiðum samfélagsmálum. Sagan gerist á tveimur tímaplönum, annarsvegar er nútíminn sem lýsir óvæntum beinafundi í húsgrunni uppí Grafarholti. Erlendur og Sigurður Óli eru hér enn á ferð og kanna hvernig þessi óhefðbundna greftrun kom til. Hinsvegar fylgjum við sögu sem gerist á stríðsárunum og lýsir grófu heimilisofbeldi og eymd. Inn í þetta fléttast svo enn annar söguþráður sem gerir það að verkum að þrátt fyrir að lesandann gruni að beinin tengist stríðsárasögunni, þá getur hann ekki verið viss. Verulega flott saga, og ég verð að fá að hæla Arnaldi sérstaklega fyrir byrjun sem rokkar: en upphafsatriðið lýsir því hvernig ungur læknanemi uppgötvar að leikfang ungbarns, sem það sýgur og nagar, er mannabein.

Árið 2002 hlaut Arnaldur Glerlykilinn fyrir skáldsöguna Mýrina, en Glerlykillinn er veittur fyrir bestu norrænu glæpasöguna. Með þessu staðfesti Arnaldur ekki aðeins stöðu sína innan íslenskra glæpasagna, heldur og sýndi að sögur hans eru samkeppnishæfar á alþjóðavettvangi.

© Úlfhildur Dagsdóttir 2001.

Verðlaun

2015 - Chevalier des Arts et des Lettres, riddaraorða franska menningarráðuneytisins fyrir framlag til franskrar menningar

2009 – Heiðursverðlaun Finnska glæpasagnafélagsins (Suomen dekkariseura ry).

2009 – The Barry Award, bresk glæpasagnaverðlaun: The Draining Lake (Kleifarvatn). Sem besta glæpasagan.

2008 – Blóðdropinn, glæpasagnaverðlaun Hins íslenska glæpafélags: Harðskafi

2008 – Le Prix du Polar Européen, bókmenntaverðlaun franska tímaritsins Le Point: L’homme du lac (Kleifarvatn)

2007 – Grand Prix des Lectrice de Elle í Frakklandi: La Femme en vert (Grafarþögn í þýðingu Eric Boury)

2006 – Ouessant bókmenntaverðlaunin í Frakklandi: La Femme en vert (Grafarþögn, í þýðingu Eric Boury).

2006 – Le Prix Mystère de la Critique: bókmenntaverðlaunin í Frakkalandi La Cité des Jarres (Mýrin, í þýðingu Eric Boury). Í flokki þýddra glæpasagna.

2006 – Coeur Noir (Svarta hjartað) bókmenntaverðlaunin í Frakklandi: La Cité des Jarres (Mýrin, í þýðingu Eric Boury). Sem besta þýdda glæpasagan.

2005 – Martin Beck verðlaunin: Ängelrösten (Röddin, í þýðingu Ylfu Hellerud). Sem besta þýdda glæpasagan í Svíþjóð.

2005 – The Golden Dagger: Silence of the Grave (Grafarþögn, í þýðingu Bernards Scudders)

2003 – Sænsku Caliber-verðlaunin fyrir bestu glæpasöguna: Glasbruket (Mýrin)

2003 – Skandinaviska Kriminalselskabet – Glerlykillinn: Grafarþögn

2002 – Skandinaviska Kriminalselskabet – Glerlykillinn: Mýrin

Tilnefningar

2010 – Martin Beck verðlaunin í Svíþjóð: Mörka strömmar (Myrká). Sem besta þýdda glæpasagan.

2010 – CWA International Dagger: Hypothermia (Harðskafi)

2009 – CWA International Dagger: Arctic Chill (Vetrarborgin í þýðingu Bernards Scudders og Victoriu Cribb)

2009 – Macavity Award (Mystery Readers International): The Draining Lake (Kleifarvatn í þýðingu Bernards Scudders)

2008 – Skandinaviska Kriminalselskabet – Glerlykillinn: Harðskafi

2007 – Martin Beck verðlaunin í Svíþjóð: Vinterstaden (Vetrarborgin). Sem besta þýdda glæpasagan.

2007 – Bókmenntaverðlaun starfsfólks bókabúða: Harðskafi

2006 – Bandarísku Gumshoe verðlaunin, sem besta evrópska glæpasagan útgefin í Bandaríkjunum það ár: Jar City (Mýrin)

2006 – Írsku IMPAC bókmenntaverðlaunin: Jar City (Mýrin)

2005 – The CWA Gold and Silver Daggers For Fiction (bresk glæpasagnaverðlaun; Crime Writers´ Association): Silence of the Grave (Grafarþögn)

2004 – Íslensku bókmenntaverðlaunin: Kleifarvatn

2004 – Martin Beck verðlaunin í Svíþjóð: Kvinna i grönt (Grafarþögn). Sem besta þýdda glæpasagan

2003 – Martin Beck verðlaunin: Glasbruket (Mýrin). Sem besta þýdda glæpasagan

2001 – Bókmenntaverðlaun starfsfólks bókabúða: Grafarþögn

2001Menningarverðlaun DV í bókmenntum: Mýrin

Almenn umfjöllun

Ásta Gísladóttir: „Á slóð glæpa í Arnaldarrútu“
Spássían 2011, 2. árg., sumar, bls. 47.

Jón Knútur Ásmundsson: „Arnaldur er stórt fyrirtæki“
Frjáls verslun, 67. árg., 10. tbl. 2005, s. 58-59.

Katrín Jakobsdóttir: Glæpurinn sem ekki fannst : Saga og þróun íslenskra glæpasagna.
Reykjavík: Bókmenntafræðistofnun Háskóla Íslands, 2001

Katrín Jakobsdóttir: „Merkingarlausir Íslendingar: um samfélag og þjóðerni í sögum Arnaldar Indriðasonar.“
Skírnir, 179. árg. (vor) 2005, s. 141-159.

Kristín Árnadóttir: „Hverra manna er Erlendur? : Sögur Arnaldar Indriðasonar um Erlend Sveinsson og tengsl þeirra við sænsku raunsæissakamálasöguna“
Tímarit Máls og menningar, 64. árg., 1. tbl. 2003, s. 50-56.

Úlfhildur Dagsdóttir: „Codus criminalus: mannshvörf og glæpir“
Tímarit Máls og menningar 2011, 72. árg., 3. tbl. bls. 51-66.

Um einstök verk

Bettý

Úlfhildur Dagsdóttir: „Háskakvendi á norðurslóðum“
Bókmenntavefurinn, umfjöllun um bækur, sjá hér

Kleifarvatn

Gunnþórunn Guðmundsdóttir: „Söknuður“
Bókmenntavefurinn, umfjöllun um bækur, sjá hér

Katrín Jakobsdóttir: „Leyndarmál úr djúpinu“
Tímarit Máls og menningar, 66. árg., 3. tbl. 2005, s. 113-116.

Konungsbók

Úlfhildur Dagsdóttir: „Handritin heim“
Bókmenntavefurinn, umfjöllun um bækur, sjá hér

Myrká

Úlfhildur Dagsdóttir: „... þarna er efinn“
Bókmenntavefurinn, umfjöllun um bækur, sjá hér

Mýrin

Helen Sigurdson: „Tainted blood: by Arnaldur Indriðason“ (ritdómur)
The Icelandic Canadian 2006, 60. árg., 1. tbl. bls. 40-1.

Vetrarborgin

Gunnþórunn Guðmundsdóttir: „Napur vindur sem hvín ...“
Bókmenntavefurinn, umfjöllun um bækur, sjá hér

Greinar og viðtöl við Arnald Indriðason auk ritdóma um bækur hans, hafa einnig birst í dagblöðum. Sjá til dæmis Gagnasafn Morgunblaðsins

Einvígið
Year:
2011
Publisher:
Category:
Year:
2004
Publisher:
Category:
Year:
2005
Publisher:
Category:
Year:
2010
Publisher:
Category:
Year:
2001
Category:
Year:
2006
Publisher:
Category:
Year:
2000
Publisher:
Category:
Year:
2001
Publisher:
Category:
Year:
2000
Publisher:
Category:
Year:
2001
Publisher:
Category:
Year:
1999
Publisher:
Category:
Year:
2003
Publisher:
Category:
Year:
1998
Publisher:
Category:
Einvígið
Year:
2011
Publisher:
Category:
Year:
2010
Publisher:
Category:
Year:
2001
Publisher:
Category:
Year:
2007
Publisher:
Category:
Year:
2014
Publisher:
Category:
Year:
2004
Publisher:
Category:
Year:
2006
Publisher:
Category:
Year:
2000
Publisher:
Category:
Year:
2008
Publisher:
Category:
Year:
1999
Publisher:
Category:
Petsamo eftir Arnald Indriðason
Year:
2016
Publisher:
Category:
Year:
2012
Publisher:
Category:
Year:
2002
Publisher:
Category:
Year:
2013
Publisher:
Category:
Year:
2009
Publisher:
Category:
Year:
1997
Publisher:
Category:
Year:
2005
Publisher:
Category:
Year:
2015
Publisher:
Category:
Year:
2008
Publisher:
Year:
2011
Publisher:
Year:
2003
Publisher:
Year:
2006
Publisher:
Year:
2004
Publisher:
Year:
2008
Publisher:
Year:
0
Publisher:
Year:
2010
Publisher:
Year:
2011
Publisher:
Year:
2005
Publisher:
Year:
2005
Publisher:
Year:
2007
Publisher:
Year:
2006
Publisher:
Year:
2011
Publisher:
Year:
2011
Publisher:
Year:
2005
Publisher:
Year:
2006
Year:
2005
Publisher:
Year:
2004
Publisher:
Year:
2007
Publisher:
Year:
2008
Publisher:
Year:
2010
Publisher:
Year:
2009
Publisher:
Year:
2011
Publisher:
Year:
2010
Publisher:
Year:
2010
Publisher:
Year:
2010
Publisher:
Year:
2010
Publisher:
Year:
2007
Publisher:
Year:
2011
Publisher:
Year:
2011
Publisher:
Year:
2009
Publisher:
Year:
2009
Publisher:
Year:
2005
Publisher:
Year:
2012
Publisher:
Year:
2012
Publisher:
Year:
2011
Publisher:
Year:
2004
Publisher:
Year:
2006
Publisher:
Year:
2013
Publisher:
Year:
2007
Publisher:
Year:
2008
Publisher:
Year:
2009
Publisher:
Year:
2005
Publisher:
Year:
2013
Publisher:
Year:
2009
Publisher:
Year:
2003
Publisher:
Year:
2004
Publisher:
Year:
2006
Publisher:
Year:
2011
Publisher:
Year:
2007
Publisher:
Year:
2011
Publisher:
Year:
2012
Publisher:
Year:
2009
Publisher:
Year:
2010
Publisher:
Year:
2006
Publisher:
Year:
2011
Publisher:
Year:
2007
Year:
2009
Publisher:
Year:
2013
Publisher:
Year:
2013
Publisher:
Year:
2007
Publisher:
Year:
2007
Publisher:
Year:
2008
Publisher:
Year:
2007
Publisher:
Year:
2011
Publisher:
Year:
2011
Publisher:
Year:
2013
Publisher:
Year:
0
Publisher:
Year:
2010
Publisher:
Year:
2007
Publisher:
Year:
2005
Publisher:
Year:
2009
Year:
2006
Publisher:
Year:
2005
Publisher:
Year:
2003
Publisher:
Year:
2004
Publisher:
Year:
2008
Publisher:
Year:
2005
Publisher:
Year:
2006
Publisher:
Ár:
2011
Útgefandi:
Ár:
2011
Útgefandi:
Ár:
2011
Útgefandi:
Ár:
2005
Útgefandi:
Ár:
2008
Útgefandi:
Ár:
2003
Útgefandi:
Flokkur:
Ár:
2011
Útgefandi:
Ár:
2011
Útgefandi:

Skák hefur löngum verið rithöfundum frjó uppspretta ýmiskonar táknrænna vangaveltna um mannlega tilveru og örlög. Leikurinn býr enda yfir ákaflega táknfræðilegu mynstri sem gefur Tarotspilum ekkert eftir, ef út í það væri farið. Heimsmeistaraeinvígið sem háð var í Reykjavík árið 1972 öðlaðist svo aukinn táknrænan slagkraft í krafti fulltrúa sinna, skákmannanna Boris Spassky og Bobby Fischer, en heimsmeistarinn Spassky var Rússi og áskorandinn Fischer Kani. Kalda stríðið teiknaðist því upp á taflborðinu með tilheyrandi hysteríu frakkaklæddra karla.

Bettý eftir Arnald Indriðason

Þær glæpasögur sem hvað mest hafa verið áberandi hér á landi eru lögreglusögur, sem sverja sig nokkuð í ætt við norrænar sakamálasögur, og einkennast af ákveðnu félagsraunsæi í bland við samfélagslýsingar. Þessar sögur eru yfirleitt knúnar áfram af rannsóknarlögreglumönnum eða álíka fulltrúum yfirvalda, yfir þeim er ákveðið rólyndisyfirbragð, þó vissulega þurfi alltaf að halda athygli lesandans og tryggja forvitni hans. Arnaldur Indriðason er þekktastur fyrir slíkar sögur, en Viktor Arnar Ingólfsson og Ævar Örn Jósepsson hafa einnig skrifað í þessum anda.

Konungsbók Arnaldar Indriðasonar er ólík fyrri bókum hans um margt. Í fyrsta lagi er lögguteymið, Erlendur, Sigurður Óli og Elínborg, víðsfjarri.
Það er ekki úr vegi að lesendur skelli Megasi á fóninn og hlusti á lagið góða „Reykjavíkurnætur“. Reykjavíkurnætur Arnaldar Indriðasonar eru ekki ósvipaðar Megasar, nema bara aðeins ítarlegri. Rónar koma við sögu, drykkjulæti um nætur og svo auðvitað lögreglan. Sjálfur er Erlendur Sveinsson, sem þarna birtist sem ungur maður, dálítið eins og týndi drengurinn í texta Megasar, enda fyrsta kynslóð á mölinni. Og svo má ekki gleyma sjálfum glæpnum: „Það er einhver úti í nóttinni / sem gröfina sína grefur“.
Eins og svo oft í verkum Arnaldar Indriðasonar eru í nýjustu skáldsögu hans, Skuggasundi, fléttaðir saman glæpir úr samtíð og fortíð. Tvær rannsóknir frá mismunandi tímum fara af stað sem elta svo skottið hvor á annarri. Þessi uppbygging minnir til að mynda á Mýrina, en Skuggasund á það einnig sameiginlegt með henni, eins og mörgum öðrum verkum Arnaldar, að hér er sögð Reykjavíkursaga. Eitt hverfi verður miðpunkturinn, ekki Norðurmýrin í þetta sinn, heldur álíka vanrækt hverfi, Skuggahverfið.

 

Kápuhönnunin á nýjustu glæpasögu Arnaldar Indriðasonar er sérlega vel heppnuð. Bátur siglir á bláum vatnsfleti og undir honum, í dökkblárra dýpinu djarfar fyrir öðru farartæki. Titill bókarinnar, Harðskafi, marar með rauðu nokkuð flúruðu letri á milli þessara, rétt fyrir neðan miðju, efst er nafn höfundar ritað einföldum hvítum stöfum. Harðskafi er nafn á fjalli en undir því týndist bróðir rannsóknarlögreglumannsins Erlendar Sveinssonar, í snjóbyl þegar báðir voru ungir drengir.

 

Kleifarvatn eftir Arnald Indriðason

Kleifarvatn hefur beðið í aldir eftir Arnaldi Indriðasyni. Þetta dularfulla vatn sem kemur og fer í sinni undarlegu auðn á ekkert minna skilið en hæfileika Arnaldar til að skapa því viðeigandi andrúm ógnar og trega. Rétt eins og Norðurmýrin, sem verður aldrei söm í huga þessa lesanda, er Kleifarvatn orðið að bókmenntum. Erlendur, Elínborg og Sigurður Óli eru mætt enn á ný og eru í góðu formi. Arnaldur heldur áfram að fylla upp í karakterana, þróa þeirra sögu og gott ef þau hafa bara ekki nokkuð þroskast og lært sitthvað af fyrri reynslu.

Vetrarborgin eftir Arnald Indriðason

Það er kaldranalegt um að litast í blokkarhverfi Vetrarborgarinnar, nýjustu bókar gullrýtingsvinningshafans; hér geisar reykvískur vetur eins og hann gerist hrollkaldastur. Vetur sem virðist óendanlegur og hvað eftir annað kviknuðu í huga þessa lesanda myndir af köldum vetrardögum, ísilögð plön kringum blokkir í asahláku, myrkri, roki og kulda og hvergi skjól að fá. Við þennan vetur kljást góðkunningjar lesenda Arnaldar, þau Erlendur, Sigurður Óli og Elínborg, þetta pottþétta glæpasagnateymi leiðir okkur örugglega gegnum fléttu bókarinnar.

Það er eitthvað svolítið viðkvæmnislegur blær yfir sögu Arnaldar Indriðasonar að þessu sinni. Ekki þó á þann hátt að sagan sé ljúf eða blíð; Myrká er, eins og nafnið gefur til kynna drungaleg og grimm glæpasaga. Það er frekar nálgun höfundar og byggingin öll sem virkar viðkvæm, næstum á mörkum þess að sundrast - en gerir það þó einmitt ekki. Þetta kemur meðal annars fram í því að hér tekur Arnaldur smá hliðarspor, Myrká er enn eitt dæmið um hvernig þessi vinsæli höfundur er óhræddur við að feta nýjar slóðir og hætta sér jafnvel út á ystu nöf í tilraunum með form og viðfangsefni.

Svörtuloft eftir Arnald Indriðason

Kona er barin til ólífis á heimili sínu á Kleppsvegi, maður hverfur á gönguferð við Svörtuloft í þjóðgarðinum á Snæfellsnesi, drykkjumaður heldur eldri manni föngnum og ráðgerir að koma honum fyrir kattarnef með óvenjulegri aðferð. Það er ýmislegt í gangi í nýjustu bók Arnaldar Indriðasonar; morð, fjárkúgun, hefnd, peningaþvætti, eltingaleikir og meira að segja er reynt að finna dagblaðaþjóf sem stelur Mogganum úr pósthólfi konu nokkurar. Í síðustu bók Arnaldar var Elínborg aðalsöguhetjan, hér er það Sigurður Óli. Erlendur ekki enn kominn af fjöllum eða hvar það nú er sem hann heldur sig, einhvers staðar austur á landi. Þessi saga gerist reyndar á sama tíma og Myrká. Elínborg er þá að fást við sitt mál og samskipti þeirra Sigurðar afar lítil. Mestallan tímann fylgist lesandinn með Sigurði Óla og hvernig hann ber sig að við að leysa málin sem eru nokkur og tengjast mismikið. Við fáum innsýn í fjölskyldulíf hans, það litla sem það er. Foreldrar hans skilin fyrir löngu, afakaplega ólík og hann veltir því fyrir sér hvað í ósköpunum leiddi þau saman nú þegar brokkgengt samband hans sjálfs við kærustuna, Bergþóru, virðist loks á enda runnið.

Það fylgir því alltaf töluverð eftirvænting að fá í hendur nýja bók eftir Arnald Indriðason og ekki dregur það úr eftirvæntingunni að nú eiga lesendur von á að fá að vita hvað kom fyrir Erlend þegar hann hvarf. Í þessari nýjustu bók Arnaldar segir frá ferðum Erlendar Sveinssonar austur á æskuslóðirnar. Hann hefst við í hálfhrundu eyðibýli foreldra sinna og gengur á fjallið Harðskafa, enn heltekin af hvarfi bróður síns mörgum áratugum fyrr. Hvarf bróðurins er ekki eina mannshvarfið sem vekur áhuga Erlendar,

Einu sinni var hér bandarískur her. Hann markaði þáttaskil fyrir íslenskt samfélag, skipti sköpum í íslenskri menningarsögu.

Tímabil hernámsins og seinni heimstyrjaldar hefur verið áberandi í sögum Arnaldar Indriðasonar frá upphafi og er honum greinilega hugleikið. Þetta ætti í sjálfu sér kannski ekki að koma mikið á óvart þegar við skoðum það út frá glæpasagnaforminu. Glæpasagan hefur lengi tengst stríðsbókmenntum að mörgu leyti. Stríðsástand býður upp á margar þær forsendur sem liggja glæpasögunni til grundvallar: ofbeldi, manndráp, morð, feluleiki og njósnir – sem allt myndar ógn við lög og hugmyndafræði samfélagsins og þarf því að afhjúpa og vinna á móti til þess að endurheimta það siðferði sem samfélagið byggist á.

Petsamo eftir Arnald Indriðason

Í Petsamo heldur Arnaldur Indriðason áfram að miðla til lesenda rannsóknum sínum á íslensku samfélagi á hersetuáránum.