Anna S. Björnsdóttir

„þegar þeir eru hættir að sprikla // Fer með þá í ofninn / og tek þá gullslegna út eftir þrjá tíma / tilbúna að verða / að þér / ef þú vilt borða // gullfiska“
(Meðan sól er enn á lofti)

Anna Svanhildur Björnsdóttir fæddist í Reykjavík þann 30. nóvember 1948. Foreldrar hennar voru Hulda M. Kristjánsdóttir og Björn M. Björnsson. Hún ólst upp í vesturbæ Reykjavíkur, næstelst fjögurra systkina, en svo fluttist fjölskyldan inn í Laugarnes. Anna lauk kennaraprófi frá Kennaraskóla Íslands 1969 og fluttist síðan til Hólmavíkur í tvö ár með fyrri eiginmanni sínum, Erni Ásbjarnarsyni og eignuðust þau synina Ásbjörn Sírni Arnarson f. 19.9 1970 og Starkað Örn Arnarson f. 16.8.1972. Anna og Örn skildu og flutti Anna með syni sína á Lýsuhól í Staðarsveit á Snæfellsnesi í einn vetur. Hún vann síðan áfram við kennslustörf í Reykjavík og giftist árið 1979 Einari Aðalsteinssyni frá Akureyri f. 19.6.1941 – d. 9.7.1998. Þeirra börn eru Sólveig Krista Einarsdóttir f. 14.2.1980 og Einar Hlér Einarsson f. 23.6.1982. Anna hefur kennt víðar, m.a. á Húsavík.

Anna var greinahöfundur á Vikunni 1992 – 1995. Hún fór að yrkja ljóð og birta í blöðum og tímaritum árið 1985 og 1988 kom út fyrsta ljóðabók hennar, Örugglega ég. Hún hefur síðan sent frá sér fjölda ljóðabóka. Hún hefur haldið og tekið þátt í ljóðadagskrám hérlendis og erlendis, mest á Norðurlöndum. Mörg ljóða henna hafa verið þýdd á dönsku, sænsku og ensku. Ljóðabókin Mens solen stadig er fremme / Meðan sól er enn á lofti kom út á dönsku og íslensku 2003. Anna hefur sótt rithöfundaþing víða erlendis, fengið nokkrar viðurkenningar og á ljóð í fjölda safnrita.

Anna S. Björnsdóttir hefur verið eigin útgefandi allra bóka sinna nema Mens solen stadig er fremme sem Salka gaf út. Hún hefur verið félagi í Rithöfundasambandi Íslands frá 1991 og er meðlimur í Ritlistarhópi Kópavogs.

Anna býr í Reykjavík.

 

Frá Önnu S. Björnsdóttur

Nú ætla ég að fá mér kaffibolla og líkjörsstaup og fara til baka í tímann til að skoða ástæðurnar fyrir því að ég er ljóðskáld.

Þegar ég var lítil dansaði ég og söng fyrir fólk í veislum. Ég talaði líka mjög mikið og breytti gjarnan orðalagi, tungumáli eða göngulagi, gat aðeins gengið á vissan hátt, t.d. mjög útskeif og eitt sinn snéri pabbi við með mig og urðum við að fara heim aftur úr bæjarferð fyrir jólin, af því að ég vildi ekki breyta göngulaginu.

Önnur minning úr vesturbænum var stríðshræðsla sem greip mig, þegar ég uppgötvaði að kjarnorkuvopn ógnuðu heiminum. Ég grét og grét, fékk martraðir um nætur, en sagði engum frá hugsunum mínum.

Ég var að jafnaði hamingjusöm í æsku, en skynjaði fljótt að ég sagði ekki alltaf réttu orðin.
Unglingsárin komu og ég fann til vanmáttar vegna samskipta kynjanna. Fann alltaf of mikið til, miðað við aðstæður. Rannsakaði alltaf hug minn og gagnrýndi innra með mér. Fannst ég alltaf ein og myndaði ekki þessi nánu vinkonutengsl sem voru algeng á þessum tíma. Sótti mikið kvikmyndahús og ef ég átti ekki peninga, þá seldi ég merki og blöð til að fjármagna bíóferðirnar. Margar myndir sá ég oftar en einu sinni.

Síðan eignaðist ég kærasta og valdi að þóknast honum í einu og öllu í 11 ár og þroskaðist afar hægt og ekki bar á neinu listrænu í fari mínu, nema vaknandi þunglyndi sem ég vissi ekkert um og skildi þess vegna ekki.

Árið 1974 fluttist ég á Snæfellsnes, gerðist skólastjóri við skólann á Lýsuhóli í Staðarsveit, tók litlu drengina mína með mér, gaf þeim kött, fékk mér ráðskonu og við tók þýðingarmikill kafli í lífi mínu. Ekki þó auðveldur.

Ég réði ekkert sérstaklega vel við starfið, en sá sem vildi skólastjórastöðuna var kennari hjá mér og það hjálpaði ekki mikið til. Veturinn á Snæfellsnesi varð aðeins einn, en það dugði. Undir jökli fór ég að yrkja. Ljóðin þaðan hafa aldrei birtst.

Ég fann mig óörugga og að ég yrði álitin skrýtin ef ég færi að skrifa, en það hafði ég reynt að forðast í lengstu lög. Mér fannst alltaf að mamma og pabbi væru óörugg um mig eða hverju ég fyndi upp á til að vera öðruvísi.

Þegar ég var tólf ára gömul lét kennarinn minn mér skiljast, að hún byggist nú ekki við miklum afrekum frá mér og að það færi ef til vill illa fyrir mér í lífinu og á þeirri stundu ákvað ég að verða kennari. Enginn gæti sagt neitt ámælisvert um kennara. Árin liðu og ég eignaðist gáfaðan og mætan mann, tvö stjúpbörn og tvö börn til viðbótar. En ég sinnti ekki mínum innra manni eða tilfinningum. Miklir erfiðleikar komu upp í fjölskyldu minni og það kom að því að ég varð undan að láta og árið 1984 fékk ég alvarlegt taugaáfall. Í kjölfar þess kom angist og kvíði sem ógnaði lífi mínu, en þunglyndið hafði ég borið öll árin, án þess að ræða það við nokkurn mann og datt ekki í hug að leita mér hjálpar.

Hvað er til ráða þegar konuhjarta fær svo miklar hjartsláttartruflanir að konan fellur á hné og getur ekki reist sig upp? Hún grætur og grætur og ég heyri hana segja aftur og aftur „Ég vil bara lifa venjulegu lífi, ég bið ekki um meira.“ Ég brosi þegar ég minnist þessa, því þetta er að vissu leyti rétt, en einnig ekki sannleikanum samkvæmt. Ég vil ekki lifa venjulegu lífi, heldur óvenjulegu. Ég vil fara mína leið, velja hana sjálf, bera ábyrgð á henni sjálf, taka áhættuna af að vera leitandi og finna mig sjálfa, einhvers staðar mitt í auðninni, stríðinu eða friðnum sem fylgir loknu ferðalagi, loknu verki. Allt eftir því, hvar ég er stödd hverju sinni.

Nú ætla ég að tala um ljóðin. Þau gáfu mér allt og líf mitt með þeim er vegurinn heim. En frá þeim vegi eru margar ferðir farnar og ég sæki mér efni hvar sem ég fer. Þetta er hægfara ferli og mesta vinnan er að skoða, bíða og undirbúa, leita ljóðin uppi, spyrja þau hvort þau vilji koma til mín og í draumum fæ ég fjölda svara. Um eilífðina, líf mitt og annarra, alls konar tákn sem segja mér hvert ég eigi að fara, hvert ég sé að fara. Þetta er allt hreyfing, eins og dans, snerting fiðrildavængsins. Þú finnur hana ekki, en samt er hún nálæg, hvíslar þér ástarorðum.

Í ljóðagerðinni er ég nákvæm, eins nákvæm og mér er frekast unnt. Ég skálda ekki, heldur skrifa sannleika minn eins og hann er hverju sinni. Sumt breytist, það sem í eðli sínu er breytanlegt en sumt breytist ekki, heldur göfgast og öðlast meira gildi. Með ljóðunum vil ég hughreysta, sérstaklega konur sem finna til. Segja þeim að láta huggast, að vera hughraustar í lífi sínu. Konur hafa oft sagt mér að það sé alveg eins og þær hafi sjálfar ort tiltekið ljóð eftir mig og þá er ég ánægð. Boðskapurinn er nefnilega sá, að við eigum ljóðin saman. Það að ég skrifa þau er aukaatriði. Þetta eru ljóðin okkar, sársaukinn okkar, ástin okkar og þau eru eilíft sameiningartákn á meðan við dveljum á þessari jörð. Ég á minningu um mömmu með eina af fyrstu bókum mínum í fanginu eftir fyrsta lestur, sæla og ánægða. Þá vissi ég að öllu væri óhætt.
Myndlistarkonur og menn hafa gefið bókum mínum aukið gildi. Ég þarf aldrei að borga fyrir myndirnar, fæ það ekki, en borga fyrir þær með bókum. Hönnun bókanna er þó alfarið mín og veit ég alltaf upp á hár, hvernig ég vil að þær líti út. Ég er nefnilega bókagerðarkona.

Nokkur orð að lokum.

Ég fór hratt yfir sögu. Í bókinni Strendur má finna ljóð sem lýsa sársauka mínum vegna þunglyndisins sem ég bar. Það hef ég lagt að baki, en það tók mörg ár að skilja hvað olli því og kveðja það. Það gerði ég með hjálp góðs sálfræðings, en þó mest sjálf. Að finna til er þó förunautur okkar allra og ég held að sá sem skrifar sé með mikið skap og heitar tilfinningar. Síðan er það okkar að velja, hvað við segjum, að yfirveguðu máli, og hvað við veljum að setja í bók.

Í nýjustu bók minni, Meðan sól er enn á lofti, kveð ég manninn minn og þakka honum samfylgdina. Hann var maðurinn á bak við ljóðskáldið, skrifaði, prentaði og sá um útlit texta. Honum á ég mikið að þakka. Árið 1999 gaf ég út bókina Það verða engir skuggar . Það eru erindi hans um andleg mál og hugrækt.

Einn vegur endar en eilífðin er óendanleg og bíður.
Dularfull eins og konuhjarta.

Anna S. Björnsdóttir, 2002

Um verk Önnu S. Björnsdóttur

Anna S. Björnsdóttir er persónulegt skáld sem notar ljóðlistina til þess að átta sig á ýmsum stærstu hugtökum tilverunnar eins og ástinni og sorginni. Framrás tímans og hlutskipti mannsins, og einkum konunnar, eru henni hugleikin yrkisefni eins og sjá má af sjö útkomnum ljóðabókum hennar. Á þeim er ákveðinn heildarbragur sem helst má rekja til þessara víðtæku yrkisefna og þess einfaldleika sem skáldkonan kýs sér oftast nær til tjáningar.

Fyrsta ljóðabók Önnu kom út árið 1988 og nefnist Örugglega ég. Hún hefur að geyma tuttugu og fjögur ljóð sem einum þræði hverfast um þau grundvallarmálefni lífsins sem nefnd voru hér að ofan. Í fangbrögðum sínum við ástina og tímann sækir skáldkonan myndir úr náttúrunni og spinnur vonir sínar og vonbrigði kringum sólskin, rigningu, tunglsljós, blóm, sendnar strendur, regnboga og fleiri náttúrumyndir sem höfða til fegurðarskyns hennar og tilfinninga. Mörg ljóðanna lýsa samskiptum ástvina í blíðu og stríðu og sum þeirra virðast ort til nálægs elskanda sem þó er ekki endilega gefinn ljóðmælandanum að öllu, enda er hamingjan sjaldnast efasemdalaus í ljóðum Önnu heldur blandin skuggahliðum lífsins með margvíslegum hætti. Sýn hennar á ástina birtist ágætlega í ljóðinu „Brennandi sólskin” úr bókinni Örugglega ég:

Að elska
er að játast þjáningu
sem gefur lífinu
lit og skugga.

Að elska
er að standa aleinn
í brennandi sólskini,
langa að flýja
en geta sig hvergi hrært.

Þessi auðskilda lýsing á tilfinningalegu ástandi er einkennismerki á skáldskap Önnu S. Björnsdóttur. Sjaldan gætir þar flókinna stílbragða eða framandlegra mynda heldur beinast sjónir fyrst og fremst að því sem beinast liggur fyrir en getur þó hulist sjónum margra í hversdagsleikanum. Málefni hjartans eru margbrotin í sínum einfaldleika og ljóðlistin gefur Önnu færi á að ígrunda þau og deila niðurstöðum sínum með lesendum á tæran og persónulegan hátt. Hún notast ekki við bundið mál eða bragfræði heldur er eins og ljóðin spretti beint upp úr hugsunum hennar og hugsanirnar rati sjálfar á pappírinn að ígrunduðu máli. Það er þessi tilfinningalega bersögli sem gerir skáldskap Önnu svo persónulegan, eins þótt tilfinningarnar kunni stundum að vera settar í afstætt samhengi – en það er raunar sjaldan. Mann grunar að skáldinu sé í mun að gefa öðrum af reynslu sinni, ekki reynslu heimsins eða mannsandans heldur einmitt þess eigin reynslu sem verður efniviður í öll ljóðin. Í umfjöllun um skáldskap sinn hefur Anna sagt að bókin Strendur hafi að geyma mörg ljóð sem lýsi hennar eigin þunglyndi. Þar eins og víðar í bókum hennar ávarpar ljóðmælandinn ákveðinn lesanda, og fornöfnin „ég”, „þú” og „við” birtast víða og gefa til kynna að ort sé út frá ákveðnum aðstæðum í lífi skáldkonunnar. Dæmi um þetta er ljóðið „Sorg”:

Þú varst
sorg mín
og gleði.
Glaðst get ég
með mörgum.
Syrgt
aðeins þig.

Þótt kvæðin í Ströndum séu mörg hver í dimmum tónum þá eru vonin og birtan framundan sterkari og veigameiri þættir eins og víðast annars staðar í bókum Önnu. Myrkrið verður aldrei algjört, eins og titillinn á næstu bók hennar gefur til kynna, Blíða myrkur. Það mætti jafnvel segja að hins fagra sé ekki síður leitað í myrkrinu, og að birtan sé á einhvern hátt undir því komin eins og ástin er þjáningunni bundin. Sársaukinn er með öðrum orðum óaðskiljanlegur hluti gleðinnar og þessi tvöfeldni tilfinninganna er Önnu hugleikin svo andstæðurnar mætast jafnvel í sama bliki: „Gamlir húsveggir/gráta/og segja sögur/af hlátri og fólki” (Úr ljóðinu „Minningar” í bókinni Í englakaffi hjá mömmu).

Í bókinni Skilurðu steinhjartað sem út kom árið 1993 heldur Anna áfram á sömu braut og áður. Bókin er þó að því leyti ólík fyrri bókum hennar að þar er að finna, auk ljóða á íslensku, kvæði á dönsku og ensku, og þessum yrkingum á öðrum tungumálum er síðan haldið áfram í bókinni Í englakaffi hjá mömmu. Margt verður vissulega betur sagt á einu tungumáli en öðru, en búast má þó við að ljóð Önnu á erlendum tungum séu fremur tilraunir til þess að ná til breiðari lesendahóps heldur en þau séu til marks um breytta tjáningarþörf. Þetta gefur einnig til kynna að skáldinu er annt um skáldskap sinn og það ætlar honum stærra hlutverk en að verða nákomnum vitnisburður um hugrenningar þess. Skáldkonunni er næg alvara með list sinni til þess að vilja sýna hana fleirum en sinni litlu þjóð. Ljóð hennar hafa líka verið þýdd á þó nokkrar tungur og þessu hefur hún fylgt eftir með þátttöku í ráðstefnum um skáldskap og ljóðadagskrám víðsvegar innan lands og utan. Þar sem Anna starfar annars sem kennari á Norðurlandi verður að telja þessa röggsemi við að fylgja skáldskapnum úr garði til ástríðu fyrir ljóðlistinni og það má raunar glöggt sjá af mörgum ljóða hennar hversu skáldskapurinn leikur stórt hlutverk í lífi hennar. „Meðan lömbin fæðast/fæðast/ljóðin mín“ segir í einu ljóðanna í Ströndum. Vísanir til eigin skáldskapar, til yrkingarathafnarinnar og til skáldskaparins sem nokkurs konar lífgefandi afls koma víða fyrir í ljóðum Önnu og veita þeirri staðhæfingu aukinn byr að hún sé persónulegt skáld, og yrki jafnvel frá hjartanu.

Þótt skáldskaparlegar uppsprettur Önnu séu eins og áður sagði hennar eigin hversdagsleiki og tilfinningalíf, þá má segja að lækir þeirra flæði yfir víðfeðmari lendur, bæði í eiginlegum og óeiginlegum skilningi. Vísanir til staða utanlands eru eflaust ekki færri en þær sem vísa beint til staða á Íslandi. Ljóðmælandinn er allt eins heimavanur við Donöveginn, í Parísarborg og Camogli eins og í Eyjarbókasafninu í Grímsey:

Í Camogli

Geng um götur Camogli.
Svangir kettir fylla strætin
bleik birta himinsins
og ljósin í fjallinu
glampa seiðandi rökkrinu.
Kaffihúsin fyllast
af svöngu fólki
fálátir panta sér kaffi
en franska ljóðskáldið
syngur matseðilinn
brýtur reglurnar um
hlutleysið í Camogli.
Þar sem himinninn er bleikur
eins og himinn okkar
þar sem allir þora að vera glaðir
eins og franskt ljóðskáld
á kaffihúsi í Camogli.

Ljóðmælandi þessa kvæðis úr bókinni Skilurðu steinhjartað er augljóslega sá sami og hefur lítið breyst þegar hann tekur til við, í bókinni Meðan sól er enn á lofti, að lýsa því sem fyrir ber í Grímsey. Auga skáldsins er alltaf vakandi fyrir fínlegum blæbrigðum umhverfisins sama hvar í heiminum það er:

Grímsey

Fíngerðar snjóflygsur dansa
fyrir utan gluggann
í rökkrinu
og þrjár konur ræða saman
við englaglugga í Sólbrekku

Heitt kaffi á könnunni
tónlist úr skólastofunni
ljóðalestur á Eyjarbókasafni
hver kona heldur á barni í fanginu

Eyjan er öll veröldin
og snjókorn
halda áfram að dansa
á rökkurhimni

Þetta kemur heim og saman við það sem fyrr hefur verið sagt, að umhverfið mótist ekki síður af sýn skáldsins en hinum raunverulegu aðstæðum. Staðurinn sem oftast er lýst í ljóðum Önnu er ekki endilega bundinn í ákveðið fjall eða strönd, heldur býr hann í „dularfullu konuhjarta” [svo notuð séu orð úr hennar eigin umfjöllun] og það er af landslagi þess sem annað landslag tekur svip sinn, hvort sem það er á Íslandi eða annars staðar. Það hjarta sem er lýst er að vísu ekki alltaf dularfullt eða órætt, og stundum er tilfinning þess alkunn, eins og í ljóðinu „Sorg” sem tilfært er að ofan. Einfaldleikinn í sumum ljóðanna ber vitni um litlar togstreitur en því tærara sakleysi, og ef þetta er ekki raunin, þá að minnsta kosti þrá eftir tæru sakleysi og fölskvalausri ást. Þetta er greinilegast í fyrstu ljóðunum, eins og til dæmis ljóðunum „Vaka”, „Nærvera”, „Handan regnbogans”, „Sakleysi” og fleirum í bókinni Örugglega ég.

Vaka

Við skulum vaka í sumarnóttinni.
Og þegar haustar og vetrar
skulum við samt vaka
í sumarnóttinni.
Þegar við deyjum
skulum við deyja inn í sumarnóttina.

Öðrum stundum leiðir hreinskilni skáldsins það að dýpri og flóknari niðurstöðum. Ljóð Önnu verða þó sjaldnast svo óræð að inntakið skili sér ekki til lesandans með nokkuð beinum hætti.

Þess var getið hér í upphafi að einfaldleiki tungumáls og víðfeðm yrkisefni mörkuðu skáldskap Önnu S. Björnsdóttur ákveðinn heildarbrag. Sterk samfella er í höfundarverki Önnu og þar gætir ekki mjög ákveðinna sviptinga frá einni bók til annarrar. Í nýjustu bókunum ber sömu höfuðspurningarnar um tímann og ástina allt eins hátt og fyrr, og í sumum tilvikum er úrvinnsla ljóðanna alls ekki ólík þeirri sem birtist í kvæðum fyrstu bókanna:

Sýn

Í draumum mínum
sé ég fagurt landslag
hljóðlátt regn
og roðagyllta sól
á miðjum himni

Þannig er einnig líf mitt
þú mátt vera regnið

Einfaldar vísanir til náttúrunnar og samsvaranir hennar við tilfinningar mannsins hafa verið leiðarstef í ljóðum Önnu allt frá upphafi, og þetta ljóð úr nýjustu bók hennar, Meðan sól er enn á lofti, sýnir að svo er enn. Annað ljóð úr einni af síðari bókum Önnu ber þess einnig merki að einfaldleikinn sé enn í hávegum hafður:

Hvörf

Þegar þú veist
að eitthvað hefur breyst
þegar allt er slegið
mjúkri birtu
og hjarta þitt
tekur aukaslög af fögnuði

Þá hefur eitthvað gerst
og veröldin verður aldrei söm
eftir það

(Úr bókinni Hægur söngur í dalnum)

Tilgreind ljóð eru dæmigerð fyrir skáldskap Önnu þegar á heildina er litið en gefa þó ekki rétta mynd af þeim breytingum sem – þrátt fyrir samfellu í höfundarverki – verða á ljóðagerð hennar þegar á líður. Hér er að vísu ekki um neina byltingu að ræða og felst munurinn einkum í breyttum áherslum í meðförum myndmáls og stílbragða. Þótt kjarni skáldskaparins sé enn hinn sami sést glöggt að ytri einkenni ljóðanna hverfast þegar á líður frá beinni tjáningu á lífsskoðunum og heimspeki skáldkonunnar til hlutbundnari og myndrænni tjáningar. Beinar umhverfislýsingar og stemningar skipa æ sterkari sess í ljóðunum eftir því sem bókum Önnu fjölgar en tilfinningalegum staðhæfingum í ætt til orðskviða fækkar. Bókin Hægur söngur í dalnum kom út árið 1998 og sýnir glöggt þessa umbreytingu frá algjörri huglægni og lífsspeki fyrstu bókarinnar til hlutlægari lýsinga, lengri ljóða og aukinna vísanna til hluta og mynda utan þess ljóðheims sem hjartað smíðar eitt. Samskipti kynjana hafa nú fengið á sig nokkurs konar sögulegan og algildan blæ með vísunum til Adams og Evu í Paradís (eða hugsanlega eftir að þau voru rekin þaðan burt):

Ef ég lofa
að tína á mig spjarirnar
og freista þín ekki framar
viltu þá segja mér
ljóðin sem koma í hug þinn

(Úr ljóðinu „Fyrsta spurning Evu til Adams” í bókinni Hægur söngur í dalnum)

Auk slíkra dæma er algengt að tilfinningum og svipmyndum sé lýst í lengra og myndríkara máli en oft áður, eins og í ljóðunum „Janúardagur”, „Í skóginum”, „Töfragarðurinn” og fleiri kvæðum í Hægum söng í dalnum:

Janúardagur

Það er á degi sem þessum
að skilningurinn springur út eins og brum að vori
naktir fætur dansa gleðidans í takt við ljóðið
sem steig til himins í orðlausu kjökri
og andartökin verða að árum í hjarta sem slær
hjarta sem elskar

Það er á degi sem þessum
að skuggarnir hverfa úr draumunum
þú tekur ekki eftir því
að allt í einu er einskis að sakna
og þú vilt aðeins þessa stund
þessi skil í líf þitt
sem er alltaf að breytast úr einu tré í annað
úr einni árstíð í aðra og alls staðar vaxa þar
laufgaðar greinar

Það er á degi sem þessum
að ég elska þig eins og stjörnurnar tindrandi blíðar
og allt er umvafið fölhvítu ljósi og þér

Ljóðmælandinn í bókum Önnu S. Björnsdóttur stendur oftast nær í nánum tengslum við umhverfi sitt og má vel skynja að það veki upp í honum andagiftina eða skerpi skáldaugað og kalli fram myndir sem búa innra með skáldkonunni sjálfri. Meðan sól er enn á lofti, býr að mörgum ljóðum af þessu toga og sýnir í raun glöggt að kjarninn í skáldskap hennar hefur lítið breyst frá því að Örugglega ég kom út árið 1988, hvað sem áherslum í myndmáli og úrvinnslu líður. Í skáldskapnum er hún hjarta sínu trú og velur að lýsa tilfinningum sínum af hreinskilni fremur en að leggja út í mikla tilraunamennsku með form og yrkisefni. Anna hefur sjálf sagt að nýjasta bók sín sé kveðja til látins eiginmanns hennar. Persónuleg sýn skáldsins og uppgjör þess við margslungnar tilfinningar eru ráðandi við gerð ljóðanna. Eitt af síðustu kvæðunum í Meðan sól er enn á lofti bregður skýrri mynd á það sem segja má að einkenni skáldskap Önnu S. Björnsdóttur, sterkar tilfinningar sem miðlað er í skírskotunum til umhverfis og hugleiðingum um tímann og ástina:

Í þeynum

Ef ég sakna einskis framar
lífið stillist í kyrra mynd
og sársaukinn yfirgefur mig
eins og síðsumarmyrkur að morgni

Ef ég verð hljóður óheyranlegur tónn
á flugi á Þingvöllum
tíni börk af látnum birkirunnum í rjóðrinu
og strýk litlum börnum um kollinn
ósýnilegum höndum

Ef ég blessa yfir akra, fjöll og fólk að leik
þegar ég ek framhjá
í bíl sem er eins og augu þín á litinn

Er ég þá dáin eða bara svona glöð
yfir því að vera lifandi
og elska þig

© Sölvi Björn Sigurðarson, 2002

Verðlaun og viðurkenningar

2010 - Steinninn, heiðursviðurkenning Ritlistarhóps Kópavogs

1999 - Máttarstólpinn, menningarverðlaun Grafarvogs (ásamt fleiri skáldum)

1995 - Grand Prix de lan Francofonie

1994 - Grand Prix de la Francofonie hjá A.P.P.E.L. í Frakklandi

1993 - Ljóðaverðlaun Jean Monnet

Um einstök verk 

Örugglega ég

Þórður Helgason: „Örugglega ég.“
Ljóðormur 8. tbl. 1988, s. 55 - 57

Year:
1991
Publisher:
Category:
Year:
2005
Publisher:
Category:
Year:
1991
Publisher:
Category:
Year:
2010
Publisher:
Category:
Year:
1998
Publisher:
Category:
Year:
1996
Publisher:
Category:
Year:
2001
Publisher:
Category:
Year:
1988
Publisher:
Category:
Year:
1993
Publisher:
Category:
Year:
1990
Publisher:
Category:
Year:
2004
Publisher:
Category:
Year:
2003
Publisher:
Year:
2009
Publisher:
Year:
2008
Publisher:
Year:
2006
Publisher:
Year:
2007
Publisher:
Ár:
2005
Útgefandi:
Flokkur:
Ár:
1991
Útgefandi:
Flokkur:
Ár:
1991
Útgefandi:
Flokkur:
Ár:
2006
Útgefandi:
Ár:
2007
Útgefandi:
Ár:
2010
Útgefandi:
Flokkur:
Ár:
1998
Útgefandi:
Flokkur:
Ár:
1996
Útgefandi:
Flokkur: